Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Er ekki rétt að fara yfir lausnirnar Egill?

Ég horfði á áhugaverðan þátt Egils Helgasonar en þar bar margt á góma sem að Frjálslyndi flokkurinn hefur sett á oddinn s.s. einkavinavæðinguna, afnám verðtryggingar og hrikalegt kvótakerfi í sjávarútvegi.

Það sem skorti á var að fjallað væri um eru þær lausnir sem boðaðar hafa verið til að skrúfa ofan af mestu vitleysuna í sjávarútvegi.  Frjálslyndi flokkurinn hefur um árabil flutt þingmál um aðskilnað veiða og vinnslu. Ef að málið hefði fengið brautargengi þá hefði greinin ekki lent í skuldafeninu og sömuleiðis tryggir þessi leið meira jafnræði og kemur til með að koma sjávarútveginum út úr mestu ógöngunum.

Frjálslyndi flokkurinn hefur sömuleiðis boðað að auka strax frelsi minni báta til sjósóknar og koma flotanum í sóknarstýringu og losna þar með við brottkast.

Mér finnst vera orðið löngu tímabært að farið verði rækilega yfir tillögurnar en þjóðin hefur ekki efni á viðvarandi sóun og óréttlæti sem viðgengst í sjávarútvegi.

 


Einkamál sem lendir á þjóðinni

Það er umhugsunarvert að lesa yfirlýsingu stjórnarformanns Stíms ehf. þar sem að hann kvartar sáran yfir rangri umfjöllun fjölmiðla og lætur í veðri vaka að um séu að ræða einhver einkamál sem ekki eigi að fá opinbera umfjöllun.

Betra ef satt væri, en því miður þá lendir þessi tugmilljarða lántaka sem samsvarar tvöföldum kostnði við bæði Vaðlaheiðagöng og tvöföldun Suðurlandsvegar á þjóðinni.  Það er ekki nóg með að þjóðin þurfi að punga út næstu áratugina fyrir þessa greifa þá hafa þeir einnig svipt Íslendinga ærunni.

Væri þessum greifum ekki nær að biðjast afsökunar?


mbl.is Yfirlýsing frá Stími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver rannsakar hvern?

Ég rakst á þessa merku mynd á heimasíðu forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar. Hún er tekin í júlí 2007 þegar Sturla var viðstaddur setningu Manarþings á bresku eyjunni Mön. Í miðjunni er enginn annar en útrásarvíkingurinn Sigurður Einarsson, bankastjóri Gamla Kaupþings sem varð mjög stórtækur í bankarekstri á eyjunni, eflaust með góðum stuðningi íslenskra stjórnvalda.

Og maður hlýtur að spyrja: Hver rannsakar hvern?

Sturla og Sigurður

Dauðakippir?

Nú berast einkennilegar fréttir af því að skuldsett félag sé að kaupa Tryggingamiðstöðina á margföldu yfirverði út úr félagi sem er í greiðslustöðvun, að ríkisbanki sjái um milligöngu þessara viðskipta og ætli jafnvel að fella niður einhverjar veðskuldir sem hvíli á Tryggingamiðstöðinni. Þetta mál er allt svo ótrúlegt að fyrsta hugsun manns er að Ísland sé orðið land fáráðlinga eða að þetta séu dauðakippir skuldsettra fyrirtækja sem eru að reyna að kaupa sér gálgafrest. 

Ingibjörg Sólrún elur á fordómum

Í stað þess að Ingibjörg Sólrún bæði þjóðina afsökunar á að skipa vinkonu sína sendiherra á Íslandi í miðri kreppu leggst hún í ömurlega vörn fyrir vondan málstað með því að segja að of margt eldra fólk sé í sendiherrastöðum. Ekki veit ég hvort þetta er gagnrýni undir rós á Sigríði Önnu Þórðardóttur sem hún skipaði þó sjálf í embætti. Þessi málflutningur eins æðsta ráðamanns þjóðarinnar elur á fordómum gegn reyndum starfskröftum eldra starfsfólks á vinnumarkaði.

Þessi málflutningur Ingibjargar veldur mér miklum vonbrigðum.


mbl.is Fetar í fótspor Davíðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfið fæðing

Almenningur hlýtur að velta því fyrir sér hvers vegna það hafi tekið þennan óratíma fyrir ríkissstjórnina að samþykkja að flutt yrði frumvarp að skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka aðdragandann að hruni bankanna. Nefndin á að skila svörum eftir ár.

Almenningur hlýtur sömuleiðis að vera furðu lostinn yfir því hvers vegna engin lögreglurannsókn hafi farið fram þó svo að staðfest hafi verið að stofnuð hafi verið félög sem fengju tug milljarða lán og leppuðu kaup á hlutabréfum sem voru í eigu eigenda bankanna.

Eina fólkið sem hefur verið hótað málsókn eru blaðamennirnir G. Pétur Matthíasson og Agnes Bragadóttir fyrir það fægja ekki glansmynd Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Auðmennirnir halda áfram að storka almenningi með nýjum kauptilboðum í banka og tryggingafélög á sama tíma og það berst út fyrir þagnarmúra skilanefndanna að sömu aðilar hafi misfarið með peningamarkaðsbréf og afskrifað skuldir sínar skömmu fyrir hrunið.

 


mbl.is Rannsóknarfrumvarpi dreift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eiga Íslendingar að vantreysta ríkisstjórninni?

Ríkisstjórn Geirs Haarde segist ætla að rannsaka bankahrunið og velta við hverjum steini. Íslendingar ættu alls ekki að treysta því að það verði gert. Hvers vegna segi ég það? Jú, í ljósi stærri fjármálahneyksla sem upp hafa komið síðustu árin, s.s. olíusamráðssvikanna sem teygðu sig langt inn í Sjálfstæðisflokkinn og sömuleiðis úttektarinnar á einkavæðingu bankanna þar sem kjölfestufjárfestar gufuðu upp og rannsóknin svokallaða var einungis málamyndagjörningur, eru þær rannsóknir sem hafa verið settar af stað á ábyrgð stjórnvalda til að rannsaka sjálf sig tómt yfirklór.

Það er fróðlegt fyrir þá sem efast um framangreind orð að lesa grein sem ég skrifaði fyrir tæpum tveimur árum.


Plan ríkisstjórnarinnar er að þrauka fram að jólum

Í dag heyrði ég annað veifið óminn af málflutningi stjórnarliða í umræðu um vantrauststillögu á Alþingi þar sem stefið var að hneykslast á því að minni hluti þingmanna treysti ríkisstjórninni ekki til að sitja áfram. Það gerðu stjórnarliðar þótt þeir ættu að vita upp á sig skömmina. Hin meginröksemdin var að ekki væri tímabært að fara í kosningabaráttu í jólamánuðinum og síðan var klisjan um björgunarleiðangurinn endurtekin.

Það sem stakk mig var að stjórnin notaði ekki tækifærið til að birta þjóðinni einhverja áætlun af yfirvegun í stað þess að svara fullum hálsi með því að vitna í hinn ágæta þátt Dagvaktina.

Mitt mat er að eina áætlun ríkisstjórnarinnar sé að sitja sem fastast fram að jólum og vonast til þess að fólk nái sambandi við gullfiskaminni sitt. Ekki er ég viss um að Ingibjörgu og Geir verði kápan úr því klæðinu þar sem verðtryggðir gíróseðlar muni berast strax eftir áramótin og jafnvel uppsagnarbréf. Það mætti segja mér að ef svo fer fram sem horfir muni landsfundur Sjálfstæðisflokksins breytast í allsherjarmótmælafund, fyrir utan og allt um kring - og jafnvel inni á fundinum.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer Ólafur Ragnar sömu leið og Pútín?

Einn helsti fræðimaður Háskóla Íslands, hvort sem er á sviði sagnfræði, stjórnmála, hagfræði eða stjórnar fiskveiða, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur gefið þjóðinni þá von að von sé á því að vildarvinur hans í Seðlabankanum, Davíð Oddsson, komi af fullum þunga aftur í pólitíkina. Einhvern veginn finnst mér þó líklegra að bóndinn á Bessastöðum stígi fram og feti þannig í fótspor Pútíns sem er afar vinsæll leiðtogi í heimalandi sínu. Það er aldrei að vita hvað gerist en þessir gömlu stjórnmálamenn finna eflaust hjá sér þörf fyrir að stíga fram og lagfæra ýmis óhæfuverk sem þeir hafa stutt, s.s. vonlaust kvótakerfi í sjávarútvegi og auðmannadekur.

Hver veit nema Sturla Jónsson fái liðsstyrk?


Ingibjörg Sólrún finnur til samkenndar með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki

Ég er búinn að heyra helstu kaflana úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar á flokksþingi Samfylkingarinnar í dag. Boðskapurinn lýsir því að Samfylkingin sé ekki í nokkrum tengslum við þjóðina. Leiðtoginn telur sig í einhverjum björgunarleiðangri og segir að mikilvægasta verkefnið í íslenskri pólitík sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er erfitt að sjá að aðild að Evrópusambandinu sem getur alls ekki orðið að veruleika fyrr en eftir nokkur ár hvort eð er sé brýnasta verkefni stjórnvalda í dag. Leiðtogi jafnaðarmanna leggur svo mikla áherslu á þetta verkefni að hún finnur til samkenndar með bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki vegna þess að formenn flokkanna hafi gefið í skyn að stefna skuli að inngöngu í Evrópusambandið.

Í sömu ræðu tekur utanríkisráðherra upp siði Davíðs Oddssonar og neitar allri ábyrgð Samfylkingarinnar og vísar henni eiginlega alfarið á Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk. Það að formaður Samfylkingarinnar ætli að stunda slökkvistarf með brennuvörgunum er mjög óábyrgt, og brýnasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum er að auka trúverðugleika stjórnvalda. Eina leiðin til þess er kosningar og mikil umskipti í stjórn landsins, og sömuleiðis er annað helsta verkefnið að tryggja hag heimilanna með því að afnema verðtryggingu og tryggja að hjól atvinnulífsins haldi áfram.

Fréttir herma að fulltrúar á þingi Samfylkingarinnar hafi varla haldið vatni af hrifningu yfir boðskap Ingibjargar þrátt fyrir að mörg þúsund Íslendingar hafi safnast saman á Austurvelli í dag til að mótmæla téðum boðskap.


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband