Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Rakarinn í Seðlabankanum

Samfylkingin rak þann billega áróður að allt myndi lagast í efnahagsmálum þjóðarinnar ef bara Davíð yrði rekinn og sótt yrði um aðild að ESB.

Það breyttist hins vegar ekkert við það að Samfylkingin fékk sinn mann í bankann og að Össur skytist með hraði með umsóknina. Það sem helst var sett út á Davíð var að hann væri í pólitík og þess vegna ekki trúverðugur og sömuleiðis hávaxtastefna hans. Már hélt áfram með hina háu vexti Davíðs og kenndi lengi vel AGS um og nú er hann kominn með fram á varirnar flokkspólitískar yfirlýsingar sem eru svo afgerandi að Davíð Oddsson hætti sér aldrei út í þvílíkar sendingar. Ég minnist þess a.m.k. ekki að fyrrverandi seðlabankastjóri hafi með yfirlýsingum reynt að hafa bein áhrif á kosningaúrslit.

Már Guðmundsson gerir því skóna að það sem valdi gífurlegri óvissu sé óleyst Icesave-deila, að hana þurfi að leysa í sátt við umheiminn og þess vegna sé efnahagslífið í óvissu. Ég er sannfærður um að ef við förum í þá vegferð að ætla að halda áfram að rétta fjárglæframönnunum sem hafa staðið í blekkingum og svikum, ekki bara gagnvart íslenskum almenningi heldur fólki víða um heim, öll fyrirtæki og gefa þeim sérstaka afslætti og fyrirgreiðslu eftir að allt hefur hrunið yfir hausinn á þjóðinni sé það miklu fremur fallið til þess að valda okkur fáheyrðum álitshnekki. Það öðru fremur gerir okkur ómarktæk.

Öll upplýsingagjöf frá Seðlabankanum er í skötulíki. Bankinn greinir ekki lengur skilmerkilega frá því hverjar erlendar skuldir þjóðarinnar eru. Það ætti að vera lítið mál fyrir bankann að taka saman skuldir opinberra fyrirtækja, sem sagt ríkis og sveitarfélaga, sem eru lykilupplýsingar til þess að meta hvort þjóðfélagið ræður við núverandi skuldabagga. Samkvæmt efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS er mjög langt í land með að til verði erlendur gjaldeyrir í landinu til að standa undir vaxtagreiðslum af erlendum lánum.

Seðlabankastjóri virðist leggja miklu meiri áherslu á rakstur og snyrtingu tveggja þjóðkunnra herramanna sem hafa orðið fyrir barðinu á hávaxtastefnu Davíðs og Más en að gefa þjóðinni sannar upplýsingar um stöðu efnahagsmála.


Er hér komin ástæðan fyrir töfinni á rannsóknarskýrslunni?

Er ekki orðið tímabært að óska Jóhönnu Sigurðardóttur og ekki síður Steingrími J. Sigfússyni til hamingju með opið og gagnsætt ferli, opna og gagnsæja stjórnsýslu þar sem byggt er upp réttlátara Ísland? Steingrímur hefur greinilega verðlaunað félaga sinn úr fjórflokknum, Ólaf Ólafsson, sem þurfti að taka að sér á sínum tíma að eignast hlut í Búnaðarbankanum og gat ekki treyst bankanum sínum fyrir fjármununum heldur þurfti að flytja þá alla til Tortóla í öruggt skjól.

Svo virðist sem Steingrímur hafi komist að því í kjölfar húsleitar í fyrravor að allar grunsemdir um að Ólafur hafi farið óvarlega með fé séu á rökum reistar og þess vegna þurfi Steingrímur að hampa honum enn frekar og tryggja aukið neyslufé.

Eitt er víst, Tryggvi Gunnarsson hefur grátið yfir einhverju allt öðru en því að Ólafur Ólafsson hafi komist í álnir fyrir pólitísk tengsl. Þess vegna hefur hann þurft að gera frekari leit að orsökum hrunsins.

Ég velti fyrir mér af hverju Sigríður Benediktsdóttir hafi ekki verið á furðulega fundinum í Alþingishúsinu. Kannski var hún hágrátandi heima hjá sér eða bara ósammála þessum drætti á útgáfu skýrslunnar.


Sævar Gunnarsson í þoku og kjaftæði

Sævar tjáði sig um fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum í Speglinum í kvöld. Hann sagði að stefna sín væri skýr en samt var viðtalið lítið annað en þokukennt kjaftæði með og á móti kvótakerfinu. Hann hefur leikið þann leik að vera með kápuna á báðum öxlum alltof lengi og verið bæði með og á móti kvótakerfinu jafnvel í sama viðtalinu.

Hann fullyrti að hann væri meðmæltur aflamarkskerfi og að alls ekki mætti veiða umfram ráðgjöf og sérstaklega ekki á skötusel sem væri á válista. Ekki veit ég hvar sá listi er nema ef vera skyldi í kolli Sævars sjálfs.

Fyrir 2-3 árum fullyrti sami maður að það væri eitthvað að fiskveiðistjórn Hafró en núna þegar raunverulega á að breyta því þannig að sjómenn fyrir norðan og vestan losni úr því að vera leiguliðar sægreifa á Suðurlandi rís formaður Sjómannasambands Íslands upp gegn öllum breytingum.

Sævar Gunnarsson ætti að vita betur en margur annar um delluna og árangursleysið í ráðgjöfinni sem stýrir veiðum þar sem hann sat í nefnd sjávarútvegsráðherra sem hafði það verkefni að meta árangur og það hvort breyta þyrfti svokallaðri aflareglu til þess að það næðist árangur við fiskveiðistjórnina. Málið var að um aldamótin höfðu stofnarnir skyndilega mælst minni en Hafró spáði fyrir um og það þrátt fyrir blóðugan niðurskurð í aflaheimildum á 10. áratugnum.

Nefndin sem Sævar sat í mat það svo að minnka þyrfti veiðar enn meira til að geta veitt meira seinna! Hámarki náði þessi geðveiki þegar Ragnar Árnason og félagar í Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mæltu með því að taka alveg fyrir þorskveiðar um mitt sumar 2007 til þess að fá miklum mun meira seinna upp úr sjónum. Forsendan var sú að þjóðarbúið stæði svo afskaplega vel!

Það er kominn tími til að Sævar og aðrir kvótavinir verði látnir rökstyðja það sem er svona ofboðslega gott við aflamarkskerfið. Staðreyndirnar tala sínu máli grímulaust og þær segja að kerfið hafi brugðist. Þorskaflinn núna er bara þriðjungur af því sem hann var fyrir daga kerfisins. Hvers konar árangur er það?


Þegar þingmenn greiða sér arð af annarra manna peningum

Það kom á óvart að Stöð 2 skyldi ekki henda á lofti frétt um útgerðarfyrirtæki fyrsta þingmanns míns í Norðvesturkjördæmi þar sem honum tókst það afrek að greiða sér 3200% arð út úr sjávarútvegsfyrirtæki sínu þrátt fyrir að tapið hefði verið á sjötta hundrað milljónir árið 2008. Stöð 2 með Kristján Má Unnarsson í broddi fylkingar hefur nefnilega verið iðin við að fjalla um afrek og aflabrögð ofurskuldsettra kúlulánaþega í sjávarútvegi og baráttu þeirra fyrir réttlæti.

Í DV kom það fram að þingmaðurinn hefði greitt sér arð þrátt fyrir að eigið fé fyrirtækisins væri orðið neikvætt, en það þýðir að þingmaðurinn hefur greitt sér arð af annarra manna peningum. Ég efast stórlega um að þetta sé í samræmi við 99. gr. hlutafjárlaganna nr. 2/1995. Menn verða þó að líta til þessa lagabrots með skilningi og umburðarlyndi þar sem þetta þykir ábyggilega minniháttar yfirsjón í þingflokki sjálfstæðismanna ...

99. gr. Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. …1)
Í móðurfélagi er óheimilt að úthluta það miklum arði að andstætt sé góðum rekstrarvenjum með tilliti til fjárhagsstöðu samstæðunnar, enda þótt arðsúthlutun sé annars heimil.


Vg styrkir auðvaldið

Það er mjög áhugaverð grein eftir Þórarin Hjartarson í Morgunblaði dagsins um svikasögu Vg. Stálsmiðurinn frá Akureyri rekur í greininni hvernig Vg hefur gagnast erlendum lánardrottnum í hörðum innheimtuaðgerðum gagnvart íslenskri alþýðu og tvinnar það saman við hvernig Obama hefur brugðist friðarsinnum með auknum hernaði í Asíu.

Ég ætla að leyfa mér að grípa niður í grein Þórarins:

Úr ráðherrastóli breytti Steingrímur J. málflutningi sínum undurhratt, gagnvart AGS, í niðurskurðarmálum, Icesave, ESB umsókn m.m. Með mælsku sinni náði hann að leggja stefnu íslenska auðvaldsins og AGS fram sem stefnu félagslegra gilda.

og seinna í greininni segir:

Voldug ESB-ríki þröngva ólögmætum skuldbindingum upp á Ísland, beita fyrir sig AGS, en stjórnvöld mæta árásunum ýmist á hnjánum eða liggjandi. Við bjuggumst ekki við miklum landvörnum af hálfu ESB-óðrar Samfylkingar, en aumingjaskapur VG í málinu olli mörgum vonbrigðum. En ég bendi á að VG sveigir sig einnig hér að ríkjandi efnahagsstefnu íslensks auðvalds. Með ríkisstjórnum til hægri og vinstri hefur sú stefna allt frá 8. áratugnum verið mjög eindregin aðlögun að hnattrænu markaðs- og fjármálakerfi. Þess vegna eru íslenskt hagkerfi og stjórnmál mjög berskjölduð gagnvart þrýstingi frá „alþjóðakerfinu“, og ESB-hluta þess sérstaklega.

Það er greinilegt að Icesave-mál Steingríms geta orðið Vg mjög dýrkeypt, þ.e. ef flokkurinn snýr ekki strax algerlega við blaðinu. Það gæti eflaust snúist fyrir mörgum liðsmanni Vg að skipta um gír og berjast skyndilega fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Ég er þó viss um að Steingrím munar ekki um að taka enn einn viðsnúninginn enda hefur hann tekið þá marga á síðustu mánuðum. 


Dindill LÍÚ var á fréttavakt Stöðvar 2 í kvöld

Stöð 2 hefur að undanförnu fjallað með furðulegum hætti um svokallað skötuselsfrumvarp sem felur í sér smávægilegar breytingar á umdeildri fiskveiðilöggjöf.  

Í stað þess að Stöð 2 hafi sett málið í samhengi við hvort breytingin kæmi á móts við jafnræði þegnanna og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um brot á á atvinnuréttindum sjómanna, þá hafa lagabreytingarnar verið matreiddar eftir uppskriftum úr kokkabók LÍÚ.

Í kvöld var kynntur til sögunnar aflakóngur smábáta, Arnar Þór Ragnarsson, sem tók það sérstaklega fram einhverra hluta vegna að hann hefði ekkert á móti Pólverjum. Boðskapur Arnars var í stuttu máli sá að örlitlar breytingar á stjórn fiskveiða í átt til álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fæli í sér gríðarlegt óréttlæti og óhagkvæmni.

Fréttamaður Stöðvar 2 sá ekki ástæðu til þess að draga þá staðreynd fram að útgerðarfélagið Nóna sem gerir út aflatrillu aflakóngsins hefur að sögn Fréttablaðsins ekki verið rekið með hagkvæmari hætti en svo að félagið stóð í sérstökum viðræðum við banka vegna ofurskuldsetningar tveggja trilla félagsins. Skuldirnar námu í lok árs 2008 5,3 milljörðum króna en félagið tapaði á því ári 2,5 milljörðum. 

Félagið Skinney-Þinganes á 98% hlut í útgerðarfélaginu Nónu en það er vel hægt að rökstyðja að það félag hafi í gegnum tíðina notið pólitískra tengsla við útfærslu reglna við stjórn fiskveiða. 

Stöð 2 sá enn og aftur enga ástæðu til þess að taka það fram að breytingunum er ætlað að mæta breyttu veiðimynstri og auka veiðiheimildir hér fyrir norðan og vestan.

Stöð 2 fjallaði heldur ekki um að það er ekki verið að taka veiðiheimildir af neinum heldur auka þær og aukningin mun skila þjóðarbúinu tekjuaukningu í erlendum gjaldeyri upp á vel á annan milljarð króna árlega og beinar tekjur ríkisins aukast um 240 milljónir króna.

Mér finnst þessi fréttaflutningur með ólíkindum og ekki síður að enginn fjölmiðill skuli fjalla með gagnrýnum hætti um forsendur kvótakerfisins sem átti að skila auknum afla. Eftir áralanga stjórnun með aflakvótum er niðurstaðan endalausar deilur, brottkast og síminnkandi afli. Þorskaflinn nú er rétt um þriðjungurinn af því sem hann var fyrir daga kvótakerfisins og meira að segja einungis helmingurinn af því sem hann var á árabilinu 1918 til 1950.


Utanþingsstjórn og Gylfi Magnússon

Ýmsir málsmetandi menn hafa talið vænlegt að skipa utanþingsstjórn til að losna úr viðjum  samsúrsaðra hagsmunatengsla fjórflokksins, hagsmunasamtaka og fjárglæframannanna.

Ef litið er til starfa þess ráðherra sem kemur utan þings og stjórnsýslu og bundnar voru miklar vonir við, þ.e. Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra, sem fór mikinn á Austurvelli í fyrra fara að renna á mann tvær grímur um hvort vert sé að fjölga utanþingsráðherrum.

Gylfi hefur ítrekað gefið þjóðinni mjög villandi upplýsingar um skuldastöðu þjóðarinnar, það er ekki nóg með að kúlulánið hafi haldið áfram að stjórna bönkunum heldur hefur hann ráðið kúlulánaprinsessu til að taka að sér forstjórastarf í Bankasýslu ríkisins. Gylfi toppaði með því að segja nánast við þjóðkjörinn þingmann að honum kæmist varla við hver skuldastaða útgerðarinnar væri og hvernig unnið væri með skuldir hennar í bönkunum. 

Það er átakanlegt að Gylfi skuli hafa tekið afstöðu með sérhagsmunahóp sem stendur í því að hóta þjóðinni ef hann fær ekki að halda áfram með kerfi sem brýtur í bága við mannréttindi.

Kannski er maður að dæma Gylfa og mögulega utanþingsstjórn of hart, kannski situr hann bara í ríkisstjórn fyrir náð og miskunn Icesave-ráðherrans.


Varaformaður ESB samninganefndarinnar ósátt við ákvörðun Ólafs Ragnars

Björg Thorarensen, virðist gjarnan grípa til þess að segja að ákvarðanir séu ekki nægjanlega skýrar þegar hún er eitthvað ósátt við þær. Það skein í gegnum fréttir frá málþingi um málskotsrétt forseta Íslands að Björg er mjög ósátt við þá ákvörðun forsetans að vísa  Icesave-máli Samfylkingarinnar til þjóðarinnar. Á málþinginu  sagði hún 26 grein stjórnarskrárinnar vera óskýra, ófullkomna og illa útfærða.

Þetta er nákvæmlega sami málflutningur og Björg greip til þegar hún var ósátt við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, á dómi sem eiginmaður Bjargar Thorarensen felldi í máli þeirra Armar Snævars Sveinssonar og Erlings Sveins Haraldsonar þegar þeir voru dæmdir fyrir brot á illræmdum kvótalögum.

Íslenska ríkið hefur ekki enn séð sóma sinn í því að fara að áliti Mannréttindanefndar SÞ og hef ég ekki heyrt betur en að Björg Thorarensen sé nokkuð sátt við að mannréttindabrot stjórnvalda sé haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.


Endurreisnar-áætlunin í uppnámi

EF ÞAÐ er eitthvað sem landsmenn ættu að hafa lært af hruninu er það það að treysta varlega yfirlýsingum fjórflokksins um stöðu mála. Rétt fyrir hrun þegar öll sund voru að lokast fóru þáverandi leiðtogar stjórnarflokkanna um heiminn með þann boðskap að staðan í íslensku efnahagslífi væri traust. Fyrir síðustu kosningar leyndi núverandi formaður VG þjóðina vísvitandi upplýsingum um stöðu Icesave-málsins og stefndi síðan að því sl. sumar að Alþingi samþykkti Svavarssamninginn óséðan.

Núna halda þingmenn Samfylkingarinnar og hluti þingmanna VG því blákalt fram að forsetinn hafi sett endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar í uppnám fyrir það eitt að setja málið í lýðræðislegan farveg og í dóm þjóðarinnar.Í framhaldi af þeirri staðhæfingu er rétt að huga að því hver endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar er. Hún er fátækleg, ekki er annarri áætlun til að dreifa en þeirri sem samin er sameiginlega af íslenskum stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, AGS.Lykillinn að því að hún gangi upp er að það verði gríðarlega jákvæður viðskiptajöfnuður næsta áratuginn eða afgangur upp á vel ríflega þá upphæð sem fæst fyrir allan útflutning á fiski. Þennan afgang er ætlað að nota til að greiða af erlendum lánum, m.a. Icesave-lánunum. Endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir því að viðskiptjöfnuðurinn þyrfti að verða jákvæður um liðlega 150 milljarða króna til þess að dæmið gengi upp. Nýjar tölur frá Hagstofu Íslands gefa til kynna að niðurstaðan verði helmingi verri en endurreisnaráætlunin ætlaði. Ekki er það vegna þess að afgangurinn sé lítill. Sannarlega er um Íslandsmet að ræða enda hefur innflutningur dregist gríðarlega saman og er t.d. bílainnflutningur einungis um 17% af því sem hann var að meðaltali á síðasta áratug. Ástæðan er einfaldlega sú að áætlun ríkisstjórnarinnar er óraunhæf.Núna virðist sem ríkisstjórnin ætli að grípa til þess billega ráðs að kenna því um að hlutirnir gangi ekki samkvæmt áætlun vegna þess að þjóðin fái að segja sína skoðun á vafasömum Icesave-skuldbindingum sem greinilega virðast vera þjóðinni ofviða.

Það er orðið löngu tímabært að ríkisstjórnin horfist í augu við vandann og setji upp raunhæfa áætlun sem hlýtur að fela í sér sanngjarna eftirgjöf skulda og að auka tekjur þjóðarbúsins - en það verður ekki gert skjótt nema með því að auka fiskveiðar.


Seðlabankinn í sagnfræði

Það var sérkennileg grein eftir þrjá hagfræðinga Seðlabankans í Mogganum í morgun. Greinin undirstrikar hversu kraftlaus og ómarkviss peningastjórnun bankans hefur verið á liðnum árum. Hagfræðingarnir greina m.a. frá því að bankinn hafi verið gagnrýndur 2007 þegar vakin var athygli á skuldasöfnun en þá komu klappstýrur útrásarinnar, s.s. Vilhjálmur Egilsson, og gerðu lítið úr varnaðarorðum þar sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem var handbendi útrásarmannanna sagði að eignir Íslendinga erlendis væru stórlega vanmetnar í bókum Seðlabankans.

Vilhjálmur reyndist hafa rangt fyrir sér, eins og oft áður, hvað þetta varðar. Strax árið 2006 hefði bankinn átt að grípa til mun meiri aðhaldsaðgerða til að stemma stigu við óheillaþróuninni, en það var ekki gert.

Mér finnst nokkuð merkilegt að helstu hagfræðingar Seðlabankans haldi því fram að það sé næstum ómögulegt að meta með nákvæmni erlendar skuldir þjóðarbúsins fyrr en eftir nokkur ár. Þessar upplýsingar hljóta að vera frumforsendur þess að hægt sé að taka einhverja skynsamlega ákvörðun, t.d. hvað varðar töku enn fleiri lána.

Ef þetta er staðan í raun og veru, eins og hagfræðingarnir lýsa henni, hefur Seðlabankinn lítinn annan tilgang en að vera í einhvers konar sagnfræðilegri heimildavinnu.

Það er lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina að vita skuldastöðuna og það ætti að vera einfalt mál að gera sér grein fyrir erlendum skuldum hins opinbera, taka saman skuldir sveitarfélaga, opinberra fyrirtækja og ríkisins, til að meta hvort skuldirnar séu viðráðanlegar eða ekki.

Þessar tölur hafa ekki verið settar skýrt fram en það á ekki að vera nokkurt mál að setja þær inn í umræðuna. Einhverra hluta vegna hefur Seðlabankinn ekki gert það.


mbl.is Hefði átt að stöðva bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband