Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sinnuleysi gagnvart leigubílaóreiðunni

Það er öngþveiti á þjónustu leigubíla og það átti ekki að koma neinum á óvart. Leigubílstjórar vöruðu við hvert stefndi með nýjum lögunum sem samþykkt voru í lok árs 2022.

Það kemur á óvart að ferðaþjónar skulu ekki krefjast þess að tekið verði til og að komið verði skikk á ástandið. Ferðamálayfirvöld víðast hvar reyna að tryggja öryggi ferðamanna og koma í veg fyrir svik og pretti.

Óöryggið felst meðal annars í að brotalamir eru á því að ökuferlar séu skráðir og merkingar bíla. Nýlegt dæmi er um erlendur sakborningur í nauðgunarmáli var kominn í harkið nánast strax að lokinni yfirheyrslu.

Það er ódýr leið hjá ráðherra að reyna að færa ábyrgðina yfir á Samgöngustofu eða einstaka ökuskóla sem sjá um próf. Augljóst er að með því að galopna þessa þjónustu fyrir hverjum sem er án nokkurs aðhalds, er vegna pólitísks vilja innviðaráðherra.

 Tillögur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra virðast því miður vera einhvers konar sýndarmennska til þess að fría Sjálfstæðisflokkinn af pólitískri ábyrgð.  Ef einhver meining væri á bak við þetta tal ráðamanna þá væru lögð fram í þinginu stjórnarfrumvörp til þess að ná utan um málið.

Það er áhugavert að fara yfir lista á Íslandi.is um þá sem reka leigubíl  og ekki síður yfir starfandi leigubílstöðvar sem virðast vera nafnið eitt .

 

 


Mæti á þingið

Nú er ég mættur óvænt suður til Reykjavíkur til þess að hlaupa í skarðið hjá Flokki fólksins, sem varaþingmaður.

Á dagskrá þingsins í dag er m.a. umræða um umhverfismál þ.e. hringrásarhagkerfið sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins Bryndís Haraldsdóttir stendur fyrir. Bryndís á hrós skilið fyrir að reyna að vekja ráðherrann en hann virðist vera áhugalaus um verkefni ráðneytisins nema þá helst þegar talið berst að vindmyllum, en þá veðrast hann allur upp. Ýmis mál sem hægt væri að leysa fyrir hádegi eru látin danka og kemur það niður á umhverfinu og  atvinnulífinu.

Ríkisstjórn sem leidd er af græningjum og studd af Sjálfstæðisflokknum hefur tekist að hækka álögur og búa til nýja skatta sérstaklega á rafbíla, með þeim afleiðingum að sala þeirra hefur dregist gríðarlega saman. Eru þessar aðgerðir líklegar til þess að hvetja til orkuskipta - greinilega ekki.

Það er ekki úr vegi að setja þessa nýju skattlagningu á rafbíla almennings í samhengi við að umhverfisráðherra rétti ekki fyrir svo löngu nokkrum bílaleigum milljarð til orkuskipta og örfáum stórútgerðum hátt í 300 milljónir króna m.a. Samherja úr Orkusjóði.

Mikill vilji er hjá stjórnvöldum að koma styrkjum á stórfyrirtækin en í nafni orkuskipta hafa kaup þeirra á rafmagnslyfturum verið styrkt af almannafé, en umrædd tæki hafa verið í notkun í um hálfa öld á Íslandi.

 

 


Bjartasta vonin dofnar

Ýmsir eru farnir að velta því fyrir sér hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem hingað til hafa verið taldir líklegri til þess að taka við keflinu hafa ekki styrkt stöðu sína á kjörtímabilinu.  Sammerkt er með þeim að þeir hafa gjarnan boðað mikla sókn og breytingar með stórfenglegri flugeldasýningu, en þegar til kastanna hefur komið hefur skotist upp lítil ýla sem varla hefur náð upp fyrir þakskeggið. 

Guðrún HafsteinsÍ kjölfarið hefur nafn Guðrúnar Hafsteinsdóttur oftar verið nefnt til sögunnar sem vænlegur kostur. Hún hefur ekki verið með mikið orðagjálfur, heldur boðað breytingar með yfirveguðum hætti og að því virðist reynt að vinna þeim.

Nú í þinginu í síðustu viku virtist sem að það væri slokknað dómsmálaráðherranum í svörum við fyrirspurnum um landamæragælsu og vanrækslu flugfélaga við að upplýsa hverjum þau eru að fljúga til landsins.

Guðrún virkaði eins og hver annar ísaður embættismaður langt innan úr kerfinu sem var sáttur við að hingað kæmu liðlega 150 þúsund manns árlega sem stjórnvöld vissu engin deili á.  Ráðherrann virtist hamingjusamur með að íslensk lög vikju fyrir sjónarmiðum flugfélaganna þar til búið væri að fara í einhverjar viðræður um málið við Evrópusambandið.  Það hreyfði ekki við neinu þó svo að dæmi væru um að útlendingum sem hefði verið brottvísað kæmu til landsins hvað eftir annað m.ö.o. landamærin eru galopin. 

Svör við því hvort taka ætti upp auknu eftirliti á landamærunum voru með sama sniði - engin pólitísk sýn eða skilaboð og öllum ákvörðunum vísað til ríkislögreglustjóra.

Það er vonandi að dómsmálaráðherra hressist sem fyrst og boði festu í málaflokknum - Ekki veitir af.

 


Á hvaða ferðalagi er umhverfisráðherra?

Í dag eru skilaboðin frá umhverfisráðherra að Heilbrigðiseftirlitið sé ekki nógu strangt og skilvirkt.  Það er niðurstaða Guðlaugs Þórs nú í mars, í kjölfar aðgerða eftirlitsins á matvælalagernum í Sóltúni 20 sl. haust. Á lagernum var að finna m.a. meindýr og annan viðbjóð. Ráherra er hér að enduróma málflutning forsvarsmanna Krónunnar um ábyrgð eftirlitsins á  starfrækslu veitingastaðanna Wok On.  Það er auðvitað verulega ósanngjarnt þar sem Wok On neitaði algerlega að hafa nokkuð með lagerinn að gera.

Það vekur upp spurningar að ráðherra skuli hér beina spjótum sínum sérstaklega að Heilbrigðiseftirlitinu sem hóf málið en ekki t.d. gegn lögreglu, Vinnueftirliti eða Útlendingastofnun sem eiga eflaust einnig líkt og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þakkir skyldar fyrir aðkomu sína að málinu?

Það að umhverfisráðherra vilji nú herða og gera heilbrigðiseftirlitið strangara er í algerri mótsögn við skilaboð skýrslunnar sem vitnað er til í fréttinni og sömuleiðis málflutnings ráðherra sjálfs t.d. á opnum fundi um opinbert eftirlit hjá Samtökum Iðnaðarins fyrr á árinu.

Skilaboð skýrslu starfshóps ráðherra voru m.a. einkavæðing eftirlitsins og draga úr eftirlitsferðum en í þess stað ætti að kalla eftir gögnum frá eftirlitsþegum m.a.væntanlega þeim ágæta veitingamanni Davíð Viðarssyni.

Við kynningu á skýrslu starfshóps ráðherra og í greinum sem flokkssystkini hans hafa skrifað á liðnum mánuðum hefur komið fram mikill misskilningur á eðli og starfsháttum heilbrigðisfulltrúa m.a. að þar fari um hópur manna með vaskablæti sem hefur það eitt að markmiði að gera veitingamönnum afar erfitt fyrir.  Það er alls ekki svo en 99% af samskiptunum við veitingamenn eru afar ánægjuleg.

Sá sem fór fyrir hópnum nefndi sérstaklega það eftirlit sem ég veiti forstöðu á Norðurlandi vestra að það væri ekki burðugt þar sem þar væru of fáir opinberir starfsmenn á launaskrá. Ekki ætla ég að gerast dómari í eigin sök en þessi orð sannfærðu mig og fleiri endanlega um að Sjálfstæðisflokkurinn væri báknið sem sæi enga aðra lausn en stórar miðstýrðar stofnanir sem legðu línurnar um t.d. um veitingasölu kvenfélaga eða þrifnaði á lóðum.

Við þetta má bæta að þingmaður Sjálfstæðisflokksins sá sig knúinn í kjölfar Wok On málsins að leggja eftirfarandi fyrirspurn til umhverfisráðherra: Telur ráðherra að regluverk varðandi heilbrigðiseftirlit sé of þungt í vöfum fyrir atvinnurekendur?

Vonandi fer ráðherra að draga þann lærdóm af Wok On- málinu að það sé betra bæði pólitískt og út frá því ná árangri með önnur verkefni ráðuneytisins að tala nú við heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna í stað þess að tala stöðugt um og jafnvel niður til þeirra sem vinna að matvæla- og hollustuháttareftirliti.

Það eru brýn úrlausnarefni sem eru beinlínis komin í óefni m.a. hefur breytt framfylgd reglna um urðunarstaði lokað fyrir farveg fyrir mengaðan jarðveg.  Staðan hefur leitt til þess m.a. mengunarvarnarbúnaður er að verða óvirkur vítt og breitt um landið. 

Sama á við um skráningarreglugerð umhverfisráðuneytisins nr. 830/2022, en síðast í dag ræddi ég við fiskverkanda sem hristi hausinn yfir þeirri þraut sem hann væri leiddur í, í nafni einföldunar.

 

 

 

 


mbl.is Grípa þarf inn í „ásetningsbrot“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanagrýlan og kynþáttahatrið

Einn helsti þáttarstjórnandi RÚV Egill Helgason, gerir því skóna í skrifum á netinu að  Íslendingar séu illa haldnir af kynþáttahatri.

Þessu til rökstuðnings birti hann skrif eftir heimspeking sem nefndi reyndar ekkert dæmi máli sínu til stuðnings. Egill vitnaði einnig til fréttar af varaþingmanni Framsóknarflokksins sem benti á skrif fyrrum menntaskólakennara á FB um erlendan keppanda í Söngvakeppni RÚV. Vissulega voru þau skrif vond en þó alls ekki verri en  ýmislegt sem hefur fallið um íslenskan keppenda sem vann umrædda Söngvakeppni.

Óhjákvæmilega þurfa hliðverðir umræðunnar á RÚV, Egill Helga ofl. að skýra nánar  hvað þeir eiga við um að Íslendingar séu haldnir smásálarlegu kynþátthatri. 

Er kynþáttahatrið fólgið í umræðu um:

1) Kostnað vegna hælisleitenda?

2) Fjölda hælisleitenda og álag á innviði t.d. mennta- og heilbrigðiskerfið?

3) Mismunandi glæpatíðni eftir upprunalöndum innflytjenda á hinum norðurlöndum og hvernig megi forðast að lenda í sömu ógöngum og Svíar?

4) Ógnandi mótmæli hælisleitenda m.a. á Alþingi?

5) kynferðisbrot erlendra leigubílstjóra?

6) Ofbeldisglæpi og líflátshótanir hælisleitenda m.a. á hendur vararíkissaksóknara?

7) Mismunandi afstöðu innflytjenda til jafnréttis og kynhneigðar?

Til að tryggja góða aðlögun þyrfti ef vel ætti að vera rækilega umræða um alla ofangreinda þætti. Hvernig stendur á því að "góðir" fjölmiðlamenn taka upp því að gerast skoðanagrýlur og reyna að úthrópa þarfa umræðu? 

 

 

 

 

 


Það sem Krónan vildi þá og nú

Það er dapurlegt að Krónan sé trekk í trekk að setja olnbogann í Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrir afskipti af Wok On.  Nær væri að þakka eftirlitinu fyrir að tryggja matvælaöryggi og hrinda málinu af stað. Máli sem hefur ýmsa anga og flesta hræðilega.

Það sem kemur á ánægjulega á óvart er að aðfinnslur forsvarsmanna Krónunnar og Festis ganga annars vegar út á að upplýsingagjöf hefði mátt vera betri og síðan að aðgerðir eftirlitsins hefðu átt vera mun harðari.    

Hvers vegna kemur það á óvart? - Jú Krónan barðist ekki fyrir svo löngu gegn því að brauð í verslunum yrði smitvarið.

Þessi greinilega viðhorfsbreyting er jákvæð, en til þess að ná árangri í að tryggja öryggi matvæla þarf; almennan skilning á verkefninu, skilning á hlutverki eftirlits og tryggja góða menntun. Algengt er að matvælaframleiðendur og matvælaverslanir ofl. gangi á eftir því birgjar hafi fullgild starfsleyfi og kalli eftir frekari gögnum t.d. eftirlitsskýrslum yfirvalda. 


Læknir má en KSÍ ekki


Það er ákveðinn útrásarljómi yfir umfjölluninni um íslenska lækninn sem er að taka að sér að stýra sjúkrahúsi í Sádí Arabíu - trúarofstækisríki Isamista, þar sem mannréttindi m.a. kvenna eru fótum troðin og stjórnvöld þar taka að meðaltali þrjár manneskjur af lífi í viku hverri.


Það var með réttu að KSÍ var gagnrýnt fyrir að leika æfingaleik við Sádí Araba sem auk fyrrgreindra mannréttindabrota stóðu í á sama tíma og leikurinn fór fram, í hernaði gegn nágrönnum sínum í Jemen. Það er umhugsunarefni að sú gagnrýni sem KSÍ fékk þá var mun mildari en sú óskiljanlega gagnrýni sem KSÍ fær á sig fyrir að dragast gegn Ísrael og þurfa að etja kappi við lýðræðisríkið um sæti í Evrópukeppni.

"Réttlát" reiðin virðist vera mun meiri gegn Ísrael vegna hernaðar Ísrael gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas í kjölfar fjöldamorða og hópnauðgana Hamas þann 7. okt. sl. en mannréttindaníðinganna í Sádí Arabíu.

Þessi afstaða er illskiljanleg þar sem Sádar hafa beitt sér fyrir að fjármagna öfgaislam sem eitrað hefur aðlögun múslimskra innflytjenda á Vesturlöndum.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Fer til Sádi-Arabíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín ætti að veita umhverfisráðherra móðurleg ráð

Það var ánægjulegt fyrir heilbrigðiseftirlitin að fá stuðning frá formanni Neytendasamtakanna um gildi virks matvælaeftirlits og með í nestinu málefnalegar athugasemdir um að tímabært sé að taka upp broskarlakerfi. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra setti af stað eftirlitsverkefni fyrir nokkrum árum þar sem birtust á netinu ljósmyndir úr eftirliti og einkunnir fyrir ákveðna eftirlitsþætti. Þetta verkefni gaf ágæta raun á sínum tíma og var m.a. tilnefnt til Norrænna eftirlitsverðlauna.

Rotta í gildru

Ráðherrann sem fer með málefni heilbrigðiseftirlitana 9 í landinu er umhverfisráðherrann. Hann ásamt einstaka þingmanni Sjálfstæðisflokksins hafa varið kröftum sínum í að dreifa ósönnum kjaftasögum um tröllauknar og dyntóttar kröfur í matvælaeftirliti.  Ráðherra hefur gengið svo langt í að tala um vaskablæti heilbrigðiseftirlita, en óneitanlega er svona raup ekki uppbyggilegt og ekki heldur til þess fallið að tryggja öryggi matvæla. 

Það er erfitt að átta sig á því hvað rekur reynda stjórnmálamenn í ófrægingarherferð gegn stofnunum sem reknar eru á vegum sveitarfélaganna, en heilbrigðiseftirlitin komu býsna vel út úr könnun sem SI gerðu nýlega á framkvæmdi eftirlits í landinu.  

Líklegast er það ríkur vilji Sjálfstæðisflokksins til þess að koma verkefnum sveitarfélaganna til miðlægra ríkisstofnanna þ.e. til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. 

Hingað til hef ég ekki gert neinar efnislegar athugasemdir við ríkisvæðingu Guðlaugs Þórs, sem vissulega hefur sína kosti og galla. Á hinn bóginn er  rétt að staldra við framangreinda aðferðarfræði sem ráðherrann beitir þ.e. dreifa slefsögum.

Í gegnum tíðina hafa verið gefnar út fjölmörg leiðbeiningarit um hvernig eigi að standa að sameiningu stofnanna, en rauði þráðurinn í þeim er að vanda undirbúning, setja fram mælanleg markmiðum og búa til jákvætt andrúmsloft til sóknar. Aldrei hef ég séð stafkrók um að það sé árangursríkt fyrir leiðtoga að beita fyrir sig slúðri til þess að ná fram árangursríkri samstöðu um markmið sín.

Málið hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir yfirmann stjórnsýslunnar í landinu, Katrínu Jakobsdóttur og fullt tilefni fyrir hana að veita stráknum Guðlaugi Þór móðurleg ráð. 

 


Sjálfstæðisflokkurinn er báknið

Í grein í Viðskiptablaðinu dags. 2 mars sl. fer Diljá Mist þingmaður Sjálfstæðisflokksins mikinn í að gagnrýna heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga landsins. Það væri að sjálfsögðu hið besta mál ef gagnrýnin væri málefnaleg í stað þess þá fer hún mikinn í að flytja ósannar tröllasögur um ósanngjarnar kröfur um fjölda vaska.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins virðist standa í þeirri meiningu að eftirlitin setji reglurnar og séu í stöðugu stríði við atvinnurekendur. Auðvitað er það ekki svo þar sem ráðherra setur reglur og starf okkar í heilbrigðiseftirlitinu fer að stórum hluta í að leiðbeina atvinnurekendum, en reynslan er sú að að 99% af rekstraraðilum vilja fylgja reglum, einkum þegar komið er að hreinlæti. Þessi barátta Sjálfstæðisflokksins gegn sóttvörnum og öryggi matvæla er því óskiljanleg vitleysa.

Í greininni boðar Diljá Mist að setja á svið leikþátt á Alþingi, þar sem hún spyrji ráðherra og vopnabróður út í þungt regluverkið. Málið er að Guðlaugur Þór umhverfisráðherra hefur ekki einfaldað hlutina en skrifaði t.d. sjálfur undir skráningarreglugerð nr. 830/2022 sem hefur þvælt gríðarlega leyfisveitingaferil fyrirtækja. Til að gæta fullrar sanngirni þá tók hann við drögunum að reglugerðinni frá forvera sínum en hefur ekki enn haft sig í að lagfæra reglugerðina þrátt fyrir umkvartanir minni fyrirtækja á borð við hárgreiðslustofur ofl.
Það væri ekki úr vegi að spyrja Guðlaug Þór í leiðinni út í hvers vegna hann lætur hjá líða að setja reglur sem tryggja betur en þær sem eru nú eru í gildi, að stórir olíugeymar séu vökvaheldir? Er Sjálfstæðisflokkurinn með einhverja götun á regluverkinu þegar komið er að stærri aðilum?

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að líta sér nær þegar komið útblásnu bákninu en til fámennra stofnanna sveitarfélaganna.  Nærtækara væri að skoða t.d. fjölgun ráðuneyta og óundirbúna uppstokkun þeirra. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar kostaði útþenslan og uppstokkunin gríðarlega fjármuni sem auk þess olli óskilvirkni í stjórnsýslunni.
Fjölgun hefur orðið á póltískum aðstoðarmönnum, sendiherrum, pólitískum skýrslugerðum hjá ráðgjafafyrirtækjum. Varla er til svo aum stofnun hjá hinu opinbera að þar sé ekki að finna á launaskrá fjölmiðla- og samskiptafulltrúa, sem sendir upplýsingar um ágæti stofnunarinnar til annað hvort ríkisfjölmiðils eða ríkisstyrktra fjölmiðla!

Barátta Sjálfstæðisflokksins gegn eigin gullhúðun tók á sig grátbroslegt yfirbragð demantsskreytingar. Í stað þess að það færi af stað vinna í hverju og einu ráðuneyti með að markmiði að taka í burtu reglugerðarvörtur á borð við framangreinda skráningarreglugerð, þá var auðvitað settur af stað nýr demantsskreyttur starfshópur.


Formaðurinn var sjálfur varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins - demanturinn Brynjar Níelsson og með sér til fulltingis hefur hann nokkra lögfræðinga utan úr bæ í stríðinu gegn eigin regluverki. 


Snúið út úr áliti umboðsmanns

Álit umboðsmanns Alþingis er skýrt, matvælaráðherra braut lög og fór á svig við stjórnarskrá Íslands sem hún hefur svarið eið að. Það sem er ekki síður alvarlegt við málið er að matvælaráðherra gerði það í samráði og með stuðningi forsætisráðherra.  Stuðningur forsætisráðherra við lögbrotin er stórundarlegur í ljósi þess að eitt af yfirlýstum markmiðum hennar með myndun ríkisstjórnarinnar var að auka traust á stjórnmálum og stjórnsýslunni. 

Álit umboðsmanns snýst ekki um að matvælaráðherra hefði getað gert heldur betur í starfi eins og ráðherra gefur í skyn, heldur að hún hafi þverbrotið stjórnsýslulög.

Matvælaráðherra hefur hingað til réttlætt lögbrotin með skringilegum hætti á borð við að lögin hafi verið úrelt og komin til ára sinna, þó svo brotin snúi fyrst og fremst að meginreglum stjórnsýslunnar þ.e. lögum nr. 37/1993.  Hún yfirtrompar fyrri skýringar með þeirri barnalegu röksemdafærslu að halda því fram að í áliti umboðsmanns Alþingis, feli ekki í sér nein tilmæli um úrbætur. 

Á umboðsmaður virkilega að þurfa að stafa það ofan í ráðherra að hætta að brjóta lög?

Ef matvælaráðherra vill sýna lýðræðissamfélaginu virðingu í verki þá gerir hún það með því að segja af sér, en ekki með því að snúa út úr áliti umboðsmanns.

 

 

 


mbl.is Gefur ekki tilefni til sérstakra viðbragða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband