Leita í fréttum mbl.is

Plan ríkisstjórnarinnar er að þrauka fram að jólum

Í dag heyrði ég annað veifið óminn af málflutningi stjórnarliða í umræðu um vantrauststillögu á Alþingi þar sem stefið var að hneykslast á því að minni hluti þingmanna treysti ríkisstjórninni ekki til að sitja áfram. Það gerðu stjórnarliðar þótt þeir ættu að vita upp á sig skömmina. Hin meginröksemdin var að ekki væri tímabært að fara í kosningabaráttu í jólamánuðinum og síðan var klisjan um björgunarleiðangurinn endurtekin.

Það sem stakk mig var að stjórnin notaði ekki tækifærið til að birta þjóðinni einhverja áætlun af yfirvegun í stað þess að svara fullum hálsi með því að vitna í hinn ágæta þátt Dagvaktina.

Mitt mat er að eina áætlun ríkisstjórnarinnar sé að sitja sem fastast fram að jólum og vonast til þess að fólk nái sambandi við gullfiskaminni sitt. Ekki er ég viss um að Ingibjörgu og Geir verði kápan úr því klæðinu þar sem verðtryggðir gíróseðlar muni berast strax eftir áramótin og jafnvel uppsagnarbréf. Það mætti segja mér að ef svo fer fram sem horfir muni landsfundur Sjálfstæðisflokksins breytast í allsherjarmótmælafund, fyrir utan og allt um kring - og jafnvel inni á fundinum.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Sigurjón,

þú misstir af miklu að vera ekki á fundinum. Reyndar sem fyrrverandi þingmaður þá þekkir þú hrokann sem við upplifðum frá valdhöfum á fundinum. Þú getur þakkað þínum sæla fyrir að hafa dottið út af þingi.

Gullfiskaminni okkar mun verða brotið upp af innheimtum og uppsögnum í janúar á næsta ári. Þeir sem sukku með Titanic gleyma því seint.

Það er mikill ábyrgðarhluti að stefna þjóðinni í vonlaus vanskil sem endar með blóðugum mótmælum.

Gunnar Skúli Ármannsson, 25.11.2008 kl. 01:53

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ríkisstjórnin er ekki á förum með nýju ári. Reyndar er ég ekki afar áfjáður í kosningar við núverandi flokkaskipan. Ég sé ekki fyrir mér að neinn stjórnmálaflokkur sé trúverðugur í tilliti nýrra tíma sem þurfa að mótast á allt öðrum og ólíkum stefnumiðun til framtíðar en þeim sem nú hafa brotnað í spón. Ég sé ekki fyrir mér að innganga í EB gefi nein þau fyrirheit um sjálfbæra atvinnuþróun né samfélagsþróun. Þegar upp er staðið þá verður ekki séð að þjóðabandalag Evrópu fari varhluta af þeirri hörðu baráttu um mannsæmandi atvinnustig og vörð um félagslegan stöðugleika em nú er víðast hvar á hraðri niðurleið með vaxandi hraða. EB hefur ekki svo mér sé kunnugt um birt neinar sérlausnir fyrir sitt svæði en augljóst má vera að alþjóðleg kreppa er nú orðin skelfileg og fer vaxandi. Við Íslendingar eigum flestum öðrum þjóðum betri möguleika á að reisa okkar samfélag úr þeim rústum sem við stöndum í um þessar mundir. En við þurfum að gæta okkar vel að hlaupa ekki upp til handa pg fóta og stökkva á stórar skyndilausnir.

Ég er orðinn órór að bíða eftir nýrri forystu í stjórnmálum með nýjar og jarðlægar tillögur um að manna skipið með öllum þeim fjölmörgu sem árinni valda og taka róðurinn í stað þess að allir bíði eftir aflmikla mótornum með risastóru skrúfunni.

Við skulum hætta að trúa því að þjóðin sé örbjarga án 2000 manna vinnustaða víðs vegar í grennd við fallvötn og háhitasvæði.

Vinstri græna skortir enn þann einfalda skilning á reikningi að 1000 bátar með 100 tonna kvóta hver skila meiri framlegð í þjóðarbúið en 20 frystitogarar með 100 þús. tonna kvóta hver um sig.

Og þessir 1000 bátar mynda sjálbæra atvinnuhætti með sterkt mannlíf í öllu dreifbýli Íslands. Ég nefni VG vegna þess að mér sýnist sá flokkur vera sá eini sem hugsar á íslensku í dag. Þ.e.a.s. flestir í þeim flokki nema aðeins forystan.

Árni Gunnarsson, 25.11.2008 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband