Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Hálfvitagangur í nafni vísinda - Fornleifafræðingar staðfesta ofveiði

Vísindasamfélagið á það til að senda frá sér algera dómadagsdellu í nafni fræða.

Rannsóknir á þorskstofninum í Eystrasaltinu 

Ég rakst á frétt af einni slíkri sænskri „vísindarannsókn“ þar sem fornleifafræðingar stóðu í að grafa upp nokkur 4.500 ára þorskbein á Gotlandi í Eystrasaltinu. 

Markmiðið hjá Svíunum var auðvitað að reikna út stofnstærð þorsksins fyrir nokkur þúsund árum til að geta lagt mat á svokallaða grunnlínu stofnsins (hvað sem það nú er)! Út frá grunnlínunni væri síðan hægt að reikna út ofveiði síðustu ára eða jafnvel árhundruða og sekta svo rækilega sænska sjómenn ef þeir veiða eitthvað umfram ráðlagða veiði. Það er gaman að sjá hve djarfir sænskir reiknisfiskifornleifafræðingar eru að álykta bæði um stofnstærðar- og erfðabreytingar og það út frá nokkrum fiskbeinum.

Hér á landi höfum við ekki farið varhluta af dellu reiknisfiskifræðinnar sem reiknar út stærð fiskistofna áratugi fram í tímann. Fyrir ári síðan ráðlagði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að þorskveiðum yrði hætt í nokkur ár til þess að veiða meira seinna en niðurstaðan var eflaust byggð á reiknilíkönum sem ná nokkra áratugi fram í tímann þó svo hagfræðingunum hafi ekki enn tekist vel til við að spá fyrir um þorskstofn næsta árs.

Einn helsti gúrú reiknisfiskifræðinnar dr. Rosenberg var fenginn til að gera úttekt á aðferðafræði Hafró árið 2001, þegar mörghundruð þúsund tonn töpuðust út úr fiskabókahaldinu og boðaður var enn einn niðurskurðurinn til uppbyggingar á þorskstofninum. Dr. Rosenberg er mjög virtur innan reiknisfiskifræðinnar enda tókst honum að reikna út ofveiði á þorski við Main-flóa á 19. öld. Ekki stóð heldur á því að dr.  Rosenberg vottaði að aðferðir Hafró stæðust þrátt fyrir að viðurkennd væri reiknisskekkja sem nam magni sem samsvarar samanlagðri veiði nokkurra ára.

Eina vandamálið var það sama og áður við Main-flóa á 19. öld - það var veitt of mikið.

Hvernig er það, er ekki orðið tímabært að endurskoða þessa vitleysu?


Guðni og Einar hækkuðu verðið á grillinu

Fréttir herma að sláturkostnaður sé að sliga bændur og að jafnvel séu uppi hugmyndir um að flytja fé á fæti úr landi. Maður hlýtur að spyrja hvað hafi orðið um ríkishagræðinguna sem Guðni Ágústsson stóð að með fullum stuðningi núverandi landbúnaðarráðherra. Hundruðum milljóna var veitt í að úrelda sláturhús með loforði um að kostnaðurinn myndi lækka til hagsbóta fyrir bæði neytendur og bændur.

Það virðist samt ekki hafa gengið eftir.


Bannað að veiða-og-sleppa frá og með 1. september

Ég er ekki mikill laxveiðimaður, þeir eru ekki margir sem ég hef dregið á land en þó fylgist ég með öðru auganu með laxveiðum. Það tíðkast ákveðnar tískusveiflur í þessu, sumum þykir t.d. ótækt að veiða með maðki eins og Atli Gíslason fékk að kenna á en hann var sakaður um að hafa misnotað maðkinn með þeim hætti. Flugan þykir virðulegra drápstæki en nú í seinni tíð hefur borið á nýrri tískubylgju á Íslandi, þ.e. að veiða-og-sleppa. Það er eins og mig minni að kóngurinn sjálfur, Bubbi, hafi verið mikill talsmaður þeirrar aðferðar. Hún hefur um nokkurt skeið verið stunduð úti í heimi en þessum tískustraumum hefur alltaf skolað eitthvað seinna hér á land. Nú er svo komið að í þann mund sem sú ankannalega iðja að veiða til að sleppa er að festa rætur á Íslandi er hún bönnuð í Sviss og eru dýraverndunarsjónarmið höfð til hliðsjónar.


LÍÚ og Sameinuðu þjóðirnar

Stærsti hluti vöruútflutnings landsmanna er sjávarafurðir en þrátt fyrir það vantar ákveðna skerpu í umfjöllun um íslenska hagsmuni í sjávarútvegi. Í leiðara Morgunblaðsins þann 11. ágúst sl. var t.d. hvatt til þess að íslenskar
sjávarafurðir væru vottaðar af fyrirtækjum sem stjórnað er af græningjasamtökum sem sum hver eru á móti fiskveiðum.

Fyrir nokkrum árum lét sjávarútvegsráðherra Íslands glepjast af bók græningja sem var í raun rætinn áróður gegn fiskveiðum og þá sérstaklega togveiðum. Ástæðan fyrir því að ráðherra lét glepjast var bara sú að íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi fékk einhverra hluta vegna eitthvað hærri einkunn en kerfi Evrópusambandsins. Bókin End of the line sem sjávarútvegsráðherra Íslands hampaði óspart hvatti neytendur til þess að hætta að borða fisk og dró upp mjög dökka mynd af sjávarútveginum.

Ekki þarf að velkjast í vafa um að ef Íslendingar ákveða að taka upp viðkomandi umhverfismerkingar græningjanna munu samtök sem eru andsnúin fiskveiðum ná tangarhaldi á
atvinnugreininni og setja henni hertari kröfur, s.s. að hætta að stunda togveiðar. Það má sjá á skrifum ýmissa sem láta sig málefni sjávarútvegsins varða í opinberri umræðu að harður áróður græningja gegn togveiðum virðist hafa náð hljómgrunni hér á Íslandi. Það gerist þrátt fyrir þá staðreynd að það sé á vitorði margra að í Barentshafinu þar sem þorskstofninn er sagður við hestaheilsu eru nær eingöngu stundaðar togveiðar og veitt hefur verið langt
umfram ráðgjöf reiknisfiskifræðinganna hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu.

LÍÚ fer að leiðbeiningum Sameinuðu þjóðanna

Helstu hagsmunasamtök útvegsmanna hafa nú loksins séð hættuna af öfgafullum umhverfissamtökum sem bjóðast til að votta afurðirnar en eru samt sem áður í nokkrum vafa um hvernig þau geti fullvissað neytendur um að íslenskur þorskur geti verið sjálfbær afurð. Erfitt getur verið að vitna í Hafró þar sem helstu sérfræðingar þar á bæ telja
lítið annað blasa við þorskstofninum íslenska en hrun ef sóknin verði ekki minnkuð. Þetta mat Hafró er vafasamt þar sem það byggir á reikniformúlum og -líkönum sem ganga þvert á viðtekna vistfræði og algerlega er litið framhjá
ástandi dýranna, fiskanna í stofninum sjálfum. Hvaða búfræðingi dytti í hug að fullyrða um ástand bústofns og hafa ekki til hliðsjónar ástand dýranna í stofninum? Ekki nokkrum. Þorskarnir sem Hafró telur að of mikið sé veitt af
eru ekki að vaxa eins og þegar sóknin var meiri. Þessi litli vöxtur gefur augljóslega til kynna að minna sé um æti en áður fyrir hvern og einn. Helstu merki um ofveiði ættu að vera fáir fiskar sem vaxa of hratt. Leiðin sem LÍÚ
hefur bent á er að byggja vottun sína á leiðbeiningarreglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og er þetta skref LÍÚ vísbending
um að það muni leitast við að uppfylla óskir Sameinuðu þjóðanna í auknum mæli.

Mannréttindanefnd Sameinu þjóðanna hefur þegar gefið út það álit að kvótakerfið brjóti í bága við mannréttindi og þá er að vænta þess að LÍÚ hafi forgöngu um að kerfinu verði breytt í átt til sanngirni og sátta.

Annað væri stílbrot.

(grein sem birtist fyrir skömmu í Morgunblaðinu)


Er Ómar Ragnarsson líka genginn í Samfylkinguna?

Ef marka má kosningu í ráð og nefndir á vegum borgarinnar er greinilegt að varaformaður Íslandshreyfingarinnar situr í borgarráði fyrir atbeina Samfylkingarinnar en að vísu á kostnað atkvæða sem greidd voru Frjálslynda flokknum. Það er vægast sagt furðuleg staða að einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli þurfa að leita á náðir þess allra minnsta til að geta skipað í nefndir á vegum borgarinnar. Ég á bágt með að trúa því að Íslandshreyfingin sé nú þegar orðin eitt af aðildarfélögum Samfylkingarinnar með Ómar í broddi fylkingar, sérstaklega í ljósi þess að Samfylkingin stefnir að því að byggja tvö álver á næstu árum.


mbl.is Lyklaskipti í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á fundi með Jóni Magg á Reyðarfirði, Húsavík og Akureyri

Út úr þrengingunum

Sunnudaginn 17. Ágúst verða Jón Magnússon og Sigurjón Þórðarson með fund á Reyðarfirði  Fundarstaður: Fjarðarhótel Reyðarfirði og hefst fundurinn kl. 20.   Fundarefni:  Út úr þrengingunum. Framsögumenn Jón Magnússon og Sigurjón Þórðarson
 
Mánudaginn 18. Ágúst er fundur á Húsavík í Verkalýðshúsinu og byrjar fundurinn kl. 20. Sama fundarefni sömu framsögumenn


 
Þriðjudaginn 19. Ágúst verður fundur á Akureyri á Hótel KEA og byrjar fundurinn kl. 20 Sama fundarefni sömu framsögumenn.


Sjálfstæðisflokkurinn 2006-2008 - geggjaður málflutningur

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík býður þjóðinni upp á dellumeik. Það er ekki eitt, það er allt. Gamli góði Villi hóf vegferðina með því að taka snúning og plata Ólaf F. þegar hann átti trúnaðarsamtöl við Björn Inga Hrafnsson um myndun heilsteypts meirihluta sem byggður var á heilindum og trausti. Félagarnir áttu afar gott samstarf þar til upp úr sauð vegna REI-málsins en báðir mökuðu krókinn. Trúnaðurinn brást vegna þess að öðrum eða báðum fannst annar maka meira en hinn.

Við tók meirihluti framsóknarmanna og annarra og þá áttu sjálfstæðismenn ekki orð yfir óheilindum Björns Inga. Notuð voru stór orð um Björninn og svo stór að búast hefði mátt við krossfestingu. Þeir sáu sér leik á borði og skrifuðu án athugasemda undir kosningastefnu Ólafs F. Magnússonar og vörðu hana í 200 daga, hvort sem það var að punga út háum upphæðum fyrir gömlum húsum eða vera á móti Bitruvirkjun og brotthvarfi flugvallarins.

Skyndilega kom babb í bátinn þegar Hanna Birna skoraði ekki nógu hátt í skoðanakönnun. Þá ákvað hún að segja skilið við Ólaf þrátt fyrir að að hennar sögn hafi verið um mjög árangursríkt samstarf að ræða og taka upp samband við hirðsvein Björns Inga og skýringin er auðvitað sú að endurnýja samband við Framsóknarflokkinn sem var traust þangað til því lauk.

Í öllum þessum vaðli sem látinn er ganga úr barka sjálfstæðismanna yfir landsmenn er mikil hætta á því að orð í íslensku máli, s.s. traust, árangur og heilindi, missi upphaflega merkingu sína.


mbl.is Ólafur: Blekktur til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Marsibil skiljanleg

Þeir sem hafa unnið með eða nálægt borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins vita sem er að innan hans er gífurleg togstreita og spenna. Hefur hún hvað eftir annað komið upp á yfirborðið þrátt fyrir að borgarstjórnarflokkurinn njóti sérstakrar velvildar Fréttablaðsins þar sem fyrrum formaður flokksins ræður ríkjum. Hið sama má segja um Morgunblaðið og ríkissjónvarpið sem eru undir beinni stjórn varaformanns flokksins.

Það mun fljótt koma í ljós að nýi meirihlutinn mun tvístrast um leið og upp koma pólitísk álitamál. Hvað mun gamli góði Villi segja þegar Björn Ingi og Alfreð verða aftur komnir í Orkuveituna? Það skiptir kannski ekki öllu máli, heldur mun almenningi verða misboðið.

Hreinlegast væri fyrir Marsibil að segja sig af listanum. Það er óviðeigandi að þiggja laun sem varaborgarfulltrúi en taka svo ekki við störfum í nefndum og ráðum. Það kæmi mér ekki á óvart ef almennir framsóknarmenn hefðu fengið nóg af þessu ráðabruggi. Það þarf kosningar og nýtt blóð í borgarstjórn.


mbl.is Hleypir spennu í sambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin fær gula spjaldið

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum frá nánum samstarfsmanni Ólafs mun Ólafur F. Magnússon hafa boðið Hönnu Birnu í margra klukkustunda viðræðum í Ráðhúsinu að taka fyrr við sem borgarstjóri en samkomulag þeirra hljóðaði upp á. Nú hefur komið á daginn að viðræður Hönnu Birnu við Ólaf voru bara til málamynda á meðan verið var að þreifa á framsóknarmönnum.

Slit meirihutans snúast því ekkert um embættið eða persónur eins og Gunnar Smára eins og látið hefur verið í veðri vaka, heldur um málefni og að gefa Samfylkingunni gula spjaldið. Það er ljóst að af hendi Ólafs hefur hann verið nokkuð stífur gegn stóru peningaöflunum sem hafa viljað fara í Bitruvirkjun og gramsa í skipulagsmálum borgarinnar. Ekki er heldur hægt að líta framhjá því að margur sjálfstæðismaðurinn er orðinn dauðleiður á Samfylkingunni og með stjórnarskiptunum í borginni er Samfylkingin rækilega minnt á að á Alþingi hafa Framsókn og Sjálfstæðisflokkur nauman meirihluta eða 32 þingmenn og geta þess vegna myndað ríkisstjórn. 

Það er greinilegt að Dagur B. Eggertsson virðir spjaldið og vill ekki láta reka Samfylkinguna af velli en hann lætur ekki jafn ófriðlega nú og þegar 3. meirihluti var myndaður í byrjun ársins.

Það verður ákveðin prófraun á fjölmiðla og fréttaskýrendur hvort þeir láti þennan skilnað Ólafs og Hönnu Birnu snúast um mann sem er nýráðinn í tímabundna vinnu hjá borginni eða grafast sjálfir fyrir um það sem málið snýst raunverulega um. Ég er ekki ýkja bjartsýnn, a.m.k. ekki hvað varðar Fréttablaðið.


mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn besti dagurinn á árinu

Það er ekki mikil ánægja hjá fólki almennt með pólitískan farsa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem virðist engan endi ætla að taka. En ég þori að veðja að dagurinn er einn besti dagurinn sem Geir Haarde hefur átt á árinu, en í dag hefur hann getað haldið ótrauður áfram með fræga stefnu sína, þá að gera ekki neitt, og enginn sem truflar hann við þá iðju.

Ég vona svo sannarlega að þessi athugasemdi spilli ekki gleði hans.


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband