Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Þingið sem minnihlutinn kaus

Spennandi verður að fylgjast með störfum og afdrifum tillagna stjórnlagaþingsins. Nýstárlegt fyrirkomulag kosninganna með kostum sínum og göllum er í raun bein afleiðing af kreppu íslenskra stjórnmála. Fjórflokknum sem strandaði þjóðarskútunni hefur verið fyrirmunað að breyta stjórnarskránni að einhverju marki og sömuleiðis hefur hann togað og teygt skýr ákvæði eftir hentugleik, s.s. um málskotsrétt forsetans. Vissulega er það djarft að vera með tilraunastarfsemi í kosningum sem snúast um stjórnarskrá sem setur ríkisvaldinu mörk, skiptir því á milli valdastofnana, útbýr leikreglur um hvernig það skiptir um hendur en pattstaða fjórflokksins og hrunið bjó til þessa stöðu. 

Ég er ekki viss um að yfirvofandi verkefni hafi verið kjósendum ofarlega í huga þegar þeir kusu á þingið. Ég get t.d. ekki séð að Vilhjálmur Þorsteinsson, viðskiptafélagi Björgólfs Thors og baráttumaður fyrir greiðslu Icesave, eigi mikið erindi í þá vinnu.

Ég bind vonir við að stjórnlagaþingið skili jákvæðu framlagi í miðjum ruglanda og spillingu íslensks banka- og stjórnmálakerfis.

Forgangsverkefni stjórnlagaþingsins sem minnihlutinn kaus hlýtur að vera að afla sér trausts hjá miklum meirihluta þjóðarinnar og sömuleiðis tillögum sínum fylgis. 


mbl.is Íris Lind var næst inn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangur af stjórn Alþjóða hafrannsóknarráðsins er enginn

Sumir áhrifamenn í sjávarútvegi hafa haldið því fram að nauðsynlegt sé að koma böndum á makrílveiðar til þess að tryggja vistvænar og sjálfæra nýtingu! Sagan segir okkur að stjórnun Ices og reiknisfiskifræðinnar sem hún byggir á hefur ekki fært sjómönnum annað en aukinn niðurskurð á aflaheimildum.  Að sama skapi hefur meint ofveiði vaxið stöðugt eftir því sem færri bátar eru á sjó og færri fiskar koma á land.

 Nýlegt er dæmið um stjórn á kolmunnaveiðum sem sýnir algert árangursleysi og tjón þess að fara eftir svokallaðri vísindaráðgjöf reiknisfiskifræðinga.  Ekki lágu fyrir neinir samningar um veiðar á kolmunnanum fyrr en í árslok 2005 og var þar með komið í veg fyrir það sem kallað voru stjórnlausar veiðar.


mbl.is Ekki samkomulag um makríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgjöf Hafró ekki hafin yfir gagnrýni

Furðu sætir að Ásbjörn Óttarsson útgerðar- og þingmaður skuli ráðast persónulega að þeim sem gagnrýna Hafró en ekki efnislega að gagnrýninni. Ásbjörn hefur víst ekki sjálfur úr háum söðli að falla með sínar ólöglegu arðgreiðslur í farteskinu.

Ég hefði talið nær að kastljós fjölmiðlanna og þingmanna beindist að því að forstjóra Hafró og sérfræðingum stofnunarinnar sé ætlað að yfirfara vafasama ráðgjöf stofnunarinnar sem hefur ekki skilað þjóðinni öðru en minni afla og stórtjóni.

Það mín skoðun áhrif neikvæð áhrif dragnótarinnar séu mögnuð upp en engu að síður þá er rétt að heimamenn fái að vera ráðandi um hvaða veiðiskapur er stundaður inn á fjörðum.  Reyndar er löngu tímabært að stjórnvöld aflétti ónauðsynlegum atvinnuhöftum og auki veiðiheimildir og gefi handfæraveiðar frjálsar.

 


mbl.is Yfirlýsing frá Jóni Bjarnasyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisbanki undir stjórn Steingríms J. greiðir götu grunaðra fjárglæframanna

Kastljós kvöldsins greindi frá því að banki að fullu í eigu íslenska ríkisins væri að greiða götu grunaðs fjárglæframanns í viðskiptum með sameign íslensku þjóðarinnar. Ekki er þetta í fyrsta sinn sem að fyrirtækið Stím kemst í kastljós fjölmiðlanna síðustu daganna en forstjóri Saga var í ströngum yfirheyrslum í síðustu viku vegna viðskipta með bréf Stíms.

Stím var mjög til umræðu fyrir tveimur árum þegar ljóst var að félagið hafði fengið tugi þúsunda milljóna að láni til að standa í blekkingarleik í aðdraganda hrunsins. 

Steingrímur J. Sigfússon sem hikar ekki við að hækka skatta og skera niður heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hlýtur að þurfa að svara því hvers vegna að lætur ríkisbanka greiða götu grunaðra fjárglæframanna.


Var formaður fjárlaganefndar í spreng?

Í morgun þá hlotnaðist mér sá heiður að fá að fylgjast með "störfum" fjárlaganefndar Alþingis  í gegnum fjarfundarbúnað. Á dagskrá nefndarinnar var að fara yfir álitsgerð Daggar Pálsdóttur um skerðingu á réttindum sjúklinga vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. 

Dögg fór skilmerkilega í stuttu en hnitmiðuðu máli yfir vel rökstudda greinargerð sína og Bjarni Jónsson forseti sveitarstjórnar gerði sömuleiðis vel grein fyrir afdrifaríkum afleiðingum niðurskurðarins fyrir samfélögin og stofnanir.

Næst var komið að ræðuhöldum þingmanna þar sem þeim var m.a. gefinn kostur á að spyrja út í álitsgerð Daggar og nýttu einstaka þingmenn það ágætlega s.s. Kristján Þór Júlíusson. Björn Valur Gíslason setti hins vegar á mikil ræðuhöld um  sinn gamla heimabæ Ólafsfjörð og heimspekilegar og djúpar vangaveltur um það hvort að það hafi verið brotin á sér mannréttindi sem barni, þar sem aðgangur að sjúkrahúsum hafi verið takmarkaðri þar en t.d. á Akureyri.  Inn í þessar pælingar fléttaði varaformaður fjárlaganefndar margvíslegar og oft flóknar spurningar sem erfitt var að henda reiður á.

Ræðuhöld Þórs Saari komu mér einna mest á óvart en tók á fundinum tók hann einarða afstöðu með vanhugsuðum niðurskurðartillögum sem runnin eru undan rifjum AGS.  Taldi þingmaðurinn tillögurnar sem rústa heilbrigðisþjónustu í heilu landshlutunum góðar til að vekja fólk upp og jafnvel koma því inn í nútímann.

Þegar hér var komið við sögu þá var komið að kaflaskiptum og gestum fundarins ætlað að veita svör við spurningum og heimspekilegum ræðum þingmanna.  Áður en gestum gafst færi að ljúka upp raust sinni þá tók formaður fjárlaganefndar það skýrt fram að nánast enginn tími væri til þess að svara og var engu líkara en hún væri í miklum spreng og yrði að komast sem fyrst út af fundi til að létta á sér.

Á þeim örstutta tíma sem gestum gafst til svara náði þó að leiðrétta ákveðna vanþekkingu og misskilning þingmanna á staðháttum s.s. benti yfirlögregluþjónninn á Sauðárkróki Stefán Vagn Stefánssyni, Þór Saari á að það tæki talsvert lengri tíma en hálftíma þrjúkorter að keyra frá Sauðárkróki og til Akureyrar enda er vegalengdin rúmir 120 km og yfir fjallveg að fara.

Ég var nokkuð undrandi á léttúð sumra þingmanna og áhugaleysi þeirra á að fá svör við þeim spurningum sem þeir þó spurðu á fundinum, sérstaklega í ljósi alvarleika málsins.  Löngu tímabært er að sjónvarpa á netinu frá fundum þingnefnda en ég er viss um að ef almenningur í Skagafirði og Þingeyjarsýslum hefði getað fylgst með fundinum þá hefði bæði verið mikið áhorf og annar bragur á fundinum.  

 

 

 

 

  


Spákaupmennska "Norrænu velferðarstjórnarinnar"

Steingrímur J. Sigfússon snaraði á fimmta tug milljarða króna lánveitingu til fjármálafyrirtækjanna Saga Capital og VBS  í upphafi valdaferils síns sem fjármálaráðherra.  Lánið var sannkallað vildarlán með 2% vöxtum á sama tíma og bestu lán til almennings voru þrefalt dýrari.

Spákaupmennska Steingríms J. og Samfylkingarinnar hefur ekki reynst ábatasöm fyrir ríkissjóð en áðurnefnt VBS fór fyrir nokkru í þrot og stjórnendur Sögu virðast vera flæktir í misferli sem gæti reynst fjármálafyrirtækinu afdrifaríkt. Sama má segja um 12 milljarða króna reddingar ríkisstjórnarinnar til Sjóvár en því miður lítur út fyrir að talsvert að umræddum fjármunum tapist.

Þó svo að ríkisstjórninni hafi ekki tekist vel upp í milljarða braski sínu til að blása lífi í fjármálafyrirtækin þá er ekki annað hægt en að játa að stjórninni hefur tekist aðdáunar vel við að komast hjá því að útskýra brallið fyrir almenningi.


mbl.is Verður áfram forstjóri Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesaveprestur Steingríms J. og Samfylkingarinnar með reglulega helgistund á RÚV

Þórólfur Matthíasson prófessor rak harðan áróður gegn hagsmunum landsins í Icesavedeilunni. Áróður Þórólfs hafði það að markmiði að greiða fyrir einbeittum og  úrkynjuðum vilja Samfylkingarinnar og Steingrímsarms Vg til þess að skuldbinda þjóðina til að greiða ólögvarðar kröfur útlendinga.  Nú liggur í loftinu enn einn samningur Steingríms J. og Samfylkingarinnar sem verður örugglega sagður jafn glæsileg niðurstaða og Svavarssamningurinn ömurlegi.  Enn á ný á að leika þann sérkennilega leik að láta Þórólf Matthíasson mala um lífsnauðsyn þess fyrir Þjóðina að greiða Icesave. Engu virðist skipta hversu krafan sem átti að greiða í beinhörðum gjaldeyri væri há, jafnvel þó svo upphæðin svaraði til útgjalda ríkissjóðs í heilt ár - prófessorinn vildi borga. Þessi sami prófessor Samfylkingarinnar sá mikla ógn fyrir örfáum vikum við efnahag þjóðarinnar, ef að komið væri á móts við skuldugan almenning með almennum aðgerðum sem voru þó umtalsvert lægri en ósanngjörn Icesavekrafan.

Þórólfur Matthíasson virðist fá ótakmarkaðan aðgang að RÚV til þess að halda sínar eldmessur gegn hagsmunum Íslendinga þar sem fátt er um gagnrýnar spurningar heldur frekar reynt að fá einhverja til að kyrja með Samfylkingarprestinum.  Í Speglinum í kvöld var m.a. fenginn í sönginn með Þórólfi talsmaður CCP en umfjöllun um annars ágætt fyrirtæki er jafnan sett í mikinn ljóma í fjölmiðlaumræðunni.  Í frekari vitnaleiðslum í Speglinum um hvað sé að gerast í heimi viðskiptanna væri ekki úr vegi að hafa það í huga að fyrirtæki á Sauðárkróki einum afla umtalsvert hærri afla tekna í erlendum gjaldeyri en leikjafyrirtækið CCP veltir í fjórum löndum.

Það liggur í augum uppi að það sem rekur á eftir Samfylkingunni og Steingrímsarminum í Icesavemálinu, er að eitthvað truflar málið aðildarviðræður inn í dýrðarsambandið ESB, þar sem hægt er að sækja um styrki og bætur.


mbl.is VG tekst á um ESB-inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin stuðlar að sjálfsrannsókn

Algerlega augljóst er að aflaregla Hafró hefur alls ekki skilað neinum árangri. Reglan felur í sér að veiða fyrirfram ákveðið hlutfall af reiknuðum veiðistofni en nú gildir að veiða 20% af stofni. Hún var í fyrstu tekin í gagnið snemma á tíunda áratugnum en þá var þorskaflinn tvöfalt meiri en hann er núna.

Reynslan af aflareglunni og veiðiráðgjöf Hafró er einfallega hræðileg - það blasir við öllum sem fer yfir aflatölur á íslandsmiðum.

Umhugsunarvert er að sjávarútvegsráðherra felur einum af höfundum aflareglunnar Kristjáni Þórarinssyni stofnvistfræðingi LÍÚ að meta kosti reglunnar. Sömuleiðis er Jóhanni Sigurjónssyni sem áður hefur tekið út aflaregluna í kjölfar þess að mönnum blöskraði árangursleysi veiðiráðgjafarinnar upp úr síðustu aldamótum. 

Jóhann komst að því að reglan skilaði árangri þrátt fyrir aflinn væri þá liðlega eitthundrað þúsund tonnum minni en þegar reglan var tekin í notkun.  Ekki finnst mér ólíklegt að þeir félagarnir Kristján og Jóhann sjái mikinn "árangur" af staðfastri ráðgjöf sinni sem felst í því að veiða minna til að veiða meira seinna, þó svo að þetta seinna hafi aldrei komið og aðferðin stangist á við viðtekna vistfræði.


mbl.is Meta kosti aflareglu og kvótaaukningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðbjartur Hannesson kvartar

Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra kvartar sáran á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins undan málefnalegri umræðu sem studd er vönduðum útreikningum, sem sýna berlega fram á hve algerlega vanhugsaðar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar eru. 

Ráðherra segir að vel rökstudd umræða sé á misskilningi byggð og á villigötum!  Ef eitthvað væri til í áburði ráðherra, þá hefði verið auðhlaupið fyrir ráðherra að boða viðkomandi aðila á fund sem hann sakar um villu og misskilning.  Heilbrigðisráðherra hefur ekki enn treyst sér til þess og hefur í ofan á lagt sjálfur orðið uppvís að vægast sagt mjög vafasömum málflutningi.

 


Endanleg lausn á Skagfirðingavandamálinu?

Fyrir dyrum stendur stórfelldur niðurskurður á fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Hringinn í kringum landið hafa forráðamenn og velunnarar heilbrigðisstofnana leitað eftir röksemdum fyrir vanhugsuðum niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar en sterk rök hníga til þess að þau muni leiða til kostnaðarauka annars staðar í heilbrigðiskerfinu.  

Fátt hefur verið um svör hjá stjórnvöldum en Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra Samfylkingarinnar hafði sig þó í það að skrifa Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki stórundarleg skilaboð þar sem ekki aðeins birtast rangfærslur heldur má einnig sjá glitta í hótanir í garð Skagfirðinga.    

Ráðherrann fullyrðir ranglega að á umliðnum árum hafi verið farið í flatan niðurskurð á heilbrigðiskerfinu og að ekki hafi komið fram neinar tillögur eða hugmyndir að niðurskurði frá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Staðreyndin er sú að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki mátti þola tvöfalt meiri niðurskurð á yfirstandandi ári en almennt var hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar hefur þegar gert grein fyrir sínum sparnaðartillögum. Sömuleiðis óskaði sveitarstjórn Skagafjarðar þann 4. október eftir fundi með ráðherra þar sem farið yrði yfir málefni Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Ráðherra hefur ekki enn séð sér fært að hitta sveitarstjórnina þrátt fyrir að hann kvarti þegar færi gefst yfir því að fá engar tillögur og ráð!

Í skrifum ráðherra til Hollvinasamtakanna eru orð sem verða vart skilin með öðrum hætti en sem hótanir en þar spyr Guðbjartur eftirfarandi spurninga þegar hann auglýsir eftir tillögum sem hann hefur þegar fengið:  

Á ég að líta svo á að engar nýjar tillögur séu staðfesting á að þetta megi vera eins og fjárlög gera ráð fyrir???? Er hin endanlega og varanlega lausn fundin í Skagafirði, einum staða? 

Það er rétt að taka það fram að sú „lausn“ sem Guðbjartur er að tala um fyrir Skagfirðinga er að rústa stofnuninni með 30% niðurskurði.

Mér finnst vinnubrögð og svör þingmannsins og ráðherra ekki sæmandi gagnvart umbjóðendum sínum sérstaklega í ljósi þess að í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga  gaf hann út hátíðleg loforð um að gæta sérstaklega að jafnvægis á milli Höfuðborgar og landsbyggðar. 


Næsta síða »

Bloggvinir

***VILLA:*** DBD::Pg::db selectall_arrayref failed: ERROR: remaining connection slots are reserved for non-replication superuser connections CONTEXT: parallel worker at /home/webdba/perl5/site-perl/DBD/Mbl.pm line 269. Stack: [/home/webdba/perl5/site-perl/DBD/Mbl.pm:269] [/home/webdba/mason/bmm/lib/data/column/categories-box:9] [/home/webdba/mason/bmm/lib/column/categories-box:21] [/home/webdba/mason/bmm/lib/column/categories-box:23] [/home/webdba/mason/bmm/lib/process_div_tree:36] [/home/webdba/mason/bmm/lib/process_div_tree:23] [/home/webdba/mason/bmm/lib/ah/default:214]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband