Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Heróínsamfélagið

Ein helsta orsök hrunsins er gríðarleg skuldasöfnun, og var hún svo gríðarleg að þjóðin sló hvern einasta jarðarbúa um 2.000 krónur. Þessum peningum var síðan spanderað hingað og þangað í misgáfuleg verkefni sem hafa gefið mismikið af sér eins og fram hefur komið í fréttum.

Einna óhuggulegast er að helstu „máttarstólpar samfélagsins“, s.s. ráðandi stjórnmálaöfl og talsmenn atvinnuleysis, telja fólki trú um að helsta leiðin út úr bráðum efnahagsvanda sé að taka ný lán hjá Rússum og Norðurlandaþjóðunum og telja að nauðsynlegt sé að skrifa upp á Icesave-samninginn þó að óvíst sé hversu miklar skuldbindingar hann feli í sér. Jafnvel er fullkomin óvissa um að þjóðin geti staðið við samninginn. Helsta röksemdin fyrir að skrifa upp á ríkisábyrgð fyrir samningnum er að þá fáist frekari lán!

Þetta minnir á heróínsjúkling sem vill fá skammtinn sinn, hvað sem það kostar. „Máttarstólparnir“ vilja fá lánin sín, sama hvað það kostar. Það að ætla að ræða það hvernig auka megi tekjurnar, t.d. með auknum veiðum, er talin óábyrg umræða. Sumir telja jafnvel ábyrgt að gefa frá sér fiskimið með inngöngu í ESB til að greiða fyrir næsta lánaskammti.

Er ekki tímabært að fara að láta renna af sér? Í dag eru 10 mánuðir síðan skuldirnar hrundu yfir þjóðina.


Why Ásgeir Jónsson?

Mér finnst koma úr hörðustu átt að sjá Ásgeir setja sig spor hlutlauss fræðimanns og greinanda í hverju viðtalinu á fætur öðru. Hann segir núna að bankarnir hafi verið dauðadæmdir en samt sem áður hélt hann áfram blekkingarleiknum af fullum krafti í boði Sigurðar Einarssonar út árið 2008. Ekki var hægt að heyra annað á honum þá en að hér væri allt í lukkunnar velstandi.

Í þessum viðtölum sem Ásgeir hefur veitt núna út af bókinni, hvort sem er í Speglinum eða á prenti, bullukollast hann og fréttamenn skrúfa frá krananum í stað þess að spyrja gagnrýninna spurninga. Bara til að nefna eitt talar Ásgeir um að þorskstofninn hafi hrunið 1988 og nefnir það sem dæmi um upphafið að ógæfu þjóðarinnar. Staðreyndin er hins vegar sú að veiðin gekk ágætlega 1988, var í kringum 380.000 tonn, sem sagt vel ríflega tvöfalt meiri en þau 150.000 sem leyft er að veiða nú.

Ásgeir hefur á umliðnum árum verið iðinn við að senda frá sér kenningar um byggðaþróun þar sem hann yfirfærir þróun byggða í stóru löndunum yfir á litla Ísland þar sem aðalútflutningstekjurnar hafa verið fiskurinn í sjónum. Niðurstöður Ásgeirs af þessum vangaveltum hafa verið að þróun byggðar á Siglufirði hafi átt undir högg að sækja, að vegna minna mikilvægra sjóflutninga hafi aðrir bæir blómstrað, s.s. Borgarnes og Sauðárkrókur.

Hverjum sem veltir þessu fyrir sér og þekkir eitthvað til atvinnuhátta á Siglufirði er strax ljóst að þetta er gapandi rugl þar sem síldveiðar og þróun annarra fiskveiða hafa augljóslega haft mest áhrif á þróun byggðar á Sigló.

Why Ásgeir?


Trúboði á ÍNN kynntur sem hlutlaus sérfræðingur á RÚV

Omega og ÍNN eru forvitnilegar sjónvarpsstöðvar og áhorfendur velkjast ekkert í vafa um það á hvaða stefnumiðum stjórnendur róa, hvort sem um er að ræða Eirík Sigurbjörnsson eða Ingva Hrafn Jónsson. Mér finnst að það eigi að gera aðrar kröfur til ríkismiðilsins, m.a. út af nefskattinum til hans, að ég tali nú ekki um vegna þeirra krafna sem koma fram í lögum um Ríkisútvarpið ohf. um að gæta ,,fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð" og ,,veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða" (II. kafli, 3. gr.).

Mér fannst í nokkuð einhliða umfjöllun RÚV áðan skorta nokkuð á fagmennsku þá sem ÍNN og Omega gera sig venjulega ekki sekar um, þ.e. þær stöðvar koma til dyranna eins og þeir eru klæddar. Helsti ,,hlutlausi" sérfræðingur RÚV um áhrif aðildar Íslands að ESB var enginn annar en Aðalsteinn Leifsson sem hefur birst með síbyljuáróður í gervi upplýsinga á ÍNN-sjónvarpsstöðinni.

Dagskrárgerðarmönnunum var vissulega vandi á höndum við gerð þáttarins sem fjallaði um víðtæka hagsmuni þjóðarinnar á hálfri klukkustund. Þeim er vorkunn. Það kom mér þó á óvart hve hátt undir höfði skógarhöggsiðnaðinum var gert.


Ríkisstjórnin lætur undan þrýstingi

Það er algjörlega óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ætla að taka Icesave-málið út úr nefnd á svo viðkvæmu stigi. Ríkisstjórnin er augljóslega að láta undan útlendum þrýstingi, s.s. hollenska utanríkisráðherrans. Það er eftirtektarvert að þingmenn Samfylkingarinnar virðast vera æstir í að samþykkja þetta sem allra fyrst, en þeir hafa sjálfir samviskubit yfir sofandahætti sínum á meðan Icesave-æxlið óx. Þeir virðast vera reiðubúnir að láta þjóðina og komandi kynslóðir blæða.

Þingmenn Vinstri grænna virðast sumir hverjir ekki átta sig á málinu og hafa jafnvel látið sig hverfa á sjóinn eða annað þegar málið er til umfjöllunar.

Það grátlegasta í stöðunni er að þeir sem bera mestu ábyrgðina á hruninu og sátu ekki einungis við spilaborðið heldur útdeildu spilapeningum og tóku jafnvel til sín líka - drjúgur hluti af þingflokki Sjálfstæðisflokksins - standa nú ásakandi með vísifingurinn reiddan og benda af offorsi á þá sem ætla nú að fara leiðina sem þeir stungu sjálfir upp á í október.

Þjóðin á betra skilið, m.a. að farið sé gaumgæfilega yfir stöðuna, og mörg hundruð milljarða ábyrgð rædd í þaula. Liðið sem grét sig inn á þing og þóttist öllu ætla að bjarga ætti að sjá sóma sinn í að mæta í vinnuna.


Kristján Möller besti ráðherrann

Nú hefur ríkisstjórn Jóhönnu starfað lítt breytt um nokkurt skeið og vert að velta því upp hver ráðherranna hafi staðið sig best. VG-ráðherrarnir hafa valdið gríðarlegum vonbrigðum, sneru öll nema Jón við blaðinu í grundvallarstefnu flokksins og sviku þar með kjósendur.

Jón sem var andstæðingur kvótakerfisins er hins vegar orðinn kvótaóður eftir að hann settist í stól sjávarútvegsráðherra og hefur m.a. sett tegundir í kvóta sem hafa ekki verið fullnýttar og stöðvað veiðar á makríl.

Kata litla fylgir aðalritaranum í blindni enda er hún upptekin við að byggja dýrindis tónlistarhús.

Gylfi hélt að hann væri að fá lottóvinning þegar Svavar Gestsson mætti með Icesave-gjörninginn og Ragna nær helst áttum þegar Jolie mætir í Kastljósið. Þá sér hún að sitthvað er athugavert við að liðið sem setti landið á hausinn valsi inn og út úr landinu á einkaþotum.

Samfylkingin er eins og sértrúar-költ sem bíður eftir að það birti yfir Íslandi hvað úr hverju vegna þess að hún sendi umsóknina til Brussel. Það kemst mest lítið að hjá öðrum, nema þá helst Árna Páli sem er á fullu við að klípa af gamla fólkinu og setja upp eftirlitssveitir til að klófesta stórhættulega örorkubófa.

Eini ráðherrann sem virkilega stendur undir væntingum er Kristján sem heldur allur sjó. Hann hefur gefið út að Vaðlaheiðargöng séu framar á forgangslista en tvöföldun Suðurlandsvegar. 


Evrópusambandið og Ísland

Hættan af því að Íslendingar missi yfirráðaréttinn yfir fiskveiðiauðlindinni við inngöngu í ESB hefur talsvert verið í umræðunni. Sanntrúaðir fylgismenn Evrópusambandsins hafa gert lítið úr þessari hættu og látið jafnvel í veðri vaka þá barnalegu skoðun að Íslendingar muni við inngöngu ráða meira og minna því sem þeir vilja í sjávarútvegsstefnu ESB. Íslendingar ættu að þekkja manna best raunverulega hættu af því þegar fiskveiðiheimildir eru seldar landshorna og jafnvel landa á milli enda hafa íslenskar útgerðir keypt upp fiskveiðiheimildir annarra þjóða, s.s. úthafskvóta Breta og Þjóðverja, og vita að ef farið yrði eftir sömu leikreglum, þ.e. leikreglum ESB, hvað varðar íslensku fiskimiðin gætu þau þess vegna lent í höndunum á Grikkjum eða Bretum.

Í sjálfu sér væri hægt að girða fyrir mesta skaðann af því ef samið yrði um þá ófrávíkjanlegu reglu að öllum afla sem veiddur yrði á Íslandsmiðum yrði landað í íslenskum höfnum og hann boðinn þar upp.
Íslendingar geta einnig gengið út frá því sem vísu að hval- og selveiðar heyri sögunni til ef við göngum í Evrópusambandið. Það sem er þó allra allra verst er að áhrif sérfræðinga sem reikna stöðuga ofveiði á nánast öllum hafsvæðum sem þeir rannsaka eru miklu sterkari í Evrópusambandinu, og sjómenn og aðrir þeir sem nýta auðlindina hafa miklum mun minna um leikreglurnar að segja en hér á Íslandi, og hvað þá í Færeyjum. Í Evrópusambandinu eru t.d. áhrif græningja á regluverkið gríðarlega mikil. Ef farið er yfir nýlega reglugerð Evrópusambandsins nr. 1342/2008, um veiðar í Norðursjónum, Kattegat, Skagerak, vestur af Skotlandi og Írska hafinu, sem er afrakstur reglugerðabáknsins í Evrópusambandinu, sést að sjómönnum verður nánast meinað að draga þorsk úr sjó á næstu árum. Rauði þráðurinn í regluverkinu er ekki að um undirstöðuatvinnugrein sé að ræða heldur starfsemi sem beri fyrst og fremst að hefta og setja þröngar skorður.

Það er ekki einungis ætlunin að stjórna með kvótum, heldur einnig með flókinni sóknarstýringu. Reglurnar eru það flóknar að veiðar eru ekki einungis takmarkaðar út frá umdeildum stofnstærðarmælingum heldur er einnig  notaður til grundallar svokallaður fiskveiðidánarstuðull um hvort og þá hvað megi veiða, en hann er einungis reiknaður út frá mjög umdeildum rannsóknaveiðum. Aukinheldur verða reglurnar æ flóknari og veiðarfæri eiga að miða að því að sniðganga þorsk.

Áhyggjuefni mitt í oft og tíðum billegri umræðu íslenskra stjórnmálamanna, fjölmiðlunga og stéttar álitsgjafa er að mjög fáir hafa sett sig inn í þær leikreglur sem gilda um fiskveiðar í Evrópu og munu örugglega verða undirstöðuatvinnugrein Íslendinga fjötur um fót.

Grein sem birtist í Fréttablaðinu.


Nýtt sjórán við Vestmanneyjar

Nú er það ekki Tyrkinn sem rænir Vestmanneyjar heldur er það makríllinn sem Steingrímur J. friðaði í vor, sem afétur lundann.  Í vetur sem leið var það Einar K. sem friðaði sýkta síld sem engum var til gagns sem gæddi sér á sandsílinu í samkeppni við sjófugla.  

Niðurstaðan í áætlanabúskapnum er síðan að friða soltinn lundann líka, þannig að Eyjamenn fá ekki lundann sinn á þjóðhátíð. 

 


mbl.is Sjórinn hreinlega kraumaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atkvæðagreiðslan sem Alþingi tapaði

Stjórnmálastéttin reið ekki feitum hesti frá í dag. Sjálfstæðisflokkur og þó einkum Framsóknarflokka koma mjög laskaðir út úr deginum en varaformenn beggja flokka fóru gegn formönnum sínum. Vinstri grænir eru eins og fjaðralausar pútur eftir daginn, flokkurinn verður örugglega lengi að ná áttum ef hann nær því nokkurn tímann eftir að hafa farið gegn grunnstefnumiðum sínum.

Einhver kann að líta svo á að Samfylkingin hafi náð sínu í gegn og sigrað en það felst varla sigur í því að hafa stórskaðað samstarfsflokkinn þannig að hann verður vart stjórntækur á næstu mánuðum og árum. Samfylkingin hefur verið staðin að stórkostlegum óheiðarleika, m.a. að fela skýrslur sem geta haft áhrif á afstöðu manna.

Hvað varðar þann draum að ganga inn í náðar-Icesave-faðm Evrópusambandsins leyfi ég mér að efast um að við séum nokkru nær því í dag en í gær.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra er að vita en að halda

Í gær fjallaði ég um vítamínskortinn í fuglum og setti hann í samhengi við stjarnfræðilega vitlausar rannsóknir. Ég fékk senda skýrsluna um B-vítamínskort í fuglum og sá þar að ég hafði dregið fullmiklar ályktanir um efni rannsóknarinnar, m.a. út af misvísandi fréttaflutningi um efni skýrslunnar. Í fréttum kom fram að í skýrslunni segði að B-vítamínskorturinn væri skýringin á dularfullum sjófugladauða á Íslandi. Af lestri skýrslunnar sýnist mér að íslensku fuglarnir séu viðmið fyrir heilbrigða fugla og að í skýrslunni sé ekki fjallað um sjófugla heldur stara, æðarfugl og silfurmáv.

Þetta er áhugaverð skýrsla sem ég þyrfti að gefa mér betri tíma í að lesa í þaula.


Hvaðan kemur vítamínið?

Þær eru oft furðulegar, kenningarnar sem rata í fjölmiðla. Fyrir nokkru var ein um úrkynjun þorsksins á Íslandsmiðum og svo var umfjöllun um sænska vísindamenn sem gátu reiknað út stofnstærð þorsksins í Eystrasaltinu fyrir 4500 árum.

Í dag fjallaði Ríkisútvarpið ítarlega um sænska rannsókn þar sem greint var frá því að sjófuglar dræpust ekki úr fæðuskorti heldur vítamínskorti. Hvaðan í ósköpunum skyldu mávarnir fá þessi ágætu vítamín annars staðar en úr fæðunni? 

Þetta er svona álíka og að þvertaka fyrir það að einhver drepist eða að einhver dýr séu þjökuð af þurrki þar sem meinsemdin er vatnsskortur. Ég hef ekki kynnt mér þessa rannsókn en gæti trúað að það væri nokkuð flókið að kryfja dauða fugla og fullyrða að það væri skortur á vítamínum, B-1, þíamíni sem aðstoðar við að brjóta niður orkurík efni, sem í sjálfu sér veldur dauða þeirra.


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband