Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Snaran í blaði Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Ég var að koma úr mat og sá þá að mér hafði borist heim prófkjörsbæklingur Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar var fríður hópur fólks sem vildi koma að endurreisninni en nánast enginn sá ástæðu til eða tækifæri í að breyta kvótakerfinu í sjávarútvegi sem hefur verið liður í virkri stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins og gert sitt til að leggja sjávarbyggðir í rúst.

Það var ein undantekning frá þessari reglu, knattspyrnukappinn Þórður Guðjónsson, en það sem hann hafði til málanna að leggja var að tryggja áframhaldandi kerfi sem viðheldur mannréttindabrotum með þeim rökstuðningi að það væri brýnt að tryggja uppbyggingu og hagræðingu í fiskveiðistjórnunarkerfi undanfarinna ára.

Það er greinilegt að maður hefur bara verið úti á túni að sparka í bolta. Að minnsta virðist hann ekki hafa hugmynd um að skuldir greinarinnar hafa margfaldast en tekjur staðið nánast í stað, búið er að girða fyrir nýliðun í greininni og þjóðin veiðir einungis þriðjung þess afla sem heimill var ÁÐUR en farið var í svokallað uppbyggingarstarf.


Sjálfstæðisflokkurinn úr öskunni í eldinn

 Örugglega hafa margir verið hugsi yfir úrslitum prófkjara Sjálfstæðisflokksins um helgina, nokkrum mánuðum eftir að stjórnarstefna flokksins til síðustu 18 ára hefur kallað yfir þjóðina hrun fjármálakerfisins, háa verðbólgu, gjaldeyrishöft, atvinnuleysi og almenna vantrú á stofnunum samfélagsins. Úrslitin í Reykjavík og Kraganum bera með sér að menn hafa verið valdir til forystu sem hafa stjórnað glórulausri skuldsetningu og kaupum á fyrirtækjum fyrir tugi milljarða, s.s. N1 Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson sem tók þátt í sukkinu í kringum Glitni þar sem sparnaður gamla fólksins var settur inn í glæfraáhættufélag eins og FL Group. Það var ekkert minna en brjálæðislegt. Ríkissjóður var svo látinn hlaupa undir bagga með tugmilljarðaframlagi til að bjarga sjóðnum.

Í 2. sæti í Norðausturkjördæmi lendir síðan Tryggvi Þór Herbertsson sem taldi jöklabréfin, sem eru helsta ástæða gjaldeyrishaftanna á Íslandi, jákvæð á sínum tíma og til vitnis um styrk íslensks efnahagslífs. Hann bjó til Mishkin-skýrsluna þar sem öllum ábendingum um veikleika íslensks efnahagslífs var vísað á bug sem og sérstaka skýrslu um að samráð olíufélaganna hefði ekki valdið íslensku samfélagi stórvægilegu tjóni.

Er þetta hópurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn býður landanum upp á að eigi að stjórna endurreisninni?


mbl.is Kristján leiðir í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var HB Granda leyfilegt að greiða arð?

Fólki hefur í gær og í dag orðið tíðrætt um gríðarlegar arðgreiðslur HB Granda á sama tíma og félagið hefur ekki treyst sér til að standa við gerða kjarasamninga. Ég ákvað í kvöld að gera hlé á áhugaverðum fundarstörfum á landsþingi Frjálslynda flokksins og renna stuttlega í gegnum ársreikninga HB Granda. Þá kom í ljós að félagið gerir upp í evrum og notar, einhverra hluta vegna, gengi evrunnar í árslok 2007 en ekki árslok 2008.

Við þetta eitt má ætla að gengistap hafi verið margfalt reiknað niður miðað við að nota gengi evrunnar í lok árs 2008 eins og eðlilegt hlýtur að teljast við uppgjör þess árs. Ef það hefði hins vegar verið gert væri vandséð að það væri hagnaður af félaginu, ef ekki væri hagnaður væri óleyfilegt að greiða út arð.

Því spyr ég: Var HB Granda yfirleitt leyfilegt að greiða arð?


Mannréttindabrot fjórflokksins

Ég hef fylgst nokkuð með prófkjörsbaráttu fjórflokksins undanfarið. Nánast allir frambjóðendur hafa forðast að ræða mannréttindabrot á sjómönnum og endurskoðun á kvótakerfinu sem markaði án efa upphaf hrunsins. Þetta er fáránlegt í ljósi þess að allir frambjóðendur tala um að hefja endurreisn nýja Íslands þar sem endurreisninni fylgir endurskoðun.

Ég las mig í gegnum einn bækling efnilegrar sjálfstæðiskonu í Reykjavík þar sem margendurtekið voru orðin Ísland og Íslendingar og talið að í ljósi ástandsins væri nauðsynlegt að hefja sjálfstæðisstefnuna til vegs og virðingar á ný.

Maður spyr sig hvaða stefna þessi kona telji að hafi verið í gangi hjá Sjálfstæðisflokknum síðustu 18 árin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið ríkjum, stefna sem hefur rústað sjávarútveginum, landsbyggðinni og nú síðast fjármálakerfinu og komið óorði á land og þjóð.

Þeir flokkar sem ætla sér raunverulegar breytingar hljóta að verða að ætla að gera eins og Frjálslyndi flokkurinn, þ.e. að taka á mannréttindabrotunum. Annað er meðvirkni og ávísun á áframhaldandi vitleysisgang.


Riggum upp seglunum!

Nú er að kýla á það. Það eru gríðarleg sóknarfæri fyrir Frjálslynda flokkinn, sérstaklega í Norðvesturkjördæminu. Það hefur allt komið í ljós sem Frjálslyndi flokkurinn sá fyrir um kvótakerfið, verðtrygginguna, ofurlaunin og bankaruglið.

Við bentum ítrekað á leiðir til að komast út úr þeim kerfum sem komu þjóðinni í þá stöðu sem hún er í núna og það blasir við kjósendum í Norðvesturkjördæmi að það verður að breyta um kúrs, leiðrétta mannréttindin og veita sjávarbyggðunum atvinnufrelsi á ný.

Eina rökrétta niðurstaðan er að Frjálslyndi flokkurinn fái meirihluta þingmanna í Norðvesturkjördæminu, að fólk taki þá skynsamlegu ákvörðun að kjósa með sjálfu sér!

Takk fyrir liðsinnið.


mbl.is Sigurjón náði 2. sætinu hjá Frjálslyndum í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ormarnir hennar Evu Joly

Íslenskt samfélag er hræðilega meðvirkt, enn hefur enginn víkinganna verið tekinn til yfirheyrslu þótt þeir hafi stefnt efnahag landsins í glötun. Það var mikil sátt um stofnun sérstaks embættis sérstaks saksóknara sem fékk næstum enga fjármuni og í ofanálag næstum tómar möppur og engan samstarfsvilja annarra ríkisstofnana þegar til kastanna kom.

Til að hrista eitthvað upp í þessu þurfti Egill Helgason að kalla á þessa mætu manneskju í þátt sinn sem benti á að þessi rannsókn sem (ekki) færi fram væri djók. Það er eins og að þótt raddir þess efnis hefðu heyrst, m.a. úr mínum barka, að þetta væri ódýrt yfirklór, nánast kattarþvottur, væri ekki á þær hlustað. Núna skyndilega er Eva orðin ráðgjafi og það ræðst örugglega í næstu viku hvort ráðning hennar er raunverulegur ásetningur stjórnvalda í að taka á málum eða hvort málið hafi verið einungis að bregðast við þessum eina sjónvarpsþætti.

Ef alvara er í málinu má búast við því að Eva tæti höggormana í sig.


mbl.is Joly: Viss um að menn misnotuðu aðstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar ofsóknir Þorsteins Pálssonar

Það fer ekki á milli mála að Þorsteinn Pálsson hefur um langt skeið haft horn í síðu Frjálslynda flokksins og virðist sú afstaða smitast út í ritstjórn og fréttaflutning blaðsins. Í leiðara blaðsins einhverju sinni óskaði hann flokknum köfnunar og fréttaflutningur blaðsins hefur einkennst af þöggun, rangtúlkun og almennum illvilja í garð flokksins. Ekki fer á milli mála hver ástæðan er, hún er sú að flokkurinn hefur beitt sér gegn kvótakerfinu, fiskveiðiráðgjöf og framsali veiðiheimilda sem Þorsteinn Pálsson hélt verndarhendi yfir og beitti sér fyrir í ráðherratíð sinni sem sjávarútvegsráðherra. Kerfið hefur verið mært af Þorsteini og Hannesi Gissurarsyni þrátt fyrir að það sé augjóslega, algjörlega og gjörsamlega misheppnað, eins og staða útgerðarinnar gefur til kynna og mannréttindabrot sem fylgt hafa kerfinu hafa fært okkur heim sanninn um.

Frjálslyndi flokkurinn hefur frá upphafi beitt sér gegn þessu hugarfóstri Þorsteins og hefur uppskorið óvild í bland við þöggun og rangtúlkun í Fréttablaði Þorsteins Pálssonar. Þorsteinn hefur áður orðið uppvís að pólitískum ofsóknum og verið dæmdur fyrir atvinnukúgun á hendur Guðjóni Andréssyni leigubílstjóra.


Bullið í Fréttablaðinu

Í Fréttablaðinu í dag mátti lesa að ég ynni að því hörðum höndum þessa dagana að velta Guðjóni A. Kristjánssyni úr formannsstóli til að koma Guðna Halldórssyni þar að. Þetta er bara bull, þvæla og algjör uppspuni. Hið rétta er að ég hef verið mjög upptekinn síðustu daga, við vinnu og við að koma út starfsskýrslu Ungmennasambandsins og undirbúning ársþings sambandsins auk þess að vinna að undirbúningi unglingalandsmóts á Sauðárkróki næsta sumar.

Ég hef einu sinni talað við téðan Guðna í síma, ég hef aldrei hitt manninn. Ég get sagt frá því að það var skemmtilegt símtal, Guðni þessi virðist klár og gæti eflaust hleypt lífi í stjórnmálin. Það samtal átti sér stað þegar hann kom fyrst fram á þetta sjónarsvið, fyrír þá svona hálfum mánuði.

Það hefði verið leikur einn fyrir blaðamann Fréttablaðsins að slá á þráðinn en í stað þess ákveður hann að dreifa kjaftæði í víðlesnasta blaði landsins.

Í framhaldinu fer ég óneitanlega að velta fyrir mér hvort nokkuð sé hæft í öðrum fréttum blaðs Þorsteins Pálssonar.  


Dómgreindarlausir ráðgjafar enn að störfum

Margur hefur hneykslast á því að sama liðið og orsakaði hrun fjármálakerfisins sé enn á fullu í pólitíkinni, bönkum og viðskiptalífinu. Minna hefur farið fyrir því að það hafi verið gagnrýnin umræða um ráðgjafana sem gáfu hverri vitleysunni á fætur annarri fræðilegan stimpil. 

Hér að neðan er frétt um ráðgjöf Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því á miðju sumri 2007.  Ráðgjafarnir komust að því að hagkvæmast væri fyrir þjóðarbúið að hætta þorskveiðum í svona þrjú fjögur ár til að byggja stofninn upp og að það væri hægt vegna góðrar stöðu þjóðarbúsins.  Í skýrslu og allri umfjöllun fjölmiðla um málið var algerlega hlaupið yfir þá staðreynd að uppbygging þorskstofnsins hafði ekki gengið eftir í þá tvo áratugi sem hún hefur verið reynd enda hefur aðferðin hvergi gengið eftir í heiminum.

Hagkvæmt að hætta þorskveiðum um tíma

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, að hagkvæmt sé að hætta þorskveiðum tímabundið, eða í 3-4 ár, þar til viðmiðunarstofninn hafi náð 900 þúsund tonnum eða meira en stofninn er nú talinn vera um 650 þúsund tonn.

Þetta kemur fram í skýrslu, sem stofnunin hefur unnið fyrir sjávarútvegsráðherra um aflareglu sem beitt er við úthlutun þorskkvóta. Núgildandi regla segir til um, að veidd séu 25% af viðmiðunarstofni, sem myndi þýða um 178 þúsund tonna heildarafla á næsta fiskveiðiári. Stofnunin telur hins vegar að sú regla sé ekki hagkvæm og hagkvæmasta aflaregla feli í sér minni ársafla en nú er.

Hagfræðistofnun segir, að ekki sé framkvæmanlegt að veiða engan þorsk og telur að að niðurskurður, svipaður og Hafrannsóknastofnun leggur til, muni byggja stofninn upp nokkuð hratt en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til 130 þúsund tonna þorskafla. Engu að síður yrði meiri niðurskurður þjóðhagslega hagkvæmur.

Hagfræðistofnun telur, að þetta muni hafa mismikil áhrif á sjávarbyggðir eftir mikilvægi þorsks í heildarafla þeirra. Líklega verði áhrifin mest á Vestfjörðum. Bendir stofnunin á leiðir til að milda áfallið, svo sem tímabundna lækkun veiðigjalds, og tímabundnar aðgerðir í þágu sveitarfélaga og fyrirtækja svo og tilfærslur opinberra framkvæmda.

Hagfræðistofnun segir, að þjóðarbúið hafi áður gengið í gegnum áföll vegna aflabrests en efnahagslífið sé nú sveigjanlegra en áður og fleiri stoðir undir efnahagsstarfseminni. Aðhaldssöm þorskveiðistefna nú hámarki arð af þeim veiðum til frambúðar. Góð stjórn efnahagsmála, sem dragi úr sveiflum, sé vænlegust til árangurs bæði í bráð og lengd.

 

 

               


Hvaða vitleysa er í gangi á Alþingi Íslendinga?

Það er merkilegt frumvarpið um auknar heimildir sérstaks saksóknara en markmið þess er að opinberir aðilar láti í té upplýsingar og tilkynni  um glæpi sem framdir voru í aðdragand hruns fjármálakerfisins.

Í athugasemdum með frumvarpinu og í umfjöllun um störf embættisins hefur komið fram að það fær ekki upplýsingar um fjármálamisferli sem opinberir eftirlitsaðilar og umboðsmenn liggja á!  Hvar væri það látið viðgangast annars staðar en hér,  -  Zimbave?

Hvaða vitleysi er gangi? 

Ég veit ekki betur en að í 12. grein laga um opinbert eftirlit með fjármálaeftirliti komi fram að Fjármálaeftirlitinu beri að vísa refsiverðum málum til lögreglu. Ef að þetta ákvæði dugar ekki, þá liggur beinast við að saksóknarinn geri það sama og venja er refsimálum þ.e. fara fram á húsrannsókn til þess að ná í gögn sem geta varpað ljós á málin.  Frumvarpið upplýsir hins vegar um algert ráðaleysi og ringulreið stjórnvalda.   

Það skortir engar heimildir heldur raunverulegan vilja og þor til að taka á málum.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband