Leita í fréttum mbl.is

Dómgreindarlausir ráðgjafar enn að störfum

Margur hefur hneykslast á því að sama liðið og orsakaði hrun fjármálakerfisins sé enn á fullu í pólitíkinni, bönkum og viðskiptalífinu. Minna hefur farið fyrir því að það hafi verið gagnrýnin umræða um ráðgjafana sem gáfu hverri vitleysunni á fætur annarri fræðilegan stimpil. 

Hér að neðan er frétt um ráðgjöf Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því á miðju sumri 2007.  Ráðgjafarnir komust að því að hagkvæmast væri fyrir þjóðarbúið að hætta þorskveiðum í svona þrjú fjögur ár til að byggja stofninn upp og að það væri hægt vegna góðrar stöðu þjóðarbúsins.  Í skýrslu og allri umfjöllun fjölmiðla um málið var algerlega hlaupið yfir þá staðreynd að uppbygging þorskstofnsins hafði ekki gengið eftir í þá tvo áratugi sem hún hefur verið reynd enda hefur aðferðin hvergi gengið eftir í heiminum.

Hagkvæmt að hætta þorskveiðum um tíma

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, að hagkvæmt sé að hætta þorskveiðum tímabundið, eða í 3-4 ár, þar til viðmiðunarstofninn hafi náð 900 þúsund tonnum eða meira en stofninn er nú talinn vera um 650 þúsund tonn.

Þetta kemur fram í skýrslu, sem stofnunin hefur unnið fyrir sjávarútvegsráðherra um aflareglu sem beitt er við úthlutun þorskkvóta. Núgildandi regla segir til um, að veidd séu 25% af viðmiðunarstofni, sem myndi þýða um 178 þúsund tonna heildarafla á næsta fiskveiðiári. Stofnunin telur hins vegar að sú regla sé ekki hagkvæm og hagkvæmasta aflaregla feli í sér minni ársafla en nú er.

Hagfræðistofnun segir, að ekki sé framkvæmanlegt að veiða engan þorsk og telur að að niðurskurður, svipaður og Hafrannsóknastofnun leggur til, muni byggja stofninn upp nokkuð hratt en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til 130 þúsund tonna þorskafla. Engu að síður yrði meiri niðurskurður þjóðhagslega hagkvæmur.

Hagfræðistofnun telur, að þetta muni hafa mismikil áhrif á sjávarbyggðir eftir mikilvægi þorsks í heildarafla þeirra. Líklega verði áhrifin mest á Vestfjörðum. Bendir stofnunin á leiðir til að milda áfallið, svo sem tímabundna lækkun veiðigjalds, og tímabundnar aðgerðir í þágu sveitarfélaga og fyrirtækja svo og tilfærslur opinberra framkvæmda.

Hagfræðistofnun segir, að þjóðarbúið hafi áður gengið í gegnum áföll vegna aflabrests en efnahagslífið sé nú sveigjanlegra en áður og fleiri stoðir undir efnahagsstarfseminni. Aðhaldssöm þorskveiðistefna nú hámarki arð af þeim veiðum til frambúðar. Góð stjórn efnahagsmála, sem dragi úr sveiflum, sé vænlegust til árangurs bæði í bráð og lengd.

 

 

               


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband