Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Verður öskrað á pöllunum?

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í þessum farsa Sjálfstæðisflokksins og hvort hróp verða gerð að nýjum meirihluta eins og gerð voru að þeim þriðja. Ef það var ástæða til að öskra í Ráðhúsinu í byrjun ársins veit ég ekki hvað verður gert núna. Sjálfstæðisflokkurinn mun koma afar illa út úr þessu þar sem menn hljóta að þurfa að bera við einhverjum málefnalegum ágreiningi við slit á þriðja meirihlutanum. Munu sjálfstæðismenn verða eins og Ragnar Reykás, með og á móti Bitruvirkjun, með og á móti listaháskóla við Laugaveginn, með og á móti friðun húsa við Laugaveginn, með og á móti flugvellinum, með og á móti útrás REI?

Það er greinilegt að það þarf alveg nýtt blóð í borgarstjórnina.


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórunn beygði Kristján L. Möller

Ég heyrði í nokkrum Húsvíkingum í morgun og fékk fréttir af fundi umhverfisráðherra á Húsavík í gærkvöldi og kom þeim fátt á óvart í svörum Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

Það sem kom á óvart var hversu einhuga samgönguráðherra Kristján L Möller og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru.  Kristján L Möller var harður stuðningsmaður þess að reist yrði sem fyrst nýtt álver að Bakka. Á fundinum kom fram að Kristján væri afar sáttur við þá ákvörðun um að "heildstætt" umhverfismat fari fram vegna framkvæmdanna sem verður óneitanlega til þess að framkvæmdir tefjast.

Það er greinilegt að umhverfisráðherra hefur beygt Kristján L Möller í málinu sem virðist vera gerður afturreka með hvert málið á fætur öðru s.s. að grafin verði gjaldfrí Vaðlaheiðagöng strax og lækkun flutningskostnaðar og olíugjalds.

 

 


Sjálfstæðismenn þorðu ekki að mæta

Í gær var í Kastljósinu rætt um mál Ásmundar Jóhannssonar og mannréttindabrot stjórnvalda á íslenskum sjómönnum og auðvitað var reynt að fá á móti Grétari Mar, fulltrúa Frjálslynda flokksins, sem hefur staðið með sjómönnum einhvern fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem hefur ráðið þessum málaflokki frá 1991. Kerfið er illræmt á Íslandi og meirihluti þjóðarinnar vill breyta því. Að auki hefur það fengið falleinkunn hjá mannréttindanefnd SÞ.

Ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að enginn sjálfstæðismaður hafi þorað að mæta í Kastljósið til að verja afkvæmið eða rétta sagt óskapnaðinn sem íslenska kvótakerfið er, heldur er sendur fulltrúi afar þröngra sérhagsmunasamtaka. Það er kannski tímanna tákn að Sjálfstæðisflokkurinn líti á ýmis sérhagsmunasamtök sem málsvara sína.

Kerfið er ómanneskjulegt og ósveigjanlegt og leyfir ekki einu sinni öldruðum og bakveikum sjómönnum að ná sér í nokkra þorska með handfærum af ótta við að þorskstofninn fari veg allrar veraldar. Þetta segir meira en flest um árangur kerfisins - árangursleysi.

Það sem er aumast við umræðu síðustu daga er að talsmenn og fjölmiðlar í bandi hjá sérhagsmunaöflunum hafa ekki treyst sér til að ræða mál efnislega, heldur farið að vega að persónu Ásmundar.


Sömu skrif nú og í blaði Reynis Trausta fyrir sautján árum

Á fjörur mínar rak merkilegt rit Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, sem hann setti saman fyrir um 17 árum en þá var hann formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Bylgjunnar. 

Í tilefni þess að ritið var veglegt afmælisrit félagsins var sjávarútvegsráðherra, Þorsteinn Pálsson, fenginn til að rita ávarp til félagsmanna Bylgjunnar og hér er gripið niður í það:

Enn á ný stöndum við frammi fyrir þrengingum í sjávarútvegi. Að þessu sinni er ástæðan sú að við þurfum að draga verulega saman þorskafla vegna lélegrar nýliðunar stofnsins á undanförnum árum. Þessi samdráttur bitnar á kjörum sjómanna og afkomu þjóðarbúsins í heild. Við þessum aðstæðum verður að bregðast með því að auka rannsóknir á lífríki hafsins og finna skýringar á því hvað þessu valdi. Í því skyni er mikilvægt að efla rannsóknir á hrygningu fiskistofna og vexti og viðkomu seiða. Þá verðum við að bregðast við þessum aflasamdrætti með því að bæta nýtingu og alla umgengni um auðlindina eins og frekast er kostur.

Sextán árum síðar má sjá nánast sömu skrif sama manns í leiðaraskrifum Fréttablaðsins. Enn er hvatt til þess að halda áfram svokallaðri uppbyggingarstefnu þorskstofnsins þó svo að sú niðurstaða blasi við að stefnan hafi algerlega brugðist sl. einn og hálfan áratuginn.

Aldrei hefur verið sýnt fram á eitthvert jákvætt samband á milli mikillar nýliðunar og stórs hrygningarstofns en samt er haldið áfram vonlausri baráttu í svokallaðri uppbyggingu - til að fá meiri veiði, meiri nýliðun seinna. Er ekki nóg komið af þessari vitleysu?


Kerfið lokar miðum og mörkuðum

Forsíðufrétt blaðs allra landsmanna segir að Svisslendingar hafi lokað á sölu á villtum þorski frá Íslandi á þeim forsendum að veiðarnar séu ekki sjálfbærar. Án nokkurs efa hafa Svissararnir þær upplýsingar beint frá Hafró en þar á bæ hafa "sérfræðingar" metið þorskstofninn í stöðugt verra ásigkomulagi þrátt fyrir að dregið hafi verið verulega úr veiðum og sumum fiskimiðum nánast lokað. Fyrir nokkru gaf helsti sérfræðingur stofnunarinnar út það álit að við þorskstofninum blasti lítið annað en hrun ef haldið yrði áfram með sömu sókn. 

Þetta mat Hafró er vafasamt þar sem það byggir á reikniformúlum og -líkönum sem ganga þvert á viðtekna vistfræði og algerlega litið framhjá ástandi dýranna, fiskanna í stofninum sjálfum. Hvaða búfræðingi dytti í hug að fullyrða um ástand bústofns og hafa ekki til hliðsjónar ástand dýranna í stofninum? Ekki nokkrum. Þorskarnir sem Hafró telur að of mikið sé veitt af eru ekki að vaxa eins og þegar sóknin var meiri. Þessi litli vöxtur gefur augljóslega til kynna að minna sé um æti en áður fyrir hvern og einn. Helstu merki um ofveiði ættu að vera fáir fiskar sem vaxa of hratt.


mbl.is Lokað á villtan þorsk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir - Honecker

Það er ömurleg staða að Geir Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sem einhvern tímann var flokkur einstaklingsfrelsisins skuli í slagtogi við formann jafnaðarmanna beita Landhelgisgæslunni til að forystumenn ríkisstjórnarinnar geti haldið áfram að brjóta mannréttindi á sjömönnum. Það gera þau þrátt fyrir tilmæli frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna láta af mannréttindabrotum og rétti þess í stað hlut sjómannanna.

Hlutskipti Geirs Haarde minnir um sumt á Erich Honecker sem leiddi Austur-Þýskaland um árabil allt til þess að kommúnisminn riðaði til falls og járntjaldið var rifið niður. Leiðtogar Austur-Þýskalands neituðu að horfast í augu við að þjóðskipulag sem gekk svo ljómandi vel upp í fræðunum stóðst ekki í raun. Í stað þess að leita leiða út úr ógöngum kommúnismans voru reistir múrar og lögreglu beitt óspart til þess að viðhalda ófrelsi og mannréttindabrotum. 

Geir neitar, líkt og Honecker gerði, að horfast í augu við þá staðreynd að kvótakerfið gengur ekki upp en þorskveiði er nú innan við þriðjungur af því sem hún var fyrir daga kerfisins. Þegar forstjóri Hafró hefur verið spurður hvar í heiminum uppbygging þorskstofns hafi gengið eftir með þeim aðferðum sem notaðar hafa verið hér á Íslandsmiðum getur hann ekki bent á neitt dæmi enda stangast forsendur þess á við viðtekna vistfræði.

Í stað þess að fikra sig út úr alvondu kvótakerfi beitir Geir Haarde Landhelgisgæslunni til þess að viðhalda alvondu kerfi sem býður upp á sóun og brot á mannréttindum.


Pen kvörtun ráðherra

Það má ráða af skrifum Björns Bjarnasonar að hann sé langt frá því að vera sáttur við fríblaðið 24 stundir og að öllum lílkindum er það umfjöllun um forseta Íslands sem hefur farið fyrir brjóstið á dómsmálaráðherra. Björn kemur óánægju sinni á framfæri með penum hætti á heimasíðu sinni, sem þó er hægt að túlka á ýmsa lund en orðrétt segir: 

Af lestri 24 stunda má auðveldlega ráða, hve góðan svip Ólafur Þ. Stephensen setti á blaðið í ritstjóratíð sinni.

Það verður að segjast eins og er að það gætir meira jafnvægis í viðbrögðum Björns en gremju Geirs Haarde í garð fjölmiðla. 

 

 


Geir Haarde seinheppinn - hvað varð um rannsókn Seðlabankans?

Í gær mátti heyra forsætisráðherrann okkar í ríkisútvarpinu hreykja sjálfum sér og stefnu sinni mjög hátt,að gera helst ekki neitt.  Það sem Geir Haarde nefndi til sögunnar sem órækan vitnisburð um afbragðs stjórnkænsku voru fréttir af  jákvæðum vöruskiptajöfnuði Íslands við útlönd í júní.

Í dag bárust síðan fréttir frá Hagstofu Íslands af því að allt stefndi í að vöruskiptajöfnuður Íslands við útlönd í júlímánuði yrði neikvæður um liðlega 18 milljarða.  Ástæðan fyrir óhagstæðum vöruskiptajöfnuði var m.a. minni útflutningur sjávarafurða en Geir Haarde virðist vera staðráðinn í halda ótrauður áfram með gjaldþrota stefnu í sjávarútvegi sem hefur sannað sig á sl. áratug að gangi alls ekki upp.

Á síðustu dögum hefur verið uppi kvittur um ýmsar breytingar á starfsmannahaldi Seðlabanka Íslands sem að varaformaður Sjálfstæðisflokksins sá reyndar ástæðu til að bera til baka. Á sama tíma heyrist ekki neitt af rannsókninni sem Seðlabankinn hratt af stað til þess að komast að því hvort að atlaga hafi verið gerð að íslensku krónunni.  Rannsóknin getur vart verið mjög flókin fyrir Seðlabankann og þess vegna hljóta niðurstöður að liggja fyrir.


mbl.is Óhagstæð vöruskipti í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísbjarnavatkin

Óvæntar heimsóknir tveggja ísbjarna í Skagafjörðinn hafa verið tilefni bollalegginga um að flakk ísbjarnanna sé bein afleiðing; hlýnunar jarðar, bráðnunar hafíssins og hvarfi íssins af norðurpólnum. Í sumar hafa síðan verið af og til fluttar fréttir af því að ísinn sé nánast horfinn af norðurpólnum.  Á vefnum Barentsobserver.com er nú ný frétt sem ber til baka fyrri fréttir og  segir að ísinn sé á sínum stað svo ef til vill er  rétt að huga að fleiri skýringum á óvæntum gestagangi en loftslagshlýnuninni.

Ísbjörn

Það er reyndar önnur frétt á Barentsvefnum sem ætti að vekja enn meiri áhuga íslenskra landsfeðra og -mæðra en það er fréttin af þorskinum í Barentshafinu sem að sérfræðingar Hafró hafa sagt verið ofveiddan um árabil og svo mjög að veiði hefur á stundum verið margföld það sem sérfræðingarnir ráðlögðu.  Engu að síður þrátt fyrir meinta ofveiði er þorskstofninn sagður við hestaheilsu.  Fréttin á Barentsvefnum greinir frá því að norsk yfirvöld fullyrði að þorskveiðin hafi verið mun meiri en opinberar tölur bera með sér vegna slælegs eftirlits. 

Ef að satt reynist þýðir það einungis eitt og það er að upphafleg fiskveiðiráðgjöf hafi verið kolröng og í framhaldinu væri rétt að spyrja hvort að sérfræðingarnir hafi eitthvað réttara fyrir sér hér við land en í Barentshafinu?


Sínum augum lítur hver Glitni

Ég var rétt í þessu að lesa leiðara 24 stunda eftir Gunnhildi Örnu þar sem hún segir eitthvað á þá leið að það sé rétt að hafa áhyggjur af þeim starfsmönnum MEST sem Glitnir tók ekki undir verndarvæng sinn og ganga nú um atvinnulausir. Ég get vissulega tekið undir að það sé rétt að hugsa um þessa fjölmörgu starfsmenn og hvernig eigi að snúa við þeirri þróun sem er að verða á vinnumarkaði.

Það vill svo til að ég hitti nýlega fyrrverandi starfsmann MEST sem sér aðkomu Glitnis með allt öðrum hætti. Hann lítur svo á að Glitnir hafi hirt út úr fyrirtækinu verðmætustu bitana og skilið aðra viðskiptamenn fyrirtækisins eftir með ónýtar kröfur. Ekki sá hann heldur fyrir sér að starfsmennirnir sem voru endurráðnir væru teknir undir einhvern verndarvæng, heldur að þeim hafi verið settir afarkostir um kaup og kjör.

Það væri óskandi að það væri kafað örlítið niður í þessi mál og að ágætir fjölmiðlar landsins gæfu okkur gleggri mynd af stöðunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband