Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Sögufölsun á Austurvelli

Núverandi forsætisráðherra ber höfuðábyrgð á þeirri óvissu sem ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hann reynir nú hvað eftir annað að róta og klóra yfir ábyrgð sína en hann hefur verið samfellt í ríkisstjórn um langan tíma og gegnt þá lykilhlutverkum sem fjármálaráðherra og síðan sem forsætisráðherra.

Í stað þess að játa augljós mistök við stjórn efnahagsmála er reynt að láta líta út fyrir að það séu ytri áföll og alheimsvandi sem valda óáran. Það er ekki rétt, danskir vinir okkar, Danir sem eru nú að leysa bráðavanda ríkisstjórnarinnar hér úti á Skaga, höfðu margoft varað Íslendinga við veikleikunum í íslensku efnahagslífi, þ.e. aukinni skuldasöfnun og veikleikum í fjármálakerfi. Geir Haarde svaraði þessu með sínum þjóðþekkta hætti, þ.e. að gera ekki neitt og afneita staðreyndum.

Geir Haarde vitnar í ræðu sinni til þess að Íslendingar hafi áður séð það svartara, s.s. á aflabrestsárinu 1969. Staðreyndin er sú að 1969 veiddust liðlega 400.000 tonn af þorski á Íslandsmiðum sem er þrefalt meira magn en ætlað er að veiða nú í ár. Þetta er árangurinn af kvótakerfi og uppbyggingarstarfi Sjálfstæðisflokksins síðustu 20 árin. Einhver væri farinn að spyrja sig hvort ekki væri eitthvað bogið við þessi svokölluðu uppbyggingarfræði, en það gerir Geir Haarde ekki. Hann er tilbúinn að halda vitleysunni áfram og brjóta mannréttindi á sjómönnum - með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar.

Núverandi leiðtogar eru orðnir feysknir. Það er kominn tími á nýja stjórnendur sem eru tilbúnir að skoða nýjar leiðir, ferska vinda við stjórn landsins.


mbl.is Forsætisráðherra bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setur Samfylkingin bráðabirgðalög á ísbjörninn?

Samfylkingin er vön að bregðast skjótt við málum sem henni finnast brýn, s.s. þegar bráðabirgðalög voru sett á raflagnir á Keflavíkurflugvelli í fyrrasumar. Að vísu er hún lítið að flýta sér í málum sem flokknum þykja ónauðsynleg, eins og að bæta mannréttindabrot á sjómönnum.

Úti á Skaga er stórt mál, ísbjörn kominn á land öðru sinni í mánuðinum og er lagstur í æðarvarpið. Það er öldungis ljóst að bóndinn á Hrauni væri í fullum lagalegum rétti til að fara út í æðarvarpið sitt og verja það með því að fella dýrið, skv. 16. gr. villidýralaganna. Það eina sem bóndinn þarf að gera er að taka upp símann og hringja án tafar í umhverfisráðherra eftir að hafa fellt dýrið.

Réttur bóndans er mikill í þessu máli, æðarbóndi við Breiðafjörðinn var sýknaður af því að spilla arnarvarpi í Breiðafirði, þrátt fyrir að hafa viðurkennt verknaðinn, á grundvelli neyðarvarnarsjónarmiða, þ.e. bóndinn hafði rétt til að verja varpið sitt þótt það kostaði líf fágætara dýrs en ísbjarnarins sem þar að auki er ekki aðskotadýr í náttúru Íslands.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt ráðherra jafnaðarmanna beitti bráðabirgðalögum til að koma í veg fyrir mögulegar aðgerðir bóndans, sér í lagi þegar milljarðamæringur lætur sér nú annt um rándýrið.


mbl.is Erfið aðgerð framundan að Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaður Norðurlandaráðs gagnrýnir forsætisráðherra harkalega

Árni Páll Árnason deilir mjög hart á forsætisráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag. Ekki eru það mannréttindabrotin á sjómönnum sem valda þingmanninum hugarangri, enda eru stjórnarflokkarnir samstiga í þeim efnum að halda þeim áfram, heldur það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið á efnahagsmálunum undanfarin ár.

Tónninn í greininni er eins og hjá manni sem nýbúinn er að kaupa bíl af forsætisráðherra sem honum var sagt að væri í lagi en fljótlega eftir að hann settist undir stýri kom í ljós að hann væri vart í ökuhæfu ástandi. Svona lýsir Árni Páll ábyrgðar- og fyrirhyggjuleysinu. Eina leiðin til úrlausnar er að fara með bílskrjóðinn til Brussel til viðgerða.

Þetta er áhyggjuefni, að þeir flokkar sem sjá um að stýra landinu virðast eyða megninu af kröftum sínum í púðurskot hvor á annan. Á meðan virðist að-gera-ekki-neitt-stefnan blómstra. Samfylkingin reynir að þvo hendur sínar af stöðu mála og kannast heldur ekki við að hafa þanið út ríksútgjöld yfirstandandi árs og þar með kynt undir verðbólgunni.

Með þessu áframhaldi spái ég að ríkisstjórnin veslist upp á skömmum tíma.


Heilræði til Karls Valgarðs Matthíassonar

Fyrir síðustu kosningar kom Karl V. Matthíasson verulega á óvart og sá og sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það sem hann gerði öðruvísi en aðrir frambjóðendur var að hann lét sig óréttlætið og óstjórnina í sjávarútvegi miklu varða. Í aðdraganda alþingiskosninganna hélt hann áfram að setja þessi mál á oddinn þannig að fólkið í kjördæminu sem treystir svo mjög á sjávarútveg trúði Karli og treysti fyrir atkvæði sínu.

Formaður Samfylkingarinnar fór ekki dult með að óvæntur sigur Karls V. Matthíassonar væri henni ekki að skapi. Hafði Ingibjörg á orði þegar úrslit prófkjörsins lágu ljós fyrir að hlutur kvenna væri rýr. Væntanlega hefur fleira valdið því að Karl var ekki í náðinni en að hann væri af röngu kyni, ekki síst áherslurnar í sjávarútvegsmálum en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var þá nýlega gengin LÍÚ á hönd.

Eftir myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var tekin upp stefna Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum með tilheyrandi óréttlæti og mannréttindabrotum. Henni hefur verið haldið óhikað áfram þrátt fyrir að fyrir liggi álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að breyta beri stefnunni.

Þessi stefna óréttlætis hefur valdið Karli Matthíassyni ómældum erfiðleikum þar sem hann lofaði fólkinu sem kaus hann öðru. Hann hefur hvað eftir annað verið eins og illa gerður hlutur í umræðunni enda staðinn að því að plata kjósendur sína. Fyrir örfáum dögum sagðist Karl vera glaður yfir hrokafullu og siðblindu svari ríkisstjórnarinnar til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í nýlegu útvarpsviðtali á Útvarpi Sögu virtist sem gleðivíman yfir áframhaldandi mannréttindabrotum væri runnin af Karli og hann væri smám saman að átta sig á að hann væri orðinn samsekur í alvarlegri brotastarfsemi gagnvart sjómönnum sem hafa lagt á sig áralanga baráttu fyrir réttlætinu.

Ég tel tímabært að Karl íhugi stöðu sína enda getur hann gengið að því sem vísu að pólitískir andstæðingar munu velta honum upp úr tvöfeldninni, þ.e. að hann láti kjósa sig til réttlátra breytinga en sé síðan í nauðvörn til að viðhalda óréttlætinu og mannréttindabrotum. 

Ekki tel ég að Karl geti vænst mikils stuðnings frá formanni Samfylkingarinnar þegar fram í sækir. Hún mun ekki endurgjalda honum stuðning þó svo að hann styðji hana í þeim skítverkum að framfylgja stefnu hennar og Sjálfstæðisflokksins.

Það eina í stöðunni fyrir Karl er að verða afturbata og lýsa yfir harðri andstöðu við siðblint svar ríkisstjórnarinnar og beita sér af hörku fyrir umbótum en það ætti ekki að vera snúnara fyrir Samfylkinguna að lýsa yfir andstöðu við áframhaldandi mannréttindabrot á sjómönnum en að lýsa andúð á drápi á fáeinum hrefnum.

Ef Karl V. Matthíasson fer ekki þessa leið nú tímabundið gegn straumnum mun róðurinn verða þungur þegar fram í sækir og þá ekki einungis hvað varðar pólitískan feril heldur enn frekar við samviskuna. 


Yfir 90% Samfylkingarinnar hafna sjávarútvegsstefnu Ingibjargar Sólrúnar og LÍÚ

Það er af og frá að mikil sátt ríki um þá stefnu innan Samfylkingarinnar að hunsa álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og halda áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum eins og ekkert sé. Það gildir þá einu hvort Karl V. Matthíasson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi blessað siðblint hrokasvar ríkisstjórnarinnar til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna svo ég noti þau orð sem prófessor Þorvaldur Gylfason gaf þessum skrifum.

Skoðanakönnun á vef Samfylkingarinnar sem búast má við að einkum sæki flokksmenn gefur til kynna að það sé veruleg óánægja með áframhaldandi mannréttindabrot stjórnvalda með fullum stuðningi "jafnaðarmanna".

Það mætti segja mér að frú Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafi litlar áhyggjur af þessu máli enda hefur hún stærri mál á sinni könnu s.s. að friða Afganistan.

 

Sjávarútvegsráðherra hefur svarað mannréttindanefnd SÞ. Ertu ánægður með niðurstöðuna?


Já. Við höfum byggt upp þetta kerfi á löngum tíma og getum ekki farið að rústa því af því einhver nefnd úti í heimi gerir athugasemdir. Skoðum þetta svo í rólegheitunum: 0%



Bæði -- og. Málið er ekki lengur brýnt og lengra varð ekki komist að sinni. Breytingar gætu orðið eftir störf nefndarinnar sem á að sjá um endurskoðun kerfisins: 6%



Nei. Mannréttindi eru brotin og þá er ekkert svar að tala um vinnuhóp í langtímaverkefni. Vona að eitthvað komi út úr því starfi en þá verður líka að fylgja því almennilega eftir pólitískt 


Vill Helgi Hjörvar afnema bætur til blindra ef margir blindast?

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt fyrri ríkisstjórnir fyrir takmarkaðan skilning á mannréttindahugtakinu, þá sérstaklega í tengslum við skerðingu bóta öryrkja. Núna sér Helgi Hjörvar ekkert rangt við og samþykkir með þögninni að ríkisstjórn sem hann styður heils hugar ætli að hunsa skýr fyrirmæli mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að greiða sjómönnum bætur fyrir þann órétt sem stjórnvöld hafa beitt þá.

Það er gert með þeim skýringum að svo margir hafi orðið fyrir miklum órétti að það væri dýrt að ætla að bæta þeim það öllum, þess vegna sé réttast að láta óréttlætið vera óbætt og láta það áfram viðgangast.

Hvernig ætli Helga Hjörvar litist á að hætta að greiða blindum bætur á þeim forsendum að þeir væru alltof margir?


Samkynhneigðir og sjómenn

Samfylkingin hefur reynt að setja sig á stall sem merkisberi mannréttinda og hefur m.a. beitt sér fyrir mannréttindum samkynhneigðra og auknum atvinnuréttindum útlendinga. Það er eflaust ýmislegt jákvætt við þessa stefnu flokksins og þess vegna kemur verulega á óvart hversu einbeitt Samfylkingin er í að halda áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum.

Hvað ræður för menntaelítunnar í þessu er ekki hægt að fullyrða um, en líkleg skýring er fordómar gagnvart vinnandi fólki.


Réttarríkið og milljarðamæringarnir

Hver samfylkingarmaðurinn á fætur öðrum hefur nú gengið fram fyrir skjöldu og heimtað rannsókn á rannsókn Baugsmálsins. Sá sem hefur leitt baráttuna er þingflokksformaður „jafnaðarmanna“, Lúðvík Bergvinsson, en hann heimtar rannsóknina í þágu: almannahagsmuna, trúverðugleika réttarríkisins og síðast en ekki síst þess að verja lítilmagnann gagnvart misbeitingu ríkisvaldsins.

Þessar áhyggjur Samfylkingarinnar nú af stöðu lítilmagnans í réttarríkinu Íslandi gagnvart ríkisvaldinu með því að máta mál milljarðamæringanna í Baugi inn í þá stöðu er afkáralegt. Baugsmenn hafa átt greiðan aðgang að fjölmiðlum og þeim hefur heldur ekki orðið skotaskuld úr því að greiða fyrir fima lagavörn og bestu sérfræðiaðstoð erlendis frá.

Íslenskur almenningur hlýtur að setja spurningarmerki við að á sama tíma og þessi hávaðasama mannréttindabarátta Samfylkingarinnar er háð fyrir hönd milljarðamæringanna skuli varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, Karl Matthíasson, lýsa yfir sérstakri gleði með svar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þar sem fram kemur að það eigi ekki að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og að það eigi að halda áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum. 

Það er greinilegt að forystu Samfylkingarinnar þykir að þeir með þykkari veskin eigi að vera jafnari fyrir lögunum en aðrir.    


Samfylkingin blessar áframhaldandi mannréttindabrot

Það er óneitanlega kaldhæðnislegt að vita til þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og séra Karl Matthíasson varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, hafi lagt blessun sína yfir þá hundalógík sem sjávarútvegsráðherra ber á borð sem svar ríkisins til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. 

Svar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefst á alllöngum málflutningi þar sem farið er enn á ný yfir sjónarmið stjórnvalda í málinu en þau höfðu öll komið fram áður í meðförum málsins og fengið falleinkunn hjá Mannréttindanefndinni.  Álitið fól í sér að íslenskir sjómenn hafi verið beittir ósanngjörnum leikreglum og það ætti að veita sjómönnunum sem sannarlega var brotið á fullnægjandi skaðabætur.

Í lok svarsins er þess getið að ekki sé nákvæmlega gert grein fyrir því hversu langt eigi að ganga til að breyta kerfinu í átt til sanngirnis og hversu háar skaðabætur ætti að greiða sjómönnunum.  Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er því sú að fyrst að það sé ekki tíundað nákvæmlega þá sé það réttast sanngjarnast að gera nákvæmlega ekki neitt.

  Niðurstaðan er því hrein og tær hundalógík.

 


mbl.is Svar sent til mannréttindanefndar SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óábyrg ráðgjöf í fiskveiðistjórnun og reynslan úr Barentshafi

Jóhann Sigurjónsson situr í stjórn Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) sem hefur sannarlega veitt ranga veiðiráðgjöf í Barentshafinu.

Í Barentshafi hefur verið sýnt fram á að þorskstofninum þar hefur ekki orðið meint af því að veitt væri iðulega umtalsvert meira en ráðið taldi ráðlegt. Nokkur dæmi eru um margfalda umframveiði. 

Íslenskir fiskifræðingar sem hafa séð um niðurskurðartillögur undanfarna áratugi hafa jafnframt lýst skoðun sinni á veiðum í Barentshafinu. Þeir hafa nánast sagt að Barentshafsþorskurinn væri dæmdur til dauða ef ekki yrði dregið úr veiðum. Þessa dóma hafa síðan fjölmiðlar bergmálað gagnrýnislaust s.s. leiðaraskrif Morgunblaðsins bera með sér.

Þessi meinta ofveiði hefur ekki komið að sök eins og kom fram í samantekt Magnúsar Þórs Hafsteinssonar varaformanns Frjálslynda flokksins á landsráðsþingi Frjálsynda flokksins sem haldið var á Laugavatni í gær.  Þessar fréttir af rangri veiðiráðgjöf eru ekki nýjar fyrir okkur í Frjálslynda flokknum. En það er engu líkara en að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki kraft og dug til þess að fylgja þessu máli eftir ef frá er talinn góður sprettur sem fréttastofa Stöðvar 2 tók fyrir um ári síðan.

Það er algerlega óábyrgt að fylgja ráðum í blindni varðandi nýtingu. Einnig er það óábyrgt að hunsa tillögur Guðjóns Arnars Kristjánssonar formanns Frjálslynda flokksins sem hann lagði fram í tímamótaræðu sinni á Landsráðsþingi flokksins í gær.

En það er svo sem ekkert nýtt að íslensk fiskveiðistjórnun sé óábyrg. Árangursleysi hennar er einmitt óræk sönnun þess.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband