Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Ráðherra segir hrun krónunnar kærkomið

Það er margt skrýtið í kýrhausnum og sömuleiðis í kvörnum snillinganna á stjórnarheimilinu.

Á bloggsíðu Einars Kristins sjávarútvegsráðherra kemur fram að hann ræður sér vart fyrir kæti yfir hruni krónunnar og segir fallið bæði kærkomið og löngu tímabært. Eins og honum er svo gjarnt fer hann einn eða tvo hálfhringi í málflutningi sínum og segir að hrunið feli að vísu í sér einhverjar ógnir.

Ég teldi að Einar ætti að reyna að stilla sig í fögnuði yfir hruninu sem kemur örugglega mjög við buddu íslenskra heimila. Miklu nærtækara væri að snúa sér að því að fara að áliti mannréttindanefndar SÞ og rétta hlut þeirra sem hefur verið brotið á og tvöfalda í leiðinni þorskveiðar. Nú gengur sjómennskan helst út á það að forðast þorsk í stað þess að veiða hann. Það er auðvitað geggjun eins og áður hefur komið fram en ef til vill í fullu samræmi við yfirlýsingar ráðherra um efnahagsmál. 


mbl.is Krónan heldur áfram að lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir sleginn

Það mátti vel greina að Geir Haarde var mjög sleginn á fréttamannafundi sem haldinn var í lok fundar ríkisstjórnarinnar í dag. Engu að síður var boðskapur forsætisráðherrans eitthvað á þá leið að þetta hefði ekki átt að koma á óvart og að hann ætlaði sér ekki að gera neitt. Hann virðist þó vera ringlaður sjálfur. Ef það væri töggur í forsætisráðherranum ætti hann að blása til sóknar og beinast liggur við að tvöfalda þorskveiðar. Nú gengur sjómennskan á Íslandsströndum hins vegar helst út á það að forðast þorsk í stað þess að veiða hann. Það er auðvitað geggjun.

Ef forsætisráðherra vill endilega halda í þá aðferðafræði sem notuð er af Hafró sem hvergi í heiminum hefur gefist vel blasir við að tryggja að íslensk fiskvinnsla geti boðið í ferskan fisk sem annars fer óunninn í gámum til útlanda. Með því einu væri hægt að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega.


mbl.is Þurfum að fara varlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherra blaðrar á CNN

Ríkisstjórnin virðist bara alls ekki ráða við það verkefni að stjórna efnahagsmálunum og krónan er í algjörlega frjálsu falli. Fólk hlýtur að velta fyrir sér stöðu Geirs Haarde forsætisráðherra sem hefur ekki séð ástæðu til að koma fram með einhverjar skýringar til þjóðar sinnar um hvað sé í gangi og hvers sé að vænta.

Á meðan hefur hann verið á CNN og átt fundi í Ameríku með mjög misvísandi skilaboðum. Íslendingar hljóta að eiga heimtingu á að hin æpandi þögn verði rofin.

Sjálfum finnst mér líklegt að þetta fall krónunnar sé eitthvert yfirskot, krónan hlýtur að rétta úr kútnum og styrkjast á ný.


mbl.is Krónan í frjálsu falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur fjölmenningarstefnan gefist vel?

Það er athyglisverð skoðanakönnun á Útvarpi Sögu þessa stundina en þar er spurt:

Hefur fjölmenningarstefna í innflytjendamálum í Evrópu gefist vel?

Þegar ég leit síðast inn á síðuna höfðu liðlega 84% hlustenda svarað spurningunni neitandi.


Geir Haarde byggir upp vantraust

Í dag hitti ég ýmsa málsmetandi sjálfstæðismenn sem lýstu furðu sinni á Ameríkuför Geirs Haarde. Með honum í för við að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi voru m.a. Baugsmenn sem embættimenn Björns Bjarnasonar hafa hundelt í réttarsölum landsmanna undanfarin ár. Ég hef áður fjallað um ræðu Geirs Haarde, best-í-heimi-ræðuna um að allt standi styrkum fótum og allt það, og því skaut skökku við að í kjölfar Geirs hafi Jón Ásgeir flutt sína ræðu alveg á skjön við málflutning Geirs, s.s. að Ísland muni ganga í Evrópusambandið á næstunni og að íslenska krónan væri talin einhver fjármagnsfæla. Það er óneitanlega brogað að ætla að byggja upp traust og í sama mund að gjaldfella eða tala niður innlendan gjaldmiðil, rýra traustið á krónunni.

Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa stundað þennan leik og nú virðist sem sjálfur forsætisráðherrann, yfirmaður efnahagsmála, sé farinn að draga með sér ræðumenn á fundi þar sem megininntak máls þeirra er að draga úr trúverðugleika og trausti á íslensku krónuna og þar með íslenskt efnahagslíf.

Ég veit ekki hvar annars staðar í heiminum æðstu ráðamenn efnahagsmála þjóða sjá sig sí og æ knúna til að gjaldfella innlendan gjaldmiðil.


,,Ísland - best í heimi

Það er visst áhyggjuefni að Geir Haarde, forsætisráðherrann okkar, er aftur kominn í best-í-heimi-ræðuna sína sem hann flutti á Viðskiptaþingi fyrir rúmu ári. Fyrir tæpu ári flutti hann athyglisverða ræðu á ársþingi Seðlabankans þar sem hann var geysilega ánægður með það að nú snerust umræður um stjórnmál nánast ekki neitt um efnahagsmál. Fannst honum það merki um hvað allt væri í góðu lagi.

Þessi glýja yfir stöðu efnahagsmála hélt síðan áfram fram eftir ári og á þjóðhátíðardaginn okkar flutti hann ræðu þar sem hann taldi þjóðarbúið standa svo vel að menn gætu nánast hætt fiskveiðum, þ.e. skorið þorskveiðiheimildir gríðarlega niður - vegna þess að allt efnahagslífið léki í lyndi. 

Það var ekki fyrr en í lok árs að Geiri rankaði við sér af draumórum sínum og tilkynnti þjóðinni að nú væri svo komið í efnahagsmálum að landsmenn ættu að hætta að kaupa íbúðir! Nú virðist Geir kominn i heilan hring og aftur byrjaður á best-í-heimi-ræðu þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar hafi hríðfallið í dag. Það er miður að þessi ræða skuli ekki boða neinar aðgerðir í efnahagsmálum.

Ísland, best í heimi.


mbl.is Grundvöllur lagður að frekari velmegun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórunn ætti að leita ráða hjá Björgvini G. klúbbfélaga sínum

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra veit ekki sitt rjúkandi ráð um hvernig hún getur beitt sér gegn byggingu álvers í Helguvík. Helsta baráttuaðferð hennar hefur verið að humma það fram af sér eða tefja að úrskurða í kærumáli Landverndar. Landvernd hefur óskað eftir því að umhverfismat feli ekki einungis í sér mat á álverinu, heldur einnig öllum framkvæmdum tengdum orkuöflun, s.s. raflínum o.fl.

Menn sem eru betur að sér í þessum málum en ég segja að það sé nánast útilokað að það sé málefnalegt hjá ráðherra að fallast á kæru Landverndar. Það eru engin fordæmi fyrir slíku. Það væri miklu nær fyrir Þórunni að fara svipaða leið gegn háspennulínunum og Björgvin G. Sigurðsson sem sýndi mikinn dug og setti hvorki meira né minna en bráðabirgðalög á rafmagnslínurnar sem Kaninn skildi eftir sig.

Það er eitt sem ég á erfitt með að skilja með okkar ágæta umhverfisráðherra og Dofra Hermanns og fleiri í Samfylkingunni, þau eru alltaf fljót til að samþykkja alls kyns útgjöld, s.s. aukin ríkisútgjöld upp á 20% á milli ára, t.d. til friðargæslu í fjarlægum heimshornum, fáránlegrar kosningabaráttu til öryggisráðs SÞ og sendiherra í kippum. Á sama tíma og þau gera þetta eru þau á móti því að reynt sé að afla fjár til að fjármagna vitleysuna, hvort sem það er með því að veiða fisk, skutla hval eða byggja álver.

Í hvaða heimi lifir þetta fólk?


mbl.is Efast um réttmæti leyfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúbbur jafnaðarmanna sýnir fyrirhyggju

Það er greinilegt að klúbbur jafnaðarmanna á Alþingi gerir þjóðinni ljóst að hann sýnir aðhald nú þegar þjóðin virðist á leið inn í þrengingar í efnahagsmálum. Klúbburinn tryggir sér starfskrafta eins duglegasta liðsmanns vinaklúbbsins á sjötugsaldri. Ég á von á því að kjósendur virði þessa fyrirhyggju við að tryggja sér starfskrafta marga mánuði fram í tímann. Ef ekki hefði verið gerður þessi ráðningarsamningur með svo góðum fyrirvara hefði starfskrafturinn allt eins getað runnið úr greipum utanríkisþjónustunnar.

Það hefði vissulega orðið mikill skaði fyrir framtíð íslenskra hagsmuna nær - og þó sérstaklega fjær ...


mbl.is Sigríður Anna skipuð sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta bókhaldsbrellur lækkað skuldir?

Nú virðist sem gríðarleg skuldasöfnun þjóðarinnar sé loks að vekja ráðamenn úr roti liðinna ára eins og að ekki hafi horft til vandræða framundir þetta. 

Nú um helgina hefur hver hagfræðingurinn á fætur öðrum séð ástæðu til að ræða skuldasöfnun þjóðarinnar í útlöndum sem hagstjórnarlegt og efnahagslegt vandamál og gert að umtalsefni þær hagtölur sem ég bryddaði upp á í vikunni. Það er ekki í fyrsta sem ég vek athygli á þessu, ég var m.a. með utandagskrárumræðu meðan ég sat á þingi og hið sama má segja um Steingrím J. Sigfússon sem hefur lagt mikla áherslu á þessi mál.

Í Silfrinu fór einn viðmælenda Egils Helgasonar inn á þetta svið og taldi í barnaskap sínum að það væri hægt að losna við nánast allar skuldirnar með einhverri bókhaldsbrellu, þ.e. með því að skrá bankana í útlöndum.

Einhvern veginn segir mér svo hugur að það sé of gott til að vera satt ...


Smalinn Björn Bjarnason

Það er deginum ljósara að nú hlýtur að þrengjast mjög um stöðu Geirs Haarde í Sjálfstæðisflokknum. Ég á bágt með að trúa því að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum sætti sig við þau lausatök sem eru í efnahagsmálum og birtast landsmönnum í hárri verðbólgu, vöxtum, skuldasöfnun og óstöðugu gengi krónunnar. Ekki bætir úr skák að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera búinn að blása svo duglega lífi í Samfylkinguna að lungu Sjálfstæðisflokksins eru við það að falla saman.

Þegar litið er yfir sviðið og leitað að eftirmanni Geirs hljóta menn að leita að vinnusömum og traustum einstaklingum sem þurfa að geta tekist á við erfiðar aðstæður í efnahagsmálum. Þó að Björn gefi það í skyn í 24 stundum í dag að hann hyggist jafnvel gerast smali í Fljótshlíðinni geta örlögin átt eftir að haga því svo að hann verði kallaður til að leiða Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur enda haft orð á því að hann gegni þeim trúnaðarstörfum fyrir flokkinn sem honum eru falin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband