Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Fallega gert hjá Norðmönnum

Fallega gert hjá Norðmönnum, sagði seðlabankastjórinn í Kastljósi kvöldsins um þessa fregn af tilboði forsætisráðherra Noregs. Það sem mér þótti markverðast í viðtalinu við Davíð er að ég virðist hafa átt kollgátuna um hver áætlun stjórnvalda er með neyðalögunum, þ.e. að ríkisstjórnin ætli að taka sem mest af hinum innlenda hluta lánakerfisins og láta erlendu aðilana sem hafa lánað bönkunum til útrásar sitja uppi með svarta-pétur, þ.e. skuldir sem verði að afskrifa.
mbl.is Norðmenn fylgjast grannt með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir Haarde þarf að fara frá völdum

Geir Haarde hefur með athöfnum sínum og athafnaleysi komið þjóðinni í ótrúleg vandræði. Hann stjórnaði einkavæðingu bankanna þegar ekki var tekið hæsta tilboði í Landsbankann, heldur voru þeir aðilar sérvaldir sem eru nú búnir að koma bankanum í þrot. Geir hefur ekki heldur hirt um að setja starfsemi bankanna skynsamlegar skorður þannig að niðurstaðan er neyðaraðgerðir. Núna lýsir hann því yfir að hann sé ekki tilbúinn að skoða með opnum hug auknar veiðar á þorski þó að núverandi stefna reiknisfiskifræðinnar hafi engu skilað, ekki einungis hér á Íslandi heldur hvergi í heiminum.

Í Barentshafinu þar sem veitt er umfram þessa svokölluðu vísindaráðgjöf ganga veiðar sinn vanagang. Þessi gervivísindi sem notuð eru til að stjórna fiskveiðum stangast algerlega á við viðtekna vistfræði.


mbl.is Vísindin ráða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt utanríkisstefna?

Rússar og Bandaríkjamenn hafa í gegnum tíðina sýnt íslensku þjóðinni mikla velvild þó að þau hafi átt í valdabaráttu sín á milli, s.s. þegar Rússar áttu við okkur ábatasöm viðskipti í þorskastríðinu. Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvort stefnan breytist gagnvart Rússum sem verður sýndur meiri skilningur af íslenskum stjórnvöldum því að menn bíta ekki höndina sem gefur.


mbl.is Blaðamannafundur í Iðnó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert er planið?

Það voru margir sem hristu hausinn yfir ræðu Geirs Haarde og skildu ekkert hvað hann var að fara. Hið sama má segja um umræður dagsins, það er erfitt að segja hvert planið er í þessu fári. Mér sýnist einn möguleiki vera sá að ríkisstjórnin ætli að taka sem mest af hinum innlenda hluta lánakerfisins og láta erlendu aðilana sem hafa lánað bönkunum sitja uppi með svarta-pétur, þ.e. skuldir sem verði að afskrifa. Þetta mál skýrist á næstu dögum.

Það hlýtur að vera kappsmál að halda hjólum atvinnulífsins sem mest í gangi en óneitanlega kemur þetta niður á mörgum mjög skuldsettum fyrirtækjum. Nú hljóta menn að skoða allar leiðir til að afla meiri gjaldeyris en enn erfiðara verður fyrir þjóð sem hefur ekki staðið í skilum að fá lán - og þá hljótum við að líta til þess að veiða meiri þorsk.


mbl.is Skuldir bankanna þjóðinni ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakt ávarp Geirs - Skilur eftir fleiri spurningar en svör

Ávarp Geirs Haarde var ekki mjög upplýsandi um stöðu mála en hann byrjaði á að flytja sömu rulluna um að vandinn væri innfluttur og neitaði enn og aftur að horfast í augu við ábyrgð stjórnvalda á ástandinu.

Geir Haarde hefur látlaust haldið því fram að fjármálakerfið væri mjög traust og hefur að sama skapi verið bjartsýnn fram á þennan dag að lausn væri að nást á fjármálakreppu Íslendinga.

 


mbl.is Neyðarlög sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn Geirs og Davíðs

Ekki er logið upp á smásálarskap Samfylkingarinnar. Síðustu daga hafa flokksmenn, ungir sem aldnir, keppst um að heimta afsögn Davíðs Oddssonar. Ef litið er til ábyrgðar- og aðgerðaleysis stjórnvalda síðasta árið er miklu nær að kalla Geir Haarde til ábyrgðar. Síðan ætti Samfylkingin að axla einhverja ábyrgð sjálf.

Mér finnst, eins og staðan er í dag, ekki klókt að Geir eða Davíð segi af sér heldur muni það koma enn meira róti og óöryggi á stöðu mála. Ekki er ráð að skipta um húsmóður í sláturgerð meðan hún er blóðug upp að öxlum. Ef sómasamlegt jafnvægi næst á næstu vikum finnst mér hins vegar rétt að báðir þessir kappar víki.


Garpurinn Sigurjón

Ég tók þátt í Norðurlandamóti garpa, þ.e. eldri sundmanna, í nýrri og glæsilegri sundlaug Hafnfirðinga í dag. Árangurinn var ágætur, ég synti 400 metra skriðsund á rúmlega 5,5 mínútum sem er gott miðað við aldur og fyrri störf en ég hafði nokkuð örugglega sett heldur of mikið púður í skriðsundið þar sem bringusundið varð ekki alveg upp á það besta. Það vantaði 5 sekúndubrot upp á að ég næði á verðlaunapall í þeirri grein. Eitt það besta við sundmótið var að ég losnaði við þó nokkra þungbúna fréttatíma dagsins og voru það því ekki einungis nokkur fitugrömm sem flutu burt í leiðinni, heldur einnig áhyggjur af stöðu mála.

Eftir að ég horfði á fréttatíma kvöldsins fékk ég samt hálfgert samviskubit þegar ég mundi skyndilega eftir 50 dollurum sem ég á í krukku og mér fannst það eiginlega orðin borgaraleg skylda mín að skipta þeim þannig að Bónus gæti keypt banana og N1 bensín á bílinn.

Ég játa þó fúslega að á þessari stundu hef ég meiri áhyggjur af því að þurfa að vakna eldsnemma í fyrramálið til að taka þátt í 1.500 metra skriðsundi. Keppnin hefst nefnilega kl. 8 og upphitun kl. 7.


Lítil sem engin umfjöllun um fjárlagafrumvarpið

Það er lýsandi fyrir ástand mála í efnahagsmálum hvað það fer fram lítil umræða um fjárlagafrumvarpið sem er fjárhagsrammi ríkisins á næsta ári. Flestir gera sér ljóst að áætlunin er í algjöru uppnámi og skiptir engu máli ef menn ná ekki að leysa bráðavandann sem efnahagslíf þjóðarinnar er í.

Ef maður miðar snörp viðbrögð Samfylkingarinnar við að bjarga ísbirni úti á Skaga og síðan sofandahátt á umliðnum mánuðum gagnvart þeim þrengingum og þeirri kreppu sem blasir við hlýtur maður að spyrja sig um jarðtengingu ráðherranna. Hvers vegna má ekki skoða það að ná í 70-80 milljarða í hafið? Það hefur ekki fengið neina skoðun, heldur er haldið áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum sem reyna að renna færi fyrir þorsk. Það er greinilegt að Samfylkingunni er meira umhugað um að koma í veg fyrir veiðar á ísbjörnum og þorski en huga að efnahag þjóðarinnar.


mbl.is Engin hætta á olíukreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð Oddsson metur Geir Haarde óvinnufæran

Það er ekki hægt að líta öðruvísi á en að með yfirlýsingu sinni um þjóðstjórn sé Davíð Oddsson að lýsa algjöru vantrausti á ríkisstjórnina, þá sérstaklega á leiðtoga hennar, Geir Haarde. Eins og ég hef sagt fyrr á síðunni á ég ekki von á nokkru bitastæðu frá forsætisráðherra í kvöld frekar en fyrri daginn. Davíð Oddsson virðist meta ástandið mjög svipað.

Þjóðin hlýtur að velta fyrir sér möguleikunum í stöðunni vegna þess að núverandi ástand leiðir af sér gjaldþrot. Einn mögulegur leikur er að taka upp símann, slá á þráðinn til Pútíns og slá hann um nokkrar rúblur. Annar leikur er sá að Íslendingar leiti á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að hjól efnahagslífs þjóðarinnar stöðvist ekki algjörlega.

Það má segja að Rússar hafi oft reynst okkur betri en enginn þegar önnur sund hafa virst eða verið lokuð.


mbl.is Stefnuræða forsætisráðherra flutt í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlagafrumvarpið: glás af bleðlum send úr landi

Það er ekki að sjá að gætt sé sparnaðar í utanríkisráðuneyti Samfylkingarinnar. Það verða áfram hundruða milljóna útgjöld vegna erlends herflugs yfir landinu. Útgjöld vegna sendiráða hækka um 32% á línuna nema bráðnauðsynlega sendiráðið í Pretóríu þar sem gömul Kvennalistakona ræður ríkjum, þar hækka útgjöldin um heil 72%.

Í þróunaraðstoð og alþjóðastofnanir á að splæsa 1,5 milljarði meira - 1.500 milljónum - en í fyrra sem er brjálæðisleg aukning miðað við stöðu efnahagsmála. Eflaust er verið að efna kosningaloforð sem sett voru fram í baráttunni fyrir sæti í öryggisráðinu.

Það er eins gott að Ingibjörg og Geir frétti ekki að vöruskiptin séu komin í jafnvægi, þá verða þau fljót að herða á eyðslunni.


mbl.is Vöruskiptin í jafnvægi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband