Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Samstaða um tiltekt

Íslenskt samfélag er þjakað af alls kyns hviksögum um að þessi eða hinn og jafnvel ráðamenn hafi farið með stórfé úr bönkunum eða fært á milli reikninga. Nú væri miklu nær að þjóðin sameinaðist um tiltekt í stað þess að flagga íslenska fánanum sem við erum stolt af. Björn Bjarnason - sem bráðlega verður einn af vinum Rússlands - hefur ákveðið að bregðast skjótt við og fá ríkislögreglustjórann sjálfan til að fara í gegnum þessi mál. Það er alveg bráðnauðsynlegt og ef ríkislögreglustjóri gerir það af röggsemi gæti hann áunnið sér traust þjóðarinnar. Hann hefur ekki alltaf skorað, s.s. þegar hann neitaði að taka við kærum Samkeppnisstofnunar þegar hún hafði komist til botns í samráðssvindli olíufélaganna.

Það verður ekki heldur sagt um stjórnvöld að þau hafi kafað djúpt í rannsóknir sem hafa verið gerðar á spillingunni í kringum einkavæðingu ríkisbankanna og sukkinu sem þar fór af stað. Það er óneitanlega forspilið að þeim efnahagslegu ógöngum sem þjóðin hefur ratað í. Skýrslur Ríkisendurskoðunar voru yfirborðslegar og ekki staldrað við það að hæstu tilboðunum var ekki tekið og að svokallaðir kjölfestufjárfestar, erlendir, gufuðu upp eftir að hafa leppað kaupin í nokkra mánuði. Þáverandi forsætisráðherra var talinn hæfur til að selja sjálfum sér og sérstök skýrsla samin um það að hann væri hæfur til að selja sjálfum sér og nákomnum eigur hins opinbera.

Haraldur Johannessen ætti að geta gert betur, en hann hefur sýnt að hann er vís með að velta við hverjum steini í minni málum.


mbl.is Þjóðerniskennd efld á bensínafgreiðslustöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Koma Rússarnir?

Einn meginvandinn við ástandið í bankakreppunni er sá að þeir sem halda um stjórnartaumana hafa stýrt fleyinu upp á sker. Það er enginn augljós valkostur um hver á að taka við en það er augljóst að það verða að verða einhver umskipti. Það sem er alvarlegast við fréttina í Morgunblaðinu um skýrsluna sem er stungið undir stól er að háskólasamfélagið virðist hafa tekið þátt í þögguninni.

Í kvöldfréttum fór Ágúst Einarsson, rektorinn á Bifröst, hamförum. Hvar var hann í gær eða í síðustu viku? Hvað þá fyrir ári? Hann hefur einmitt slegið skjaldborg um gjaldþrota sjávarútvegskerfi og útrásina. Erfitt er að leita til háskólasamfélagsins og vonast eftir hlutlægri aðkomu í ljósi þessa. Það er spurning hvert eigi að leita. Hvert á að leita? Er einhverjum innlendum aðilum til að dreifa eða þurfa menn að leita út fyrir landsteinana?

Það er aldrei að vita nema við fáum einn eða tvo rússneska sérfræðinga með láninu stóra.


mbl.is Bankaskýrsla undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitir forsetinn Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Jóni Trausta Reynissyni fálkaorðuna?

Ég sá glefsur úr viðtalinu við forsetann okkar, Ólaf Ragnar, sem barðist af kappi fyrir útrásinni. Eitthvað virðist hún hafa farið úr böndunum, útrásin, a.m.k. er þjóðfélagið alveg á haus. Nánast enginn hefur viljað axla ábyrgðina, ekki Davíð Seðlabankastjóri, ekki Geir Haarde sem sat í ráðherranefnd um einkavæðingu, núverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra, ekki Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum ráðherra bankamála og sú sem einnig sat í einkavæðingarnefnd ráðherranna, ekki Halldór Ásgrímsson sem sérvaldi vini í S-hópnum með aðstoð Björns Inga Hrafnssonar sem síðar var kenndur við REI, ekki útrásarvíkingarnir Björgólfur, Jón Ásgeir og Hannes, ekki bankamennirnir Kjartan Gunnarsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og hvað þá Bjarni Ármannsson, ekki Fjármálaeftirlitið, ekki verkalýðshreyfingin sem sat í stjórnum lífeyrissjóðanna og ráðstafaði ævisparnaði umbjóðenda sinna, ekki fjölmiðlarnir sem áttu að veita aðhald (nema DV) og ekki Ingibjörg Sólrún sem neitaði að horfast í augu við augljósar brotalamir.

Þess er að vænta að forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, sem ekki er alls ókunnugur umdeildri einkavæðingu í stjórnartíð sinni sem fjármálaráðherra heiðri einu manneskjurnar á Íslandi sem hafa axlað ábyrgð í málinu. Þetta fordæmi þeirra ætti að skipta máli í umræðunni.


mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggðastefnan

Núna snýst byggðastefnan ekki um að halda við hinum dreifðu byggðum, heldur í landinu. Ef borið er saman hvernig núverandi stjórnvöld hafa haldið á málum til að leysa úr byggðavandanum og yfirvofandi kreppu fyrr á árinu má því miður sjá ýmis líkindi. Í vor fóru bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra í löng ferðalög til að auglýsa að allt væri traust. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og fylgisveinar, s.s. Hannes Hólmsteinn, hafa farið í ófáar ferðir til að tilkynna heiminum að hér sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Ingibjörg Sólrún neitaði um mánaðamótin ágúst-september að opna augun fyrir yfirvofandi vanda og á forsíðu Viðskiptablaðsins mátti lesa að engin kreppa væri á Íslandi rétt eins og haldið er fram að sjávarútvegskerfið sé hagkvæmt þegar það hvetur til sóunar.

Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin boði til alvöruaðgerða í efnahagsmálum og vinni hratt, s.s. við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, í sparnaði í utanríkisráðuneytinu, við lækkun vaxta og að tryggja að hjól atvinnulífsins snúist. Þetta eru byggðamál dagsins. Ef litið er til þess hvernig sama ríkisstjórn hefur brugðist við vanda dreifbýlisins hefur það verið með því að búa til skýrslu með venjulegu kjaftæði um tækifæri og ógnanir sjávarbyggða á borð við Grímsey, haldnar ráðstefnur og hlaupið yfir að ræða vanda atvinnugreinanna í byggðunum. Til þess að þagga niður í einstökum óánægjuröddum er slett byggðakvóta til sérvalinna aðila.

Við skulum þó vona að ríkisstjórnin breyti aðeins um kúrs og skoði alla þætti, þá sérstaklega atvinnugreinina sem gefur okkur mestan gjaldeyri og mest tækifæri til að gera betur, sjávarútveginn.


Viðkvæmni og svanasöngur

Íslendingar taka sumir hverjir of nærri sér fárið í breskum fjölmiðlum en þar ganga reglulega yfir einhverjir stormar, hvort sem það er fuglaveiki eða kynlífshneyksli einhverra ráðamanna, jafnvel áratugagamlar svallsögur af John Major. Heilu þjóðirnar eru uppnefndar, Frakkar kallaðir froskar, og svo telja Bretar sig vera í sérstöku sambandi við Bandaríkjamenn - líkt og Davíð Oddsson taldi sig vera - en svo nánast kúkuðu þeir á þá.

Ég vona svo sannarlega að íslenskir ráðamenn taki þetta ekki of nærri sér og taki á sig meiri skuldbindingar en nauðsynlegt er vegna þessa breska heimasíðubanka.

Svanasöngur Gordons brúna er örlítill gleðigjafi fyrir breska Verkamannaflokkinn, en ég er ekki jafn viss um að yfirlýsingarnar og aðförin að Kaupþingi gagnist betur bresku efnahagslífi eða bönkum sem sumir standa illa en digurbarkalegar yfirlýsingar ýmissa ráðamanna hér heima gagnast okkur.


mbl.is Brown gekk allt of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Semja þarf við Rússa um fleira

Það er beggja hagur, Rússa og Íslendinga, að ná frekari samvinnu. Rússland er stærsta ríki jarðar og er ríkt af náttúruauðlindum, en Rússar eru helmingi færri en Bandaríkjamenn.

Rússland var um áratugaskeið þjakað af kommúnisma og síðar upplausn og óstjórn. Nú eru breyttir tímar þó að ýmsir setji spurningamerki við stjórnarhætti valdhafa, en líta verður til þess að lýðræðishefð í víðfeðmasta ríki heims er ekki löng.

Tækifæri þjóðanna til að eiga ábatasöm viðskipti og samvinnu eru víða, s.s. við kaup á björgunarþyrlum, lýðheilsu, olíuleit, nýtingu jarðhita, iðnaðar og matvæla.

Mikilvægast af öllu er þó að sendinefnd Íslands hafi upp á fiskifræðingnum Dimitri Klochkov hjá VNIRO en hann hefur beitt nýjum aðferðum við mat á stærð þorskstofnsins í Barentshafinu og gæti hann mögulega leitt reiknisfiskifræðinga Hafró út úr því öngstræti sem þeir eru komnir í.    


mbl.is Hvað vilja Rússar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn bankastarfsmaður pottþéttur með starfið

Breytingarnar á Landsbankanum virðast ganga út á að breyta bankanum í einhvers konar sparisjóð. Það er mikil hætta á að mikilvæg þekking hverfi sem langan tíma geti tekið að byggja upp. Maður finnur til með fólki sem missir lifibrauðið og hefur sérhæft sig í störfum sem ekki er að sjá að mikil eftirspurn verði eftir á næstu mánuðum. Það kann þó að breytast hratt.

Skilaboð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eru nokkuð skýr, starfsmönnum Nýja Landsbankans og öðrum landsmönnum er sagt að standa og snúa bökum saman í efnahagsstorminum en um hvaða aðgerðir á að sameinast er alls óvíst og virðist sem málið snúist fyrst og fremst um að hafa ekki hátt um sofandahátt og skýra pólítíska ábyrgð forsætisráðherra á málinu.

Í miðjum samstöðuvaðlinum hefur Samfylkingin hleypt af stað áróðursherferð gegn stjórnendum Seðlabankans og líkt þeim við gereyðingarvopn og krafist afsagnar bankastjórnar. Markmiðið virðist vera að leita að blóraböggli og gera upp gamlar pólitískar sakir. Nú heyrast þær raddir að Kaupþing hafi fallið vegna yfirlýsinga seðlabankastjórans í Kastljósviðtali. Ég tel það af og frá, stjórnvöld fóru í mjög harkalegar aðgerðir gegn lánardrottnum Glitnis og Landsbankans og öllum mátti ljóst vera að þær gætu skaðað Kaupþing sem og síðar kom á daginn. Bresk yfirvöld ákváðu að bregðast við í stað þess að vera tekin í bólinu.

Einhverra hluta vegna neitar ríkisstjórnin algerlega að horfast í augu við eigin ábyrgð. Hvers vegna hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ekki gert neitt þegar öllum er búið að vera fullljóst um langt skeið að hávaxtastefna bankans væri ekki að virka? 

Ekki finnst mér ólíklegt að sá bankastarfsmaður sem er í hve öruggasta djobbinu sé Davíð Oddsson en til þess að hreyfa við karli þarf líklegast að sprengja ríkisstjórnina.  


mbl.is Um 500 missa vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja - hver voru skilaboðin?

Það er nokkuð snúið að átta sig á því hvaða skilaboðum Geir Haarde var að koma áleiðis til Íslendinga á blaðamannafundinum nema þá helst að draga til baka fyrri yfirlýsingar um að ætla ekki að tryggja Icesavings reikningana í Bretlandi.

 

 


mbl.is Viðskipti milli landa verða tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið haldi áfram með Icesave?

Það er mjög mikilvægt að ná góðu samkomulagi við okkar góðu granna í Bretlandi en við höfum í gegnum tíðina átt við þá ábatasöm viðskipti.

Ein leiðin gæti verið að gulltryggja innistæður breskra sparifjáreigenda og halda áfram starfrækslu netbankans sem gæti þá mögulega, ef það næst að vinna upp traust, haldið áfram að leggja þjóðarbúinu til gjaldeyri. 

Það má þó vera að þessi leið sé úr sögunni vegna yfirlýsinga síðustu daga og aðgerða hér heima og í Bretlandi síðustu dagana.      


mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín-aðferðin

Nú virðist sem Glitnir hafi verið tekinn af Fjármálaeftirlitinu á sama hátt og Landsbankinn var tekinn. Aðferðirnar minna um sumt á hvernig Pútín, vinur Íslands, endurskipulagði og endurráðstafaði stórfyrirtækjum Rússlands. Okkur varð ljóst eftir viðtalið við Davíð í Kastljósinu í kvöld að eitthvað þessu líkt væri í pípunum og það má vera að nokkuð glannalegar fullyrðingar Seðlabankastjórans hafi orðið til þess að látið var til skarar skríða í kvöld. Stjórnvöld hafa komist að því að bankanum yrði ekki bjargað með 85 milljarða króna framlagi og að meira vit væri í að leyfa lánardrottnum sem mestmegnis eru erlendir að hirða eigið fé bankans og reisa síðan nýjan banka á rústum þess gamla.

Þetta eru harkalegar aðgerðir gegn lánardrottnum bankanna og alls óvíst hvernig t.d. Kaupþing muni koma út úr þessum hræringum. Það hlýtur að verða erfitt fyrir þann banka að endurfjármagna sig í útlöndum í ljósi þess að lánveitendur hafa brennt sig illa á íslensku bönkunum.

Skyldi Kaupþing verða næst?


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband