Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Guðjón Arnar vel kryddaður - Geir saltaður

Það var virkilega gaman að fylgjast með vasklegri framgöngu Guðjóns Arnars Kristjánssonar  formanns Frjálslynda í umræðuþættinum Kryddsíldinni á Stöð 2 nú fyrr í dag.  Hann kom víða við og benti á að ASÍ hafi tekið upp skattastefnu Frjálslynda flokksins og að víðtæk sátt sé orðin um sjónarmið Frjálslynda flokksins í útlendingamálum 

Að vanda vakti Guðjón Arnar einn máls á því að nauðsynlegt sé að taka kvótakerfið í sjávarútvegi til gagngerrar endurskoðunar.  Það er staðreynd að kvótakerfið er ekki að gera sig en það er eins og að  umræða um það sé of erfið fyrir aðra stjórnmálaflokka en Frjálslynda flokkinn.

Guðni var einnig í nokkuð góðum gír enda hafði hann sér til aðstoðar sjálfan ævisöguritara sinn Sigmund Erni sem þekkti að eigin sögn betur til verka formanns Framsóknar en hann sjálfur.

Steingrímur J aðalritari VG átti óvenju dapran dag og reyndi hvað hann gat að hífa sig upp á kostnað annarra stjórnarandstöðuflokka.

Það var ólíkt að fylgjast með skötuhjúunum Geir og Ingibjörgu Sólrúnu. Geir var óvenju dapur í bragði og þungur, á meðan Ingibjörg Sólrún blómstraði og greinilegt að hún var glöð í bragði og hæstánægð með ráðherratign sína og nýja borgarstjóra Samfylkingarinnar.

Ég vil óska öllum lesendum bloggsins gleði og gæfu á nýju ári.

 


Ríkishagræðing Sjálfstæðisflokksins - Illa farið með fé

Hvaða almannahagsmuna er Sjálfstæðisflokkurinn að gæta?  Fyrir tveimur árum var varið  gríðarháum upphæðum til þess að endurnýja sláturhúsið í Búðardal vegna þess að þáverandi landbúnaðarráðherra tók upp á því hjá sjálfum sér að setja sláturhúsum mjög íþyngjandi reglur og gætti ekki jafnræðis við að framfylgja þeim

Það er grátbroslegt að ég man ekki betur en að núverandi landbúnaðarráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson hafi haldið langa og ábúaðarmikla ræðu við vígslu endurbótanna haustið 2005.  Ræða Einars fjallið um mikilvægi stórhuga endurbóta  fyrir Dali og íslenskan landbúnað.  Nú mun sami maður nokkuð örugglega flytja þjóðinni þann boðskap að úreldingin sé mikilvæg aðgerð til hagræðingar í íslenskum landbúnaði. Ég efast stórlega um það enda hvíla allir þeir útreikningar á mjög hæpnum forsendum.

 


mbl.is Ákveðið að úrelda sláturhúsið í Búðardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakúrekinn

Þegar maður á leið um Húnavatnssýslur, jú og Strandir líka, er alltaf gaman að stilla á Útvarp Kántríbæ. Þar ræður ríkjum kúreki norðursins, Hallbjörn Hjartarson. Í fyrradag var ég á ferðinni og stillti á kúrekann sem var í miklu jólastuði og spilaði færeyska jólatónlist, Engilbert Jensen og fleiri góða íslenska flytjendur og jú auðvitað ameríska kántrítónlist sem er meðal þess besta sem bandarísk menning hefur boðið heimsbyggðinni upp á. Það er alltaf gaman að hlusta á Hallbjörn, hann er einlægur og lagaval hans ber þess merki. Mér verður oft hugsað til þess hvers vegna hann fái ekki að samtengja Kántríútvarpið og Ríkisútvarpið, a.m.k. af og til. Það væri ábyggilega býhnykkur fyrir kúrekann og gleðigjafi fyrir landsmenn.

Nú er rétt að fara að hætta þessum skriftum og snúa sér að rjúpunni. Hún kostaði ekki þessa ógnarupphæð sem Ríkisútvarpið reiknaði út enda eru höfðingjar á þeim bænum og ekki vanir að gæta hófs. Þessar rjúpur sem fara í pottinn kostuðu vissulega svita auk mars á rassinn og ómældrar gleði og ánægju við veiðar.

Ég óska lesendum gleðilegra jóla.


Kristinn H. er í andstöðu við formann Frjálslynda flokksins

Í DV í dag gerir Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, að umtalsefni að Frjálslyndi flokkurinn sé að hverfa frá þeirri stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju. Í sjálfu sér er eðlilegt að það sé að einhverju leyti ólík afstaða til andlegra mála innan stjórnmálaflokka sem snúast eðli máls samkvæmt að mestu leyti um önnur viðfangsefni. Undir þetta sjónarmið Kristins um að endurskoðunar sé þörf tekur Magnús Þór Hafsteinsson.

Það sem stakk mig sérstaklega í umfjöllun DV var að þingflokksformaður Frjálslynda flokksins tiltekur ein trúarbrögð sérstaklega, þ.e. heiðnina, og segir að þau eigi ekki að sitja við sama borð og þau trúarbrögð sem meirihlutinn aðhyllist. Með þessu talar hann þvert gegn þeirri grundvallarstefnu flokksins að trúarskoðanir fólks séu einkamál þess, allar eigi sinn rétt og að aðskilja beri ríki og kirkju.

Það sem meira er er að formaður flokksins hefur margsinnis lagt fram frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Grunnstefið í því máli er að allir landsmenn eigi að sitja við sama borð. Í greinargerð Guðjóns Arnars með frumvarpi sínu segir m.a.:

Efnislega felur þetta frumvarp í sér að öllum trúfélögum skuli gert jafnhátt undir höfði og í samræmi við það skuli stefnt að aðskilnaði ríkis og hinnar evangelísku lútersku kirkju. 

Og nokkru síðar: 

Með núverandi skipan mála má segja að öðrum trúarhópum en þjóðkirkjunni sé sýnt óréttlæti sem ekki samrýmist eiginlegu trúfrelsi.
Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að 60–65% þjóðarinnar styðja aðskilnað ríkis og kirkju.

Og enn síðar í greinargerðinni:

Flytjendum þessa frumvarps er öldungis ljóst mikilvægi hins menningarlega og félagslega hlutverks kirkjunnar í samfélaginu. Því felur frumvarpið ekki á neinn hátt í sér óvild í garð kirkjunnar. Með því er einungis ætlunin að tryggja jafnrétti allra þegnanna á þessu sviði sem öðrum í samfélaginu.

Erfitt er að átta sig á skyndilegum trúarhita Kristins H. Gunnarssonar og miklum vilja til að blanda  saman stjórn- og trúmálum. Frelsaðir sannkristnir vinir mínir kannast ekki við að Kristinn H. hafi lagt áherslu á þessi mál fyrr. Það vekur einnig upp áleitnar spurningar um hvers vegna þingflokksformaður Frjálslynda flokksins sem enn er lítill flokkur skuli leggja sérstaka áherslu á að örlítið trúfélag ásatrúarmanna skuli vera sett skör lægra en önnur.   

Ég sé enga ástæðu aðra en þá að Kristinn H. Gunnarsson vilji tryggja sína stöðu innan Frjálslynda flokksins með því að efna til deilna um trúmál við mig. Ég frábið mér að taka þátt í þeirri deilu með öðrum orðum en þeim að minna á orð frelsarans M.K. 12.17. Gjaldið keisaranum það sem keisarans er, og Guði það sem Guðs er og bréf Páls til Títusar 1.15. Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. 

Ég óska Kristni og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla.


Vísindauppgötvanir á heimsmælikvarða

 

Trillukarlar hafa verið gagnrýnir á ráðgjöf Hafró sem er engin furða. Niðurskurður á aflaheimildum hefur ekki leitt til aukinnar veiði seinna eins og hefur verið lofað síðustu 20 árin. Nú er ástandið þannig að við veiðum um 30% af því sem við veiddum að jafnaði af þorski um áratugaskeið áður en þetta sérkennilega uppbyggingarstarf hófst.

Framkvæmdastjóri Landssambands smábábátaeigenda, Örn Pálsson, gerði nú í haust grein fyrir stórmerkilegri uppgötvun nokkurra trillukarla sem byggðist beint á gögnum Hafrannsóknastofnunar.

Í þessum gögnum Hafró kom fram að fiskur léttist gríðarlega eftir því sem hann eldist. Í skýrslum Hafró kemur fram að þorskur sem var 11 ára árið 2004 hafi þá mælst að meðaltali um 11 kg en nú, þegar hann er orðinn 14 ára, mælist hann að meðaltali tæp 7 kg. Ef þetta væri raunin væru þetta stórmerkilegar niðurstöður og Örn og trillukarlarnir ættu ekki minna skilið en Nóbelinn fyrir uppgötvanir sínar.

Eitthvað virðist sem það hafi farið fyrir brjóstið á bæði núverandi og fyrrverandi sérfræðingum Hafró að íslenskir trillukarlar hafi verið fyrri til að koma auga á að gögn Hafró sýndu að þorskurinn léttist eftir því sem hann eltist. Af því tilefni hafa verið skrifaðar tvær greinar í Morgunblaðið þar sem dregið hefur verið úr mikilvægi uppgötvananna. Ég er þessu ekki sammála þar sem uppgötvanir trillukarlanna hljóta að vera á heimsmælikvarða ef á annað borð er hægt að byggja á gögnum Hafró.

Einn af ofangreindum sérfræðingum Hafró greip til þess ráðs í nokkuð flókinni og torskilinni röksemdafærslu gegn því að stórmerkileg uppgötvun trillukarlanna skipti máli og væri þvert á móti eitthvert þvarg að gera ítarlega grein fyrir þróun hrygningarstofns og nýliðunar allt til ársins 1920!

Mér er í sjálfu sér hulin ráðgáta hvað stærð hrygningarstofnsins fyrir næstum 100 árum hefur með það að gera að skýrslur gefa til kynna að fiskur léttist eftir því sem hann eldist.

Það sem er meiri háttar við rökstuðninginn og hlýtur að vera stórmerkileg uppgötvun í sögu vísindanna er að grein er gerð fyrir stofnstærðum og nýliðun þorskstofnsins á þeim tíma þegar engar athuganir voru gerðar á þessum þáttum. Hingað til hefur Hafró einungis birt í skýrslum sínum gögn um ágiskun nýliðunar og stofnstærðar aftur til ársins 1955.

Nú á árinu 2007 eru í deilum við trillukarla dregnar upp viðbótartölur allt aftur til ársins 1920!

Ekki er úr vegi að spyrja Jóhann Sigurjónsson forstjóra Hafró: Hvaða tækni var notuð við stofnmælingar 1920 og hverjir unnu við þær?

Minna má á að það eru ekki nema örfá ár síðan Hafró tapaði liðlega 600 þúsund tonnum út úr reiknilíkani sínu sem svarar til um um fjórfaldrar leyfilegrar veiði í ár. Sá vísi maður Kristinn Pétursson hefur reiknað út frá gögnum Hafró að stofnunin hafi tapað að meðaltali 76 þúsund tonnum af þorski frá árinu 1984 til ársins 2005 og er það rúmlega helmingur af því magni sem leyfilegt er að veiða á þessu fiskveiðiári.

Það hljóta að hafa orðið undur og stórmerki í stofnmælingum botnfiska og almennt í reiknisfiskifræðinni á síðustu tveimur árum. Stofnuninni hefur ítrekað mistekist að reikna út stærð stofna sem eru lífs en nú treystir hún sér óforvarandis til að ákvarða stærð stofna áratugi aftur í tímann þótt engar rannsóknir á stofnstærð séu til grundvallar.

Það er orðið tímabært að sérfræðingar Hafró greini þeim sem standa utan við innsta hring hvaða sigrar í vísindum hafa unnist síðustu tvö árin sem valda því að hægt sé að treysta þeirri ráðgjöf Hafró sem Einar Kristinn Guðfinnsson ráðherra fylgir í blindni. Það hefur afgerandi áhrif á byggðir landsins og hag þjóðarinnar.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í gær


Úr fiski í flugið

Það hefur verið einkennandi í gegnum árin að farsælir forstjórar í flugfélögunum hafa komið úr bransanum sjálfum. Þá koma strax upp í hugann forstjórar Loftleiða og Arngrímur Jóhannsson sem lengi var forstjóri Atlanta. Nú í vikunni bar það til tíðinda í heimi viðskiptanna að skipt var um forstjóra í Icelandair Group. Úr starfinu fór maður sem hafði unnið um áratuga skeið í flugbransanum og inn kom Björgólfur Jóhannsson sem hefur aðallega reynslu úr sjávarútvegi og var síðast formaður LÍÚ og forstjóri stærsta fisksölufyrirtækisins, Icelandic Group.

Það er ekki hægt að segja að hann skili góðu búi. Útvegsmenn hafa verið að vola út sérstaka skattalækkun vegna slæmrar rekstrarafkomu þrátt fyrir að þeir búi, að eigin sögn, við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, og þar að auki hefur verðið sjaldan eða aldrei verið hærra á fiskafurðum.

Á þessu ári hefur gengi hlutabréfanna í Icelandic Group lækkað um nálægt 30% og fram kom í Viðskiptablaðinu að fyrirtækið hefði á þriðja ársfjórðungi tapað 2,5 milljónum evra. Það er erfitt að átta sig á því hvaða forsendur liggja að baki ráðningunni og hvaða hlutverk nýja forstjóranum er ætlað. Óneitanlega hvarflar að manni að þessi hópur, aðalleikararnir á hlutabréfamarkaði og forstjórar þeirra auk viðhlæjendanna, sé afar þröngur og menn líti ekki út fyrir þann garð til að finna menn til að stýra fyrirtækjum.


Verra en Rússland var

Á árum áður sigldu ýmsir í fjölskyldu minni til Sovétríkjanna og höfðu misjafnar sögur að segja af smásmygli og sérkennilegum uppákomum í höfnum þar eystra. Það virðist þó eins og roka í vindinum miðað við það sem sumir gestir Bandaríkjanna mega þola um þessar mundir. Það er ekki bara Erla þessi sem hefur þurft að sæta harðræði, æ fleiri sögur berast af slíkri framkomu. Ég heyrði rétt í þessu í vini mínum á Akureyri sem sagði mér að amma sín á níræðisaldri hefði lent í líkamsleit vegna þess að hún fann ekki strax passann sinn í flughöfninni!

Unglingsdóttir fyrrum samstarfskonu minnar lenti í spurningaleik og síðan í langri yfirheyrslu og varð fyrir vikið viðskila við samferðafólk sitt á leiðinni til skyldfólks í Bandaríkjunum. Þetta var hennar fyrsta ferð einsömul til útlanda.

Því miður virðist Bush forseti vera á góðri leið með að glata trausti hjá frjálsum vestrænum lýðræðisríkjum með óþarfa hörku. Svo virðist sem við séum að verða meðvirk þegar íslenskir fréttamenn eru farnir að telja eðlilegt að velta fyrir sér hvort 16 ára strákur ofan af Skaga fái til langrar framtíðar ekki að fara til Bandaríkjanna vegna tilraunar til símahrekks. Maður hefur fullan skilning á að Bandaríkjamenn vilji hafa öflugt landamæraeftirlit en þetta tekur út yfir allan þjófabálk.


mbl.is Mun krefjast afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð grein Hafró - notar Hafró miðla?

Á Hafróvefnum er að finna mjög áhugaverða grein um far ufsans en höfundur hennar er Hlynur Ármannsson ásamt fleirum. Endurheimtur á merktum ufsa renna styrkum stoðum undir að veiðiálag á ufsa sé miklum mun minna en stofnlíkan Hafró gefur til kynna sem síðan er notað til að skammta út veiðiheimildir. 

Það er umhugsunarerfni hversu erfitt uppdráttar gagnrýnin umræða um stjórn fiskveiða á en ég sendi grein í Morgunblaðið um miðjan síðasta mánuð þar sem ég svaraði sérfræðingum Hafró sem höfðu leyft sér að kalla málefnalega gagnrýni eitthvert þvarg sem ætti að linna.

Morgunblaðið hefur ekki séð ástæðu til að birta greinina þó svo að ég upplýsi að einn af sérfræðingum Hafró hafi gripið til þess að flagga þróun stærðar hrygningarstofns og nýliðunar allt aftur til ársins 1920! Það eru auðvitað ekki til nein gögn um nýliðun eða stærð hrygningarstofns frá 3. áratug tuttugustu aldar og þess vegna hljóta þessar fullyrðingar að vera einhver vísindaskáldskapur.

Þegar ég lærði mína fiskifræði í tímum að Skúlagötu 4 voru birt línurit allt aftur til ársins 1955 en nú virðast vera fundin viðbótargögn sem ná aftur til ársins 1920. Ekki veit ég til þess að það hafi verið einhver rannsóknarskip í stofnmælingum á botnfiskum á 3., 4., 5., 6. eða 7. áratug síðustu aldar enda er Hafró ekki stofnuð fyrr en árið 1965, um líkt leyti og kenningar sem stofnunin vann síðar með upp úr miðjum áttunda áratugnum um uppbyggingu fiskistofna koma fram. Bakreikningar frá þeim tíma byggja á afar hæpnum gögnum. Nú virðist sem Hafró sé að teygja útreikninga sína á stærð fiskistofna aftur til þess tíma þegar Íslendingar fengu fullveldi og ef til vill verður næsta skref að reikna stærð þorskstofnsins aftur á þjóðveldisöld. 

Það er engu líkara en Hafró sé komin með miðla í þjónustu sína. 


Valkyrjur, þungavigtarmenn og sjóhundar í Eyjafirði

Þótt ég sé fluttur vestur í Skagafjörðinn held ég mjög góðu sambandi við félaga mína í Frjálslynda flokknum í Eyjafirði. Þar eru m.a. valkyrjur, þungavigtarmenn og sjóhundar eins og vinur minn Óskar Helgi Helgason myndi orða það. Nú hefur þetta góða fólk sett upp blogg hér á Mogganum þar sem margt merkilegt kemur fram.

Ekki ein gagnrýnin spurning frá fréttamanni

Ég var að horfa á fréttir Stöðvar 2 og hlusta á fréttir RÚV af ótíðindunum frá Hafró sem berast reglulega vor og haust um minnkandi þorskstofn þrátt fyrir loforð um uppbyggingu. Nú berast þær fréttir að þorskstofninn hafi jafnvel minnkað meira en sem samsvarar veiðum úr stofninum. Það sem er athyglisvert er að ekki ein einasta gagnrýnin spurning kemur fram hjá fréttamönnum á þessa vinnu. Ekki ein.

Ekki ein.


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband