Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Bjarni Benediktsson segir ósatt

Ég hafði ákveðið að vera ekki að tjá mig um málefni tilvonandi tengdadóttur Jónínu Bjartmarz sem veittur var íslenskur ríkisborgararéttur af Alþingi.

Ástæðan er sú að þessi mál snúa að einstaklingum og fjalla um undantekningar frá meginreglum laga um veitingu ríkisborgararéttar.  Ég hafði ekki kynnt mér hvaða það var sem réttlætti einmitt þessa undantekingu en treysti því að fulltrúar almennings gætu skýrt skilmerkilega frá því. Það hefur ekki gerst heldur eru alþingismennirnir á hlaupum undan fjölmiðlamönnum þegar talið berst að þessu máli og sýnir það stöðu þeirra í málinu.

Nú ber svo við að Bjarni Benediktsson fullyrðir að hann hafi ekkert vitað af tengslum umhverfisráðherra við stúlkuna sem um ræðir. Ég trúi þessu ekki enda getur þetta ekki verið satt miðað við hvernig þessi svokallaða undirnefnd allsherjarnefndar hefur sagst starfa í öðrum málum. 

Mér finnst Bjarni, Guðjón og Guðrún setja mjög niður við að greina þjóðinni ekki satt og rétt frá þessu máli og skýra það út af hreinskilni.

Það er aldrei gott að ljúga.


Munu þau sjá að sér?

Í dag var ég í kosningasjónvarpi RÚV að ræða mál Norðausturkjördæmis. Eins og oft áður barst talið að byggða- og atvinnumálum. Þau eru oft rædd án þess að þau séu skilgreind með nokkrum hætti - eða þá að hver skilgreinir þau með sínu nefi. Framsóknarmenn skilgreina atvinnumál á landsbygginni bara sem uppbyggingu stóriðju en oft er ómögulegt að vita hvað Sjálfstæðisflokkurinn á við þegar hann fer að ræða atvinnu byggðanna. Hann heldur því í sífellu fram að atvinnulífið sé sterkt þótt allar hagstærðir sýni annað, fólki fækki og umsvif dragist saman.

Það er oft erfitt að átta sig á Vinstri grænum og Samfylkingunni sem reyna að leiða umræðuna út í samgöngumál, rafmagnsverð og flutningskostnað og stundum að málefnum einnar stofnunar norður á Sauðárkróki sem heitir Byggðastofnun.

Allir þessir flokkar forðast eins og heitan eldinn að ræða fiskveiðistjórnunina sem kemur í veg fyrir nýliðun og hefur að auki leitt stórtjón yfir þjóðina.

Frjálslyndi flokkurinn sér það sem allir ættu að sjá að ef það á að vera framtíð í sjávarbyggðunum þarf nýjum aðilum að gefast kostur á að hasla sér völl innan atvinnugreinarinnar. Vinstri grænir hafa að vísu kynnt stefnu fyrir kosningarnar en hún er arfavitlaus eða svo sagði leiguliði, maður sem leigir til sín aflaheimildir - hann sagði að kerfi þeirra myndi einungis gera stöðu hans enn erfiðari og er hún ekki góð fyrir.

Ég skil ekkert í sósíalískum flokki að þora ekki að koma fram með framsæknar tillögur eða skeleggt kerfi til að takast á við kerfi sem misbýður réttlætiskennd þjóðarinnar og er á góðri með að leggja stóran hluta landsins í eyði.

Ég vonast svo sannarlega til þess að fólkið sjái að sér. Það felast ógrynni tækifæra í að breyta kerfinu.


Enn og aftur dreifir prófessor í Háskóla Íslands fordómum

Það er nokkuð erfitt að átta sig á því Baldri Þórhallssyni gangi til með órökstuddum fullyrðingum sínum um Frjálslynda flokkinn á opinberum vettvangi, en Magnús Þór Hafsteinsson fjallar um vinnubrögð hans á heimasíðu sinni

Eitt er víst að Baldri er ekki annt um heiður sinn sem fræðimanns.

Ekki er úr vegi að rifja upp grein sem birtist snemma árs í Fréttablaðinu þar sem ég upplýsti lesendur blaðsins um mjög svo óvönduð og óvísindaleg vinnubrögð Baldurs Þórhallssonar prófessors Háskóla Íslands í stjórnmálafræði. 

Fordómar prófessorsins
Það er greinilegt að sá mikli fjöldi fólks sem tók virkan þátt í flokksþingi Frjálslynda flokksins um síðustu helgi hefur sett óhug að sjálfskipuðum varðhundum umræðunnar.

Frjálslyndi flokkurinn hefur verið í fararbroddi við að ræða ýmis mál sem brenna á þjóðinni en sjálfskipaðir verðir umræðunnar hafa reynt að þagga hana niður, s.s. umræðu um útlendinga og kvótakerfið.

Í fjölmiðlum hefur verið dregin upp mjög sérstök mynd af þeim nokkur hundruð Íslendingum sem tóku þátt í fundinum og samþykktu vandaða stjórnmálaáætlun flokksþingsins. Látið hefur verið að því liggja að þetta hafi verið samkoma sem hafi daðrað við hatur í garð fólks af erlendum uppruna. Það á ekki við nokkur einustu rök að styðjast og sýnir það að nauðvörn andstæðinga flokksins felst í að sverta samkomuna.

Mikið hefur verið gert úr ringulreið sem skapaðist um skeið þegar stór hópur fólks streymdi til skráningar á þingið skömmu áður en kosning átti að hefjast.

Morgunblaðið hefur gert mikið úr þeirri þvögu sem varð en sem starfsfólk þingsins greiddi farsællega úr þegar á leið. Og kosning fór fram eins og lög gerðu ráð fyrir. Ég vil nota tækifærið og hrósa því fólki sem vann óeigingjarnt starf á þinginu og réði fram úr ástandi sem ekki varð séð fyrir.

Enginn gerði athugasemd við framkvæmd kosningarinnar nema sá frambjóðandi sem fór halloka í sjálfum kosingunum eftir að úrstlit lágu fyrir og síðan komu helstu fylgismenn í kjölfarið.  Frambjóðandinn sem um ræðir hafði stefnt leynt og ljóst að því að fara úr Frjálslynda flokknum ef hún næði ekki undirtökunum í flokknum.

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með því hvernig ýmsir reyna að sverta þann fjölda fólks sem tók þátt í lýðræðislegu starfi á vegum Frjálslynda flokksins.

Þó tók steininn úr þegar Baldur Þórhallsson sem starfar sem prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og á að stunda gagnrýnin vinnubrögð gleypti í fréttatíma RÚV í kvöld við öllum rangfærslum um framkvæmd kosninganna, miklaði þær og dró síðan í framhaldinu í efa trúverðugleika Frjálslynda flokksins.

Ekki veit ég til þess að prófessorinn hafi haft nokkurt samband við þá valinkunnu heiðursmenn sem sáu um framkvæmd kosninganna til þess að kynna sér málavöxtu.

Ég skora hér með á Baldur Þórhallsson, prófessor í Háskóla Íslands, að setja sig í samband við kjörnefnd Frjálslynda flokksins, setja sig inn málavöxtu og vera ekki að fella dóma sem byggðir eru á litaðri fréttamennsku flokksblaðs Sjálfstæðisflokksins


Úr hörðustu átt

Hefur Bjarni Ármannsson ekki verið nokkuð stórtækur í innherjarviðskiptum.  Fengið lán í gegnum bankann til að kaupa hlut í Íslandsbanka og selja hann síðan bankanum. 

Nú er Bjarni Ármannsson kominn í Samfylkinguna og predikar gagnsæi launa.  Það eru heldur ekki margir sem hafa leyst til sín jafn háar fjárhæðir í svokölluðum kaupréttarsamningum.


mbl.is Bjarni Ármannsson telur að efla þurfi Fjármálaeftirlitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindaleg rök gegn kvótakerfinu


 

Fundur verður haldinn á Hótel Sóley Dalvík í kvöld, 26. apríl, kl. 20. Á fundinum mun Jón Kristjánsson fiskifræðingur halda stórfróðlegt erindi um mikinn árangur Færeyinga við að stýra fiskveiðum.   

Ég sem er þingmaður og líffræðingur mun kynna stefnu Frálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum. 

Ummæli fundarmanns sem mætti á sambærilegan fund fyrir viku á Húsavík eru sem hér segir:

Ég fór á þennan fund til þess að hlusta á Jón Kristjánsson fiskifræðing og hvað hann hefði fram að færa.

Niðurstaðan er þessi: Ég var gáttaður á þeim fróðleik og vísindum sem hann hafði fram að færa. Ég er gáttaður á að alþingismenn, fréttamenn, og aðrir sem vilja auka skilning sinn á umhvefinu skuli ekki leggja við hlustir og auka þekkingu sína með því að hlusta á önnur sjónarmið en þau sem eru mötuð ofan í okkur af Hafrannsóknastofnun. Bara gáttaður. Ég fer á ýmsa fundi og þetta er sá albesti fundur sem ég hef orðið vitni að. 


Það er ekki hægt að úrelda sjávarútveginn!

Fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, opinberar enn og aftur hversu illa hann er að sér um málefni sjávarútvegsins. Í fyrsta umræðuþætti nú fyrir kosningarnar taldi hann að umræðan um sjávarútvegsmál væri úrelt og væri hluti af einhverju gömlu hagkerfi og af sama meiði og landbúnaður og ríkisrekstur!

Í umræðum á Rás 2 í dag virðist sem Kristján Þór hafi sem betur fer áttað sig á því að orðið hafi einhverjar tækniframfarir í sjávarútvegi. Hann virtist samt sem áður koma af fjöllum þegar talið barst að gríðarlegri skuldaaukningu sjávarútvegsins. Mig minnir að í skýrslu formanns Samtaka fiskvinnslustöðva hafi verið tíundað að skuldir sjávarútvegsins hefðu farið úr um 90 milljörðum í 265 milljarða á rétt rúmum áratug.

Það sem er sláandi við þessa skuldaaukningu er að verðmæti útflutts sjávarfangs hefur á síðustu árum staðið í stað eða sveiflast með breytingum á gengi íslensku krónunnar. Þetta gerist þrátt fyrir að verð á sjávarafurðum hafi hækkað og heimsmarkaðsverð á sjávarafurðum hafi sjaldan verið hærra.

Í umræðunum á Rás 2 var að heyra að Kristján Þór teldi að skuldirnar hefðu ekkert hækkað. Staðreyndirnar tala sínu máli, milljarðarnir hafa streymt út úr greininni og varlega áætlað má ætla að það sé vel andvirði tveggja Kárahnjúkastíflna sem hefur farið út úr greininni á síðasta áratug.

Oddviti sjálfstæðismanna í kjördæminu hafnaði því að breyta kerfinu með þeim rökum að það væri ólíðandi að atvinnugreinin væri á einhverju uppboði. Það má segja að það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur varið hefur stuðlað að því að sjávarbyggðir landsins eru nánast allar komnar á uppboð. Því miður er ekki boðið hátt verð í húseignir sjávarþorpanna sem fyrir örfáum árum voru blómlegar og vaxandi byggðir.

Það blasa við tækifæri til að breyta þessu kerfi, kerfi sem er óskynsamlegt og hefur ekki skilað neinu.


Dagur að kvöldi kominn

Kosningabaráttan felur í sér mikil ferðalög og stundum getur verið lýjandi að keyra um langan veg. Í dag og undanfarna daga hef ég þó getað yljað mér við fallegt landslag. Mér finnst alltaf gaman að keyra Möðrudalsöræfin, einkum þegar Herðubreið sést.


Góður fundur á Grenivík - Magni klikkar ekki heldur ...

Í dag fór ég til Grenivíkur, átti þar góðan dag, bar fundarboð í hvert hús og ræddi við fólk um leið og ég boðaði það á fund. Fundurinn sjálfur fór fram í Gamla skóla.

Grenivík er fallegur staður sem ég hafði nokkrum sinnum komið til áður til að spila fótbolta við Magna, Grenivík sem spilaði venjulega í KR-búningunum. Ekki sótti ég alltaf gull í greipar Magna-manna, þeir eru harðir naglar í boltanum.

Fundurinn var þokkalega vel sóttur af Grenvíkingum sem sýndu málefnum flokksins gríðarlega mikinn áhuga. Svona fundir virka í báðar áttir, gagnlegar umræður áttu sér stað, ég kynnti hugmyndir mínar og fékk til baka úr reynslubanka þeirra, m.a. um hvað kvótakerfið kæmi í veg fyrir að sjómenn nytu þess þegar fiskistofnar væru í uppsveiflu.

Allir voru sammála um að það væri meira en lítið bogið við það að Hafrannsóknastofnun mældi þorskinn í niðursveiflu á meðan landburður er nú af fiski. Sömuleiðis vorum við öll hjartanlega sammála um að frjálsar handfæraveiðar hefðu engin áhrif á stærð fiskistofna.

Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka fram að utanríkisráðherra mætti ekki.

4skvisur

Þessar frísku Magna-stelpur voru reyndar ekki á fundinum í Gamla skóla í kvöld. Ég nappaði myndinni af heimasíðu Grýtubakkahrepps.


Myndir að austan og norðan

Kosningaskrifstofa Egilsstöðum
  

 

 

 

 

 

 

      

Vel merktir bílar Frjálslynda flokksins fyrir utan kosningaskrifstofuna á Akureyri
Vel merktur bílafloti á Akureyri  
Fundur á Stöðvarfirði
Fundur á Húsavík

 

 

     

 

 

 

Trúbadorinn Jude umkringdur ungum aðdáendum

 

 


Nasisti á Stöðvarfirði?

Í dag héldu frjálslyndir fund á Stöðvarfirði þar sem ég fór rækilega yfir augljósa líffræðilega veikleika þess grunns sem kvótakerfið byggir á. Ég lagði aðaláherslu á að einn mikilvægasti liðurinn í því að breyta kvótakerfinu er að færa Hafró undan stjórn þröngra hagsmunaaðila sem vilja halda óbreyttu kerfi þótt þjóðin og byggðirnar tapi. Ég gerði rækilega grein fyrir því að við ráðum ekki stærð fiskistofnanna, heldur njótum þess í auknum afla þegar þeir eru stórir og líðum svo fyrir það í aflabresti þegar þeir eru í niðursveiflu.

Fyrir fundinn lagði ég leið mína inn í þorpið til að dreifa fundarboði og ákvað að leggja leið mína sérstaklega í hús Björgvins Vals Guðmundssonar sem er háttsettur innan Samfylkingarinnar, sérstakur trúnaðarmaður hennar, og ætlaði að ræða við hann einslega til að leiðrétta misskilning hans um stefnu Frjálslynda flokksins.

Einhverra hluta vegna náðum við ekki saman þótt ég hafi ítrekað lagt mig fram við að ná fundi með honum. Þó að við Björgvin höfum ekki hist lagði hann sérstaka lykkju á leið sína til að gera hróp að starfsmanni Frjálslynda flokksins sem hafði nákvæmlega ekki neitt til saka unnið. Björgvin hrópaði að starfsmanninum ókvæðisorð þar sem hann undirbjó fundinn, m.a. að við værum nasistar.

Þið eruð nasistalýður,“ öskraði Björgvin Valur.

Maður spyr sig hvort það sé eðlilegt að maður sem er sérstakur trúnaðarmaður Samfylkingarinnar, og barnaskólakennari, geri svona hróp að ókunnugu fólki.

Auðvitað grunar mig hvað býr að baki. Hann finnur fyrir vonbrigðum og uppgjöf með málflutning Samfylkingarinnar í baráttu fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem er forsenda blómlegrar byggðar á Stöðvarfirði. Það hlýtur þó að vera eitthvert hóf í öllu.


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband