Leita í fréttum mbl.is

Álitsgjafinn Benedikt Lafleur

RÚV hefur mikið fjallað upp á síðkastið, um kynlíf og mögulega misnotkun framliðinna og sömuleiðis um fölsun á fortíð.  Það var því tímabært að RÚV færi að spá í framtíðina og fékk fréttastofan til liðs við sig vin minn og virtan talnaspeking  Benedikt Lafleur sem greindi frá hvað dagurinn í dag 11.11.11. hefur í för með sér. 

Benedikt er mikill áhugamaður um listir, bókmenntir, sund, talnaspeki og stjórnmál. Vonandi verður framhald á að fréttastofa leiti til Benedikts Lafleur en hann hefur reynst mun sannspárri um þróun mála en þeir sem hafa verið fastir álitsgjafar RÚV bæði fyrir og eftir hrun.


Kaffispjall í Grasrótarmiðstöðinni að Brautarholti 4 - Allir velkomnir

Kaffispjall verður í Grasrótarmiðstöðinnni Brautarholti 4, Reykjavík laugardaginn 5. nóvember kl. 13. Gunnar Skúli Ármannsson mun m.a. greina frá raunveruleika íslensks efnahagslífs og afleiðingum kreppunnar og fjalla um ferð sína til Madrídar nú í haust. 

Þegar trúin á tröll verður skynseminni yfirsterkari

Sturla Böðvarsson skrifaði mjög sérstaka grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 1. nóvember sl. Í greininni segir Sturla m.a. frá frá eigin starfsferli og miklu vinfengi sínu við útgerðarmenn. Einnig greinir Sturla frá því að hann hafi „tröllatrú“ á kvótakerfinu og að kerfið sé mjög í þágu byggðanna og það sérstaklega í Norðvesturkjördæminu.  

Ekki gat fyrrverandi þingmaðurinn stutt þessa trú sína með nokkrum rökum enda er það nánast ómögulegt. Sjávarbyggðirnar hafa flestar hverjar glímt við gríðarlegan fólksflótta þar sem heildarþorskaflinn er einungis brot af því sem hann var fyrir daga kerfisins og sumar byggðirnar hafa nánast misst allan þorra aflaheimilda. Kvótakerfið hefur þar að auki fengið þann dóm hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að vera óréttlátt og brjóta á jafnræði þegnanna. Kvótakerfið hefur þar að auki orðið til þess að útvegurinn hefur safnað skuldum og hvetur til sóunar og brottkasts.

Sturla Böðvarsson er skynsamur maður sem á vel að þekkja til þess stórtjóns sem kvótakerfið hefur valdið þjóðinni. Erfitt er að skiptast á skoðunum eða rökræða við trénaða sjálfstæðismenn sem byggja skoðanir sínar ekki á skynsemi heldur trú, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða tröllatrú.

Rétt er þó að minnast þess að trúmaðurinn mikli Sturla Böðvarsson hefur glímt við efann eins og þjóðháðtíðarræða hans frá árinu 2007 ber með sér:

Áform okkar um að byggja upp fiskistofnana með kvótakerfinu sem stjórnkerfi fiskveiða virðist hafa mistekist. Sú staða kallar á allsherjar uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu ef marka má niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar. Staðan í sjávarútvegsmálum er því mjög alvarleg og kallar á breytingar ef sjávarbyggðirnar eiga ekki að hrynja. Margt bendir til þess að aflaheimildir safnist á hendur fárra útgerða sem leggja skipum sínum til löndunar í útflutningshöfnunum og herða enn frekar á þenslunni í atvinnulífinu þar, allt í nafni hagræðingar sem mun koma hart niður á þeim byggðum sem allt eiga undir veiðum og vinnslu sjávarfangs.

Ástandið og horfurnar í minni sjávarbyggðunum er mjög alvarlegar ef draga verður úr veiðum og sú staða kemur flestum á óvart. Miðað við aflabrögðin við Breiðafjörð á síðustu vertíð hvarflaði það ekki að nokkrum manni þar að við ættum eftir að standa frammi fyrir því að skera enn niður veiðiheimildir á næsta fiskveiðiári.

En hvað er framundan á Vestfjörðum við þessar aðstæður. Umræðan um atvinnumál á Vestfjörðum og þróun byggðanna hefur verið áberandi.

Sveiflur í þorskveiðum og framsal aflaheimilda milli verstöðva ógnar nú atvinnulífinu og byggðunum. Við það verður ekki búið. Við verðum að snúa vörn og undanhaldi í sókn.


Þingmenn Samfylkingarinnar vilja að forsætisráðherra tali við Jón Gnarr!

Þingmenn Samfylkingarinnar vinna, eins og þeir segja sjálfir frá, baki brotnu við að endurreisa Ísland eftir hræðilega stjórn Sjálfstæðisflokksins sem þeir kannast alls ekki við að bera nokkra ábyrgð á.

Ekki eru þingmenn Samfylkingarinnar að pæla í því hvort hægt sé að ná í meiri afla úr hafinu eða þá að gera meiri verðmæti úr honum - nei, þeir eru í mikilvægari verkum eins og þingsályktunartillaga Marðar Árnasonar ber með sér. Hún felur í sér að Jóhanna Sigurðardóttir taki upp viðræður við Jón Gnarr um réttindi og skyldur Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar Íslands.

Tillagan er raunar algert bull að mínu viti en á hana hafa samt sem áður hópast þingmenn Samfylkingarinnar. Mér sýnist sem tillagan miði að því að borgarstjórinn verði meira og minna inni á gafli, ekki bara hjá ríkisstjórn heldur einnig hjá Alþingi í skipulögðu samráði.


Ræða fortíðar

Ræða Steingríms J. Sigfússonar á landsþingi Vg er ræða um fortíðina. Hann gagnrýnir Halldór Ásgrímsson, en samt sem áður hefur Vg endurreist Halldór til starfa fyrir land og þjóð á alþjóðavettvangi.

Vissulega gagnrýndi Vg einkavinavæðinguna og skuldasöfnun þjóðarbúsins sem orakaði hrunið. Ekki var hann einn um þá gagnrýni eins og Steingrímur lætur í veðri vaka en það voru fleiri ábyrgir aðilar sem vöruðu við s.s. Frjálslyndi flokkurinn, fjöldi hagfræðinga og Útvarp Saga.

Óneitanlega skýtur það skökku við að Steingrímur, sem varaði við vondu fjármálkerfi, unir sér ekki hvíldar við að endurreisa nánast óbreyttu kerfi og beitir þar að auki óvönduðum meðulum, sem hann áður harðlega fordæmdi. Steingrímur hefur beitt blekkingum s.s. í Icesavemálinu, leynd og þar að auki verið stórtækastur allra ráðamanna í sögu landsins við að einkavæða.

Mikið áhyggjuefni er fyrir Vg og jú þjóðina á meðan flokkurinn heldur enn um stjórntaumana að eina stefnan sé að endurreisa hið fallna kerfi.


mbl.is Munum áfram nota krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer formaðurinn á gamla Volvónum norður?

Það ber helst til tíðinda í aðdraganda fundar Vg norðan heiða að trésmiðurinn Þorvaldur Þorvaldsson hefur boðist til að leysa Steingrím J. Sigfússon af hólmi. Í viðtölum við Steingrím hefur komið fram að hann hefur unnið löngum stundum við mikinn andbyr og er mæddur.

Ég þekki Þorvald Þorvaldsson í gegnum félagsmál og veit að hann er skynsamur og einlægur baráttumaður fyrir hugsjónum sínum þó að okkur hafi oftsinnis greint á um markmið og leiðir. Þetta verður fróðleg viðureign þar sem fullljóst er að Þorvaldur stendur nær hugsjónum flokksins en Steingrímur sem hefur beitt kröftum sínum í að endurbyggja nánast óbreytt fjármálakerfi með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sótt um Evrópusambandsaðild og leynt og ljóst beitt sér fyrir nær óbreyttu kvótakerfi í sjávarútvegi.

Þorvaldur er alþýðumaður sem stendur grasrót flokksins miklu nær og mun örugglega ekki skera niður heilbrigðisstofnanir hringinn í kringum landið til að geta endurreist útrásarliðið eins og atvinnupólitíkusinn Steingrímur ætlar sér.

Hver veit nema Steingrímur grípi til þess bragðs að koma keyrandi á gamla blágræna Volvónum sínum norður í land til að skáka trésmiðnum?


Láta fjölmiðlar blekkjast?

Jóhanna og Steingrímur J. ætla að halda eitthvert meiri háttar útskriftarpartí þar sem þau kynna gríðarlegan árangur og trausta stöðu þjóðarbúsins. Uppákoman minnir um margt á örvæntingarfulla kynningarferð Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar hérna um árið, korteri fyrir hrun, þegar þau kynntu gríðarlega trausta stöðu þjóðarbúsins og glæstar horfur.

Hér er bréf sem ég skrifaði ásamt nokkrum fjölda fólks um raunverulega stöðu þjóðarbúsins þar sem leiðin út úr vanda er að vita hina raunverulega stöðu. Þess vegna kíki ég af og til inn á heimabankann ...


Græningjarnir í Sjálfstæðisflokknum höfðu rangt fyrir sér

Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins komust á snoðir um að Vinstri græninginn Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra ætlaði að gefa veiðar frjálsar á rækju, þá sögðu þeir frelsið svartan blett. Fremstur í því að úthrópa sjávarútvegsráðherrann fór græninginn Jón Gunnarsson. Hann leiðir sömuleiðis fábjánalega baráttu Sjálfstæðisflokksins gegn því að fiskur fari á frjálsan uppboðsmarkað. Með í því, að reyna kveða niður atvinnufrelsið, tók Byggðastofnun en því var haldið fram að frelsið til þess að afla verðmæta myndi gera einhver ólögleg veð sem stofnunin veitti verðlaus!

Hver er síðan niðurstaðan af þessu frelsi til veiða? Það ber ekki á öðru en að Hafró mæli nú meira en nóg af rækju þrátt fyrir upphrópanir Sjálfstæðisflokksins. 

Nú er að sjá hvort að þingmenn Sjálfstæðisflokksins dragi ekki þann lærdóm af þessu máli og styðji frjálsar handfæraveiðar og þá sjómenn sem ætla á veiðar í samræmi við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. 


Jóhanna, reið Hæstarétti og forseta Íslands en hælir samvinnu við banka

Eitthvað hlýtur ræða leiðtoga íslenskra "Jafnaðarmanna" að vefjast fyrir venjulegu alþýðufólki. Í ræðunni fullyrðir forsætisráðherra að ríkisstjórnin hafi þurft að glíma við heiftúðugar, óvæntar og ómálefnlegar ákvarðanir Hæstaréttar og forseta Íslands. Allir vita hvaða ákvarðnir Jóhanna á við en það er annars vegar sú ákvörðun forsetans að leyfa þjóðinni sjálfri að ákveða hvort að hún ætlaði að greiða Icesave og hins vegar þá ákvörðun Hæstaréttar að fella þann dóm að lán íslenskra banka í erlendri mynt stæðist ekki lög. Jóhanna og félagar hennar í ríkisstjórninni hafa síðan reynt að snúa út úr dómi Hæstaréttar með því að endurreikna afturvirkt gjaldeyrislánin með hæstu breytilegu vöxtum Seðalbankans.

Miklu mildari tónn var hjá forsætisráðherra í garð bankanna en í ræðunni endurtók hún vafasamar ýkjusögur þeirra um afskriftir, til handa heimila og taldi þeim til tekna að hafa farið að lögum hætt við að innheimta ólöglegu gjaldeyrislánin. Sömuleiðis var tíunduð samvinna banka við stjórnvöld við að greiða úr skuldavanda heimila! Í framhaldinu hreykti Jóhanna sér af því að það hefðu orðið miklar umbætur í ráðningamálum á vegum hins opinbera. Verður þetta ekki túlkað með öðrum hætti en svo að Jóhanna ætli að standa með Páli Magnússyni í Bankasýslunni.

En þetta eru víst tímar Jóhönnu Sigurðardóttur.


Stjórn Frjálslynda flokksins styður sjómenn í mannréttindabaráttu

Stjórn Frjálslynda flokksins styður heilshugar þá sjómenn sem hyggjast berjast fyrir rétti sínum og alls almennings og róa til fiskjar með handfæri, án kvóta. Sjómennirnir eru í fullum rétti enda ótvírætt varðir af jafnræðisreglu stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og eru réttindin tryggð í alþjóðasamningum sem íslenska lýðveldið hefur undirgengist. Undir það hafa tekið æðstu valdhafar framkvæmdarvaldsins í málefnum dómsmála og sjávarútvegsmála, sbr. þskj. 6 á 136. löggjafarsamkomu lýðveldisins.

Stjórnarflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, gáfu sjómönnunum í mannréttindabaráttunni, sem margir eru ungir að árum, skýr fyrirheit fyrir síðustu alþingiskosningar um að jafnræði íslenskra þegna yrði virt við nýtingu sameiginlegrar fiskveiðiauðlindar þjóðarinnar. Engin rök eru fyrir því að nokkrir almannahagsmunir geti legið því til grundvallar að takmarka handfæraveiðar, s.s. vegna meintrar ofveiði. Algerlega útilokað er að ofveiða fiskistofna með handfærum.

Sjómennirnir í mannréttindabaráttunni eru með fullgild veiðileyfi og eru því í fullum rétti til þess að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Stjórn Frjálslynda flokksins skorar á ráðherra mannréttinda og sömuleiðis ráðherra sjávarútvegsmála að vera samkvæma sjálfum sér, sbr. fyrrgreint þingskjal, og virða að fullu mannréttindi sjómannanna og styðja frjálsar handfæraveiðar. Stjórn Frjálslynda flokksins skorar sömuleiðis á fjármálaráðherra og forsætisráðherra að styðja verðmætaöflun sjómannanna í mannréttindabaráttunni, en aukin veiði mun án efa auðvelda ráðherrunum stjórn efnahagsmála.

Ríkisstjórn Íslands ætti að hafa það hugfast að frjálsar handfæraveiðar eru einföld og góð leið til þess að tryggja trausta byggð í dreifðum byggðum landsins og þær njóta almenns stuðnings meðal landsmanna.

19. október 2011

Sigurjón Þórðarson, Ásta Hafberg og Grétar Mar Jónsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband