Leita í fréttum mbl.is

Falsvísindi

Efni: Umsögn um skýrslu samráðsvettvangs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu helstu nytjafiska frá í júní 2011. 

Inngangur

Í skipunarbréfi samráðsvettvangsins kemur fram að í ljósi efnahagsástands þjóðarinnar sé rétt að yfirfara umdeilda nýtingarstefnu stjórnvalda á fiskveiðiauðlindinni.  Markmið vinnunnar var að meta árangur núverandi stefnu og yfirfara hana og í framhaldinu leggja til breytingar á aflareglu Hafró við nýtingu á þorskstofninum. Það að vera hverju mannsbarni ljós að svokölluð aflaregla hefur ekki skilað neinum árangri en reglan felur í sér að veiða fyrirfram ákveðið hlutfall af reiknuðum veiðistofni.  Reglan var fyrst tekin í gagnið snemma á tíunda ártugnum. Þetta hlutfall er nú 20% en árin 1965-1990 var aflahhutfallið að meðaltali 35% sem skilaði 380 þúsund tonna meðalafla í þorski helmingi meira en núna. Í ljósi sögunnar hefur niðurfærsla á aflahlutfalli í 25% og síðar í 20% verið mistök. Það því eins og hver önnur vitleysa að í starfshópnum sem skipaður var á haustdögum 2010 skuli að stærstum hluta vera höfundar aflareglunnar og ábyrgðarmenn á núverandi nýtingarstefnu, þeirrar sem átti að vera til gagnrýns endurmats. Formaður nefndarinnar  hefur hvorki fengist við  nýtingu fiskistofna  né stjórnsýslúttektir. Nefndarmenn Hafró eru hagsmunstengdir, þeir móta stefnu í fiskveiðum, þ.á.m. aflareglu, fulltrúi LÍÚ, var í báðum  aflareglunefndum og hefur auk þess verið í mjög nánu samstarfi við Hafró í áratugi. Fulltrúar LS og FFSÍ eru leikmenn.

 Athugasemdir við skýrsluna

Í stuttu máli er skýrslan gagnrýnislítil en nokkuð þvælin endursögn á fyrri skýrslum s.s; rits Hagfræðistofnunar um Þjóðhagleg áhrif aflareglu frá árinu 2007 , rits nefndar um langtímanýtingu fiskistofna sem skipuð var í kjölfar „ofmatsins“ fyrir um áratug auk skýrslna Hafró.  Öll hvíla framangreind rit á reiknisfiskifræðinni.  Reiknisfiskifræðin hefur  augljóslega ekki gengið upp en ef svo væri þá væri lítið tilefni til stöðugs endurmats.  Reiknisfiskifræðin gengur í stuttu máli út á að veiða minna núna til að hægt sé að veiða enn meira seinna. Sömuleiðis gengur ráðgjöfin út á að draga skipulega úr veiðum á smáfiski til þess að láta hraðvaxta fiskinn taka út vöxt en þegar ég lærði mína reiknisfiskifræði í Háskóla Íslands þá var markmiðið að ef fyrrgreindar aðferðir næðu fram að ganga myndi þjóðin, ná um 500 þúsund tonna jafnstöðuafla.  Aðferðir reiknisfiskifræðinnar hafa hingað til ekki gengið eftir og munu ekki gera það þar sem að þær stangast á við viðtekna vistfræði.  Í  skýrslunni á bls. 9 er Boris Worm látinn bera vitni um að íslenska fiskveiðistjórnunin sé ábyrg en viðkomandi  „vísindamaður“ er þekktastur fyrir að hafa falsað niðurstöður rannsókna í fréttatilkynningu til þess að fanga athygli. Hann hélt því fram að rannsóknirnar bentu til þess að fiskistofnar heimsins kláruðust 2048. Í skýrslunni á bls. 12 er samverkamaður Boris Worm, Ransom Myers kallaður til vitnis um að ofveiði hefði leitt til hruns þorskstofnsins við Kanada en almennt er viðurkennt að breytt umhverfisskilyrði hafi átt megin þáttinn í minnkaðri þorskgegnd.Það sem er furðulegt er að engin umfjöllun er um afleiðingar þess þegar veitt hefur verið langt umfram ráðgjöf reiknisfiskifræðinnar í; Barentshafinu, við Færeyjar og hér við Íslandsstrendur um áratugaskeið þegar veiðar voru frjálsar.   Í skýrslunni er viðurkennt að ekkert samband sé á milli fjölda seiða á fyrsta ári og síðan hvernig árgangurinn skilar sér inn í veiðina að þremur árum liðnum. Það er hins vegar ekki sett í samhengi markmið Hafró að stefna stöðugt að stækkuðum hrygningarstofni.

Það sem ekki var fjallað um í skýrslunni

Í skýrslunni var lítið sem ekkert fjallað um innihald vandaðrar skýrslu sem Tumi Tómasson tók saman árið 2002 og hét: Fagleg gagnrýni á stofnmat og veiðiráðgjöf Hafrannóknastofnunarinnar“.  Í henni er sterk gagnrýni á reiknisfiskifræðina en ástæða þess umrædd skýrsla var tekin saman var að árangurinn af því að fara að tillögum sem byggðust á reiknisfiskifræðinni var minni en enginn. Talsverð umræða var um árangursleysið í kjölfar meints ofmats Hafró á þorskstofninum um síðustu aldamót, eins og áður segir.  Ekki er heldur í skýrslu samráðshópsins fjallað um vandaðar skýrslur og skrif sem Jón Kristjánsson fiskifræðingur sent frá sér en hann hefur verið kallaður til við ráðgjöf í Færeyjum og sjómannasamtökum á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og víðar.    Í skýrslunni er látið í veðri vaka að gagnrýnin á núverandi ráðgjöf byggist ekki á vel skilgreindum og afmörkuðum álitaefnum s.s. um náttúrlegan dauða og breytilegan vaxtahraða  auk áhrif veiða á sjálfsafrán og nýliðun. Yfir ígrundaða líffræðilega gagnrýni er skautað á bls. 19 og sagt að um sé að ræða einhver bloggskrif Kristins Péturssonar, Sigurjóns Þórðarsonar og Jóns Kristjánssonar en látið hjá líða að segja frá því að umræddur Jón Kristjánsson sé vel metinn fiskifræðingur, sem hefur ásamt Kristni Péturssyni stutt sinn málflutning með ítarlegum gögnum og rannsóknum. Undirritaður mætti á fund nefndarinnar, eins og fram kemur á bls. 54, og lagði fram margvísleg gögn sem sýndu augljóslega að hvað rækist á annars horn í reiknisfiskifræðilegri ráðgjöf Hafró. Gögnin voru:

1)      Þorskafli hefur dregist gríðarlega saman en ekki aukist síðustu tvo áratugina og á það við  um fleiri botnfisktegundir og heildar botnfiskaflinn helmingurinn af því sem að hann var fyrir tveimur áratugum síðan.

2)      Samantekt á þorskafla frá seinna stríði sem sýnir að þorskaflinn hefur nánast minnkað stöðugt frá upptöku kvótakerfisins sem er öfugt við það sem reiknisfiskifræðin spáði fyrir um.

3)      Merkingatilraunir Hafró gefa eindregið til kynna að náttúrulegur dauði sé mun meiri en gert er ráð fyrir í líkani sem unnið er með og skýra út að ráðgjöf Hafró gangi ekki upp.

4)      Skýrsla Alþjóða Hafrannsóknarstofnunarinnar frá því á árinu 2009 segir að skyndilokanir sem stundaðar hafa verið í marga áratugi séu gagnslausar og þar með friðun á smáfiski.

5)      Rannsóknir á friðun smáfisks í Breiðafirði frá árinu 2005 sem gáfu til kynna að friðun á smáfisk væri ekki til gagns.

6)      Hafró metur náttúruleg afföll þorskstofnsins minni en það sem hrefnan ein étur úr þorskstofninum.

7)      Fyrirlestur Hilmars Malmquist líffræðings sem kemst að því út frá gögnum Hafró að náttúrulegur dauði sé mun meiri en unnið er með í stofnlíkani Hafró.Öll framangreind atriði leiða líkum að því að áhrif veiða á vöxt og viðgang þorskstofnsins séu stórlega ofmetin en engu að síður þá fjallar skýrslan í engu þá staðreynd. 

Framlag skýrslunnar

Eina nýja framlag skýrslunnar ef svo má kalla, er að leggja til að skipuð verði „formleg stjórnsýslunefnd um nýtingarstefnu fyrir nytjafiska“. Verkefni nefndarinnar og verklag eru m.a. að meta hagfræðilegar, líffræðilegar, félagsfræðilegar, tölfræðilegar og umhverfisfræðilegar forsendur nýtingarstefnu. Auk þess að vera í samráði við Alþjóðastofnanir og stunda víðtækt kynningar og samráðsstarf um land allt.  Mér sýnist sem fyrirhugað umfang sé slíkt að hver meðalstór ríkisstofnun geti verið fullsæmd af viðlíka verkefnum. 

Lokaorð

Skýrsluhöfundar hafa því miður látið hjá líða að fara yfir líffræðilega gagnrýrni á nýtingarstefnu Hafró og skorar undirritaður á ráðherra að hafa hraðar hendur og gera gangskör í að farið verði í þá vinnu.  Fátt eitt getur orðið meiri búhnykkur fyrir þjóðarbúið en stórauknar fiskveiðar og er ábyrgðarhluti að láta hjá líða að fara ekki yfir öll rök sem gefa til kynna að óhætt sé að auka veiðar.Eðlilegt hefði verið að hafa starfssemi samráðshópsins opnari t.d. með því að halda kynningar fundi með gagnrýnendum, fjölmiðlum og áhugamönnum, hlusta á þeirra gagnrýni, svara henni og standa fyrir eigin rökum.Í stað þess völdu þeir að kalla til einn og einn aðila, sem þeir völdu sjálfir inn á lokaða fundi hópsins. Svona vinnubrögð eiga að heyra fortíðinni til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband