Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Svartsýnissjúkir fjölmiðlar

Það er merkilegt hvað íslenskir fjölmiðlar eru ginkeyptir fyrir hverri dómsdagsspánni á fætur annarri um að algert hrun blasi við undirstöðuatvinnugrein landsmanna þ.e. fiskveiðum. 

Fyrir nokkru var það aðalfréttin í helstu fjölmiðlum landsins að algert hrun blasti við fiskistofnum heimsins árið 2048 en upp komst að sú spá var einungis fölsk beita til þess að vekja athygli fjölmiðla.

Núna hefur Einar Árnason birt grein, þar sem spáir úrkynjun og hruni þorsksins a Íslandsmiðum, byggða á  mjög hæpnum gögnum. Það er eins og við manninn mælt, helstu fjölmiðlar landsins kokgleypa beituna gagnrýnislaust og virðast vera jafn meðvirkir með sértrúarvísindaliðinu sem boðar hver endalokin á fætur öðrum og þeir voru með blessaða útrásarliðinu okkar.

Ég hef um nokkurt skeið velt því fyrir mér hvers vegna þeir vísindamenn s.s. Jón Kristjánsson fiskifræðingur, sem boða bjarta framtíð byggða á viðtekinni vistfræði,  fá enga umfjöllun.


Hrun er enn í tísku

Það er í mikilli tísku að boða hrun.  Ef það er ekki sandsílið sem er að hruni komið hér við land vegna hlýnunar jarðar þó svo að það lifi ágætis lífi sunnar á hnettinum, þá er það þorskurinn sem er að úrkynjast og það vegna AA, AB og BB.  Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta AA, AB eða BB er en ég veit þó nóg til þess að vera þess fullviss að Einar Árnason og kó séu með víðtækar fullyrðingar út frá hæpnum forsendum. 

Ef litið er til þeirra valkrafta sem eru að verki á þorskstofninn þá er það augljóst að megnið af þeim milljónum seiða sem hver þorskhrygna klekur út, drepast ekki af völdum veiða heldur farast megnið af þeim af "náttúrulegum" orsökum.  Það að ætla að veiðar sem eru minniháttar affallaþáttur skipti sköpum og valdi hruni á örfáum árum er meira en lítið vafasamt.  Það er sér í lagi undarlegt þar sem veiðar hafa dregist gríðarlega saman á þorski hér við land og ekki hafa orðið einhver drastískar breytingar á sókninni ef frá er talið að minna er um vertíðabáta sem sóttu einkum í stóran hrygningarfisk.  Nýlega las ég reyndar grein þar sem sýnt var fram á að þar sem arfgerð fiskstofns var breytt með mjög hörðu vali í nokkrar kynslóðir, þá gengu breytingar mjög hratt til baka um leið og valinu var hætt.

Annars heyrði ég á Einari Árnasyni vitna til hrunsins í Kanada máli sínu til stuðnings en honum virðist vera ókunnugt um að fiskurinn horfið vegna breytinga í umhverfisþáttum þar sem kuldaskeið ríkti bæði á Grænlandsmiðum og Nýfundnalandsmiðum á þessum tíma.

Í lokin er rétt að huga að því að þar sem að hlutirnir eru í góðu lagi í Barentshafinu þar sem veitt er langt umfram ráðleggingar og hafa menn gáð að því hvort að þar sé á ferðinni AA, AB, BB eða Rúskí púskí.

Er boðun hruns innan örfárra ára góð leið til þess að komast í aukna styrki?

 

 


mbl.is Telur þorskstofninn í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Reykás Steingrímsson

Ragnar Reykás, heimilisvinur þjóðarinnar, hefði ekki toppað þessa mótsagnasteypu hins nýkjörna þingmanns Framsóknarflokksins í umræðu um stjórn fiskveiða:

Ég er t.d. þeirrar skoðunar og þannig manneskja að mér finnst alveg þess virði að skoða hvort kerfi sem er þannig gert að þeir sem vilja ekki, geta ekki eða sjá sér einhverra hluta vegna ekki lengur fært að vera í greininni selji veiðiheimildir til þeirra sem vilja vera í greininni eða vilja fara inn í hana. Þetta er kallað markaðshagkerfi. Það er ekkert því til fyrirstöðu og ég tel raunar alveg skýrt að þjóðin eigi þessar veiðiheimildir þó að kerfið sé svona.

Annars er merkilegt hvað þingmenn eru uppteknir af kvótanum sem stjórntæki til að stýra fiskveiðum en vinir okkar, Færeyingar, gáufst fyrir löngu upp á kvótanum og stjórna með sóknarstýringu sem tryggir að allur aflinn komi á land.


Bæjarstjórar í vörn fyrir handónýtt kerfi

Í 10-fréttum birtust tveir bæjarstjórar á Austurlandi og héldu uppi miklum vörnum fyrir kvótakerfið í sjávarútvegi. Það má ætla að þau séu málpípur sérhagsmunaaflanna þar sem þau standa vörð um kerfi sem hefur leikið Austfirðina mjög illa. Réttast væri fyrir þessa ágætu bæjarstjóra áður en þau halda áfram í vörninni að velta fyrir sér hver skuldastaða austfirsku útgerðanna er núna og fyrir 10 árum, hver aflaverðmæti á föstu verðlagi eru nú og fyrir 10 árum, hver aldur togaraflotans er nú og fyrir 10 árum og hvort heimaaðilar ráði för í stærstu útgerðarfyrirtækjunum.

Þau ættu sömuleiðis að velta fyrir sér hvaða nýliðar eru á ferðinni í greininni og hvernig kerfið muni leika byggðirnar eftir 10 ár ef framtíðin verður með svipuðu sniði og þróun síðustu 10 ára.

Við í Frjálslynda flokknum höfum ekki verið sérstakir talsmenn fyrningarleiðarinnar sem er að ýmsu leyti gölluð, en teljum að það ætti að stórauka veiðar og auka frelsi almennt í greininni og sérstaklega í útgerð minni báta.

Bæjarstjórarnir sem um ræðir eru ekki þau einu sem eru að fara á taugum, heldur virðist blað allra landsmanna helga skrif sín sérhagsmunaöflum og kerfi sem skilar færri og færri fiskum á land. Er ekki orðið tímabært að skoða fleiri þætti en eignarhald, t.d. stjórnunina í grunninn? Hver maður sem eitthvað hefur á milli eyrnanna ætti að sjá að það er meira en lítið vafasamt að selja veiðirétt landshorna á milli, t.d. úr Breiðdalsvík í Breiðafjörðinn.


100% vaxtamunur

Það er spurning hvort hægt sé að tala um stjórn efnahagsmála á Íslandi, hvort ekki sé réttara að tala um að hlutirnir séu látnir flæða, þeir veltast einhvern veginn um. Krónan hefur lekið niður og vextir eru ennþá gríðarlega háir. Þrátt fyrir samdrátt og mikla erfiðleika í rekstri fyrirtækja virðist gríðarleg tregða við að lækka útlánsvexti.

Þeirri tregðu er ekki fyrir að fara þegar skoðaðir eru þeir vextir sem ríkisbankarnir bjóða innlánseigendum þar sem þeir hafa hríðlækkað. Hæstu innlánsvextir sem Kaupþing býður upp á eru liðlega 8% en þá þarf maður að eiga 100 milljónir króna á reikningi hjá bankanum. Yfirdráttarlán einstaklinga eru í kringum 16% þannig að vaxtamunurinn slagar augljóslega upp í 100%.

Nú er ég ekki að segja að 8% vextir séu lágir vextir þegar það er nánast verðhjöðnun, en það segir þá enn meira hvers konar rugl það er að bjóða fyrirtækjum sem berjast í bökkum upp á á annan tug prósenta í vaxtagreiðslur. Stjórnvöld hljóta nú að fara að fara miklu hraðar í vaxtalækkun og stefna á eðlilegan vaxtamun í landinu. Það er ekkert í efnahagslífinu sem kallar á þessa háu vexti.

Nú er vonandi að ríkisstjórnin taki sér tak og boði aðgerðir, s.s. auknar veiðar, til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar og lækka strax útlánsvexti til að gefa lífvænlegum fyrirtækjum kost á að draga andann.


Borgarahreyfingin dregur sig í hlé

Það er áhugavert að fylgjast með „þjóðinni á þingi“. Margir bundu vonir við að þjóðarflokkurinn léti duglega til sín taka um helstu pólitísku álitamál samfélagsins. Þess vegna kom mér verulega á óvart að Borgarahreyfingin sæi ekki nokkra ástæðu til að taka þátt í umræðu um fyrningu aflaheimilda á þinginu í fyrradag. Markmiðið með henni er m.a. að koma til móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, ekki síður að auðlindir þjóðarinnar lendi ekki í höndunum á erlendum lánardrottnum og enn fremur að gera skuldug sjávarútvegsfyrirtæki rekstrarhæf. Það er deginum ljósara að engin sátt verður um það að skuldir verði afskrifaðar í stórum stíl og að haldið verði áfram að veðsetja og leigja aflaheimildir eins og ekkert sé. Kvótakerfið markaði upphaf hrunsins og er nauðsynlegt að taka á málum.

Þó að ég hefði viljað fara aðra leið, fara í aukningu veiðiheimilda sem hefði verið úthlutað af jafnræði, er fyrningarleiðin skoðunar virði og furðulegt að Borgarahreyfingin hafi ekki skoðun á málinu.

Þegar ég sá þetta ákvað ég að kanna hvaða þingmál Borgarahreyfingin leggur áherslu á. Á þeim mánuði sem brátt er liðinn frá alþingiskosningum hafa liðsmenn Borgarahreyfingarinnar ekki séð ástæðu til að leggja fram eitt einasta mál ef frá er talið að Birgitta Jónsdóttir er meðflutningsmaður á fortakslausu banni við nektarsýningum. Einhvern veginn held ég að það mál brenni ekki á mörgum heimilum í landinu.


Kynjabull

Það er merkilegt að meðan íslenskt efnahagslíf er nánast á heljarþröm, gengi krónunnar hríðfellur, ríkið neyðist til að taka í fangið hvert fyrirtækið á fætur öðru og vextir eru gríðarlega háir telur viðskiptaráðherra tíma sínum best varið í að leggja fram furðulegt frumvarp um sérstaka upplýsingagjöf um kynjahlutföll í stjórnunarstöðum fyrirtækja.

Sjálfstæðisflokknum ekki sýnd næg tillitssemi

Eitthvað hefur skort á að Sjálfstæðisflokknum hafi verið sýnd tilhlýðileg tillitssemi. Forystumaður flokksins er nokkuð reikull í spori, það er helst að hann finni taktinn þegar hann berst af heilagri réttlætingu gegn öllum breytingum á gjaldþrota kvótakerfi í sjávarútvegi sem hefur haft í för með sér hærri skuldir og færri þorska á land.

Það má segja að það hafi verið hálfgert óþverrabragð af ríkisstjórninni að vísa Evrópumálinu til þingsins og mátti heyra formann Sjálfstæðisflokksins kvarta sáran undan því að þurfa að taka opinberlega afstöðu til þess. Þrjú af fjórum þingmönnum flokksins i Suðvesturkjördæmi eru jákvæð gagnvart aðildarviðræðum við Evrópusambandið eins og fram hefur komið. Í ljósi umkvörtunar formannsins er undarlegt að reka augun í að bæði hann sjálfur og varaformaðurinn kjósa sér utanríkismálanefnd þingsins sem einu fastanefndina til að sitja í.

Andstyggileg hegðun ríkisstjórnarinnar, er fjórflokkurinn í dauðateygjunum?


Núll núll hjá frú Jóhönnu Sigurðardóttur og herra Bjarna Benediktssyni

Það er svo sannarlega óskandi að ráðamenn taki sig á og boði raunverulegar aðgerðir en ræður forsætisráðherra og sömuleiðis stærsta stjórnarandstöðuflokksins voru afar rýrar og gefa því ekki góð fyrirheit.

Frú Jóhanna Sigurðardóttir byrjaði ræðuna á einkennilegri söguskýringu á þá leið að það hefði orðið eitthvert skyndilegt hrun fyrir 100 dögum. Þjóðin veit sem er að hrunið hófst fyrir ári á vakt Samfylkingarinnar, með hruni krónunnar og síðan hruni bankanna í október árið 2008.  Sú mynd sem forsætisráðherra dró upp hvað varðar verðbólgu, vexti og flökt krónunnar var að allt væri á réttri leið en seinna í ræðunni var helsta röksemd fyrir inngöngu í Evrópusambandið sú að ráðast gegn núverandi ástandi hvað varðar verðbólgu, ægilega vexti, óvissu í gengismálum og illræmda verðtyggingu sem ríkisstjórn hennar treystir sér að vísu ekki til að afnema.

Herra Bjarni Benediktsson nýtti ekki tækifærið til að kynna þjóðinni stefnu Sjálfstæðisflokksins og ekki bætti Ólöf Nordal neinu við nema óljósu tali um næstu kynslóðir, nýsköpunartafli og háskóla-eitthvað. 

Leiðtogi Sjálfstæðisflokksins lagði þó þunga áherslu á að ekki mætti hrófla við nánast hnökralausu kvótakerfi í sjávarútvegi og varaði við hættulegri þjóðnýtingarstefnu ríkisstjórnarinnar. 

Hvernig er það, veit formaður Sjálfstæðisflokksins ekki að kvótinn er meira og minna veðsettur út fyrir öll skynsamleg mörk og megnið af honum mun að óbreyttu lenda í höndunum á lánardrottnum sem eru ríkisbankarnir og sömuleiðis útlendingar?

Það er vonandi að ráðandi stjórnmálaflokkar átti sig sem fyrst á því að hvorki fyrirtækin né heimilin þola þá okurvexti sem boðið er upp á og ekki heldur að gengi krónunnar styrkist ekki. Eina skynsamlega leiðin út úr ógöngum íslensks efnahagslífs er að auka framleiðsluna og útflutning en það mun styrkja gengi krónunnar.

Nærtækast er að auka veiðar strax í vannýttan þorskstofninn en veiðin nú er nálægt 100 þúsund tonnum minni en kom í hlut Íslendinga á meðan vinir okkar Bretar stunduðu veiðar hér við land.


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeðlisfræðileg rannsókn á þinghópi Borgarahreyfingarinnar

Fáar fréttir berast neðan frá Austurvelli sem skipta hag skuldugs almennings mjög miklu. Það er að vísu nokkuð harðvítug umræða um stóra kynjamálið í VG en helstu fréttir af hópi þingmanna Borgarahreyfingarinnar er að varaformaður þinghópsins tilkynnir með miklu stolti að það hafi ekki tekið hópinn nema eina viku að finna klósettið í byggingunni. Ég fór óneitanlega að velta fyrir mér hvort þvagblaðran í þessum hópi væri eitthvað stærri en gengur og gerist meðal þjóðarinnar. Mér finnst þetta verðugt viðfangsefni fyrir lífeðlisfræðinga og jafnvel kynjafræðinga sem eru að einhverju leyti tengdir þessu líffæri.

Fyrsta skýrslubeiðnin verður kannski um þetta mál.

 


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband