Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Mugabe og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Svo virðist sem Mogginn gagnrýni undir rós ríkisstjórn Íslands fyrir að bæta ekki úr mannréttindabrotum á íslenskum sjómönnum. Morgunblaðið minnir með réttu á að mannréttindi eru algild og ættu þess vegna að gilda um íslenska sjómenn sem brotið hefur verið á rétt eins og um fólkið í Simbabve. Mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda á sjómönnum eru ekki einkamál ISG eins og Morgunblaðið minnir á að mannréttindabrot Mugabes eru ekki einkamál hans.

Málin snerta réttlæti í íslensku samfélagi og það er spurning hversu lengi aðrir borgarar þessa lands geta horft upp á stjórnvöld þverbrjóta mannréttindi og jafnræði á íslenskum þegnum. Það er rétt að velta upp þeirri spurningu í lokin hvers virði 60 ára mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er þeim hópi manna og byggðum landsins sem sannarlega hefur verið brotið á skv. mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Það verður að hrósa leiðara Morgunblaðsins fyrir að sneiða sérstaklega að íslenskum stjórnvöldum og brýna þau til að breyta rétt.


Vítavert framferði Ingibjargar Sólrúnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat á stífum fundum með Davíð Oddssyni þar sem hún fékk nákvæmar upplýsingar um stöðu mála, þar á meðal erfiðleika í efnahagslífi og þrönga stöðu bankanna. Það hlýtur að teljast vítavert að hafa ekki upplýst aðra ráðherra, ekki síst Björgvin sem átti að hafa eftirlit með bönkunum, um þessa gríðarlega erfiðu stöðu. Skorað hefur verið á Björgvin, þar á meðal frá ASÍ, að segja af sér en mér finnst standa Ingibjörgu nær að taka pokann sinn þar sem færa má rök fyrir því að skortur á upplýsingum - frá henni - til handa Björgvins hafi leitt til þess að hann hafi verið værukær og tekið þess vegna fullan þátt í klappliðinu í stað þess að bjarga því sem bjargað yrði, þar á meðal með stofnun dótturfélaga hjá Icesave í vor og takmörkun innlánasafnana Icesave í Bretlandi.

Menn tala um ábyrgð Árna og Björgvins sem er vissulega mikil en í allri sanngirni verður ekki annað sagt en að ábyrgð þeirra sé lítil miðað við ábyrgð höfuðpauranna, Ingibjörgu og Geir Haarde.


mbl.is Hitti Davíð ekki í tæpt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir Haarde verður að hætta - selur björgunarbátana

Í dag kynntu ráðamenn björgunaraðgerðir sínar. Þær gagnast lítið sem ekkert venjulegum fyrirtækjum sem eru í basli en mögulega gagnast þær helst stærri fyrirtækjum sem eru stórskuldug og með löngu brostinn rekstrargrundvöll. Það sem sligar fyrirtækin, bara venjuleg íslensk fyrirtæki, er ruglið í gengismálum og alltof háir vextir. Fyrirtækin ráða ekki við þennan aukna kostnað þar sem eftirspurn er að minnka. Það sem dugar er einfaldlega að koma lagi á gengismálin og lækka vexti eða taka ella upp aðra mynt.

Sömuleiðis þarf að stórauka gjaldeyrisöflun með því að fara í auknar veiðar á vannýttum fiskistofnum.

Í stað þess að ríkisstjórnin komi með raunverulegar tillögur og byggi atvinnulífið upp til framtíðar kemur hún með loðnar og innihaldsrýrar tillögur í 12 liðum. Ríkisstjórnin beit höfuðið af skömminni með því að koma í veg fyrir veiðar á síld og viðhalda reglum sem brjóta í bága við mannréttindi og hrekja smábáta úr landi með sölu á þeim í stað þess að nýta þá á fiskimiðum í kringum landið.

Smábátarnir hefðu getað orðið raunverulegir björgunarbátar fyrir íslenskan efnahag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar rústað vertíðarflotanum. Nú eru smábátarnir á leið úr landi fyrir slikk og ætli líftími togaranna fari ekki að styttast verulega, en svigrúm þeirra til veiða verður örugglega heft ef þessi eymdarstefna Sjálfstæðisflokksins heldur áfram.


Síldarsjúkdómurinn getur verið jákvæð teikn

Í gær bárust fréttir af því að sjúkdómur herjaði á síldina, allt virðist vera í miklum voða núna, ríkisstjórnin fer á taugum og menn skjóta á neyðarfundum. Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú væri síldarstofninn að stækka, en venjan er að við aukinn þéttleika fiska aukist sjúkdómar.

Ég gat ekki betur heyrt en að Gísli Jónsson fisksjúkdómalæknir væri á sama máli og ég, að eina vitið væri að auka veiðar og gefa þær frjálsar. Eitthvað virðist það þó standa í Einari Kristni sem finnst miklu léttara að skera niður en að leyfa auknar veiðar.

Það er ótrúlegt að verða hvað eftir annað vitni að því að ekki er stuðst við vist- og líffræðileg rök við veiðistjórnina, heldur einungis umdeild bergmálstæki og reiknislíkön.

Núna er t.d. vöxtur þorsksins í sögulegu lágmarki en samt sem áður vill Einar Kristinn ekki auka veiðiheimildir - þrátt fyrir að þjóðina bráðvanti gjaldeyri.

Nú benda allir á Davíð, að hann sé ein helsta meinsemdin í íslensku efnahagslífi. Ég held að það sé rétt að líta í fleiri áttir.


Forseti Alþingis fjallar um mannréttindabrot stjórnvalda í dag

Það er vel við hæfi að Sturla Böðvarsson líti yfir farinn veg og haldi ráðstefnu um hvernig stjórnvöld hafa brugðist á umliðnum árum, s.s. með mannréttindabrotum á sjómönnum. Ætla má að það verði örugglega eitt af meginefnum ráðstefnunnar, þ.e. ef ráðstefnan á ekki að verða eingöngu einhvers konar látalæti og jamm-og-jæja-samkoma þar sem rætt verður vítt og breitt og út og suður án þess að ræða raunverulega um það sem brýtur á, t.a.m. framangreint mannréttindabrot og að enginn ráðamaður axli raunverulega ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í dag.

Ég el með mér þá von að Sturla taki á þessum málum af festu enda sýndi hann það í ræðu 17. júní 2007 að þessi mál hvíla þungt á honum.

Í lokin er rétt að minna á að eftirlitshlutverk Alþingis er venjulega alltaf í höndum minnihlutans hverju sinni þar sem oddvitar meirihlutans verma ráðherrastólana.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband