Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Kúkurinn flýtur alltaf upp á endanum, eins og Sverrir Stormsker gæti hafa sagt

Nú er það staðfest að það var ekki símtal Árna Matt sem hleypti öllu í bál og brand, miklu meiri líkur eru á að villandi yfirlýsingar viðskiptaráðherra í viðræðum við Breta í byrjun september hafi tendrað bálið. Það skiptir kannski ekki öllu máli í stöðunni, nú blasir við að stjórnvöld þurfa að upplýsa þjóðina um stöðu mála og tryggja gagnsætt ferli við rannsókn svo að það upplýsist hvort menn hafi skotið undan eignum á síðustu mínútunum. Frysta ætti eigur auðmanna ef minnsti vafi leikur á að þeir hafi farið að reglum. Venjulegt ráðdeildarsamt launafólk sem gerði ekkert annað af sér en að treysta peningamarkaðssjóðum bankanna fyrir sparifé sínu hefur orðið fyrir slíkri frystingu og verður e.t.v. alfarið fyrir tapi þeirra fjármuna á endanum. Sömuleiðis þarf að tryggja hagsmuni almennings og atvinnulífsins.

Besta leiðin til þess er að ná í fleiri evrur úr hafinu.

Þorskveiðin núna er þriðjungur til fjórðungur af því sem hún var til jafnaðar áður en Bretum var ýtt út úr landhelginni. Hægur leikur er því að bæta þar í. Með því mætti líka koma til móts við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Mjög vafasamt er að fara í skattahækkanir eins og boðað er því að greiðslubyrði heimilanna hefur aukist. Umtalsverðar skattahækkanir munu miklu frekar keyra heimilin um koll en að bjarga þeim fyrir horn. Tímabundið afnám verðtryggingar og aukinn sveigjanleiki við afborganir af lánum er líka til þess fallið að hjálpa heimilunum að rétta úr kútnum. Ófarir þeirra sem verða illa úti í fyrstu atrennu eru ekkert einkamál þeirra. Hætt er við því að efnahagskeðjan slitni, en engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.


mbl.is Yfirlýsing viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Minni mistök hér og þar"

Það var ekki að heyra á Björgvini Sigurðssyni í Bylgjuviðtali í morgun að hann teldi nokkuð athugavert við andvaraleysi sitt síðasta árið. Hann talaði um minni mistök hér og þar og að „hafa lent í þessu ferli“. Það minnir um margt á manninn sem „lenti“ í að brjótast inn. Björgvin ber ábyrgð á Fjármálaeftirlitinu og hefur þar stjórnarformanninn úr sínum röðum, Jón Sigurðsson, fyrrum Seðlabankastjóra og ráðherra.

Fram hefur komið að Fjármálaeftirlitið hafi gert alvarlegar athugasemdir við reikningana en stjórnvöld ákveðið að halda fast við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að gera ekki neitt.


mbl.is Fundað með bresku sendinefndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Geir að spila póker við þjóðina?

Sjálfstæðisflokkurinn heldur spilunum að sér og þjóðin fær lítið að vita um hvað hún þarf að borga vegna aðgerða sem sérvaldir vinir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks gripu til á ábyrgð þjóðarinnar. Ekki fær þjóðin heldur að vita hverjir seldu sig út úr bönkunum rétt áður en þeir voru þjóðnýttir. Það skyldu þó aldrei vera sömu nöfnin og fengu bankana fyrir lítið fyrir fimm, sex árum.

Þá vakti athygli mína í viðtalinu við Geir að hann játaði hvorki né neitaði að íslenska ríkið þyrfti að taka á sig allt að 1.200 milljarða skuld vegna bankaævintýrisins. Segjum að við fengjum lán á góðum kjörum fyrir þessari skuld, lán sem næmi 5% af upphæðinni kallaði á afborganir og vexti upp á 60 milljarða króna árlega til 100 ára. Sú upphæð er 1/6 útflutningstekna íslensku þjóðarinnar.

Ætli það séu ekki álíka mikil verðmæti og alls árlegs þorskafla á Íslandsmiðum?

Nýir tímar á traustum grunni var slagorðið fyrir síðustu kosningar. Því miður á betur við að tímarnir séu á skuldugum grunni.


mbl.is Ekki rétt að boða til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn að fela?

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru meira en lítið gruggug. Nú er kominn 22. október, liðnar rúmar þrjár vikur frá falli fyrsta íslenska bankans, og bæði almenningur og stjórnarandstaða fá mjög takmarkaðar upplýsingar. Svo virðist sem fjármunir hafi gufað upp í bönkunum, peningunum sópað út úr þeim og sumir selt bréf í þeim á síðustu mínútunum. Enginn fær að vita hverjir seldu. Það er ekki að sjá að gripið hafi verið til gagnsærra og harðra aðgerða til að fá einhverja mynd af málum eða tryggja að ríkið verði ekki af verðmætum. Þjóðin stendur frammi fyrir skuldbindingum næstu kynslóða og þeir sem bera ábyrgð á málum, hvort sem eru stjórnmálamenn, bankamenn eða útrásarvíkingar, valsa um eins og fínir menn og þykjast vera að greiða úr málum. Stjórnarandstöðunni eru skammtaðar upplýsingar úr hnefa og þjóðinni sagt að standa saman.

Það er deginum ljósara að ábyrgðin á því hvernig komið er liggur fyrst og fremst hjá Sjálfstæðisflokknum. Óneitanlega hlýtur Samfylkingin, með því að taka þátt í þögguninni, að dragast niður í fúafenið, meira en efni standa endilega til. Auðvitað hefur Björgvin G. Sigurðsson brugðist sem viðskiptaráðherra og virðist meira að segja reyna að fela fyrri yfirlýsingar og meintar meiningar með því að loka heimasíðunni sinni.


Sökudólgur gefur sig fram

Halldór Ásgrímsson segist bera ábyrgð á ástandinu. Ég var núna rétt í þessu að hlusta á upptöku danskra ríkisútvarpsins þar sem rætt var við fyrrverandi forsætisráðherrann okkar sem sat í ráðherranefnd um einkavæðingu sem ráðstafaði bönkunum til sérvalinna fyrir örfáum árum, sérvalinna sem virðast vera á góðri leið með að kollkeyra efnahagslífið. Í viðtalinu játar Halldór Ásgrímsson ábyrgð sína á málum en leggur hins vegar áherslu á að eyða ekki of miklum tíma í söguna. Hann var nokkuð kotroskinn og ánægður með verk sín, þá sérstaklega íslenska kvótakerfið. Hann sagði stoltur frá því að hann hefði orðið sjávarútvegsráðherra 1983 þegar sjávarútvegurinn hafði glímt við erfiðleika.

Það er engu líkara en að Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, geri sér ekki nokkra grein fyrir stöðu sjávarútvegsins. Núna, árið 2008, eru skuldir sjávarútvegsins nokkuð örugglega fjórföld ársvelta greinarinnar og hafa á síðustu árum ábyggilega þre- eða fjórfaldast. Þorskveiðin er að sama skapi núna þrefalt minni en á árunum 1982-3.

Horfum endilega bara fram á veginn og gleymum sögunni, hahh.


Heimasíðan sem Alþingi lokaði

Sumir hafa talað um að engir stjórnmálamenn hafi vakið athygli á fjármálasukkinu á meðan á því stóð. Það er ekki rétt, meðan ég var þingmaður flutti ég pistla á Útvarpi Sögu, stóð fyrir umræðum á Alþingi og hélt úti heimasíðu þar sem m.a. mátti lesa meðfylgjandi pistil sem er frá haustinu 2005. Einhverra hluta vegna lokaði Alþingi heimasíðunni og afmáði þar með þessa pistla af veraldarvefnum.

Ég reyndi ítrekað að koma því til leiðar, fyrst í gegnum þingflokk Frjálslynda flokksins og síðan þegar það gekk ekki bað ég Ragnar Arnalds, formann Félags fyrrverandi alþingismanna, að ganga í málið þannig að skrifunum yrði ekki eytt út af vefnum. Það hefði t.d. verið lítið mál að setja inn baka til á vefnum heimasíður fyrrverandi alþingismanna. Félagið á sinn sess á heimasíðu Alþingis hvort eð er. Ég hef engan botn getað fengið í þessi vinnubrögð þar sem skrifin hljóta a.m.k. að vera heimild um tíðarandann. E.t.v. hefur inntak skrifanna eitthvað farið fyrir brjóstið á þeim sem ráða ferðinni við Austurvöll.

---

Kaupréttur og brask bankastjóra

Fleira hefur borið til tíðinda, s.s. kaupréttarsamningar stjórnenda KB banka en stjórnendur raka til sín fé í svo stórum stæðum að allir lottóvinningar fyrr og síðar eru nánast smáaurar miðað þær upphæðir sem stjórnendur KB banka rökuðu til sín í vikunni.

Um var að ræða 769 milljónir króna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í haust sem almenningi berast fréttir af siðlausum viðskiptum stjórnenda almenningsbankanna. Í haust var í raun miklu verra dæmi sem fór ekki eins hátt en það voru kaup sex stjórnenda Íslandsbanka með Bjarna Ármannsson í broddi fylkingar sem rökuðu til sín 470 milljónum íslenskra króna á þrem mánuðum. Ef ég man rétt voru stjórnendur KB banka að innleysa hagnað af fimm ára gömlum kaupréttarsamningum á meðan Bjarni og félagar tóku til sín margra hundruða milljóna gróða á viðskiptum sem eru siðlaus en lögleg.

Ég efast um að það hafi verið einhver áhætta fyrir umrædda stjórnendur bankanna að tapa persónulega á þessum viðskiptum. Trúlega var öruggt að þeir myndu hagnast.

Það væri t.d. mjög fróðlegt að fá upplýsingar hjá Íslandsbanka varðandi það brask sem bankastjóri bankans stundaði á þriggja mánaða tímabili. Hann rakaði við það til sín háum fúlgum. Hagnaðist líka hinn almenni hluthafi á þessum viðskiptum stjórnenda bankans?

Athafnir fylgja ekki orðum verkalýðshreyfingarinnar og Davíð með geislabaug

Í kjölfar frétta af stjórnendum banka sem nýta sér aðstöðu sína til þess að auðgast heyrast af og til raddir frá forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar um að athæfi bankastjóranna sé siðlaust.

Ég tel þessar yfirlýsingar marklausar ef verkalýðshreyfingin beitir ekki áhrifum sínum til þess að koma í veg fyrir umrædda gjörninga. Verkalýðshreyfingin getur, ef hún vill, haft mikil áhrif á fjármálalífið í gegnum lífeyrissjóði launþega.

Það er orðið löngu tímabært að hneykslunarræðunum fylgi einhverjar efndir.
Annars var aumt að sjá hvernig sjónvarp ríkisins matreiddi þessa frétt um græðgina í KB banka. Í lok fréttarinnar var rifjuð upp gömul frétt af Davíð Oddssyni þegar hann tók út nokkur hundruð þúsund krónur úr bankanum af því að honum misbuðu fréttir af kaupréttarsamningum. Davíð var settur í eitthvert hlutverk siðapostula. Siðapostuli sjónvarps ríkisins var enginn annar en maðurinn sem klæðskerasaumaði fyrir sig og sína eftirlaun og kom öllum vinum sínum á ríkisspenann.

Furður viðskiptalífsins

Það er margt sem maður furðar sig á þessa daganna í viðskiptalífinu. Til landsins streymir útlent lánsfé í stórum stíl og krónan hækkar í verði á meðan viðskiptahallinn slær öll met. Þetta ójafnvægi mun leita jafnvægis, það er öruggt, og eftir því sem ójafnvægið verður meira þeim mun meiri líkur eru á að þegar hlutirnir ganga til baka muni það gerast með harkalegri hætti en ella.

Það er fleira sem erfitt er að fá einhvern botn í í viðskiptalífinu, t.d. þá gríðarlegu hækkun sem varð á gengi þriggja félaga fyrir skömmu, þ.e. Burðaráss, Straums og Landsbankans. Félögin voru öll meira og minna í eigu sömu aðila. Við það eitt að félögin urðu tvö en ekki þrjú hækkaði verðmæti þeirra gífurlega. Þetta var svona hókus pókus hækkun.

Nú berast mikil tíðindi reglulega frá FL Group en það fyrirtæki stendur í kaupum á flugfélögum víðs vegar í Evrópu. Stjórnendur fyrirtækisins hugsa stórt, það á að margfalda eigið fé félagsins og auka það um 44 þúsund milljónir. Það er gífurlega há upphæð og maður á erfitt með að trúa því að hægt sé að snara þeirri upphæð upp á borðið eins og ekkert sé en þetta er t.d. mun hærri upphæð en verja á af söluandvirði Símans í hin og þessi verkefni á löngu tímabili.

Það er fleira sem vekur furðu, t.d. hvernig eigi að selja IcelandExpress félagið sem hefur tryggt flugferðir á lágu verði frá Íslandi. Ég tel að það verði snúið að kaupa fyrirtæki af tilvonandi samkeppnisaðila.


Eiríkur Guðmundsson formaður Frjálslyndra á Austurlandi

Í dag lagði ég leið mína alla leið á Egilsstaði í skemmtilegum félagsskap Guðjóns Arnars Kristjánssonar en þar fór fram stofnfundur Félags frjálslyndra á Austurlandi. Laganeminn Eiríkur Guðmundsson frá Starmýri í Álftafirði var kjörinn formaður. Sjö manna stjórn var kjörin og er mannval þar mikið og ég held að enginn móðgist þótt ég geti sérstaklega verkalýðshetjunnar Stellu Steinþórsdóttur frá Neskaupstað.

Á fundinum var ýmislegt skrafað og rætt, m.a. bar á góma að ekki væri að sjá að gjaldeyri skorti í landi þar sem ráðamenn stæðu fyrir friðunaraðgerðum á þorski, og stefndi allt í að hann fengi brátt sömu stöðu meðal Íslendinga og beljan á Indlandi.

Fréttir bárust af öðrum fundi í dag, fundi Samfylkingarinnar þar sem lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar fælist ekki í að draga björg í bú, heldur leita ásjár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og reka Davíð Oddsson. Ekki bárust heldur fréttir af því að einhverjum þar dytti í hug að spara gjaldeyrinn, s.s. með því að loka nokkrum sendiráðum eða svo.


Aðstoðarmenn höfuðpauranna kryfja málin til mergjar

Ég er að horfa á Markaðinn, nýjan þátt á Stöð 2, þar sem fjallað er m.a. um fjármálalíf. Markmiðið er væntanlega að fjalla með gagnrýnum hætti um íslenskt viðskiptalíf. Eftir að hafa horft á hálfan þátt hafa efnistökin gengið þvílíkt yfir mig að ég á varla orð fyrir hneykslun - eða ég er næstum frekar farinn að flissa.

Þátturinn byrjaði með gagnrýnislausum viðtölum við núverandi og fyrrverandi bankastjóra þar sem fátt nýtt kom fram. Í framhaldinu eru málin krufin til mergjar - og hverjir skyldu þá hafa verið í settinu? Páll Magnússon, fyrrverandi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, sem var í einkavæðingarnefnd sem handvaldi menn til að kaupa bankana, m.a. á forsendum þess að einn kaupandi skyldi vera erlendur kjölfestufjárfestir sem gufaði svo upp á örfáum mánuðum. Svo er Illugi Gunnarsson sem sat og situr í stjórn stjóða Glitnis sem plataði peninga út úr gamla fólkinu sem enduðu sumir hverjir í einkaþotum og lúxussnekkjum og ýmsu öðru bralli. Síðan er Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sem skrifaði fræga skýrslu fyrir olíufélögin þar sem fullyrt var að samráðssvik þeirra hefðu ekki skaðað neytendur.

Sá sem stjórnaði þessum kór og stjórnar þættinum er enginn annar en Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum aðstoðarmaður Halldórs Ásgeirssonar, sem ráðstafaði bönkunum m.a. til aðila sem voru nátengdir forsætisráðherra. Og ekki er ár liðið síðan Björn Ingi Hrafnsson var miðpunkturinn í REI-hneykslinu þar sem allt gekk út á að ráðstafa til útrásarvíkinganna orkueignum almennings með tilheyrandi kaupréttarsamningum og baktjaldamakki.

Þetta er fjölmiðlun fáránleikans og menn geta séð útdrátt úr honum á Stöð tvö kl. 18 í dag. Ég yrði ekki hissa þótt það yrði þokkalega góð mæting á Austurvelli í dag í mótmælaaðgerðum.


,,Verum ekki á nornaveiðum"

Sjálfstæðismenn eru skelfdir þessa dagana, þeir vita sem er að þeir bera mestu ábyrgðina á stöðu efnahagsmála. Þeir hafa aldrei verið seinir til þess að þakka sér þegar vel gengur. Þegar á móti blæs kannast þeir ekki við verkin sín. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins biðja landsmenn hver af öðrum þess lengstra orða að vera ekki á nornaveiðum heldur standa saman og jafnvel flagga! Stundum hefur sú leið verið farin að beina óánægjunni í aðrar áttir, s.s. til forseta Íslands, Breta og Bónuskallanna.

Staðreyndin er sú að enginn hefur verið á nornaveiðum, heldur vill fólk fá skýringar og rannsókn, og óskar eftir að ráðamenn axli ábyrgð. Samfylkingin leggur blessun sína yfir ástandið með því að hafa ekki hróflað við einu eða neinu í valdatíð sinni.

Nú er ljóst að úrslit kosninga til setu í öryggisráðinu fóru á besta veg sem verður til þess að ríkisstjórnin kemur heim úr löngum atkvæðaveiðitúr. Nú er aldrei að vita nema ráðamönnum detti í hug að leysa úr verkefnum hér heima.

                Verum bjartsýn, stöndum saman ...


mbl.is Bretar vorkenna Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illugi Gunnarsson og Bjarni Ármannsson standa saman í stjórnum Glitnis

Það er greinilegt að þræðir Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins tvinnast víða saman í bankabullinu sem er á góðri leið með að lama íslenskt þjóðlíf. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, græninginn Illugi Gunnarsson, sat í stjórn Glitnis sjóða sem kynntir voru til sögunnar sem einkar örugg fjárfesting. Margur treysti stjórn sjóðanna fyrir ævisparnaðinum með fyrirsjáanlega hörmulegum afleiðingum núna.

Það vakti athygli mína á flakki um vefi Glitnis að sérstakur heiðursgestur á landsþingi Samfylkingarinnar í fyrra, kaupréttarmaðurinn Bjarni Ármannsson, situr einnig í stjórnum á vegum sjóðs í handarjaðri Glitnis-samsteypunnar. Þar á ég við Almenna lífeyrissjóðinn. Bjarna var á landsþinginu, minnir mig, klappað sérstaklega lof í lófa fyrir að vilja afnema launaleynd. Nú þegar Samfylkingin ræður bankastjóra Glitnis virðist vera sem festa eigi í sessi launaleyndina hjá ríkisbönkunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband