Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Samherji minn Sturla Böðvarsson forseti er góður drengur

Við Sturla Böðvarsson erum samherjar í andstöðunni við kvótakerfið í sjávarútvegi enda hvetur kvótakerfið til sóunar.

Í flókinni umræðu um ábyrgð og ábyrgðarleysi á gríðarlegum kostnaði við viðgerð á gamalli írskri ferju sem ætlað er að sigla á milli lands og Grímseyjar hefur Sturla Böðvarsson fyrrverandi samgönguráðherra ákveðið að veita eftirmanni sínum fullt svigrúm og tjá sig þar af leiðandi sem allra minnst um málið. Í Morgunblaðinu í dag mátti skilja á forseta Alþingis að hann vildi sem minnst tjá sig vegna einskærrar tillitssemi við Siglfirðinginn Kristján Möller enda er Snæfellingurinn Sturla drengur góður. 

Helst má ráða á nýjum ráðherra samgöngumála að helsti blóraböggull þess að samgönguráðuneytið framkvæmir fyrir mörghundruð milljónir umfram lagaheimildir sé einhver misvitur ráðgjafi úti í bæ!

Heimildir mínar frá Siglufirði herma að Kristján Möller eigi ekki sjö dagana sæla vegna almennrar óánægju með stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum þar sem Samfylkingin skrifar möglunarlaust undir óbreytt kvótakerfi og gríðarlegan niðurskurð aflaheimilda. Sagan segir að Kristján reyni að lægja þessar óánægjuraddir með því að malbika strax út í gangamunnann Siglufjarðarmegin en göngin á ekki að taka í notkun fyrr en í desember árið 2009.


Sjálfstæðisflokkur og skipasmíðar - dýr kokteill

Það virðist vera regla en ekki undartekning að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins klúðri endurbótum á skipakosti þjóðarinnar, s.s. varðskipum og hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Það hefði mátt ætla að stjórnvöld hefðu lært eitthvað af fyrri axarsköftum, s.s. þegar Björn Bjarnason sendi varðskipin til viðgerða til Póllands en þegar búið var að taka saman kostnaðinn við ferðalög og ýmsan aukakostnað reyndist hann hærri en sem nam tilboði frá Slippnum á Akureyri.

Nú er komið á daginn að endurbætur á gamalli ferju verða miklum mun dýrari en að smíða nýja Grímseyjarferju sem hefði verið sniðin að þjónustu við atvinnuveg og íbúa Grímseyjar.

Vestmanneyingum er boðið upp á ófullnægjandi ferju og í stað þess að leysa samgöngumál með markvissum hætti dreifa stjórnvöld umræðunni á dreif með ýmsum vangaveltum, s.s. með gangagerð út í eldstöð og byggingu nýrrar hafnar við Bakkafjöru en reyndir skipstjórar efast mjög um að höfnin muni henta til farþegaflutninga vegna grynninga.

Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að engin meining sé með þessum hugmyndum nema þá helst að slá á frest að framkvæma það sem liggur beinast við, þ.e. að fá nýjan og betri Herjólf og sömuleiðis að lækka gjaldtöku.

Það sem skiptir þó öllu máli fyrir Gríms- og Vestmanneyinga er að það verði veigamiklar breytingar á kvótakerfinu. Það er forsenda þess að byggðirnar fái að blómgast. Það virðist því miður verða einhver bið á að þar verði breyting á þar sem Sjálfstæðisflokkur læjr ekki máls á breytingum þrátt fyrir augljóst skipbrot kvótakerfisins.


Dagur pissar upp í vindinn

Sérkennileg er greinin eftir Dag B. Eggertsson á bls. 18 í Fréttablaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir Björn Inga Hrafnsson fyrir sinnuleysi. Hann segir Björn Inga ekki hafa brugðist nógu rösklega við niðurskurði á aflaheimildum sem eru alfarið á ábyrgð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Degi finnst greinilega sem Björn Ingi hafi brugðist öðruvísi við en hann ætti að gera en segir þó ekkert um hvað hann ætti að gera. Hvatinn að greininni er fyrirhugaðir flutningar HB Granda upp á Akranes sem eru að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins afleiðing af niðurskurði aflaheimilda í þorski.

Það sem er alvarlegt við ákvörðun og málflutning Samfylkingarinnar er að fyrir kosningar gaf hún í skyn að til stæðu einhverjar breytingar á sjávarútvegi en eftir kosningar neitar hún að fara yfir veigamikil rök þeirra sem sýna fram á að niðurskurðurinn sé algerlega óþarfur.

Hvað vill annars Dagur upp á dekk, hvað meinar hann með greininni?


Veiðar á hrygningartíma - Skrif sjómanns á Vopnafirði

Sæll Sigurjón, mig langar til að koma eftirfarandi á framfæri.
Veiðar á hrygningartíma?
------------------------------------
Að ráði Hafró er þorskveiði á hrygningartíma takmörkuð og yfirlýst af þeirri stofnun að sú ráðstöfun skipti höfuðmáli. Hinsvegar hafa einu takmarkanir á grásleppuveiði verið vegna markaðsaðstæðna.
Grásleppan er nær eingöngu veidd vegna hrognanna og er veiðiálagið mikið og staðbundið. Vissulega er veiðin misjöfn eftir árum, en alls ekki niður á við öll árin, þrátt fyrir sóknina.
Það skilur á milli veiða á þorski og grásleppu að því leyti, að ókynþroska grásleppa er ekki veidd að neinu marki svo vitað sé. Sem sé, ungviðinu er hlíft við veiði. Annað er í gangi hvað þorskinn varðar. Smár þorskur ( 1,5-3,0 kg ) er uppistaðan í bolfiskafla  togveiðarfæra, þ.m.t. dragnót. Krókaveiðarfæri skila álíka stærð, en skilja að auki eftir slóð af dauðvona fiski í sjó og að kalla þau umhverfisvæn stenst ekki skoðun. Einu veiðarfærin sem hlífa smáfiski eru netin.
Sala grásleppuhrogna.
-------------------------------
Undanfarin ár hefur verið offramboð á grásleppuhrognum. Samtök fiskimanna í framleiðslulöndum hafa reynt að hafa samráð um veiði, en með misjöfnum árangri. Verðin hafa verið léleg, enda áhuginn og afkoman eftir því.
Síðasta áratug hafa íslensku hrognin verið að mestu leyti keypt af innlendum niðurlagningarverksmiðjum. Þar hefur samráð um verð verið augljóst, og með því að leggja til tómtunnur og salt hafa verksmiðjurnar tryggt sér hrognin.
Tiltölulega lítið magn hrogna hefur verið á lausu til útflutnings og hafa erlendir aðilar sótt sitt hráefni annað.
Vissulega er þetta innlenda framtak að mörgu leyti jákvætt, en einhver útflutningur þyrfti að vera samhliða í þeim tilgangi að viðhalda orðspori íslenskra hrogna erlendis. Til að svo megi verða þurfa íslenskir veiðimenn að hafa kjark til að salta hluta hrognanna upp á eigin spýtur.
----------------
Að lokum Sigurjón, þá finnast mér þessi skrif eiga erindi á þína heimasíðu, því mér finnst líklegt að smábátasjómenn líti þar við og væri fróðlegt að heyra álit manna. Einhver myndi etv spyrja hvort þessi skrif ættu frekar heima á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. En á þeim bæ er engin umræða í gangi og þrátt fyrir að vera lögskipaður aðili að þeim samtökum, þá var mér meinað aðgengi að heimasíðunni síðast er ég reyndi.
Með kveðju
Vilhjálmur Jónsson
Vopnafirði

Mun stærra mál á Akureyri en tjaldstæðismálið ógurlega

Já, svo virðist sem Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, hafi verið að vísa til Brims þegar hann sagði í fréttum í gær að áfram yrði fiskvinnsla í húsakynnum HB Granda í Reykjavík. Og ef Guðmundur Kristjánsson flytur Brim og setur það niður við Norðurbakkann í Reykjavík verður það mun stærri skellur fyrir Akureyri og Eyjafjörð en þegar ungmennum á aldrinum 18-23 ára var meinað þar um tjaldstæði á eigin vegum um verslunarmannahelgina.

Hvað gera menn nú á Akureyri?


Hvað á Björn Ingi við?

Í kvöld fengu sjónvarpsáhorfendur að vita að HB Grandi ætlaði að flytja alla landvinnsluna frá Reykjavík og setja sig niður á Akranesi. Á Stöð 2 sagði Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, að ákvörðunin kæmi sér á óvart en sagði jafnframt að fiskvinnsluútgerð yrði haldið í Reykjavík eins og annars staðar

Er Björn Ingi að boða komu Brims til Norðurhafnarinnar í Reykjavík?


Mörg þúsund hamborgarar afgangs á Akureyri

Á forsíðu DV í dag var greint frá því að mörg þúsund hamborgarar hefðu gengið af á Búllunni sem er afar góður skyndibitastaður á Akureyri. Ég verð að játa að ég lét ekki mitt eftir liggja og keypti þó nokkra hamborgara á Búllunni í fyrradag, á frídegi verslunarmanna, en það var að sönnu óvenju fámennt á Akureyri þessa verslunarmannahelgi.  

Raddir hafa verið háværar um að tjaldstæðamálið hafi verið mest afgerandi þátturinn í því þar sem sjálfráðu fólki var meinaður aðgangur á ómálefnalegan hátt. Það er skoðun mín að tjaldstæðamálið sé ekki meginorsök þess að fólk setti ekki stefnuna á Akureyri, heldur slæm veðurspá og ákaflega neikvæð umræða um útihátíðir þar sem öll áhersla er lögð á hert eftirlit á öllum sviðum. Tjaldstæðamálið var dropinn sem fyllti mælinn.

Langflestir Íslendingar eru ekki í fíkniefnum eða ofbeldi og sækjast ekki eftir því að hafa fíkniefnahunda snuðrandi þar sem þeir ætla að gera sér glaðan dag. Sömuleiðis eru langfæstir karlmenn nauðgarar sem þurfa á stöðugri áminningu að halda um að níðast ekki á næstu manneskju.

Umræðan um bíladagana var líka alltof neikvæð fyrr í sumar. Þar fór aftur bæjarstjórinn fremst í flokki í gagnrýni sinni á samfélagið og vildi að gagnger endurskoðun færi fram. Það má eflaust taka undir með henni um að einhver naflaskoðun þurfi að eiga sér stað en hún verður þá að vera með uppbyggilegri nálgun. 


Björn Bjarnason, Robert Mugabe, Pol Pot og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á það til að vera ákaflega seinheppinn. 

Í síðustu viku fór Björn mikinn á heimasíðu sinni í yfirlætislegri vandlætingu á skrifum félaga Jóns Magnússonar þingmanns.  Það sem fór svo fyrir brjóstið á Birni Bjarnasyni var að  Jón Magnússon benti Sigurði Kára Kristjánssyni og Birni Bjarnasyni á að það væri ekkert einsdæmi að stjórnmálaflokkur haldi jafn miklu fylgi í svo langan tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert, þrátt fyrir að vera samfellt í ríkisstjórn. Jón Magnússon greindi réttilega frá því að í Zimbabwe þar sem Robert Mugabe ræður ríkjum sé ástandið með þeim hætti að forsetinn fengi meirihluta atkvæða kosningar eftir kosningar þrátt fyrir að  lílfskjörin í landinu versnuðu og verðbólgan mælist nú um 4000 þúsund prósent.

Björn Bjarnason sagði á heimasíðu sinni: "Að bera saman stjórnmálalíf hér á landi og hjá einræðisherranum Mugabe er dæmi um viljaleysi til málefnalegra umræðna um stjórnmál og lítilsvirðing við þá, sem búa við kúgun alræðisherrans. Skyldi Jón trúa því, sem hann segir í þessum pistli?"

Þesi skinhelgi Björns Bjarnasonar kom mér satt best að segja mjög á óvart því eins og alkunna er  hefur Björn látið eitt og annað flakka á heimasíðu sinni s.s. þegar hann líkti fyrir nokkrum árum stjórnarháttum Ingibjargar Sórúnar Gísladóttur við starfshætti Pols Pots, sem ekki var einungis fjöldamorðingi heldur Þjóðarmorðingi.   Björn Bjarnason gekk svo langt að halda því fram að ekki einungis Ingibjörg Sólrún legði stund á svipaðar æfingar og Pol Pot heldur voru aðrir samfylkingarmenn nefndir til sögunnar  s.s. Össur Skarphéðinsson núv. byggðamálaráðherra og Helgi Hjörvar þingmaður.  

Nú eru breyttir tímar . Samfylkingin hefur farið í endurhæfingu og tekið upp stefnu Sjálfstæðisflokksins í fjölmörgum málum s.s. að standa vörð um óréttlátt kvótakerfi.


Nýr formaður Fólkaflokksins

Í vikunni gerðust þau tíðindi í Færeyjum að Fólkaflokkurinn valdi sér nýjan formann en flokkurinn hefur þann háttinn á að þingflokkurinn velur flokksleiðtogann. 

Jørgen Niclasen nýggjur formaður í Fólkaflokkinum

Nýr formaður er Jörgen Niclasen. Hann er 38 ára gamall og hefur setið í einn og hálfan áratug á færeyska Lögþinginu. Hann gegndi embætti sjávarútvegsráðherra á árunum 1998 til 2003 og ákvað að fá óháða skoðun á tillögur færeysku Fiskirannsóknarstovunnar um niðurskurð á aflaheimildum en fyrri tillögur sama efnis höfðu ekki skilað tilætluðum árangri. Óháða ráðgjöfin gekk þvert á niðurskurðartillögur Fiskirannsóknarstovunnar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins. 

Færeysk stjórnvöld ákváðu að fylgja óháðum sérfræðingum og í ljós kom að fiskistofnarnir stækkuðu þrátt fyrir að veitt hefði verið umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem gaf því ótvírætt til kynna að upphaflega ráðgjöfin hefði verið röng.

Jörgen Niclasen er afar snjall og góður fyrirlesari. Ég kynntist honum fyrir nokkrum árum á ráðstefnu um fiskveiðistjórn á Norður-Írlandi og síðar héldum við saman til  Brussel að kynna aðra sýn og aðferðir við að stjórna fiskveiðum en með kvótakerfum sem hvergi hafa gagnast í að byggja upp fiskistofna. Það er fyllsta ástæða til að óska Fólkaflokknum til hamingju með valið.


Fær almenningur að vera með í partíi bankanna?

Nú berast í stríðum straumum upplýsingar um gríðarmikinn gróða bankanna og stjarnfræðilega há laun bankastjóranna. Þetta væru ósviknar gleðifréttir ef almenningur fengi að njóta velgengni bankanna. Svo er þó ekki. Hér eru hærri þóknunargjöld en annars staðar, meiri vaxtamunur og bankarnir varpa drjúgum hluta af gengisáhættu yfir á viðskiptavinina með verðtryggingunni.

Ríkið kemur í ofanálag í veg fyrir samkeppni á bankamarkaði með stimpilgjöldum sem koma nánast í veg fyrir að skuldarar fari á milli bankastofnana til að leita eftir betri kjörum.

Er ekki rétt að leyfa almenningi að vera með í veisluhöldunum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband