Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Einar Kristinn Guðfinnsson situr með Þorsteini Pálssyni á blogginu sínu

Einar Kristinn Guðfinnsson á víst að heita sjávarútvegsráðherra en hann virðist vera í flestu öðru en að sinna þeim verka. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld komu uppsagnir á Flateyri honum algerlega í opna skjöldu. Og uppsagnirnar í Bolungarvík rétt fyrir kosningar voru afleiðingar stöðu rækjuiðnaðarins að sögn Einars Kristins - þ.e. hann kom með þá hjákátlegu skýringu.

Ég renndi í gegnum skrif Einars á heimasíðu hans og við þá athugun kom í ljós að ráðherra sjávarútvegsmála forðast að ræða sjávarútvegsmál eins og ökufantur að fara um Húnavatnssýslu. Einu færslurnar þar sem ráðherrann sér ástæðu til að drepa niður penna um sjávarútvegsmál eru um sjónvarpsþátt þar sem sjóhundurinn og nú alþingismaðurinn Grétar Mar Jónsson tók ráðherrann í kennslustund um stöðu atvinnugreinarinnar og hin færslan var um dýrðardagana þegar afi hans og alnafni í Bolungarvík starfaði í sjávarútvegi. Sú var skrifuð fyrir páska og var um það að steinbíturinn boðaði vorkomuna.

Nú er von að Vestfirðingar fái annan og betri sjávarútvegsráðherra. Þegar maður horfir yfir sviðið er þó ekki um auðugan garð að gresja. Helsta vonin er Össur Skarphéðinsson.


Halldór Halldórsson kaus hlutskipti Flateyrar

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, hefur sneitt hjá því að ræða hina raunverulegu ástæðu þess hversu illa er komið fyrir atvinnulífinu á Vestfjörðum. Aldrei gagnrýnir hann eða gerir tillögur að breytingum á kvótakerfinu sem augljóslega hefur grafið undan atvinnulífinu og hefur engu skilað hvað varðar bættan þjóðarhag. Skuldir hafa þrefaldast á meðan tekjur sjávarútvegsins hafa dregist sman.

Í Fréttablaðinu í dag heldur hann áfram á þeirri braut sinni að ræða lausn á atvinnumálum Vestfirðinga eins og að kvótakerfið sem er meginorsök atvinnuástandsins sé óbreytanlegt náttúrulögmál en ekki mannanna verk sem vel er hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi.

Hið sama má segja um viðbrögð Gríms Atlasonar, bæjarstjóra í Bolungarvík, við fjöldauppsögnum í Bolungarvík um daginn.

Þessir forráðamenn sveitarfélaganna á Vestfjörðum og víðar um land verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Þeir eru sjálfir á fínu kaupi við að friðmælast við stjórnvöld. Hafa mennirnir ekki neina samvisku? Þeir verða að fara að ræða raunverulegar breytingar sem verða til einhvers gagns.

Þetta ástand er ekki bundið við Vestfirði, heldur teygir sig yfir allar sjávarbyggðirnar og skaðar heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Hvar er annars Einar Kristinn í þessari umræðu?


Mun Sjálfstæðisflokkurinn fallast á að Ísland láti af stuðningi við stríðið í Írak?

Það verður fróðlegt að sjá hvort að Sjálfstæðisflokkinn fallist á þá kröfu að Ísland verði tekið af  lista hinna viljugu og stríðsfúsu þjóða sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson komu þjóðinni á.

Forysta Samfylkingarinnar hefur látið stór orð falla um stuðning Íslands við innrásina í Írak og nauðsyn þess að nafn Íslands verði máð af umræddum lista.  Geir Haarde hefur einhverra hluta vegna þráast við og ekki viljað gera gangskör í því að Íslendingar hætti umræddum stuðningi.  Ég tel sjálfur mjög miklar líkur á því að Geir Haarde gefi eftir í málinu enda hefur stuðningurinn árásina á Írak misboðið þorra landsmanna.   

Það ætti að vera algerlega útilokað fyrir Samfylkinguna að láta ekki reyna á að Ísland hætti umræddum stuðningi við stríðsaðgerðirnar í Írak enda væri það í hrópandi mótsögn við málflutning Samfylkingarinnar á umliðnum árum.

 


Einar Oddur snýr út úr staðreyndum

Þessi sala á atvinnurétti Vestfirðinga snýst ekkert um gengismál heldur eingöngu þá staðreynd að kerfið býður upp á að þeir sem hafi yfir aflaheimildum að ráða geta losað til sín gríðarlega háar upphæðir.

Kvótakerfið vonlaust kerfi fyrir byggðirnar og það mun leiða af sér að þær fara í eyði.  Í Fréttablaðinu í gær kom fram að útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða hafði dregist saman á árinu 2006 miðað við árið á undan þrátt fyrir að verð á afurðum sé í hæstu hæðum.

 


mbl.is Kambur á Flateyri að selja kvóta og skip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkir

Ég þakka þeim sem studdu listann og lögðu vinnu í baráttuna. Þótt hún hafi ekki skilað fulltrúa fyrir Norðausturkjördæmið að þessu sinni var áreiðanlega lagður grunnur að flokksstarfi í kjördæminu. Margir lögðu á sig fórnfúst sjálfboðaliðastarf sem ég met mikils og þakka fyrir.

Fólk í efstu sætum tók sér frí í vinnunni og vann mörg kvöld að framboðinu, og gerði þetta af hugsjón.

Ég er sannfærður um að baráttumál flokksins, afnám kvótakerfisins, mun ná fram fyrr eða síðar því að kerfið hvetur til svindls og svínarís og er á góðri leið með að leggja sjávarbyggðirnar í rúst.

Flokkurinn heldur fjórum þingmönnum og mun halda áfram að berjast fyrir bættum hag landsmanna.


Einn dagur til kosninga

Ástæðan fyrir því hvað ég hef haft hljótt um mig hér undanfarið er sú að ég hef gert víðreist um Austfirðina, fundað m.a. á Fáskrúðsfirði, verið á Reyðarfirði, Bakkafirði, Vopnafirði og víðar. Og ég verð að þakka fyrir hlýjar móttökur og fróðlegar viðræður.

Ég hlakka til ef þetta verður starfssvæði mitt í náinni framtíð og held áfram að vinna að því.


Rangfærslur sjálfstæðismanna um færeyska kerfið

Kristján Þór Júlíusson fer enn og aftur með undarlegar yfirlýsingar um sjávarútvegsmál, nú málin í Færeyjum. Í fyrsta þætti Stöðvar 2 sagði hann að sjávarútvegur væri úreltur atvinnuvegur, í öðrum þættinum taldi hann að kerfið hefði skapað mikinn ágóða sem það hefur sannarlega ekki gert og í þriðja lagi bullaði hann í þætti RÚV í gærkvöldi eitthvað um færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Í þessum þáttum getur verið erfitt að koma athugasemdum og leiðréttingum að án þess að grípa stöðugt fram í. Staðreyndin er þó sú eins og kemur fram í fyrri færslu minni að mikill uppgangur er í færeyskum sjávarútvegi, ólíkt þeim íslenska þar sem stærsta fyrirtækið hér tapaði 2 milljörðum á síðasta ári. Svindlið skekur greinina eins og kom fram í Kompássþætti en sem enga náð hefur hlotið fyrir augum Ríkisútvarpsins.

Það sem mér finnst verst við þessa umfjöllun um sjávarútvegsmál er að sjálfstæðis- og framsóknarmenn hafa neitað að skoða færeyska kerfið þrátt fyrir augljósar hörmungar þess íslenska þar sem er tugmilljónasvindl alla daga allan ársins hring.


Faroes' buzzing fishery! - RÚV afflytur fréttir frá Færeyjum

Ég var að fá í hendurnar Fishing News International en þar er kálfur um gríðarlegan uppgang í færeyskum sjávarútvegi. 

Þessar fréttir koma mér ekki á óvart þar sem ég er í góðu sambandi við nokkra færeyska útgerðar- og stjórnmálamenn. 

Þessar fréttir koma eflaust mörgum landsmönnum hins vegar á óvart þar sem fréttastofa RÚV og Morgunblaðið flytja nær eingöngu neikvæðar fréttir af færeyskum sjávarútvegi.  Það hefur t.d. komið fram að þorskafli sé í lægð en hlaupið yfir almennan uppgang vegna góðrar veiði á öðrum tegundum s.s. metafla á ufsa. 

Umfjöllun Kompás um árangur Færeyinga við að stýra fiskveiðum hefur þess vegna eflaust komið ýmsum á óvart og þá einnig að Færeyingar eru lausir við brottkast og svindlið sem tíðkast í íslenska kvótakerfinu.

Það vakti athygli mína að fréttastofa RÚV hefur ekki enn fjallað með neinum hætti um svindlið sem allir vita af og er miklu stærra heldur en olíusamráðssvindlið.  Forstjóri Fiskistofu hefur viðurkennt að svindlið sé umtalsvert á meðan Einar Kristinn Guðfinnsson þykist ekkert vita af því. 

Ég hef orðið áþreifanlega var við það að fréttastofa RÚV á í miklum vandræðum við að flytja áreiðanlegar fréttir af sjávarútvegi og hefur janfvel neitað að leiðrétta rangan fréttaflutning sinn. 

Fólk er farið að tala um þetta og fréttastofan glatar trausti eftir því sem þögnin verður lengri. 


Flytur Morgunblaðið fréttir eða áróður?

Það er umhugsunarvert að Morgunblaðið fjallar ekkert um milljarðasvindlið sem Kompás greindi frá og hefur verið öllum þeim sem fylgjast náið með sjávarútvegi hugleikið. Það sem er einna átakanlegast við kvótakerfið er að það gengur hart að sjávarbyggðunum, s.s. heimabæ Einars Kristins Guðfinnssonar eins og þessi frétt sýnir.

Einar Kristinn hefur ekki kjark til þess að takast á við kerfið eða skoða hvernig Færeyingar stjórna fiskveiðum með árnangursríkum hætti. Vandi Bolungarvíkur er bein afleiðing af braski kerfis sem hvetur til svindls.   


mbl.is Áhyggjur af ástandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einar Kristinn á að vita betur

Nú fyrir skömmu lauk upplýsandi Kompássþætti um svindlið í kvótakerfinu, svindl sem allir vita um sem starfa í eða þekkja með öðrum hætti til sjávarútvegsins, þ.e. að landaður afli er meiri en skráður og að í lönduðum afla eru aðrar og verðmætari tegundir en gefnar eru upp. Að auki er brottkast.

Einar Kristinn þóttist koma alveg af fjöllum þegar hann var spurður út í svindlið og svaraði hálfkindarlega að þetta væru óstaðfestar sögusagnir. Einar Kristinn á að vita betur, enda mátti hann hafa sig allan við að halda andlitinu þegar hann reyndi að gera lítið úr alvarleika málsins.

Í þættinum var stuttlega fjallað um færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið, enda eru menn í því lausir við svindl og sóun sem fylgir kvótakerfum nær undantekningarlaust. Menn reyndu þar kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd og þá komu upp nákvæmlega sömu vandamál, þ.e. brottkast og svindl, og við erum búin að glíma við árum saman, vandamál sem eru fylgifiskur kvótakerfisins í sjávarútvegi. Hér hefur verið farin sú leið að þagga niður umræðu og dæma menn, sem viðurkenna það sem flestir stunda, til hárra sektargreiðslna.

Svarið við þessu svindli sem kostar þjóðarbúið marga milljarða króna árlega er ekki að auka eftirlit og herða refsingar, heldur koma á kerfi þar sem enginn eða lítill hvati er til þess að svindla. Núverandi íslenska kvótakerfi felur í sér eftirlitskostnað - sem er vel á annað þúsund milljónir árlega - með duglegu og venjulegu fólki sem starfar í sjávarútvegi. Þeir fjármunir væru betur komnir í vöruþróun og aukin gæði.

Í Færeyjum hef ég fyrir satt að séu tveir veiðieftirlitsmenn - tveir svo að annar þeirra geti farið í sumarfrí.

Færeyskir stjórnmálamenn hafa margir notið leiðsagnar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og ég hef sjálfur farið gaumgæfilega yfir gögn hans og kenningar. Ég sem líffræðingur get ekki séð annað en að þær kenningar séu í fyllilegu samræmi við viðtekna vistfræði og þær hafa sannarlega gengið upp í Færeyjum. Á hinn bóginn er óumdeilt að kenningar Hafró hafa alls ekki gengið upp á síðustu árum, enda ganga þær í berhögg við vísindin.

Íslendingar verða að fara að gera upp við sig hvort menn ætli að þora að ræða þessa hluti án þess að beita sleggjudómum og áróðri fyrir íslenska kvótakerfinu sem er á góðri leið með að hafa það af að lama atvinnulíf sjávarbyggðanna. Það er stutt til Færeyja eins og við í Frjálslynda flokknum höfum oftsinnis bent á og við eigum að vilja sjá möguleikana í því að breyta því sem hefur mistekist hér heima og læra af því sem er betur gert í öðrum löndum.

Það virðist vera tabú að ræða þennan vanda. Menn virðast vera í afneitun og Einar Kristinn er í því að teikna upp glansmynd sem stenst engan veginn.

Nú er verið að ræða vanda Bolungarvíkur, og borgarafundi nýlokið vestra. Í stað þess að Einar Kristinn einbeiti sér að því að sjá leiðir út úr kerfinu sem hefur engu skilað þjóðarbúinu heldur hneppt atvinnulíf Bolungarvíkur í fjötra og hvatt til svindls forðast hann að ræða þessi mál og afneitar þeim.

Hann hefur kosið sér ömurlegt hlutskipti í lífinu.

Kompás á þakkir skildar fyrir þáttinn. Ég hef oft furðað mig á hvað íslenskir fjölmiðlar hafa sýnt þessum málum lítinn áhuga. Vonandi verður núna breyting á því að þetta er vitaskuld ekki flokkspólitískt mál, heldur snýst það um framtíð Íslands.


mbl.is Atvinnumál Bolungarvíkur rædd á borgarafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband