Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Árangur Færeyinga í stjórn fiskveiða - fundur á Hótel KEA

Þann 17. apríl nk. verður haldinn fundur á Hótel KEA um stefnu Frjálslynda flokksins í stjórn fiskveiða og mikinn árangur Færeyinga við að stýra fiskveiðum. Við Jón Kristjánsson fiskifræðingur verðum frummælendur.

Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur verið helsti ráðgjafi færeyskra stjórnvalda og er hann nýkominn úr ferð til Færeyja þar sem hann var m.a. gestur á fundi Fólkaflokksins. Ávarpi hans á fundi Fólkaflokksins var sérlega vel tekið og hér eru viðtöl sem tekin voru við Jón í Færeyjum í síðustu viku - um gagnsleysi þess að geyma fisk í hafinu  og um þorskainnrásina á Íslandsmið. Í Færeyjum hafa „sérfræðingar“ sem hafa lagt til grundvallar stærðfræðilega fiskifræði lagt árlega til 25-50% niðurskurð á aflaheimildum um áratuga skeið en stjórnvöld hafa nánast ekkert farið eftir þeim ráðum frá árinu 2000. Á þeim tíma hafa fiskistofnar í Færeyjum risið og hnigið í samræmi við það sem Jón Kristjánsson hefur spáð fyrir um.

Uppbyggingarstarf sem fram hefur átt að fara hér á Íslandsmiðum hefur þrátt fyrir tveggja áratuga tilraunastarf orðið byggðum landsins dýrt.

Það er löngu tímabært að við Íslendingar skoðum með opnum hug árangur Færeyinga.


Skynsemin ræður

Frjálslyndi flokkurinn telur skynsamlegt fyrir íslenskt samfélag að stjórna flæði útlendinga sem kemur til landsins og telur rétt að beita öryggisákvæðum í EES-samningnum sem heimila Íslendingum að takmarka flæðið.

Á

Jón Baldvin sammála túlkun Frjálslynda flokksins
stæðan er einföld, það er nauðsynlegt að hægja á innstreymi fólks til þess að íslenskur vinnumarkaður geti aðlagað sig gríðarlegum breytingum sem hafa átt sér stað á örfáum árum. Íslenskt samfélag þarf einnig að ná utan um þann fjölda sem kominn er til landsins áður en enn fleira fólki er stefnt hingað.

Nú ber svo við að talsmenn Samfylkingarinnar, s.s. frambjóðandinn Árni Páll Árnason, telja það lífsins ómögulegt að beita þessu ákvæði. Árni Páll fer með túlkun sinni algerlega gegn afstöðu læriföðurins Jóns Baldvins Hannibalssonar, samflokks- og samhlerunarmanns síns, til þessa ákvæðis.

Í umræðum á Alþingi útskýrði Jón Baldvin Hannibalsson ákvæðið með þeim hætti að það léki enginn vafi á því að það væri mjög rúmt og mætti nota með einhliða ákvörðun Íslands.

Samfylkingin virðist einhverra hluta vegna ekki ráða við að ræða málefni útlendinga á Íslandi og hefur reynt að úthrópa skynsamlega umræðu Frjálslynda flokksins um brýnt þjóðfélagsmál. Ástæðan er eflaust sú að talsmenn Samfylkingarinnar vita sem er að þeir brugðust innlendu launafólki illilega fyrir tæpu ári þegar flokkurinn studdi ekki að nýttar yrðu heimildir til þess að fresta því að galopna landið fyrir innstreymi vinnuafls frá fátækum ríkjum Evrópusambandsins.

 

Nú virðist sem Samfylkingin ætli að bregðast íslensku launafólki öðru sinni með því að úthrópa nauðsynlega og þarfa umræðu sem vonda og eru þessir stjórnmálaflokkar með því að bregðast íslensku launafólki öðru sinni.

Einna lengst í þessu hefur bæjarstjóri Samfylkingarinnar í Dalvíkurbyggð gengið og sett bráðnauðsynlega umræðu Frjálslynda flokksins í samhengi við styrjaldir og skelfilegar þjóðernishreinsanir. Þetta er svona álíka vitlaus tenging og að setja orð og ræður Ingibjargar Sólrúnar í samhengi við glæpi Stalíns.

Svanfríður, helsti talsmaður kvótans í Samfylkingunni

 

Málefni útlendinga eru viðkvæm og stjórnmálamönnum ber að ræða þau af skynsemi.

 

 


Eru þáttastjórnendur Stöðvar 2 svekktir út í Frjálslynda flokkinn?

Fólk er farið að tala um hvað Egill Helgason sniðgengur skipulega að ræða við fulltrúa Frjálslynda flokksins í þætti sínum á Stöð 2. 

Það er nú þannig að Frjálslyndi flokkurinn á jafn marga þingmenn og VG á Alþingi en samt sem áður er aldrei rætt við formann Frjálslynda flokksins Guðjón Arnar Kristjánsson í Silfri Egils.

Það kæmi mér ekki á óvart að Frjálslyndi flokkurinn ætti eftir að bæta við sig fylgi í komandi kosningum þar sem yfirgnæfandi meirihluti landsmanna styður þær pólitísku áherslur flokksins að kollvarpa kvótakerfinu sem hefur valdið þjóðfélaginu gríðarlegu tjóni. 

Í dag brá svo við að Egill sá ástæðu til að draga minni spámenn úr m.a. Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum inn í settið sem sumir komu beint af landsfundum flokkanna og að venju sá Egill ástæðu til þess að sniðganga Frjálslynda flokkinn.

Umræðuefnið hjá Agli og félögum var ekki að glænýjar niðurstöður Hafró gefa til kynna að svokölluð uppbygging þorskstofnsins hafi algerlega brugðist og að þjóðarbúið verði af tugmilljarðatekjum á næsta ári. Nei, að þessu sinni var umræðuefnið Frjálslyndi flokkurinn og fengu viðmælendur Egils frítt spil til þess að sverta og snúa út úr stefnu Frjálslynda flokksins í málefnum útlendinga. 

Egill verður að útskýra það hvers vegna hann ákveður að ræða sérstaklega um Frjálslynda flokkinn án þess að nokkur sé til varnar. Það sem er einna verst við þessi vinnubrögð er að Egill veit betur um stefnu Frjálslynda flokksins og leyfir viðmælendum sínum að rugla og bulla.

Ein möguleg skýring á þessu háttalagi Egils Helgsonar er að hann sé mögulega spældur vegna þess að við í Frjálslynda flokknum höfum gagnrýnt þáttastjórnendur Stöðvar 2 opinberlega, m.a. fyrir hvernig reynt er að ýta umræðu um sjávarútvegsmál út af borðinu.

Önnur skýring á þessu framferði er að Egill Helgason óttast mjög að þurfa að ræða um kvótakerfið.  Hann hefur oft lýst því yfir að sú umræða fari mjög fyrir brjóstið á sér. Núverandi kerfi er mjög snöggur blettur á ráðandi öflum í þjóðfélaginu og almenningur styður réttlátar og skynsamlegar breytingar á kvótakerfinu.  

Ég vil einnig benda lesendum á skrif hins efnilega og unga stjórnmálamanns Eiríks Guðmundssonar sem skipar 3. sæti á lista Frjálslyndra í Norðausturkjördæmi en ég er sannfærður um að hann eigi eftir að láta til sín taka í framtíðinni.


Margrét í kvótaflokki Ómars Ragnarssonar

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort að Sverrir Hermannsson láti flækja  sig í þessa vitleysu og muni taka sæti á lista hins nýja kvótaflokks. 

Ómar Ragnarsson hefur sagt að hann vilji ekki breyta kvótakerfinu í sjávarútvegi.  


mbl.is Ómar og Margrét leiða lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnaðar- eða ójafnaðarmaður eða -kona?

Í ræðu jafnaðarmannaleiðtogans Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kom ekkert fram um mesta óréttlætismál Íslandssögunnar, kvótakerfið sem hefur farið ránshendi um sjávarbyggðirnar. Ekkert einasta orð. Vel að merkja, þetta er aðalútflutningsgrein landsmanna, meira en helmingur af vöruútflutningi kemur úr þessari atvinnugrein. Það er alls ekki trúverðugt hjá jafnaðarmanni að hlaupa yfir þetta óréttlæti.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki borið sitt barr síðan hún lagði leið sína inn á fund LÍÚ haustið 2005, til helstu ójafnaðarmanna landsins.


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyfirðingar harðir á móti kvótakerfinu - grein eftir eyfirskan sjómann

Eyjafjarðarsvæðið og Norðurlandskjördæmi eystra hefur löngum verið talið vagga Framsóknarflokksins og varpstöðvar frá fornu fari. Það er ekki fjarri lagi og hér var einnig vagga Samvinnuhreifingarinnar og Kaupfélaganna. Flestir voru háðir sínu Kaupfélagi bæði með vinnu og nauðsynjar, raunar þurftu menn varla að leita annað. Á Akureyri voru Sambandsverksmiðjurnar mjög stór vinnustaður sem ásamt KEA sá til þess að flestir hefðu vinnu þó launin væru vissulega lág.

Síðar komst Útgerðarfélag Akureyringa á legg, en í því fyrirtæki áttu fjölmargir bæjarbúar hlut ásamt Akureyrarbæ.

Allt til þessa dags hefur Framsóknarflokkurinn verið í forystuhlutverki í kjördæminu sem og bæjarmálum á Akureyri, en margt hefur þó breyst frá því sem áður var.

Sambandsverksmiðjurnar eru horfnar, KEA lítið annað en peningaskúffa með fjármunum sem bændur og aðrir félagsmenn töldust áður eiga og sjálft gulleggið, Útgerðarfélag Akureyringa selt undir forystu Framsóknarmannsins og fyrrum bæjarstjóra Jakobs Björnssonar í andstöðu við meirihluta bæjarbúa.

Nú er svo komið að flest öll stóru fyrirtækin sem áður voru í eigu Akureyringa hafa verið seld úr bænum og þau sem enn eru til eru með höfuðstöðvar fyrir sunnan.

Það skal því engan undra þó fjarað hafi undan fylgi Framsóknarflokksins á kjörtímabilinu sem þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn hefur ekkert beitt sér í atvinnumálum hér fyrir norðan.

Raunar er staðan sú að atvinnuleysi á svæðinu hefur verið með því mesta á landsvísu um árabil. Í febrúar var atvinnuleysi á landinu 1.3%, en 2.3% á Norðurlandi eystra.

Ekki bætir úr skák að svæðið er láglaunasvæði sem stendur langt að baki t.d. suðvestursvæðinu.

Margir telja að um sé að kenna slappri verkalýðsbaráttu og athyglisverð er sú staðreynd að nær öllum verkalýðsfélögum á Akureyri er stjórnað af Framsóknarmönnum.

Það þótti mörgum sárt þegar bærinn seldi hlut sinn í ÚA og óttuðust mjög um framtíð fyrirtækisins. Sá ótti hefur ekki reynst ástæðulaus. Fyrir nokkrum árum var fyrirtækið selt útgerðarmanni frá Rifi sem þegar hófst handa við “hagræðinguna”.

Skrifstofufólki flestu var sagt upp og þau störf flutt til Reykjavíkur. Frystiskip voru seld þar sem tugir sjómanna og þeirra fjölskyldur urðu af miklum tekjum og margir þeirra hafa enn ekki komist í skipspláss eða orðið að flytja úr bænum.

Þá hefur einnig verið dregið verulega saman í ísfiskflota fyrirtækisins auk þess fækkað hefur í áhöfnum þeirra skipa sem enn eru á sjó. Hinn nýji eigandi er einnig talinn einn stærsti kvótaleigusali landsins.

Framtíðaráætlanir hans virðast vera mjög á reiki varðandi fyrirtækið. Um tíma ætlaði hann að láta smíða nokkra línubáta og skipta togurum út fyrir þá, en nú virðist sú áætlun ekki lengur í gildi.

Öllum að óvörum festi hann síðan kaup á mjög stórum frystitogara frá Noregi fyrir nokkru, en hann á fyrir einn stærsta frystitogara landsins Guðmund í Nesi sem gerður er út frá Rifi.

Því er nú spurt, hvar fæst kvóti fyrir hið nýja og afkastamikla skip sem hlýtur að verða að skila miklum afla í land til að dæmið geti gengið upp.

Er nú komið að því að loka frystihúsinu á Akureyri, einum af síðustu stóru vinnustöðum í bænum og færa þá vinnslu út á sjó? Þar færu 100-150 störf.

Hver veit og raunar hefur enginn neitt um það að segja nema eigandinn sjálfur.

En á sama tíma og störfum á Akureyri hefur fækkað beinlínis vegna aðgerða Framsóknarflokksins tala þeir fjálglega um að þeir ætli að fjölga störfum. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hælir sér jafnvel af því að hafa nú nýlega flutt ein 5 störf við skjalaþýðingar fyrir ráðuneytið norður til Akureyrar!

Akureyri sem var kvótahæsti bær landsins er nú að missa þann titil einnig. Guðmundur Kristjánsson eigandi ÚA hefur tekið þá ákvörðun að flytja skráningu á Akureyrartogunum til Reykjavíkur og skráningarnúmer þeirra munu breytast úr EA í RE. Þar með fer allur kvóti þeirra eða ÚA til Reykjavíkur. Svo einfalt er það nú í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við líði er að flytja björgina á milli byggðarlaga.

Og ástæðan sem Guðmundur tilgreinir fyrir þessum flutningi er sú að formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar sé ekki nægilega jákvæður og of stífur við að framfylgja kjarasamningum. Skemmtileg skilaboð það, að ekki þurfi að fara eftir kjarasamningum í Reykjavík.

Frjálslyndiflokkurinn mun leggja höfuðáherslu á atvinnumál í kjördæminu og veitir ekki af að snúa þeirri óheillaþróun við sem átt hefur sér stað á liðnum árum.

Sjávarútvegur var og á að geta verið áfram hin raunverulega stóriðja í kjördæminu. Álver á Reyðarfirði og væntanlega á Húsavík er góð viðbót og ætti að tryggja þessu stóra kjördæmi góða framtíð.

Til þess að svo megi verða er þó nauðsynlegt að losa um tök hinnar dauðu handar Framsóknarflokksins sem svo allt of lengi hefur staðið í vegi fyrir framförum og nýjum tímum á Eyjafjarðarsvæðinu.


Sparkvellir, fiskveiðistjórn og fjölmiðlar

Í pottinum í einni glæsilegustu sundlaug landsins, Sundlaug Akureyrar, var í morgun rætt um stórundarlegt fréttamat RÚV, þ.e. að það skyldi margtyggja einhverja vitleysisfrétt um meint átök fullorðinna og barna um sparkvöll en fjalla ekki með neinum hætti um fréttir af vorralli Hafró sem gefur til kynna að þjóðarbúið verði af milljarðatugum í útflutningsverðmætum. 

Ég greindi pottverjum frá því að það væri ekki alltaf hægt að treysta fréttum RÚV þar sem ekki væri haft fyrir því að leiðrétta fréttir um fiskveiðistjórn sem fréttastjóri veit að eru rangar.

Fleira var rætt, s.s. um að fréttastofa RÚV flytur algerlega gagnrýnislausar fréttir af landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Geir fær ekki eina spurningu um verðbólguna og hvað þá um þá gríðarlegu skattahækkun sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir á síðasta áratug.

Morgunblaðið má eiga það að það fjallaði um niðurstöður vorrallsins en þess var þó gætt í umfjöllun blaðsins að ræða ekki við neina sem hafa gagnrýnt núverandi stjórn fiskveiða sem er algerlega misheppnuð.


Ný skýrsla sem gefur til kynna að þjóðarbúið tapi tugmilljörðum á næsta ári

Niðurstöður vorralls Hafró gefa til kynna að uppbyggingarstarf stjórnvalda hafi ekki gengið eftir.  Stjórn veiðanna byggir á svokallaðri veiðireglu sem hvílir ekki á neinum vistfræðilegum grunni heldur einhverju undarlegu samblandi af hagfræði og stærðfræðilegri fiskifræði sem hefur hvað eftir annað borið upp á sker. 

Nú finnur Hafró engan fisk þrátt fyrir að veiðar hafi sjaldan gengið betur og ætti það eitt að sá efasemdarfræjum um áreiðanleika fiskatalningarinnar sem fram fór í togararallinu.

Fréttirnar eru gríðarlegt reiðarslag fyrir íslenskt þjóðarbú, þ.e.a.s. ef það verður úr að ráðleggingum Hafró verði fylgt í blindni eins og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gert síðasta einn og hálfan áratug.

Það má ætla að íslenskt þjóðarbú verði af tugmilljarða króna tekjum ef veiði verður minnkuð í sama mæli og lækkun stofnvísitölu gerði í þessum mælingum, þ.e. stofnvísitala þorsks lækkaði um 17% og ýsu um 12%.

Það er orðið löngu tímabært að taka bæði stjórnun og vísindaráðgjöf á fiskveiðiauðlind Íslendinga til gagngerrar endurskoðunar.


Íslandshreyfingin í tómri vitleysu í sjávarútvegsmálum

Erfitt hefur verið að átta sig á yfirlýsingum formanns Íslandshreyfingarinnar Ómars Ragnarssonar um sjávarútvegsmál.  Hann hefur þó  lýst því yfir að hann sé fylgjandi kvótakerfinu.

Fyrsti fundur sem Íslandshreyfingin sá ástæðu til að boða til um sjávarútvegsmál er í kvöld og eru framsögumenn forsvarsmenn helstu hagsmunasamtaka sem vilja halda nánast óbreyttu kerfi sem hefur skilað þjóðinni tjóni  og höggvið djúp skörð í sjávarbyggðirnar.

Framsögumenn á fundinum eru Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ og Arthur Bogason, formaður LS. Fundarstjóri er Jakob Frímann Magnússon.

Það er spurning hvort að þeir bræður Sverrir og Dóri Hermannssynir munu sitja undir þessum ræðuhöldum á fremsta bekk?

 


Grétar Mar góður - benti á flótta VG og S frá umræðu um sjávarútvegsmál

Grétar Mar var góður í kosningaþætti Stöðvar 2 í gærkvöldi. Það var greinilegt að stjórnendur þáttarins reyndu hvað þeir gátu til að þagga niður alla umræðu um sjávarútvegsmál og illræmt kvótakerfi sem hefur valdið miklum búsifjum í öllum sjávarbyggðum landsins.

Egill Helgason var kjaftstopp þegar Grétar hermdi það upp á hann að fjölmiðlarnir þegðu þunnu hljóði þegar kæmi að sjávarútvegsmálum og kvótakerfinu. Þetta var hárrétt athugasemd hjá Grétari og Egill vissi upp á sig skömmina. 

Í þættinum kom skýrt fram að það voru ekki einungis kvótaflokkarnir Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sem voru á flótta undan umræðu um kvótakerfið, heldur höfðu VG og Samfylkingin bæst í flóttaliðið.

Samfylkingin hefur átt erfitt uppdráttar í umræðum um sjávarútvegsmál frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var sérstakur gestur á LÍÚ-þingi og hélt þar dæmalausa ræðu um kvótakerfið.

Steingrímur J. Sigfússon hefur einnig forðast umræðu um óréttlátt fiskveiðistjórnunarkerfi allt frá því að hann gaf út furðurit sitt um sjávarútvegsmál fyrir áratug. Mig minnir að hún heiti Róið á ný mið.

Hvers konar jafnaðarmenn og sósíalistar eru það sem sætta sig við kerfi þar sem sjómönnum er gert að greiða 70% af því sem þeir afla til einhverra sem eru tilfallandi handhafar kvótans sem er lögum samkvæmt sameign þjóðarinnar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband