Leita í fréttum mbl.is

Tepruskapur í kringum embætti forseta Íslands

Það kemur nokkuð á óvart að allt útlit er fyrir að ekki verði neitt raunverulegt mótframboð gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Það er engu líkara en að þeir sem fjalla um stjórnmál í samfélaginu geri einfaldlega ekki ráð fyrir að um mótframboð geti orðið að ræða. Þetta kemur á óvart vegna þess að störf hans urðu fyrir harðri og óvæginni gagnrýni hjá vissum öflum í samfélaginu þar sem forsetinn var gagnrýndur á persónulegum nótum fyrir það að hann vísaði fjölmiðlalögunum árið 2004 í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni.

Ekki alls fyrir löngu átti ég leið um Alþingishúsið og var boðið þar í mat þar sem eitt og annað bar á góma. Þá spurði ég einn af metnaðargjörnum forystumönnum íslenskra stjórnmálaflokka hvort hann hygðist ekki láta til sín taka í forsetaframboðinu í vor. Honum varð um og lá við að stæði í honum, honum fannst greinilega fjarstæðukennd spurning að hann sæktist eftir æðsta embætti þjóðarinnar.

Svo heyrir maður útundan sér að fólk veltir fyrir sér kostnaðinum við forsetaskipti. Fólki finnst hagkvæmast að sami maðurinn haldi áfram sem forseti sem lengst vegna þess að það sparar eftirlaunagreiðslur. Þessi umræða gagnvart Ástþóri og kostnaði við framboð hans fyrir samfélagið er stórundarleg þar sem fyrir honum vakir aðeins að nýta sér lýðræðislegar leikreglur sem eru í gildi. Eðlilegra væri að stjórnmálaflokkarnir beittu sér fyrir að breyta reglunum en að beina spjótum sínum að Ástþóri.

Það er að mínu viti orðið tímabært að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni og að fram fari umræða í leiðinni um þetta æðsta embætti þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurjón.

Ég held að það sé enginn einstaklingur í dag tilbúinn að bjóða sig fram gegn ríkjandi forseta. Menn hafa hreint ekki möguleika.

Hann er vinsæll meðal fólks og það er bara meira en nýr frambjóðandi hversu frambærilegur sem hann er ræður við  breyta núna.

Ég vil þakka þér fyrir góð orð í minn garð vegna pistla minna  24 stundum, sem þú fjallaðir um hér á síðunni þinni um daginn.

Kveðja

 Guðmundur Óli Scheving

Guðmundur Óli (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 15:26

2 identicon

Ólafur Ragnar er þreyttur í starfi og allt of pólitískur fyrir þetta embætti. Engu að síður hefur hann staðið sig vel en ég hef fengið nóg af kallinum og kalla eftir öðru framboði. Auðvitað er Ástþór að nýta sér þær leikreglur sem eru í gangi, en engu að síður er maðurinn búinn að fá mikla höfnun frá þjóðinni og menn eiga að láta sér segjast, sér í lagi þegar sami andstæðingur er í framboði. Annað er kjánalegt og hreint misnotkun á lýðræðinu. Gífurlegur kostnaður sem fylgir þessu.

Hitt er annað mál, með embætti forseta Íslands, en ég er einn af þeim sem vill leggja þetta embætti niður og láta utanríkisráðherra og hans lið sinna þessum landkynningum. Forsætisráðherra mætti þá gjarnan heita forseta og búa á Bessastöðum. Einnig væri þá áríðandi að hafa hluta þjóðarinnar á bakvið svokallað neitunarvald og það væri þá að sjálfsögðu ekki í höndum pólitísks forseta. Við verðum að láta hafa hlutina eins og þeir eru. Að halda því fram að Ólafur sé þarna sem ópólitískt sameiningartákn íslensku þjóðarinnar er kjánalegt og hreint út sagt ótrúlega þröngsýnt sjónarmið miðað við það sem hann hefur sagt og gert í þessu starfi.

Frelsisson (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 15:37

3 identicon

við myndum þá ekki beint leggja embættið niður, þannig að það sé á hreinu, heldur að hafa þetta meira í takt við það sem það er, Pólitískt embætti. Eftir breytingu myndi forsetinn hafa áhrif og völd. Mun betra en að halda þessu gangandi fyrir hundruðu milljóna á ári með eftirlaunum og öllu þessu rugli í kringum það.

Frelsisson (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 15:43

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Sigurjón, það er einmitt fínt að hafa þetta eins og það er. Best er að sem mesta sátt og friður ríki um þetta embætti. Þess vegna  er alls ekki gott að heyja hatramma baráttu gegn sitjandi forseta. 

Svo ættum við að hafa eitt alveg á hreinu og það er að hafa þetta embætti ópólitískt. Það að Ólafur Ragnar skuli hafa orðið forseti var slæmt og ég vona að það endurtaki sig ekki að jafn umdeildur maður og hann var og er jafnvel enn, verði forseti. 

Forsetaembættið á ekki að vera endastöð fyrir pólitíkusa nóg er samt um dýr elliheimili fyrir þá. 

Þóra Guðmundsdóttir, 3.2.2008 kl. 16:04

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ekki má gleyma að íslenskir útrásarmenn áttu mikin þátt í að fá Ólaf Ragnar í framboð á sínum tíma. Þessir aðilar vissu að Ólafur hafði náð umtalsverðum árangri í alþjóðamálum t.d. sem formaður eða forseti Alþjóðlega þingmannasambandsins. Sem slíkur beitti hann sér fyrir mjög mörgum þarflegum málum og það hefur ekkert með að gera um þá fullyrðingu að hann hafi beitt sér sem pólitískur forseti lýðveldisins. Þvert á móti hefur hann lagt sig sérstaklega vel fram aðfylgjast með þjóðarpúlsinum og þegar honum þótti Davíð sem æðsti embættismaður framkvæmdavaldsins hafa gengið skrefi of langt, lét Ólafur reyna á 26. gr. stjórnarskrárinnar sem allir sem lesa kunna og skilja, vita að þessi réttur hefur alltaf verið til staðar og aldrei hafi komið til tals að breyta þessu fyrr en nokkrir sárir pólitíkusar sem þóttu freklega að sér vegið.

Ólafur hefur staðið sig mjög vel sem ekki er unnt að segja um ýmsa aðra sem glutrað hafa mörgum góðum tækifærum á sviði viðskipta og stjórnmála. 

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 3.2.2008 kl. 16:33

6 Smámynd: Auðun Gíslason

Ekki veit ég hvort það er beint hægt að kalla umæðuna um forsetaembættið teprulega.  Að minnsta kosti eru þeir ekki mjög teprulegir, sem hafa haft það að sið að ófrægja þann sem gegnir því.  Hafa m.a. alþingismenn og "virðulegir" ritstjórar lagt krók á leið sína í lífinu til að níða forseta lýðveldisins og embættið.  Ekki þarf að líta langt aftur til að sjá slíkt níð á síðum Morgunblaðsins.  Ásta Möller alþingismaður með meiru hélt því blákallt fram að Ólafur Ragnar væri ógnun við lýðræðið.  Skemmst er að minnast reiðikasta ýmisra hægrimanna þegar forsetinn neitaði að undirrita "fjölmiðlafrumvarpið". þá var nú ekki tepruskapnum fyrir að fara gagnvart forsetaembættinu og þeim sem því gegnir.  Varðandi forsetaframboð þá varð ég undrandi þegar niðurstöður skoðanakönnunar hér á blogginu sýndu, að 38,5% vildi Davíð Oddsson sem næsta forseta.  Hélt nú að það væru ekki svo  margir sem væru ekki  búnir að fá nóg af DO.  Og eru einhverjir sem líklegir væru til að hrófla við ÓRG í sjónmáli???  Kannski Ásta Möller???  Styrmir Gunnarsson??? Davíð Oddsson???  Það mætti kannski telja ÓLafi F. trú að hann væri valinn maður í slíkt???

Auðun Gíslason, 3.2.2008 kl. 17:28

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hið glórulausa og þjáningarfulla hatur náhirðarinnar í garð Ólafs Ragnars ætti að nægja til að sanna hvílíkur happafengur hann er lýðræðinu á Íslandi.

Árni Gunnarsson, 3.2.2008 kl. 18:31

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Déskoti fell ég alltaf fyrir frösunum hans Árna .....

Steingrímur Helgason, 3.2.2008 kl. 20:34

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurjón.

Virkt lýðræði er eitthvað sem við Íslendingar þekkjum ekki enn og erum því ánægðir með frið andvaraleysis að hluta til.

Sjálf tel ég Ólaf Ragnar ekki þann frelsispostula lýðræðis með afskiptum af Alþingi sem margir telja en það breytir því ekki að hann hefur staðið sig ágætlega í embætti enda þaulvanur af sviði stjórnmála.

Ég mun ætíð fylgja því að fólk fái að kjósa sem oftast um menn í öll embætti hins opinbera þar með talið forsetaembættið.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.2.2008 kl. 02:27

10 Smámynd: Stefanía

Ólafur er leikari af Guðs náð...fór mikinn á sínum tíma til  að fá því breytt, að alþingismenn gengju  til kirkju við setningu þingsins.....en er nú æðsti maður þjóðkirkjunnar.....mér finnst þetta fyndið.  En kostnaður við embættið, sem hefur farið framúr öllu velsæmi...er ekki fyndinn !

Stefanía, 4.2.2008 kl. 04:03

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sælt veri fólkið.

Af hverju ætti einhver að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta? Ólafur er vinsæll og vel virtur hjá meginþorra þjóðarinnar. Er þá ekki hagfelldast fyrir alla að hann sitji áfram?  Meðan hann er við fulla heilsu maðurinn og hefur þrek til að sinna þessu, sé ég ekki ástæðu til annars en hann fái að sitja á friðarstóli. Það er engin þörf á öðru - auk þess sem það er kostnaðarsamt að fara út í forsetakosningar og hafa fyrrverandi forseta á eftirlaunum árum saman. 

Svo mælir hin hagsýna húsmóðir að vestan  og hún er ánægð með forsetann sinn.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.2.2008 kl. 10:39

12 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er umdeilanlegt hvort að Ólafur Ragnar hafi setið á friðarstóli en ráðherrar í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafa gagnrýnt hann mjög harkalega á síðustu árum. 

Það væri rökrétt framhald af þeirri gagnrýni að það kæmi fram alvöru mótframboð.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að eitt og annað orki tvímælis sem athafnasamur forseti tekur fyrir sér fyrir hendur.  Það sem mér hefur þótt vafasamt er þegar hann tók þátt í að mæra kvótakerfið á erlendri grundu - kerfi sem hefur í engu skilað við að auka afla og er ósanngjarnt að mati Mannréttindanefndar SÞ og þarf að gjörbreyta. 

Að öðru leyti finnst mér Ólafur Ragnar hafi staðið sig nokkuð vel sem forseti. Það sem kom mér á óvart hversu vel hann hefur siglt í gegnum embættið miðað við að hann var miðpunktur í vafasömum málum s.s. lög á kjaradeilu BHM og umeilda sölu ríkiseigna.

Sigurjón Þórðarson, 4.2.2008 kl. 12:14

13 Smámynd: Jón Magnússon

Er ekki spurning hvort við viljum hafa forsetaembættið eins og það er. Meðan það er með þessum hætti þá er þráseta forseta líkleg og hann situr almennt á friðarstóli, borðar Hnallþórur og hlustar á börn í grunnskólum syngja maístjörnuna og talar hlýlega innanlands sem erlendis.

Spurning er hvort leggja eigi forsetaembættið niður í núverandi mynd og kjósa t.d. forseta sem myndar þá ríkisstjórn með svipuðum hætti og í Frakklandi og Bandaríkjunum.  Mér hugnast betur slík skipan enda spörum við þá heilt embætti, eftirlaunagreiðslur osfrv.osfrv.

Jón Magnússon, 4.2.2008 kl. 15:36

14 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Ertu að gefa kost á þér Sigurjón.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 4.2.2008 kl. 16:23

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Inngrip forsetaembættisins í afgreiðslu fjölmiðlalaganna sannfærði mig um að staða embættisins í stjórnsýslunni er hárrétt í núverandi mynd.

Það segir mikla sögu að þessu synjunarvaldi hefur aðeins einu sinni verið beitt á 64 árum. Það sýnir að allir forsetar okkar hafa sýnt þessu valdi, og jafnframt fulltrúalýðræðinu fullkomna virðingu.

Það var hinsvegar slæmt að Alþingi sveikst undan þeirri skyldu að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki var við öðru að búast af þeirri ríkisstjórn og þeim Alþingisforseta sem báru ábyrgðina.

En þetta pólitíska atvik hefur orðið til þess að Alþingi hefur síðan farið gætilegar með vald sitt en áður og það er vel.

Fulltrúalýðræði verður helst að afgreiða mál í sátt við umbjóðendur sína.

Fjölmiðlalögin og öll afgreiðsla þeirra var hrokafull vanvirðing við íslenska kjósendur. 

Árni Gunnarsson, 4.2.2008 kl. 18:18

16 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sæll Sigurjón, ég er hlynnt því að Ólafur verði  forseti áfram.
Hann hefur staðið sig vel, er vinsæll, annars er ég ekkert að hugsa um hann eða hans gjörðir svona dags daglega.
Mér er nokkuð sama hvort hann ferðast með einkaþotum
eða umgangist þotuliðið.
Ég veit hvernig forseta ég hef, en guð hjálpi mér,
veit ekki hvern ég fæ.
                                     Kveðja frá Húsavík.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.2.2008 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband