Leita í fréttum mbl.is

Sjávarútvegurinn fórnarlamb hugmyndafræði

Á Íslandi má færa ítarleg rök fyrir því að sjávarútvegurinn og byggðirnar sem byggja á honum hafi orðið fórnarlömb hugmyndafræði þar sem ekkert mark hefur verið tekið á raunsæi og nytsemishyggju. Annars vegar má skipta þeirri hugmyndafræði í stjórn veiða með það að markmiði að byggja upp fiskistofnana. Þau fræði hafa hvergi gengið eftir í heiminum enda stangast þau á við viðtekna vistfræði eins og ég hef margoft bent á. Hins vegar hafa hagfræðingar gleypt þessi fræði og yfirfært á skortskenningar sínar og búið til framseljanlegt kvótakerfi þar sem viðkvæðið er að um takmarkaða auðlind sé að ræða.

Það er auðvitað vafasamt vegna þess að þessi auðlind er vissulega endurnýjanleg en ekki takmörkuð. Þessi fræði eru á góðri leið með að keyra sjávarútveginn og byggðirnar í kaf.

Í Færeyjum horfir málið öðruvísi við. Þar hefur verið þjóðarsátt um að leggja til hliðar reiknisfiskifræðin sem ganga út á að veiða minna til að veiða meira seinna. Ekkert hefur verið farið eftir þessum fræðum sem hafa líka hvergi gengið upp eins og áður segir. Helst hefur þó reiknisfiskifræðin átt hljómgrunn í Þjóðveldisflokknum, en faðir Högna er fiskifræðingur og flokkurinn sækir fylgi sitt m.a. til stofnanafólks.

Nýja stjórnin í Færeyjum hyggst leigja hæstbjóðendum fiskveiðiréttindin til þriggja mánaða í senn. Með því verður eflaust tryggður eignarréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni eins og Frjálslyndi flokkurinn beitir sér fyrir. Það sem maður óttast þegar réttindin eru öll leigð út í svona skamman tíma er að erfitt geti verið að tryggja fjárfestingu í greininni. Þessi tilhögun býður upp á að menn hugsi sig tvisvar um áður en þeir fara út í miklar fjárfestingar í útgerð. Í öðru lagi má óttast að samkeppni og háar greiðslur fyrir leigu á aflaheimildum geti orðið til þess að launagreiðslurnar minnki til þeirra sem starfa í greininni.

Hér á Íslandi hafa kjör sjómanna versnað, og minni fjárfesting orðið í greininni þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ætlað sér að úthluta aflaheimildum varanlega til útgerða. Það hefur orðið vegna þess að útgerðir hafa lagt í gríðarlegan kostnað til að króa af varanlegar aflaheimildir“.

Það sem öllu máli skiptir er að við stjórn fiskveiða hafi menn raunsæi og nytsemishyggju að leiðarljósi. Reynslan sýnir okkur að hingað til hafi Færeyingum lánast miklum mun betur en okkur Íslendingum að stjórna fiskveiðum af skynsemi í stað þess að láta stjórnast í blindni af einhverjum ismum. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort núna verði breyting á því með nýrri stjórn.

Mér segir svo hugur að íslensk stjórnvöld - með sjálfan Einar Kristin í broddi fylkingar - muni ekki reyna að læra af reynslu Færeyinga enda búum við við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“.


mbl.is Ólga í Þjóðveldinu vegna ráðherraskipunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni sem verða á Alþingi á vordögum um álit Mannréttindarnefndar SÞ. Þó að sífellt fleiri málsmetandi menn hér á landi hafi tjá álit sitt á að annmörkum fiskveiðistjórnunarkerfisins, segir mér svo hugur að málið eigi eftir að vera afgreitt án þess að raunverulegar breytingar verði gerðar. Ég er aftur þeirrar skoðunar að erfiðleikar í efnahagslífinu með tilheyrandi gjaldþrotum, frekari fjölda uppsögnum, falli krónunnar og erfiðleikum í fjármálakerfinu, eigi eftir að knýja fram breytingar. Eins og stundum vill verða kemur þrýstingur á breytingarnar úr annarri átt en í gegnum stjórnmálin. Mér þætti ekki ólíklegt (ef skoðaðar eru kennitölur úr rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og þróun þeirra talna á liðnum árum) að kreppan verði þess valdandi að kvótinn safnist saman með beinni eða óbeinni aðild fjármálafyrirtækjanna. Kannski verður leiðin þá að ríkið "bjargi" þessu öllu, þ.m.t. fjármálakerfinu með því að kvótinn verði keyptur, kannski með ríkistryggðum langtímaskuldabréfum. Þá kannski opnast leið til að búa til kerfi sem er réttlátt og gagnsætt ef við verðum ekki búin að missa alla trúna á stjórnmálamönnum.

Hagbarður, 5.2.2008 kl. 00:34

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

 

Það er rétt þrýstingur á kerfið kemur úr mörgum áttum og það kæmi ekki á óvart að vandræði Gnúps fjárfestingafélags hafi víðar áhrif  í sjávarútvegsfyrirt.

Ástandið í sjávarútvegi minnir um margt á hækkun túlípana á 17 öld. 

Hvaða vit er í því að kaupa 1000 tonna þorskkvóta á vel á  4. milljarð króna sem gefur hámark 300 milljóna króna tekjur og til að afla þeirra þarf að leggja í ærin kostnað. 

Þetta getur ekki gengið upp - það segir sig sjálft.

Sigurjón Þórðarson, 5.2.2008 kl. 06:47

3 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Sigurjón , það sem er verst er að nú þegar eru sumir útgerðarmenn farnir að tala um að eina lausnin sé að leifa erlendum ríkjum að bjóða í kvótann , til þess að skera þá niður úr snörunni , ekki gott mál . kv .

Georg Eiður Arnarson, 5.2.2008 kl. 07:12

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Georg það er rétt útlitið er víða nokkuð snúið svo ekki sé meira sagt en á meðan snýst umræðan á Alþingi um hvort að það eigi að taka upp nýtt nafn á embætti ráöherra.  Það virðist ekki vera inn að ræða hvers vegna Grandi neyðist til að segja upp starfsfólki og loka nánast allri starfsemi á Akranesi.

Sigurjón Þórðarson, 5.2.2008 kl. 11:17

5 identicon

Sæll Sigurjón. Ástæða uppsagnanna er ekki fisveiðistjórnunarkerfið, ástæðan er sú að það er hagkvæmara að senda fiskinn óunninn úr landi en að vinna hann, svo einfalt er það. Gámaútflutningur á ferksfiski hefur stóraukist. Hvað fiskveiðistjórnunarkerfið varðar,þá minni ég á að fisstofnarnir við Færeyjar eru hrundir, þar var veiðidagakerfi sem ýmsir úr þínum flokki dásömuðu, en þögnuðu skyndilega þegar ljóst var að Færeyingar höfðu farið illa að ráði sínu. Ég gæti sagt þér margar slæmar sögur af veiðum okkar Íslendinga áður en kvótakerfið var sett á, það er einfaldlega nauðsynlegt að stjórna veiðunum.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 15:33

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ómar þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér og vil ég benda þér á vefinn hagstova.fo til þess að fá greinargóðar upplýsingar um málið.  Á árabilinu 1997 til 2007 hefur botnfiskaflinn farið lægst árið 1999 og var þá rétt liðlega 83 þúsund tonn og fór hæst árið 2002, 123 þúsund tonn en í fyrra á árinu 2007 var aflinn 93 þúsund tonn þrátt fyrir sjómannaverkfall. Það má segja að botnfiskaflinn hafi sveiflast í kringum 100 þúsund tonn.

Að mínu viti er miklu nær að halda því fram að fiskistofnarnir við Færeyjar sveiflist í stað þess að tala um hrun.  Ufsi hefur á síðustu árum verið í miklum hæðum á meðan þorskur hefur dalað.

Það verðu fróðlegt að fylgjast með fiskirínu í Færeyjum á næstunni en þorskaflinn í nóvember 2007 var um 60% meiri en í sama mánuði 2006.  Það má vel búast við því að ef þorskurinn er á leiðinni í uppsveiflu að ufsinn dali en vafasamt er að ætla að allir stofnar sem að einhverju leyti eru í sama æti séu í toppi á sama tíma.

Sigurjón Þórðarson, 5.2.2008 kl. 16:49

7 identicon

Sigurjón ég er gamall skipstjóri og veit að ástæðan fyrir því að meiri upsi veiðist er sú að aðrar tegundir eru í lægð, það skýrir að heildaraflinn minkar ekki meir. Upsi er mun verðminni fiskur en Þorskur og Ýsa og það þarf að sækja hann á mun meira dýpi. Ef þú skoðar afla smábáta í Færeyjum þá er þar um algjört hrun að ræða, ég var í Færeyjum í sumar og það var mjög þungt í bátasjómönnum hljóðið, og merkilegt nokk þá töldu þeir sem ég talaði við að Færeyingar hefðu betur notað Íslenska mótelið. Sigurjón það segir manni aftur að það er enginn spámaður í sínu eigin föðurlandi. Um það getum við líklega verið sammála.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 17:37

8 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég ráðlegg þér enn og aftur að kynna þér staðreyndir færeysku hagstofunnar en ekki er að sjá að það sé eitthvert hrun í afkomu í færeyskum útvegi og eru tekjur svipaðar á árinu 2007 og árin á undan.  Færeyingar eru nokkuð ánægðir með afkomuna en það kom fram fyrr á árinu í umfjöllun Fishing News International.

Ég er ekki alveg tilbúinn að skrifa upp á að ufsi veiðist að jafnaði á meira dýpi en Færeyingar nota talsvert við tvílembinga við ufsaveiðar á sama veiðisvæðinu áratugum saman. 

Vísasta leiðin til þess að kynna sér hvernig fiskiríð gengur fyrir sig í Færeyjum er að slá á þráðinn til Auðuns Konráðssonar í Klaksvík

Sigurjón Þórðarson, 5.2.2008 kl. 18:36

9 Smámynd: Kristján Pétursson

Sammála þér  Sigurjón eins og jafnan áður þegar rætt er um sjávarútveginn.Nú ætlar Guðni Ágústsson ( í Kastljósi ) að smeygja sér út úr kvótagreni Framsóknarfl.með niðurstöður Mannréttindasáttmálans að leiðarljósi.Þessum mönnum treystir ekki nokkur maður til góðra verka sjávarútvegsmálum.

Kristján Pétursson, 5.2.2008 kl. 20:30

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þorskeldi í kvíum hefur staðfest þá merkilegu staðreynd að fiskur þyngist ef hann gengur að æti. Og þyngdaraukningin er ótrúlega hröð ef nóg er af æti.

Nú hefur Hafró (Líú) miklar áhyggjur af lítilli loðnugengd en hugsar sér gott til glóðarinnar ef hún lætur sjá sig.

Líklega eru það góð vísindi að friða hungraðan þorsk og ræna hann svo öllu því æti sem nálgast hann.

Magnaður bújöfur þætti líklega sá fjárbóndi sem seldi allt heyið en setti allar gimrarnar á vetur.

Árni Gunnarsson, 5.2.2008 kl. 21:27

11 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Kristján verðum við ekki að fagna hverjum einum sem snýr af villu síns vegar? 

Ég hitt Guðna rétt fyrir jólin og spurði hann þá út í hvers vegna ekki væri vikið einu orði að kvótakerfinu í ævisögunni.  Eigum við ekki að vona Guðni sé byrjaður á nýjum kafla í sögur Framsóknar.  Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort að t.d. Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson munu fylgja foringja sínum gegn óréttlátu og gagnslausu kvótakerfi sem er á góðri leið með að rústa sjávarbyggðunum.

Árni, sveitadrengurinn Guðni ætti að skilja þetta betur en margur annar.

Sigurjón Þórðarson, 5.2.2008 kl. 22:22

12 identicon

Sigurjón, það er nú tæplega að menn geti rætt um veiðar ef þeir vita ekki að t.d. Karfi, Upsi, Grálúða og fleirri tegundir veiðast á djúpslóð, en Þorskur og Ýsa á grunnslóð, það gildir einu hvort það er í Færeyjum eða Íslandi.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 23:50

13 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ómar. Ég segi nú bara jæja.

Sigurjón Þórðarson, 6.2.2008 kl. 03:12

14 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Og það gætu nú fleiri gert Sigurjón....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 6.2.2008 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband