Leita í fréttum mbl.is

Talnaþrugl og fíflagangur í nafni vísinda

Umræðan um íslenskan sjávarútveg er orðin verulega skökk og erfitt að vefja ofan af ruglinu, en það hlýtur að koma að því einn daginn.

Vinir mínir hjá SFS virðast svo sanntrúaðir á boðorð Hafró eða þá svo kjarklitlir, að enginn á þeim bænum virðist þora að spyrja gagnrýnna spurninga um veiðiráðgjöfina. 

Það er nefnilega alls ekki svo að t.d. hornsteinn veiðiráðgjafarinnar í loðnu hvíli á traustum grunni. Hann er  að skilja skuli a.m.k. 150 þús tonn af mældri hrygningarloðnu eftir til hrygningar.

Í fyrsta lagi þá er umrædd tala ekki rökstudd með neinum líffræðilegum forsendum heldur virðist hún hafa dottið inn í aðferðarfræðina án mikils rökstuðnings. Í öðru lagi er mælingin sjálf á stærð hrygningarstofnsins, háð verulegri óvissu og líklega aðeins í aðra áttina, til vanmats.

Ef lesin er veiðiráðgjöf Hafró fyrir loðnuna, þá vottar ekki fyrir líffræðilegum rökstuðningi og umræðu um niðurstöðuna. Í stað þess eru tíndar til tölur úr mælingum og framreikningar á mögulegu afráni, fram að hrygningu.  Það er enginn umræða um það sem ætti að vera efst á baugi, sem er áhrif veiðibanns sl. tveggja vertíða. Hafði veiðibannið engin áhrif þegar upp er staðið? 

Þegar fréttist af loðnugöngu fyrir austan land fyrir örfáum dögum, þá virðist það hafa verið sett í algjöran forgang að meta  hvort umrædd loðna sé sami fiskurinn og hafi lenti undir dýptamælum rannsóknarskipa fyrir nokkrum vikum - Ekki hef ég hugmyndaflug hvernig það mat eigi að fara fram. Í framhaldinu má jafnvel spyrja hvort að það sé álitið að fiskurinn bíði með að synda suður fyrir land til hrygningar, þar til hann er búinn að tékka sig inn í fiskabókhaldið hjá Hafró?

Síðasta vor þá sendi sjávarútvegsráðherra grásleppukarla í land út frá ráðgjöf þessara sömu sérfræðinga, sem sýnt var fram á að hefðu reiknað rangt og út frá gölnum líffræðilegum forsendum. 

Vonandi fara ráðamenn að hætta þessum fíflagangi og gefi út til að byrja með veiðiheimildir upp á 100 þús tonn í loðnunni og spari með því rannsóknarkostnað sem skilar nákvæmlega engum upplýsingum um líffræði loðnunnar.

 

 


mbl.is Hrein viðbót eða áður mæld loðna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhjúpun Hvalaskýrslu Hagfræðistofnunar

Hagfræðingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafa í gegnum tíðina tekið að sér hin ólíklegustu verkefni á sviði líffræði m.a. að spá fyrir þróun stofnstærðar fiska áratugi fram í tímann, út frá mismunandi veiðiálagi. Veiðiálag er ákveðið með aflareglu sem segir til um leyfilegan heildarafla miðað við útreiknaða stærð veiðistofns. Aflareglan þorsks hefur tekið breytingum í gegnum tíðina þ.e. farið úr 25% og niður í 20% af útreiknuðum veiðistofni.

Ástæðan fyrir breytingunum er einfaldlega sú að höfundar reglnanna ganga út frá þeirri forsendu að veiðar sé sá þáttur sem ráði mestu um stærð fiskistofna. Síðan þegar botnfiskstofnar s.s. þorskstofninn hefur farið í eðlilega niðursveiflu, þá hefur verið ályktað út frá fyrrgreindum forsendum, að veitt hafi verið allt of mikið úr veiðistofnum, burt séð frá því að veiðin hafi verið miklu mun minni en sömu stofnar þoldu um áratuga skeið.

Sömuleiðis er gengið út frá því að stórir stofnar gefi meiri nýliðun og meiri árlegan fiskafla. Svo mikil er þessi trú hjá reiknisfiskifræðingunum að í hruninu lagði einn virtasti spekingurinn á þessu sviði, það til að þjóðin hætti þorskveiðum alfarið í 2 ár, til þess að fá enn meiri afla og afrakstur seinna!

Gallinn við þessar kenningar sem Hagfræðistofnun hefur unnið með, er fyrst og fremst sá að þær hafa aldrei gengið upp, enda stangast þær á við viðtekna vistfræði,sem kennd er í framhaldsskólum landsins.

Grundvallarforsenda reiknilíkans Hagfræðistofnunar um afrakstur aflreglu gerir ráð fyrir að náttúrleg afföll þ.e. það sem drepst af fiski vegna hvala, sela, sjúkdóma og áti annarra fiska sé heldur minna magn en fiskiskip veiða árlega.

Skýrsla Hagfræðistofnunar, Þjóðhagsleg áhrif hvalveiða staðfestir að náttúrulegur dauði er miklu mun meiri en gert er ráð fyrir í forsendum reiknilíkansins,sem ætti að segja öllum vísindamönnunum hvort sem þeir eru líffræðimenntaðir eður ei, að veiðiráðgjöfin og núverandi aflaregla sé byggð á sandi. Niðurstaða skýrslunnar benda eindregið til að nytjastofnar sem um ræðir séu miklu mun stærri en Hafró gerir ráð fyrir í sínum útreikningum og jú að áhrif veiða á fiskistofna séu stórlega ofmetin.

Þetta kemur skýrt fram sérstaklega hvað varðar ýsuna. Í ráðgjöf Hafró kemur fram að náttúruleg dánartala ýsunnar sé 0,2 eða 18% af stofnstærð. Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur skýrt fram á bls. 33 í töflu 12, að át hrefnu sé tvöfalt meira en öll áætluð náttúruleg afföll stofnsins.

Skýrslan afhjúpar afar veikar forsendur sem núverandi ráðgjöf byggir á og bendir eindregið til þess að hægt sé auka verulega við fiskafla á Íslandsmiðum.

 

 

 


Stofnmatið lækkaði um liðlega 20% frá í fyrra

Skýrslan sýnir að stofnmatið lækkaði um ríflega 20% frá því sem stofninn mældist í fyrra!

Framsetning Hafrannsóknarstofnunar á hrapinu í stofnmælingunni gefur mjög skakka mynd af stöðunni, en í skýrslunni segir: „Stofnvísitala þorsks er 5% lægri en meðaltal áranna frá 2012, þegar vísitölur voru háar.“

Niðurstaðan er algert skipbrot fyrir þá veiðiráðgjöf sem Hafró hefur notað á síðustu áratugum


mbl.is Vísitala þorsksins mælist lægri en síðustu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreðjatakið

Ég hef lengi verið mjög mótfallinn því að útvegurinn geri samninga við 
útlend umhverfissamtök eða fyrirtæki á þeirra vegum um vottun á sjávarafurðum. 
Ég sannfærðist endanlega um það eftir að hafa lesið bókina "The end of the line" sem hampað var af mjög umhverfisverndarsamtökum ofl. Í stuttu máli er bókin hinn mesti óhróður um fiskveiðar, lýsir m.a. togveiðum með mjög ógeðslegum hætti. Höfundur bókarinnar Charles Clover mælti einfaldlega gegn áti á þorski, en með MSC vottun á fiskveðum! MSC vottun er tilkomin vegna samstarfs WWF og auðhringsins Unilever.
Með því að beygja sig undir að "staðlar" umhverfissamtaka séu lykill að mörkuðum þá er jafnframt verið að gangast undir að umrædd samtök geti breytt stöðlum eða túlkunum, þannig að mörkuðum sé lokað á forsendum umræddra vottunarfyrirtækja sbr. grásleppuna nú. Staðreyndin er sú að áhrifafólk í þessum græna geira er einfaldlega fordómafullt í garð fiskveiða og telur að þær eigi að heyra fortíðinni til.

Atvinnugreinin er því núna rétt að finna smjörþefinn af því sem koma skal. Það er merkilegt að útvegurinn sjálfur hefur greitt háar fjárhæðir til vottunarfyrirtækjanna til þess að ná þessu hreðjataki á greininni.

Ef farið er yfir þessa skýrslu sem byggir m.a. á stofnmati Hafró úr 
togararallinu, þá orðið löngu tímabært að Landsamband Smábátaeigenda hafni stofnmati Hafró á hrognkelsi. Það er augljóst að það er eitthvað meira en lítið að mati sem gefur til kynna að stofnstærð hængs í ákveðinni fisktegund sveiflist með allt öðrum hætti en stofnstærð hrygnunnar, en það sýnir niðurstaða Hafró í tilfelli grásleppunnar og rauðmagans! Það er einnig mjög furðulegt að nota stofnmat á botnfiskum, SMB (togararallið) til þess að meta stofnstærð hrognkelsa, sem halda sig næri yfirborði 
sjávar utan hrygningartímans. Það þarf að fá það fram hvað það eru margir fiskar á bak við útreikningana á stofnstærðinni en ég gæti trúað því að þeir séu ekki margir.

Það MSC hafi um árabil vottað ákveðna veiðiaðferð sem hefur verið óbreytt svo áratugum skipti og taki síðan upp á að breyta um kúrs á grundvelli stóraukins uppreiknaðs aukaafla er mjög ótrúverðugt. Ég sem líffræðingur myndi áður fara rækilega í gegnum það hvort að stofnstærðmat umræddra tegunda sem veiðast í auknum mæli sem aukaafli, en áður, hafi verið ábyggilegt í þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar í samanburðinum.


mbl.is Afturkalla MSC-vottun fyrir grásleppuveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugið ég er í framboði

Mér finnst rétt að skýra fjarveru mína í þætti á Stöð 2. með oddvitum lista sem bjóða fram til Alþingis 2016, í Norðvesturkjördæminu. Ástæðan er einföld - Fréttastofa Stöðvar 2 útilokaði mig frá því að taka þátt í þættinum.

Ekki veit ég hvers vegna Stöð 2 vill leggja bann á málflutning Dögunar í Norðvestur kjördæminu - Ekki er ólíklegt að það sé gagnrýni Dögunar á fjármálasukkið og skattaskjólin, sem tengist óneitanlega eigendum Stöðvarinnar?

Dögun sem berst fyrir almannahagsmunum hefur mátt sæta þöggun á Stöð 2 á meðan nýtt framboð Viðreisnar, með áberandi andlitum, auðmanna, talsmanna kvótagreifa og álvera auk kúlulánaþega hafa verið eins og gráir kettir í þáttum fjölmiðlasamsteypunnar. 

Ég vil þakka þeim mörgu í kjördæminu sem ég hef hitt á ferðum mínum síðustu vikur fyrir sérstaklega góðar móttökur og vona að áframhald verði á því. 

Sigurjón Þórðarson 

oddviti lista Dögunar í Norðvestur kjördæminu.

 

 

 

 


Verður Viðreisn enn einn sérhagsmunaflokkurinn?

Það skýtur óneitanlega skökku við að sjá Þorstein Víglundsson í framvarðarsveit Viðreisnar í ljósi þess að formaður flokksins, hefur boðað markaðslausnir við úthlutun aflaheimilda.

Á síðustu árum hefur fyrrverandi formaður SA, Þorsteinn Víglundsson boðað að litlu eða engu mætti breyta í kvótakerfinu næstu áratugina! - "Kvótakerfið þarf að vera hafið yfir pólitískt dægurþras" 

Því miður þá sýnir valið á frambjóðandanum að það fylgir ekki hugur máli í tali formanns Viðreisnar, um að það eigi hætta sérgæsku við örfáa. Ekki er það heldur til þess að auka trúverðugleika Viðreisnar til raunverulegra breytinga í sjávarútvegsmálum að helsti hugmyndafræðingur flokksins í sjávarútvegsmálum, er  Daði Már Kristófersson „hagfræðingur“. Hann hefur hingað til skrifað "lærðar"  greinar, þar sem hann hefur mælt fyrir lækkun veiðigjalds og gegn því að allur fiskur sé verðlagður á frjálsum fiskmarkaði. Engu máli skipti um niðurstöðuna þó svo augljósasta leiðin til að ná fram frekari verðmætum út úr sjávarauðlindinni sé að hráefnið fari til þeirrar fiskvinnslu sem getur gert greitt hæsta verðið og þá væntanlega gert mest verðmæti úr aflanum. Vart þarf að taka það fram tvöfalda verðlagningin hefur verið mjög ívilnandi fyrir örfáa.

Ég held að það væri ráð fyrir Viðreisn að gera hreint fyrir sínum dyrum, en flokkurinn virðist stefna í að verða enn einn sérhagsmunaflokkurinn.

 

 


mbl.is „Frjálslyndur hægri krati“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill Bjarni "selja" flugstöðina?

Svar fjármálaráðherra verður vart skilið með öðrum hætti, en að hann vilji koma flugstöðinni í Keflavík að stórum hluta í hendurnar á einkaaðilum.  

Reynsla Dana af sölunni á Kastrup til ástralska fyrirtækisins Macquarie var hræðileg. Í kjölfarið rann allur hagnaður fyrirtækisins beina leið í skattaskjól í gegnum skúffufyrirtæki í Lúxemborg. 

Ég átta mig ekki fyllilega á því hvers vegna fyrirspyrjandinn, sá efnilegi þingmaður Vilhjálmur Árnason, hefur áhyggjur af rekstri fríhafnarinnar, þar sem hægt er að fá þar suður frá brennivín í öllum matvörubúðum á staðnum. 

 


mbl.is Einkarekstur fríhafnar skynsamlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NATO ætti að lægja öldur

Ekki er það gæfulegt að framkvæmdastjóri NATO standi þétt á bak við árás Tyrkja á Rússa og það áður en búið er að fara yfir málsatvik.

Tyrklandi er stjórnað af Réttlætis- og þróunarflokknum (AKP), sem byggir fyrst og fremst á trúarlegum gildum.  Tyrkir  ásamt Sádum hafa grafið undan stjórn Sýrlands og dregið lappirnar í báráttunni gegn ISIS. Það kom berlega fram í umsátri ISIS um Kobane og rökstuddur grunur hefur lengi verið uppi um að  vistir og olía ISIS fljóti fram og aftur yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands.

Tyrkir hafa hins vega ekkert dregið við sig að ráðast á þá sem hafa verið hve harðastir í baráttunni gegn ISIS þ.e. Kúrda og Rússa.

Hyggilegast væri að NATO lími ekki örlög bandalagsþjóða við vafasöm uppátæki Erdogan.


mbl.is Mikil samstaða innan NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisbankinn

Landsbankinn er í eigu ríksins og á ábyrgð Bjarna Benediktssonar.  Harkalegar uppsagnir á konunum í Ólafsvík eru rökrétt framhald af uppsögnum Bjarna, á starfsfólki í ræstingu í stjórnarrárðinu.


mbl.is Gert að hætta samstundis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg úr meirihlutasamstarfi í Skagafirði?

Ný staða virðist vera komin upp í meirihlutasamstarfi Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem fulltrúar Vg og Framsóknarflokkas stofnuðu til - hér um árið.  Efstu menn á lista Vg þeir Gísli Árnason og Bjarni Jónsson  hafa gengið til liðs við J-lista Jóns Bjarnasonar og verður sá fyrrnefndi í 4. sæti á lista Jóns í Norðvesturkjördæminu.

Um þessa stöðu hafa framsóknarmenn ekki tjáð sig en þögn þeirra um hinn nýjan samstarfsaðila gefur til kynna að þeir hafi lagt blessun sína yfir Jónsflokk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband