Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Baráttan skilaði einhverju

InDefence-hópurinn getur sannarlega fagnað miklum árangri af baráttu sinni. Ég er þess fullviss að ef stjórnvöld hefðu staðið í lappirnar og treyst á breiða samstöðu og skilgreint samningsmarkmið áður en farið var í viðræður við Breta og Hollendinga væri betur fyrir okkur komið. Nú er vonandi að stjórnvöld láti sér þetta mál að kenningu verða.

Steingrímur lék virkilega ljótum leik þegar hann sagði á miðvikudegi að ekkert væri í gangi og skrifaði síðan undir arfavitlausan samning á föstudegi.


mbl.is InDefence mun gaumgæfa málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingismenn monta sig í Kastljósinu

Það er mjög jákvætt að vera ánægður með sjálfan sig og mér finnst gott að sjá að alþingismenn geti litið yfir erfiði næturvinnu umliðinna vikna með stolti og fullnægju. Mér fannst þetta þó ganga fulllangt í Kastljósi þegar stjórnarþingmenn nánast hreyktu sér af afreki þingsins - í einu mesta klúðursmáli íslenskra stjórnvalda, Icesave-málinu. Mér finnst að þingmenn ættu að sýna þjóðinni örlítið meiri auðmýkt þar sem stjórnmálastéttin hefur sent og samþykkt samninganefnd með opinn tékka á börn framtíðarinnar á Íslandi.

Allt liðið á Alþingi lætur undir höfuð leggjast að velta fyrir sér hvernig eigi að afla frekari tekna. Umræðan snýst alfarið um að slá lán úti um allar heimsins banka jarðir.


mbl.is Unnið að breytingum fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hval-leki Steingríms

Icesave-lekinn er mikill hvalreki fyrir Steingrím J. Sigfússon. Í stað þess að allir fréttatímar og umræðan í samfélaginu snúist um vandræðagang ríkisstjórnarinnar við að koma í gegn alvondum samningi sem stendur skiljanlega í ábyrgum þingmönnum sem vilja ekki vera leiddir í flokksböndum til atkvæðagreiðslu, heldur vilja staldra við í svo veigamiklu máli og láta skynsemina ráða.

Steingrímur reynir hvað hann getur til að þyrla upp miklu moldviðri um lekann á trúnaðargögnum sem flokksformönnum var treyst fyrir. Það verður að segjast eins og er að Steingrími tekst vel upp og á hann sannarlega hrós skilið fyrir þennan leik sinn. Sá sem liggur undir grun í málinu er formaður Framsóknarflokksins og má segja að hann hafi þá fallið kylliflatur í gildru Steingríms.

Ef til vill má skrifa þetta á ákveðið reynsluleysi, ekki bara hjá þeim sem lak/láku heldur líka hjá þeim blaðamönnum sem skrúfa gagnrýnislaust frá krana Steingríms um að hér hafi verið unnið eitthvert skemmdarverk.


mbl.is Skaðar hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur hafði rökin sín megin

Ögmundur Jónasson var rökfastur og yfirvegaður í Kastljósi kvöldsins. Ólíkt fjármálaráðherra í síðustu viku þurfti hann ekkert að hristast, drepa tittlinga eða vera með eilíft handapat til þess að telja fólki trú um að rétt sé að setja trausta fyrirvara við samþykkt Icesave-samningsins. Ögmundur hafði einfaldlega góð og hagræn og lagaleg rök máli sínu til stuðnings.

Ef Vg-liðar sem láta skynsemina ráða en ekki hótanir illskeyttrar Jóhönnu Sigurðardóttur um að taka saman við Sjálfstæðisflokkinn er allt útlit fyrir að stjórnvöld fái tækifæri til þess að setjast á ný að samningaborði með vinaþjóðunum í Evrópusambandinu. Helsta hættan á samþykkt samningsins er að einhver kúlulánsþingmaður í stjórnarandstöðunni samþykki samninginn í þeirri von um að fá afskrift.


mbl.is Fjölmenni á félagsfundi VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur og Jóhanna vilja falla á sverðið

Jóhanna og Steingrímur vilja bæði gera Icesave-samninginn að úrslitamáli um framtíð ríkisstjórnarinnar. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvers vegna ríkisstjórn eigi að standa og falla með mjög umdeildum milliríkjasamningi þar sem talsvert hefur skort á að samningurinn sé skýr og þar að auki að hann sé vel rökstuddur - og viðráðanlegur fyrir þjóðarbúið.

Það sem mér finnst geta skýrt þessa undarlegu afstöðu er hræðsla þeirra við að takast á við fjárlögin og þess vegna vilja þau stökkva frá stýrinu.


Mér verður illt við að horfa á Steingrím

Ég var að horfa á endursýninguna á Kastljósinu þar sem Steingrímur sat fyrir svörum. Látbragð hans minnti á látbragð sjónvarpspredikara þar sem hann þóttist vera búinn að gera allt og Icesave-samningurinn væri hið eina rétta. Mér finnst sjálfsupphafningin óhugguleg í ljósi þess að stjórnvöld eða Vinstri grænir hafa ekkert haft fyrir því að fara yfir það hvað megi gera betur í fiskveiðum, aðalútflutningsatvinnuvegi landsmanna.

Ég vek athygli á grein Jóns Kristjánssonar þar sem hann fer stuttlega yfir óstjórnina sem hér ríkir.

 


Framtíð Íslands er á Sauðárkróki

Rétt í þessu lauk alveg frábæru unglingalandsmóti á Sauðárkróki. Það var ánægjulegt að sjá hvað krakkarnir og aðstandendur höfðu gaman af mótinu. Markmiðið er ekki að allir fái gullpening heldur að standa að fjölskylduvænni og uppbyggilegri skemmtun. Ég veit til þess að meðan krakkarnir skemmtu sér við keppni undu sér t.d. þeir sem eldri eru við ýmislegt menningarlegt, eins og göngu um gamla bæinn. Þeir sem yngri eru höfðu gaman af brúðuleikhúsi og fleiru sem var sett upp fyrir þann aldur.

Forsetinn og stuðboltinn Dorrit mættu á svæðið og höfðu gaman af, sömuleiðis krakkarnir sem fannst miklu meira koma til verðlaunapeninga sem forseti lýðveldisins veitti en annarra verðlauna. Svona mót verður ekki haldið nema með samstilltu átaki margra sjálfboðaliða - og sannaðist um helgina að er vel hægt.

Á Sauðárkróki er nú drjúgur hluti af æsku landsins alls staðar að af landinu og má því segja að framtíð Íslands sé hér stödd.

Íslandi allt!


mbl.is Unglingalandsmótið á Egilsstöðum árið 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreditkort í Lúx?

Það er deginum ljósara að Samfylkingin er á kafi í spillingunni og heldur markvisst upplýsingum frá þjóðinni. Það er skiljanlegt þar sem Jón Sigurðsson, einn af æðstustrumpum Samfylkingarinnar, ber ásamt Björgvini G. Sigurðssyni höfuðábyrgð á Icesave-brjálæðinu.

Steingrímur J. og Katrín Jakobs taka þátt í samsærinu gegn þjóðinni, viðhalda leyndinni og áframhaldandi mannréttindabrotum í sjávarútvegi. Skynugt fólk er farið að leita eftir fólki sem treystandi er til að leiða þjóðina út úr ógöngunum. Sjálfstæðisflokkurinn er skiljanlega úr leik þar sem formaðurinn og varaformaðurinn hafa setið sem fastast við spilaborðið og tekið til sín gríðarlega há lán. Svo má deila um hvort félagarnir Tryggvi Þór Herberts og Árni Johnsen séu heppilegir til að leiða eitthvert endurreisnarstarf.

Einhverjir hafa litið til Sigmundar Davíðs sem frelsarans endurborna. Ég verð að setja ? við það eftir að hafa lesið upplýsingar í tekjublaðinu um tekjur hans á síðasta ári. Hann hafði 33.000 kr. á mánuði sem er meira en helmingi lægri upphæð en greitt er fyrir fullt starf 15 ára krakka í Vinnuskólanum á Sauðárkróki.

Ég er viss um að leiðtogi samvinnumanna á Íslandi hefur haft meira á milli handanna en helmingi minna en unglingarnir í Skagafirði og hlýtur sú spurning að vakna hvort hann sé einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem lifa á feitum reikningum í Lúx sem borga kreditkortareikninginn. Hann er einn þeirra nýju þingmanna sem ekki hefur skilað inn upplýsingum um æviferil, þ.e. menntun, fyrri störf og hjúskaparstöðu, en hefur að vísu skráð hagsmuni - sem virðast engir.


Morgunblaðið kokgleypir enn og aftur kjaftæði falsspámanns

Í Morgunblaðinu í dag má lesa frétt þar sem vitnað er í alþjóðlegan "sérfræðingahóp" sem gagnrýnir rányrkju í Norðursjónum, en telur jafnframt að einhver árangur hafi náðst við stjórn fiskveiða við Bandaríkin og Ísland. Sá sem leiðir þennan hóp er enginn annar en Boris Worm sem sendi frá sér dómsdagsspá fyrir nokkrum árum um eyðingu allra fiskistofna árið 2048. 

Í óðagoti við að koma fréttatilkynningu út um dómsdagsspána sem greindi frá eyðingu fiskistofna 2048 var óvart sent bréf til fjölmiðla sem sýndi samskipti höfundar skýrslunnar við samstarfsmenn sína. Samskiptin greindu frá því að helsta ástæðan fyrir framreikningunum til ársins 2048 væri sú að það yrði að búa til beitu fyrir fjölmiðla. Það er óhætt að fullyrða að helstu fjölmiðlar heimsins hafi kokgleypt beituna en tilgangurinn var sá að vekja áhuga þar sem fullyrt var að lítill áhugi væri á innihaldi skýrslunnar nema fyrirsjáanleg væru einhver endalok á næstu áratugum.

Núna greinir Boris Worms frá gríðarlegri rányrkju í Norðursjónum og við Írland.  Staðreyndin er að ofveiðigrýla og fiskveiðistefna Evrópusambandsins er nánast búin að eyða megninu af fiskveiðiflota Íra og Skota.  Ætli þorskveiðin nú sé ekki um 10% af því sem hún var áður en "uppbyggingarstefnan" hófst. 

Það væri ekki úr vegi fyrir gagnrýna blaðamenn að velta fyrir sér árangrinum af íslensk kvótakerfinu en upphaflegt markmið var að fá 400 þúsund tonna jafnstöðuafla en leyfilegur þorskafli verður samkvæmt ákvörðun Jóns Bjarnasonar "hins sterka", 150 þúsund tonn.

 


Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband