Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Sökudólgur í viðtali

Það er ekki hægt annað en að hæla Agli fyrir málefnalegar og aðgangsharðar spurningar til forsætisráðherra í dag, mannsins sem vissulega ber mesta ábyrgð á stöðu efnahagsmála en hann hefur sýnt algjört ábyrgðar- og andvaraleysi í stjórnartíð sinni og reynt með ódýrum hætti að smeygja sér undan ábyrgð með því að benda á að ekkert sé sér að kenna heldur einhverjum aðstæðum í útlöndum.

Það sem er einna verst við viðbrögð Geirs nú er að hingað til hefur hann ekki verið tilbúinn til að skoða allar leiðir út úr vandanum, s.s. að ná meiru út úr fiskveiðiauðlindinni. Núna verður þjóðin að gera upp við sig hvort hún telji trúlegt að þeir sem komu þjóðinni í þessa stöðu séu réttu aðilarnir til að sigla skútunni út úr þessum ógöngum.


Steingrímur J. greiddi illræmdum kvótalögum atkvæði sitt

Margur hefur undrað sig á vandræðalegri þögn stjórnarandstöðuflokksins Vinstri grænna yfir illræmdasta og óréttlátasta kerfi sem komið hefur verið á á Íslandi á síðari tímum, þ.e. framsali veiðiheimilda. Ég held að ég hafi fundið svarið, leiðtogi þeirra Steingrímur J. Sigfússon greiddi ólögunum atkvæði sitt í maí 1990.

Eflaust hefur Steingrímur greitt þessu máli leið af góðum hug og ekki séð fyrir hvers konar óáran hann væri að leiða yfir þjóðina. Að öllum líkindum hefur þetta þvælst fyrir VG í umræðum um kvótakerfið en þar á bæ láta menn annars gamminn geisa um hvað sem er.


Ritstjóri Morgunblaðsins ræðst að Guðjóni með fáfræðina að vopni

Ritstjóri Morgunblaðsins fer mikinn í Staksteinum dagsins en þeim er að þessu sinni grýtt í Guðjón Arnar Kristjánsson formann Frjálslynda flokksins.  Ritstjóra Morgunblaðsins líst greinilega ekki á þá ábyrgu tillögu Frjálslynda flokksins að afla aukins gjaldeyris með því að efla sókn í þorskinn í stað þess að fara leið Geirs Haarde að betla stór lán úti í heimi. 

Flestir ættu að vera farnir að gera sér grein fyrir því að sú leið að veiða minna til að veiða meira seinna hefur ekki gengið eftir. Þar sem lítið hefur verið gert með sambærilega ráðgjöf og veitt margfalt umfram ráðgjöf reiknisfiskifræðinga, að þá hefur það síður en svo haft alvarlegar afleiðingar fyrir fiskistofna s.s. í Barentshafinu.

Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri horfir í staksteinum dagsins algerlega fram hjá reynslunni í Barentshafi og vitnar í þess stað til þess að ofveiði í Kanada hafi leitt til varanlegrar þorskþurrðar.  Þessar fullyrðingar ritstjórans um ofveiðina eru  ekki réttar, en fyrir um ári síðan birtist grein í ritinu Science  eftir þá Charles H. Green og Andrew J. Pershing sem sagði frá því að breytingar á umhverfisaðstæðum þ.e. kólnun sjávar, hefði orðið til þess að Nýfundnalands Labrador þorsksstofninn minnkaði mjög og nánast hvarf.  Á sama tíma kólnaði við vesturströnd Grænlands með svipuðum afleiðingum fyrir þorskinn þar og við Kanada.

Mynd_þyngd og lifrarþyngd Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun á holdafarsstuðli og lifrarþyngd þorsksins við Nýfundnaland en glöggir lesendur geta séð að þrif þorsksins minnkuðu mjög um það leyti sem sem hann var að hverfa af miðunum. 

Nú þegar ritstjóri Morgunblaðsins veit það sem sannara er um minnkaða þorskveiði við Kanada í byrjun tíunda áratugarins er þess að vænta að hann verði jákvæðari í garð tillagna formanns Frjálslynda flokksins um aukna þorskveiði. 


Gloppótt gagnrýni á greiningardeildir

Greiningardeildir bankanna hafa gengið nokkuð harkalega fram í gagnrýni á Seðlabankann og halda því blákalt fram að bankinn kunni ekki að mæla viðskiptajöfnuðinn rétt. Ég efast stórlega um að gloppótt bókhald Seðlabankans í að gera grein fyrir greiðslujöfnuði sé stóra vandamálið í efnahagskerfi Íslendinga. Vandamálið er miklu frekar að hvorki Seðlabankinn né stjórnvöld stemmdu stigu við stórtækri erlendri lántöku íslensku viðskiptabankanna þegar hún bauðst á góðum kjörum.

Það er mitt mat að löngu sé orðið tímabært fyrir íslenska fjölmiðla að taka sig taki og skrúfa ekki gagnrýnislaust hvað eftir annað frá krana greiningardeilda bankanna sem buna út spádómum sem eru oftar en ekki undirleikur með hagsmunum eigenda bankanna.

Af þessu tilefni er rétt, þegar áreiðanleiki spádómanna er metinn, að rifja upp hver verðbólguspáin fyrir árið í ár var hjá þessum greiningardeildum. Ég tek undir með Dögg Pálsdóttur, það er meira en lítið skrýtið samfélag þegar helsta gagnrýnin á viðskiptalífið kemur úr nafnlausum myndböndum. Þetta eru mál sem snerta venjulegt fólk sem á nú í vaxandi erfiðleikum með að borga af lánunum sínum.


Björgvin G. Sigurðsson; mikilvægast að passa sig á vondu köllunum úti í heimi

Í ábúðarmiklu viðtali undir fyrirsögninni Djarfur leikur raunsæismanna fer sagnfræðingurinn Björgvin Sigurðsson fjálglega yfir efnahagslega sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og mikilvægi útfærslu landhelginnar sem grunns að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Í lok viðtalsins upplýsir Björgvin lesendur um að þjóðir heims eigi í eilífri baráttu við að styrkja hagsmuni sína. Ekki taldi Björgvin að neitt núverandi mála sem þjóðin stríðir við stæðist nákvæmlega samjöfnuð við þorskastríðin enda þótt mál dagsins væru stór og brýn.

Helsta málið sem hann nefndi var að verja þyrfti gjaldmiðil okkar og efnahagskerfi fyrir árásum óprúttinna spákaupmanna sem hafa heiminn undir, þ.e. vondu kallanna úti í heimi. Björgvini virðist ókunnugt um að einu aðilarnir sem hafa tekið sér stöðu gegn íslensku krónunni eru íslensku bankarnir og að helsti veikleiki íslensks efnahagslífs sé að miklu meira hefur verið flutt inn en út á síðustu árum og m.a. er hægt að kenna um óheillafiskveiðistjórnunarkerfi sem brýtur í bága við mannréttindi.

Björgvin vill ekki ræða um það, heldur óskilgreinda hættu af vondum köllum úti í heimi.


Mun Solla lítilsvirða baráttu Guðmundar?

Í Mogganum í dag er mikill kálfur til minningar um að hálf öld er liðin frá útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur. Þjóðin sameinaðist einarðlega í baráttu fyrir yfirráðum fiskveiðiauðlindarinnar enda var litið á baráttuna sem forsendu efnahagslegs sjálfstæðis nýfrjálsrar þjóðar. Helsti andstæðingur Íslendinga var Bretland sem hafði ráðið heimshöfunum um langt skeið. Þrátt fyrir að Íslendingar ættu við ofurefli að etja höfðu Íslendingar betur í þeirri skák sem ekki var síður leikin á tafli alþjóðlegra stjórnmála en á fiskimiðunum við strendur landsins.

 

Þorskastríð

 

Á þessum tímamótum er rétt að fara með gagnrýnum hætti yfir það hvað sigurinn í þorskastríðinu  færði þjóðinni - sigurinn sem svo margir færðu fórnir til að vinna.

Árið 1958 var þorskafli sem kom í hlut Íslendinga liðlega tvöfalt meiri en það sem heimilt er að veiða á Íslandsmiðum nú. Heildarþorskafli á Íslandsmiðum árið 1958 var fjórfalt meiri en hann er í ár en það sem kom í hlut útlendinga einna var heldur minna magn en Íslendingar fiskuðu.

Árið 1958 var miklum mun meira atvinnufrelsi en nú fyrir Íslendinga til að stunda fiskveiðar.  Lögreglan og Landhelgisgæslan voru þá ekki í þeim verkum að elta uppi öldunga sem vilja renna færi fyrir fisk eins og nú.

Nú 50 árum eftir að hetjur Íslands börðust um yfirráð yfir fiskimiðunum sitjum við uppi með kvótakerfi sem brýtur í bága við mannréttindi og býður upp á þann möguleika að sameiginleg auðlind verði seld úr landi ef opnað verður á erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi en raddir þess efnis koma úr ólíklegustu áttum.

Helsta hetja Íslendinga, að þeim Gretti og Ólafi Stefánssyni meðtöldum, Guðmundur Kjærnested, lét hafa eftir sér í viðtali við sjávarútvegsritið Ægi fyrir nokkrum árum að hann hefði ekki staðið í baráttunni um landhelgina svo árum skipti ef hann hefði getað séð fyrir hvert þetta óheillafiskveiðistjórnunarkerfi hefði þróast. 

Ábyrg stjórnvöld ættu auðvitað að heiðra minningu fjölmargra stjórnmálaskörunga, s.s. Lúðvíks Jósepssonar, Ólafs Jóhannessonar og Matthíasar Bjarnasonar, og frægra skipherra, s.s. Eiríks Kristóferssonar og Guðmundar Kjærnested.

Með því að halda áfram með óbreytt kvótakerfi er verið að sverta áralanga baráttu Íslendinga sem framangreindir sómamenn stóðu um skeið í fylkingarbrjósti fyrir.  

Það væri gríðarlegur áfellisdómur yfir íslenskum stjórnmálamönnum, s.s. Þorsteini Pálssyni, Halldóri Ásgrímssyni, Einari Kristni Guðfinnssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ef sagnfræðingar framtíðarinnar komast að því að viðkomandi stjórnmálamenn hafi gjörtapað þorskastríðinu eftir á.   


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband