Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Hiti nálægt meðaltali

Hiti sjávar fyrir Norðurlandi er nálægt meðaltali sl. áratuga eins og sést á meðfylgjandi mynd sem tekin er úr vistfræðiskýrslu Hafró og því vart hægt að ræða um hitafarssveiflur eins og kollsteypur.

 

hiti

Rétt ákvörðun? - Grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær

 

Ritstjóri Morgunblaðsins fullyrti í leiðara að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að fara að mestu eftir veiðiráðgjöf Hafró væri sú rétta. Margir sjómenn eru hins vegar furðu lostnir yfir ráðgjöfinni. Þeir telja nær útilokað að ná að veiða mikinn ýsukvóta sem er um 10% * umfram ráðgjöf Hafró á meðan þorskkvótinn er jafn naumt skammtaður af sjávarútvegsráðherra. Sá var ákveðinn nær samhljóma ráðleggingu Hafró.

Þegar þorskkvótinn er ákveðinn nú annað árið í röð 130.000 tonn má spyrja hvert upphaflegt markmið hafi verið þegar byrjað var að vinna eftir kennisetningum Hafró. Það var í fyrsta lagi að minnka sveiflur í afla og að hann yrði að jafnaði 400-500.000 tonn. Aðferðin gengur annars vegar út á að draga úr veiðum til að „byggja upp“ hrygningarstofninn og hins vegar að vernda smáfisk.

Allir geta fallist á að upphafleg markmið hafa ekki gengið eftir. Þeir sem hafa stýrt Hafró og rannsakað og fellt dóma um eigin verk segja að ekki hafi verið dregið nægjanlega úr veiðum. Samt hefur verið farið nokkuð nákvæmlega eftir ráðgjöf Hafró í 15 ár og veiðisvæðum markvisst lokað fyrir veiðum á smáfiski. Stundum er fléttað inn í þessar skýringar að skilyrði séu breytt og á umliðnum áratug hafa sérfræðingarnir bæði sagt að möguleg orsök sé aukinn kuldi og síðan hiti.

Aðrir líffræðingar og fiskifræðingar, s.s. ég og Jón Kristjánsson, hafa haldið því fram að kenningin sem Hafró vinni eftir geti ekki gengið upp þar sem hún brjóti í bága við viðtekna vistfræði, að vitavonlaust sé að vernda fiskinn þar sem vöxtur er við sögulegt lágmark. Sömuleiðis hefur verið bent á að ekki sé um að ræða jákvætt samband milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar en fleiri hafa bent á það, s.s. Rögnvaldur Hannesson fiskihagfræðingur. Fiskveiðar ganga sinn vanagang á hafsvæðum þar sem umdeildar kenningar Hafró ráða ekki för, eins og í Barentshafinu og við Færeyjar, en reiknisfiskifræðingar hafa ítrekað spáð þeim þorskstofnum algjöru hruni.

Sagan skoðuð

Frá árslokum 1976 hafa Íslendingar haft stjórn á veiðunum og voru menn nokkuð bjartsýnir á að með betri stjórn, einkum minni smáfiskaveiði, næðist fljótlega fram jafnstöðuafli, 400-500.000 tonn eins og áður segir.

Í lok 8. og byrjun 9. áratugar voru jafnan veiddir tugir þúsunda tonna ár hvert umfram ráðgjöf Hafró á Íslandsmiðum og dæmi voru um að veiðarnar færu vel á annað hundrað þúsund tonn umfram ráðgjöfina. Veiðarnar gengu sinn vanagang þrátt fyrir svartar skýrslur og það sem meira var, ráðgjöfin elti veiðina ef hún reyndist meiri, t.d. voru árið 1980 veidd 135.000 tonn umfram ráðgjöf Hafró og ráðlagði Hafró árið eftir 100.000 tonna aflaaukningu.
Fiskistofnar sveiflast eðlilega ekki einungis upp á við heldur einnig niður á við en annars væri eflaust hægt að ganga þurrum fótum á milli heimsálfa. Í niðursveiflum fá svartar skýrslur Hafró aukið vægi og í kjölfar „aflabrests“ 1982 var kvótakerfinu komið á með auknum takmörkunum. Það er rétt að geta þess að á aflabrestsárinu 1982 var þorskaflinn þrefalt meiri en þorskkvóti næsta árs hljóðar upp á.

Þrátt fyrir að kvótakerfinu væri komið á var aflinn að jafnaði tugi þúsunda umfram ráðgjöf og fiskveiðarnar og aflinn að jafnaði um 300.000 tonn.

Árið 1991 verða þáttaskil þegar nýr sjávarútvegsráðherra Þorsteinn Pálsson ákveður að fara nánast í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafró til þess að veiða meira seinna. Þetta seinna lét bíða eftir sér, ráðgjöfin var komin niður í 130.000 tonn og Þorsteinn gerði nánast alltaf eins og Hafró lagði til - rétt eins og núverandi ráðherra gerir.

Undur og stórmerki urðu árið 1996 þegar Hafró lagði til aukningu á þorskafla. Varði það til ársins 2000. Á þessum árum voru þeir sem fylgdu „uppbyggingarstefnunni“ sigurreifir og fullyrtu að stefnan hefði sannað ágæti sitt.

Á árinu 2000 lagði Hafró til mikinn niðurskurð sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ástæðan var að stofnunin hefði reiknað vitlaust árin á undan og hefði stofninn verið minni en fyrri útreikningar gáfu til kynna. Ekki voru fréttir þó eingöngu neikvæðar heldur var reiknað út að ef farið yrði að tillögunum myndi stofninn stækka strax á næsta ári og enn meira árið þar á eftir.

Boðuð stækkun hefur látið bíða eftir sér. Frá árinu 2000 hefur eingöngu verið boðaður aukinn niðurskurður á afla - með einni undantekningu, Davíð Oddsson lagði til á fundi í Sjallanum að þorskkvótinn yrði aukinn um 30.000 tonn kosningaárið 2003. Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró staðfesti síðan fljótlega að í góðu lagi væri að veiða þann fisk sem Davíð fann í Sjallanum.

Nú á árinu 2008 er enn og aftur boðað að veiða 130.000 tonn af þorski sem er liðlega þrefalt minna magn en áður en uppbyggingarstarfið hófst þrátt fyrir að búið sé að fara nánast í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafró í 15 ár.

Hvernig getur það verið rétt ákvörðun að fara eftir ráðgjöf sem hefur sýnt sig að vera röng í vel á annan áratug? Það er löngu tímabært að stjórnvöld fari nú á síðustu og verstu tímum yfir rök þeirra sem hafa haldið uppi fræðilegri gagnrýni á ráðgjöf Hafró.

*leiðrétt misritun í Morgunblaðsgrein.


mbl.is Nýjar slóðir nytjafiska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg ferjunefnd Sturlu Böðvarssonar

Sturla Böðvarsson hefur, eftir því sem ég kemst næst, staðið sig býsna vel sem forseti Alþingis, verið forseti alls þingsins en ekki bara stjórnarflokkanna eða réttara sagt ráðherra þeirra. Nú hefur hann skipað nýja nefnd sem er ætlað að leita leiða til að tryggja eftirlitshlutverk Alþingis. Eflaust hefur Sturla viljað tryggja að slys á borð við Grímseyjarferjuævintýrið endurtaki sig ekki með því að búa svo um hnúta að velmeinandi ráðherrum verði ekki á afdrifarík mistök sem kosta þjóðfélagið gríðarlega fjármuni.

Flestum er ljóst að þeir sem eru virkir í að veita raunverulegt aðhald eru þingmenn minni hluta Alþingis hverju sinni en þingmenn meiri hlutans styðja þingbundna stjórn þar sem formenn stjórnarflokkanna eru gjarnan ráðherrar - og óbreyttir þingmenn greiða venjulega götu ákvarðana formanna sinna og framkvæmdarvaldsins þar með. Að vísu eru strangheiðarlegar undantekningar á þessu þar sem þingmenn meiri hlutans standa vaktina og eru gagnrýnir á ákvarðanir ráðherra.

Það má furðulegt þykja að þegar bæta á úr eftirlitshlutverki Alþingis skuli einungis valdir til setu í þeirri nefnd lögfræðingar sem eru handgengnir meirihlutaflokkum Alþingis. Formaður ferjunefndar Sturlu er enginn annar en fyrrum þingflokksformaður Samfylkingarinnar


Fer landinn síður í enskan Bónus?

Landinn hefur staðið með útrásarvíkingunum og það jafnvel þótt þeir hafi sætt lögreglurannsóknum. Nú þegar kominn er botn í rannsóknirnar og dómstólar hafa komist að því að sök þeirra er minni en upphaflega var talið eru þeir skyndilega flognir á einkaþotum úr landi með fyrirtækin. Ég tel að meginástæðan sé ekki sá vægi dómur sem Jón Ásgeir hlaut, heldur efnahagsástandið á Íslandi.

Það er kaldhæðnislegt að Baugsmenn voru hvað stærstu gerendurnir í að taka stór erlend lán í gegnum Glitni og FL Group, fyrirtækin sín, til að fjármagna ýmis kaup sem hafa gefið mismikið eða mislítið í aðra hönd nú þegar efnahagsástandið er öðrum þræði í vanda vegna þess að erfiðlega gengur að endurfjármagna stóru lánin. Efnahagsástandið er að stórum hluta gríðarlegum lántökunum að kenna sem Baugsmenn eru núna að flýja. Nafnabreytingarnar sem koma fram í fréttinni, að FL verði Stoðir, og að Baugsfyrirtækin kaupi hvert af öðru og skipti á bréfum og að við það verði til 25 milljarða eigið fé er ekki trúverðugt.

Nú er góð spurning hvernig íslenskir neytendur taki þessum fréttum.


mbl.is FL Group verður Stoðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagra Þórunn

Þórunn Sveinbjarnardóttir stóð sig afburðavel í Kastljósinu í gær þar sem hún varði kosningastefnu Samfylkingarinnar, Fagra Ísland. Þótt ég sé ekki sammála Þórunni í mörgu er ekki hægt annað en að dást að baráttuvilja hennar þegar hún reynir eftir fremsta megni að standa við þau fyrirheit sem Samfylkingin gaf kjósendum.

Það er vissulega við ramman reip að draga fyrir Þórunni þar sem margir forystumenn Samfylkingarinnar, s.s. Össur Skarphéðinsson, Kristján Möller og Björgvin G. Sigurðsson, vinna leynt og ljóst gegn ársgamalli kosningastefnu með þegjandi samþykki formannsins.


Vill VG enn minni fiskveiðar?

Í Fréttablaðinu í dag var umfjöllun um viðbrögð stjórnmálamanna við kvótaúthlutun næsta árs og var ekki hægt að ráða annað af svörum formanns VG en að hann teldi að veiða ætti minna af ýsu en var að öðru leyti sæmilega sáttur við ákvörðun sjávarútvegsráðherra.  Þessi svör renna eflaust ljúflega ofan í græna arm VG en stendur líklega í mörgum fylgismanni flokksins sem tengist sjávarútvegi.

Svör Karls Matthíassonar vöktu einnig athygli en hann svaraði annars vegar með stóru eða stórum spurningarmerkjum og sömuleiðis að það ætti að auka þorskeldið.  Það er eins og Kalli Matt og fleiri sem telja að þorskeldið sé svarið við vondri ráðgjöf og misvitrum stjórnvaldsákvörðunum hafi ekki hugmynd um að fóðrið í þorskeldinu kemur að enn að mestu leyti úr fiskafurðum.   


Umræðan þjökuð af rétthugsun

Það er rétt að þakka Kastljósinu fyrir ágætt viðtal við hollenska þingmanninn Geert Wilders sem greindi frá þeim sjónarmiðum sem lágu á bak við framleiðslu á myndinni Fitna. Markmiðið með myndinni var, að sögn Wilders, að greina frá þeirri ógn sem frjálslyndum vestrænum gildum stendur af öfgasjónarmiðum Íslams.

Ég sá umrædda mynd Fitna á netinu fyrir nokkrum mánuðum og fannst hún ekkert sérlega vel gerð og í raun fátt nýtt í henni. Ekki átti ég von á því að myndin yrði til þess að fólki sem vann hjá vefmiðlum sem dreifðu myndinni yrði hótað lífláti af íslamistum sem hafði þær afleiðingar að myndin var tekin af netinu í kjölfarið.

Morðhótanir íslamista í garð Geert Wilders og Ayaan Hirsi Ali og síðan morðin á kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gough og stjórnmálamanninum Pim Fortuyn ásamt öfgafullum viðbrögðum og morðhótunum í garð danskra teiknara verða til þess að hægt er að taka undir með Geert Wilders um að tilefni sé til að sporna af hörku við öfgum sem telja réttlætanlegt að svipta fólk lífinu vegna skoðana sinna.

Umræðan er einhverra hluta vegna mjög viðkvæm vegna útvarða pólitískrar rétthugsunar og var miður að sjónvarpið skyldi ekki treysta sér til að birta viðtalið við hollenska þingmanninn án þess að vera stöðugt að skjóta inn viðbrögðum umdeilds dansks íslamsfræðings, Jörgen Bæk Simonsen.  Það virtist sem viðtalið vð Danann væri tekið upp í kjölfar viðtalsins við hollenska þingmanninn og honum gefinn kostur á að gera athugasemd við málflutning þingmannsins en ekki öfugt.

Í sjálfu sér var mjög áhugavert að fá að heyra sjónarmið danska fræðimannsins sem virtist hafa mun meiri áhyggjur af skoðunum Geert Wilders en þeim sem vildu drepa hann vegna umdeildra skoðana sinna.

Þetta virkaði einhvern veginn með þeim hætti að þáttarstjórnendur treystu sér ekki til að senda út boðskap Geert Wilders nema þá að í sömu andrá kæmi fram boðskapur pólitískra rétttrúarmanna.


mbl.is Reiði í Danmörku vegna sæmdarmorðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband