Leita í fréttum mbl.is

Hiti nálægt meðaltali

Hiti sjávar fyrir Norðurlandi er nálægt meðaltali sl. áratuga eins og sést á meðfylgjandi mynd sem tekin er úr vistfræðiskýrslu Hafró og því vart hægt að ræða um hitafarssveiflur eins og kollsteypur.

 

hiti

Rétt ákvörðun? - Grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær

 

Ritstjóri Morgunblaðsins fullyrti í leiðara að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að fara að mestu eftir veiðiráðgjöf Hafró væri sú rétta. Margir sjómenn eru hins vegar furðu lostnir yfir ráðgjöfinni. Þeir telja nær útilokað að ná að veiða mikinn ýsukvóta sem er um 10% * umfram ráðgjöf Hafró á meðan þorskkvótinn er jafn naumt skammtaður af sjávarútvegsráðherra. Sá var ákveðinn nær samhljóma ráðleggingu Hafró.

Þegar þorskkvótinn er ákveðinn nú annað árið í röð 130.000 tonn má spyrja hvert upphaflegt markmið hafi verið þegar byrjað var að vinna eftir kennisetningum Hafró. Það var í fyrsta lagi að minnka sveiflur í afla og að hann yrði að jafnaði 400-500.000 tonn. Aðferðin gengur annars vegar út á að draga úr veiðum til að „byggja upp“ hrygningarstofninn og hins vegar að vernda smáfisk.

Allir geta fallist á að upphafleg markmið hafa ekki gengið eftir. Þeir sem hafa stýrt Hafró og rannsakað og fellt dóma um eigin verk segja að ekki hafi verið dregið nægjanlega úr veiðum. Samt hefur verið farið nokkuð nákvæmlega eftir ráðgjöf Hafró í 15 ár og veiðisvæðum markvisst lokað fyrir veiðum á smáfiski. Stundum er fléttað inn í þessar skýringar að skilyrði séu breytt og á umliðnum áratug hafa sérfræðingarnir bæði sagt að möguleg orsök sé aukinn kuldi og síðan hiti.

Aðrir líffræðingar og fiskifræðingar, s.s. ég og Jón Kristjánsson, hafa haldið því fram að kenningin sem Hafró vinni eftir geti ekki gengið upp þar sem hún brjóti í bága við viðtekna vistfræði, að vitavonlaust sé að vernda fiskinn þar sem vöxtur er við sögulegt lágmark. Sömuleiðis hefur verið bent á að ekki sé um að ræða jákvætt samband milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar en fleiri hafa bent á það, s.s. Rögnvaldur Hannesson fiskihagfræðingur. Fiskveiðar ganga sinn vanagang á hafsvæðum þar sem umdeildar kenningar Hafró ráða ekki för, eins og í Barentshafinu og við Færeyjar, en reiknisfiskifræðingar hafa ítrekað spáð þeim þorskstofnum algjöru hruni.

Sagan skoðuð

Frá árslokum 1976 hafa Íslendingar haft stjórn á veiðunum og voru menn nokkuð bjartsýnir á að með betri stjórn, einkum minni smáfiskaveiði, næðist fljótlega fram jafnstöðuafli, 400-500.000 tonn eins og áður segir.

Í lok 8. og byrjun 9. áratugar voru jafnan veiddir tugir þúsunda tonna ár hvert umfram ráðgjöf Hafró á Íslandsmiðum og dæmi voru um að veiðarnar færu vel á annað hundrað þúsund tonn umfram ráðgjöfina. Veiðarnar gengu sinn vanagang þrátt fyrir svartar skýrslur og það sem meira var, ráðgjöfin elti veiðina ef hún reyndist meiri, t.d. voru árið 1980 veidd 135.000 tonn umfram ráðgjöf Hafró og ráðlagði Hafró árið eftir 100.000 tonna aflaaukningu.
Fiskistofnar sveiflast eðlilega ekki einungis upp á við heldur einnig niður á við en annars væri eflaust hægt að ganga þurrum fótum á milli heimsálfa. Í niðursveiflum fá svartar skýrslur Hafró aukið vægi og í kjölfar „aflabrests“ 1982 var kvótakerfinu komið á með auknum takmörkunum. Það er rétt að geta þess að á aflabrestsárinu 1982 var þorskaflinn þrefalt meiri en þorskkvóti næsta árs hljóðar upp á.

Þrátt fyrir að kvótakerfinu væri komið á var aflinn að jafnaði tugi þúsunda umfram ráðgjöf og fiskveiðarnar og aflinn að jafnaði um 300.000 tonn.

Árið 1991 verða þáttaskil þegar nýr sjávarútvegsráðherra Þorsteinn Pálsson ákveður að fara nánast í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafró til þess að veiða meira seinna. Þetta seinna lét bíða eftir sér, ráðgjöfin var komin niður í 130.000 tonn og Þorsteinn gerði nánast alltaf eins og Hafró lagði til - rétt eins og núverandi ráðherra gerir.

Undur og stórmerki urðu árið 1996 þegar Hafró lagði til aukningu á þorskafla. Varði það til ársins 2000. Á þessum árum voru þeir sem fylgdu „uppbyggingarstefnunni“ sigurreifir og fullyrtu að stefnan hefði sannað ágæti sitt.

Á árinu 2000 lagði Hafró til mikinn niðurskurð sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ástæðan var að stofnunin hefði reiknað vitlaust árin á undan og hefði stofninn verið minni en fyrri útreikningar gáfu til kynna. Ekki voru fréttir þó eingöngu neikvæðar heldur var reiknað út að ef farið yrði að tillögunum myndi stofninn stækka strax á næsta ári og enn meira árið þar á eftir.

Boðuð stækkun hefur látið bíða eftir sér. Frá árinu 2000 hefur eingöngu verið boðaður aukinn niðurskurður á afla - með einni undantekningu, Davíð Oddsson lagði til á fundi í Sjallanum að þorskkvótinn yrði aukinn um 30.000 tonn kosningaárið 2003. Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró staðfesti síðan fljótlega að í góðu lagi væri að veiða þann fisk sem Davíð fann í Sjallanum.

Nú á árinu 2008 er enn og aftur boðað að veiða 130.000 tonn af þorski sem er liðlega þrefalt minna magn en áður en uppbyggingarstarfið hófst þrátt fyrir að búið sé að fara nánast í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafró í 15 ár.

Hvernig getur það verið rétt ákvörðun að fara eftir ráðgjöf sem hefur sýnt sig að vera röng í vel á annan áratug? Það er löngu tímabært að stjórnvöld fari nú á síðustu og verstu tímum yfir rök þeirra sem hafa haldið uppi fræðilegri gagnrýni á ráðgjöf Hafró.

*leiðrétt misritun í Morgunblaðsgrein.


mbl.is Nýjar slóðir nytjafiska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Kristinn ætli það þurfi ekki að fá fyrirspurn á Alþingi til þess að reyna að nálgast þessi gögn en Jón Kristjánsson fiskifræðingur óskaði eftir gögnum snemma í vor en þá var honum tjáð að hann gæti mögulega fengið gögnin ef hann reiddi fram háa fjárhæð.

Sigurjón Þórðarson, 7.7.2008 kl. 11:29

2 Smámynd: Jón Magnússon

Góð og fróðleg færsla Sigurjón. Ég er tilbúinn að spyrja um þetta ef gögnin fást ekki með öðrum hætti.

Jón Magnússon, 7.7.2008 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband