Leita í fréttum mbl.is

Glænýjar hafrannsóknir sem styðja gagnrýni trillukarla - Grein í Brimfaxa

Hér að neðan er grein sem birtist í Brimfaxa blaði Landsambands Smábátaeigenda.

Glænýjar hafrannsóknir sem styðja gagnrýni trillukarla


Margir sem eiga afkomu sína undir sjósókn eru mjög gagnrýnir á ráðgjöf Hafró sem er engin furða. Niðurskurður á aflaheimildum hefur ekki leitt til aukinnar veiði seinna eins og lofað hefur verið síðustu 20 árin. Á yfirstandandi fiskveiðiári er ástandið þannig að leyfilegt er að veiða um 30% af því sem veitt var að jafnaði af þorski um áratugaskeið, áður en þetta sérkennilega uppbyggingarstarf Hafró hófst.

Áhrif veiða á fiskistofna
Ein meginfaglega gagnrýnin á ráðgjöf Hafró er hversu mikil áhrif veiða eru á stærð og viðgang fiskistofna. Undirritaður hefur í sjálfu sér ekki áhyggjur af stærð þorskstofnsins enda er það ekki stærðin sem skiptir máli fyrir útgerðir heldur er það leyfilegur ársafli sem hlýtur að vera í takt við það sem stofninn getur vaxið á ári hverju.

Helsta aðferðin við mat á stofnstærðarbreytingum er að meta breytingar á fjölda fiska í árgöngum í afla eftir því sem þeir eldast og tíminn rennur sitt skeið. Ef 1000 þriggja ára fiskar veiðast nú í ár og aðeins 500 fjögurra ára fiskar á því næsta leiðir það til þeirrar rökréttu niðurstöðu að helm­ingur stofnsins hafi drepist á árinu sem leið.

Samkvæmt þeim kenningum sem unnið er með skrifast alltaf 18% af dauðanum á náttúrulegar orsakir, þ.e. sjúkdóma, át annarra fiska, sela og hvala og sult en afgangurinn skrifast sjálfkrafa á veiðar. Í framangreindu dæmi reiknaðist veiðidánartalan 32%.

Gagnrýnendur hafa bent á að fráleitt sé að ætla að náttúruleg afföll sé eitthvert fast hlutfall upp á 18% enda gengur það gegn viðtekinni vistfræði þar sem eðlilegt sé að náttúrulegur dauði sé lítill í góðæri en miklu meiri þegar illa árar og fiskur hefur ekki nægjanlegt æti. Reynsla síðasta áratugar gefur til kynna að umrætt fiskabókhald með náttúrulegan dauða sem fasta gangi alls ekki upp.

Í fyrsta lagi fór fram gríðarlegt endurmat á stofnstærð þorsksins um síðustu aldamót þar sem endurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að stofninn hefði verið ofmetinn og þess vegna hefði verið veitt alltof mikið miðað við 25% veiðireglu. Hið svokallaða endurmat fól í sér staðfestingu á skekkju í fyrri mælingum Hafró upp á mörg hundruð þúsund tonn af þorski.

Í öðru lagi sýnir árlegt endurmat á reiknaðri stofnstærð í togararalli og ákvörðun um afla næsta fiskveiðiárs í framhaldinu að fyrri spár um framvindu mála ganga ekki upp. Í raun ætti fátt að koma á óvart í ralli nema þá helst nýliðun því að afli síðasta árs er þekkt stærð og náttúrulegur dauði er fasti samkvæmt kenningunni sem unnið er með.

Miklu nærtækara líffræðilega er að skýra stórar gloppur í fiskabókhaldinu og ítrekað misheppnaðar spár um uppbyggingu, sem vænta má handan við næstu skerðingu á afla, út frá miklum breytileika í náttúrulegum dauða. Það sem eflaust hræðir reiknisfiskifræðinga frá því að taka umræddan fasta á náttúrulegum dauða til gagngerrar endurskoðunar, sem liggur þó beinast við, er að fastinn er alger forsenda þess að hægt sé að reikna út stofnstærð þorsksins. Fastinn má heldur ekki viðurkennast að vera hærri því að þá eru afföllin meiri en vaxtaraukning einstaklinganna í aflanum.

Skiptir náttúrulegur dauði máli?
Vitneskja um náttúrulegan dauða, afföll af öllum öðrum orsökum en veiði, er forsenda þess að hægt sé að reikna út einhverja stofnstærð og í öðru lagi er lágur og stöðugur náttúrulegur dauði alger forsenda þess að uppbyggingarstarf Hafró geti fræðilega gengið eftir.

Í líkönum Hafró er reiknað með að náttúrulegur dauði sé alltaf 18% af veiðistofni en ef hann væri talsvert hærri, eins og margt bendir til, er enginn ávinningur af því að geyma þorskinn í sjónum og veiða hann seinna eftir að hann hafi tekið út vöxt eins og uppbyggingarstarf Hafró gengur út á.

Það er margt sem bendir til að náttúruleg afföll séu mun meiri en þau 18% sem reiknað er með. Í fyrsta lagi benda rannsóknir á fiskamerkingum til þess og í öðru lagi hefur markviss vernd smá­fisks ekki skilað auknum afla síðar eins og lofað var. Á árinu 2007 beitti t.d. Hafró 180 skyndilokunum þrátt fyrir að viðmiðunarstærð ýsu hefði verið lækkuð á árinu úr 45 sm í 41 sm.

Hvaðan kom vitneskjan um 18%?

Eina íslenska rannsóknin um að náttúrulegur dauði sé þessi 18% fasti sem allt uppbyggingarstarf Hafró hvílir á er rannsókn sem Jón Jónsson gerði fyrir tæplega hálfri öld. Aðrar rannsóknir sem hafa haft beinlínis að leiðarljósi að upplýsa um hver náttúruleg afföll séu hafa ekki verið birtar, en hins vegar hefur hálfrar aldar rannsókn Jóns Jónssonar verið gagnrýnd með málefnalegum rökum, bæði hvað varðar aðferðafræði og úrvinnslu gagna. Þessari gagnrýni hefur ekki verið svarað.

Nýjar áhugaverðar rannsóknir
Nýjar og áhugaverðar rannsóknir á merkingum fiska gefa sterklega til kynna að náttúrulegur dauði sé umtalsvert meiri en þau 18% sem líkön sem nú eru notuð við fiskveiðiráðgjöf gera ráð fyrir, og gefa þar af leiðandi til kynna að miklum mun lægra hlutfall af veiðistofni sé veitt en Hafró hefur gert ráð fyrir. Ráðgjöfin hefur á umliðnum árum verið sú að veidd skuli 25% af veiðistofni þorsks á hverju ári. Á yfirstandandi fiskveiðiári var hlutfallið lækkað í 20% af stofnstærð. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að stofnstærðin er ekki mæld heldur reiknuð út frá mjög umdeildum forsendum.

Niðurstöður úr skilum á þorskmerkjum í nýbirtum niðurstöðum liðlega 10 ára gamalla merkingtilrauna við NV-horn landsins gefa mjög skýrt til kynna að mun minna hafi verið veitt en umrædd 25% af veiðistofni árlega (Fjölrit Hafró nr. 123). Ef veiðin hefði verið svo mikil sem fjórðungur af stofninum mætti ætla að nær 25% af merkjunum hefðu skilað sér inn innan árs og eftir nokkurra ára veiði hefðu alls um 60% af merkjum átt að vera búin að skila sér. Niðurstöðurnar úr merkingatilrauninni eru allt aðrar þar sem heildarskil fiskmerkja á fimm ára tímabili eru einungis 14% sem bendir til þess að nær 80% af merktum fiski drepist af öðrum orsökum en fiskveiðum.

Í nýrri skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins um færeysk fiskimið er greint frá víðtækum merkingum Hafró á þorski á árunum 1997 til ársins 2004, en af 25.572 þorskum sem voru merktir höfðu 3.708 merki endurheimst, þ.e. einungis rúm 14% af merkjunum (ICES 2007). Það er athyglisvert að svipað hlutfall af fiskmerkjum endurheimtist þarna og í tilrauninni sem stóð yfir á árunum 1994 og 1995 við Ísland. Einnig að þessar nýju upplýsingar skuli koma fram í umfjöllun Alþjóðahafrannsóknaráðsins um færeysk fiskimið!

Á vef Hafró er ný grein eftir Þóru Dögg Jörundsdóttur þar sem hún greinir frá mismunandi kennileitum á erfðaefni þorsksins á Íslandsmiðum og merkingum fiska. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að tvær mismunandi aðferðir til að greina erfðafræðileg kennileiti, svo og niðurstöður merkingatilrauna, bentu eindregið til að þorskstofninn við Ísland væri ekki einsleitur stofn.

Í greininni kemur fram að samtals 6.536 þorskar voru merktir á hrygningarslóð á hrygningartíma. 3.624 þorskar voru merktir árið 2002 á 10 stöðum og 2.912 árið 2003 og þá á 12 stöðum. Rann­sóknin greinir ekki nákvæmlega frá endurheimtum merkja, en þó segir að þorskurinn hafi sýnt mikla tryggð við staðinn sem hann var merktur á og hafi einkum endurheimst á sama stað eða á næstu grösum. Hópurinn sem endurheimtist fyrsta árið eftir merkingu á hrygningartíma taldi einungis 159 fiska, sem er rétt rúmlega 4% af merktum fiskum, og árið eftir reyndust heimturnar enn minni, einungis rúm 2% af merktum fiskum. Erfitt er að draga of miklar ályktanir um afföll þorskanna af umræddri skýrslu vegna þess hvernig tilraunin fór fram og birtingu gagna var háttað, en rannsóknin er þó nokkur vísbending um að veiðiálag sé miklum mun minna en þau 25-30% sem Hafró áætlar.

Loks má greina frá góðri og upplýsandi grein Hlyns Ármannssonar, Sigurðar Þ. Jónssonar o.fl. um útbreiðslu og far ufsa á Íslandsmiðum. Greinin er ný og er afrakstur merkinga á 15.800 fiskum á árunum 2000-2004 (tilvitnun, vefur Hafró). Þar kemur fram að ufsinn heldur tryggð við það svæði sem hann er merktur á því að hann endurheimtist gjarnan ekki fjarri merkingarstað. Sömuleiðis kemur fram að endurheimtur merkja batna bæði eftir því sem fiskur er eldri og stærri.

Í greininni er hins vegar í engu leitað svara við þeirri spurningu hvers vegna endurheimtur séu almennt svo lágar sem raun ber vitni, en meðaltal áranna 2000-2003 er einungis rétt um 11% sem bendir til þess að veiðar séu ekki stór affallaþáttur og að náttúrulegur dauði sé gríðarlega hár en minnki mögulega eftir því sem fiskur stækkar og eldist.

Niðurstaða
Það er deginum ljósara að uppbyggingarstarf umliðinna ára á þorskstofninum hefur engu skilað. Ef náttúrulegur dauði er í raun hærri en reiknað er með getur það eitt auðveldlega útskýrt hvers vegna góðar fyrirætlanir um uppbyggingu hafa ekki gengið eftir.

Hingað til hafa sérfræðingar Hafró haldið því fram að dauði vegna merkinga, merkjatap fiska og vanskil á merkjum geti skýrt dræmar endurheimtur.

Það er hægt að minnka áhrif merkjadauða og merkjaskila með því að skoða hvernig endurheimtur minnka hlutfallslega eftir því sem lengra líður frá því að fiskur er merktur (endurheimtur sem fall af tíma). Með þessari aðferð er hægt að komast hjá því að dauði vegna merkinga hafi áhrif og einnig merkjaskil (Jón Jónsson 1996)

Merkjatap er hægt að rannsaka sérstaklega með því t.d. að tvímerkja fiska og svo hefur tækninni fleygt fram þannig að hægt væri að afla frekari upplýsinga um ævi og afdrif þorsksins - væri áhugi á því.

Athyglisvert er að skýrslur um niðurstöður fiskmerkinga síðustu 20 árin virðast ekki vera í neinu samræmi við þann ógurlega fjölda fiska sem sagt er að hafi verið merktir í kringum landið. Mjög mikilvægt er orðið að veita öðrum en þeim sem hafa ráðið ferðinni í fiskveiðiráðgjöfinni á umliðnum árum greiðari aðgang að gögnum um fiskmerkingar því að þau gætu svipt hulunni af því hvers vegna uppbyggingarstarfið hefur ekki gengið eftir og er dæmt til að mistakast.

Telja verður ólíklegt að gögnin geti í nokkru rennt stoðum undir réttmæti forsendna núverandi fiskveiðistjórnunar þar sem reiknað er með afföllum vegna sjúkdóma, afráns, sjálfsráns og hungurs, annars stæði sennilega ekki á birtingu þeirra.



Heimildir:
Fjölrit Hafrannsóknastofnunar nr. 123: Áhrif svæðafriðunar á vöxt og viðgang þorsks. Niðurstöður úr þorskmerkingum út af norðanverðum Vestfjörðum og Húnaflóa sumurin 1994 og 1995.
ICES NWWG Report 2007. www.ices.dk

Heimild um ufsagreinina:
Jón Jónsson 1996. Göngur þorsks og ýsu við Ísland, Niðurstöður merkinga á árunum 1948-1986. Hafrannsóknir - 50. hefti. Hafrannsóknastofnunin 1996.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Gríðalega athyglisverð lesning og sláandi niðurstöður. Þarft umhugsunarefni. Nú hefði verið gott að sjá einhverjar tillögur

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 29.1.2008 kl. 23:13

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Takk Guðrún 

Tillögur:

1) Veiða meira.

2) Rannsóknafrelsi.

Sigurjón Þórðarson, 29.1.2008 kl. 23:29

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Hvað er náttúrulegur dauði.? Segjum að náttúrulegur dauði sé sá sami og hjá manninum aldur og sjúkleiki sem ég efast að sé mikill.

Þá er eitt eftir það eru veiðar manna og dýra. Ef við bönnum manninum að veiða þá eiga dýrin/fiskar frjálsan aðgang af stofnunum. Einfalt er það. Ef við gefum manninum frjálsar hendur þá er stór partur að þessum náttúrulegu dauðu fiskum komnir okkar megin þar sem hann á að vera. Þá minnkar hvalastofninn eða fer ekki satt. Það er líka alveg á hreinu að ef fiskstofninn minnkar þá fara stóru togararnir löngu áður en stofninn hrynur. Fyrirtækin fara ýmist á hausin eða koma sér á önnur mið. Blöndum ekki sjávarkulda Nýfundnalands í þetta. Hvalirnir fara og stóru togararnir og smábátarnir taka yfir og heimalandanir byrja aftur.

Valdimar Samúelsson, 30.1.2008 kl. 09:38

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Valdimar náttúrulegur dauði þ.e. umrædd 18% er skilgreindur sem öll önnur afföll en veiðar mannsins.

  Ég get tekið undir það með þér að það hlýtur að vera samspil á milli annars vegar veiðidauð og hins vegar náttúrulegra affallla.  Ef dregið er úr veiðum eru allar líkur á því að líkur aukist á því að fiskur drepist af öðrum orsökum og náttúrulegur dauði aukist þar með.

Kristinn: Það eru mjög margir sem standa í þeirri trú að togararallið mæli beint fjölda fiska í hafinu en það er ekki svo eins og við vitum heldur eru niðurstöður þess notaðar til að reikna út fjölda fiska út frá mjög umdeilanlegum forsendum svo ekki sé meira sagt.

Sigurjón Þórðarson, 30.1.2008 kl. 11:59

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Á síðasta landsfundi Landssambands Smábátaeigenda var engin samþykkt gerð varðandi rannsóknir og niðurstöður Hafró.Þótt grein þín Sigurjón sé birt í blaði L.S. þýðir það ekki það. að L.S.hafi tekið einhverja afstöðu varðandi Hafró.Stjórn L.S.hefur samþykkt að heimila skuli meiri veiðar á þorski annað ekki.Að sjálfsögðu hafa smábátaeigendur,útgerðarmenn, sínar skoðanir á starfsemi Hafró eins og aðrir landsmenn.En eitt veit ég að allir eigendur báta innan L.S. eru sammála um, að til þess að þorskur geti lifað og vaxið þarf hann að hafa æti.Ég veit ekki til þess að forstjóri Hafró, eða Sjávarútvegsráðherra  hafi viðurkennt þetta.Aldrei hefur verið hægt að draga það upp úr þeim hvort ætismagn á íslandsmiðum sé nægjanlegt fyrir þann botnfisk sem þar er, og hver sé hugsanleg skýring á því að það hafi minnkað eða sé hugsanlega að hverfa.  

Sigurgeir Jónsson, 30.1.2008 kl. 15:36

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þessu til viðbótar Sigurjón þá hefur L.Í Ú.verið sammála L.S. og Frjálslyndaflokknum að heimila hefði átt meiri veiði á þorski fiskveiðiárið 2007-2008.

Sigurgeir Jónsson, 30.1.2008 kl. 15:41

7 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er gott til þess að vita að þú getir átt samstöðu með mér í þessu máli Sigurgeir.

Sigurjón Þórðarson, 30.1.2008 kl. 15:59

8 Smámynd: Óskar Þorkelsson

flottur pistill.. ánægður með þig núna Sigurjón

Frjálsar krókaveiðar takk !  

Óskar Þorkelsson, 30.1.2008 kl. 19:10

9 identicon

Svona í viðbót við það sem hér hefur komið fram þá er ein spurning, sem mér sem gömlum manni sem hefur fylgst með afla á Íslandsmiðum í hátt í sex áratugi merkilegt, að það skuli aldrei koma fram hjá Hafró eða öðrum fræðingum, að fæðuframboð hafi einhverja vigt í þessu efni. Eftir að síldin "hvarf" á sjöunda áratugnum, var farið að veiða loðnu með ótrúlegum sóknarþunga samfara gríðarlegum tækniframförum í veiðarfæra- og fiskileitartækni. Þegar ég var ungur, fylgdu þorskgöngur loðnugöngunum; "páskahroturnar" svokölluðu. Nú er loðnan kláruð löngu áður en hún kemur á slóðir þorsksins, sem er eins og kemur fram hér að ofan, "heimakærari" en margur hefur viljað viðurkenna. Þetta kemur svo fram í auknum hungurdauða kvikindanna og afráni úr eigin stofni. Það gæti nú ekki verið að þetta geti verið ein af ástæðunum fyrir því að dánarstuðullinn er margfalt hærri en reikniformúlan?

ellismellur (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 13:10

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Mjög góð færsla-meira af þessu!

Gunnar Skúli Ármannsson, 31.1.2008 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband