Leita í fréttum mbl.is

Hverju var fólkið að mótmæla í ráðhúsinu?

Í dag varð mér litið á beina útsendingu frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Það fór ekki á milli mála að fólkinu sem vermdi áhorfendapallana var mjög heitt í hamsi. Æsingurinn var þvílíkur að engu mátti muna að stjórnendur mótmælanna, þau Dagur Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir, gætu ekki hamið liðið enda þurftu þau einnig að verja tíma sínum í að hugga tárvot einn traustasta bandamann sinn, sjálfan Björn Inga sem hafði vistaskipti á fundinum.

Það er verðugt verkefni að reyna að átta sig á því hvers vegna það veldur svo miklum æsingi að meirihluti sem komið var upp á hlaupum skuli hverfa með jafn miklum hraða.

Varla hefur æsingurinn stafað af því að fólkið hafi óttast að ekkert yrði úr einhverjum vonum um að ákveðin málefni næðu fram að ganga með breyttum meirihluta þar sem fráfarandi meirihluti hafði ekki gert neinn samning um nokkurt málefni.

Sömuleiðis var málflutningur oddvita fráfarandi meirihluta oft og tíðum mjög óskýr og erfitt að henda reiður á stefnu flokkanna í veigamiklum málum, s.s. friðun húsa á Laugavegi og flugvallarmáli.  Annað hvort voru mál ekki á dagskrá eða það átti að bíða eftir einhverju.

Ekki voru helstu verk fráfarandi meirihluta öll til vinsælda fallin, hvað þá í átt við þau loforð sem hann gaf kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar, sbr. hækkun leikskólagjalda um síðustu mánaðamót og þyngri álögur á fasteignaeigendur borgarinnar.

Örugglega er það ekki framganga fráfarandi flokka í REI-málinu enda hafa þeir saltað málið í nefnd sem enn hefur ekki veitt nokkrar upplýsingar. Ekki hefur það aukið trúverðugleika flokkanna í orkumálum að saman og í mikilli sátt skipuðu fráfarandi meirihlutaflokkar fyrrum formann Framsóknarflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur en sá hinn sami hratt af stað óvissunni með orkulindir þjóðarinnar með sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.

Einhvern tímann fræddi mig vís Húnvetningur um að eftir því sem deilur snerust minna um málefni og þeim mun meira um persónur hætti þeim til að verða illvígari, t.d. í prestakosningum. Ætli það geti verið skýringin á æsingnum, þ.e. að hann snýst ekki um neitt málefni?

Nú er að vona að fráfarandi meirihluta takist að setja málefnin á dagskrá en það hefur reynst þeim erfitt síðustu mánuðina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sammála þér Sigurjón . kv .

Georg Eiður Arnarson, 25.1.2008 kl. 07:25

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Ég get ekki sagt að ég undrist mótmæli fólks, svo mikið hefur gerst á stuttum tíma og algjör glundroði ríkir í borgarmálum. Helda að þetta sé uppsafnað. Hins vegar fóru mótmælendur offari og uppskera eftir því. Þessar aðferðir missa alla vega marks

Vona að Ólafi takist að koma á stillingu og stöðugleika í sínu starfi, sjálfsagt og eðlilegt að gefa manninum frið til þess. Vona að hann standi þetta af sér, hef miklar áhyggjur af því hvernig hann kemur til með að standa vaktina einn í brúnni. Slíkt er ekki á eins  manns færi í langan tíma eins og ég hef áður bent á. Í þeirri ábendingu felst hins vegar ekki vantraust.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.1.2008 kl. 08:20

3 identicon

Sæll.

Eins og ég sé þetta var verið að mótmæla valdaráni gamla spillta Villa sem byggir sinn meirihluta á að geðheilsa fulltrúa F lista óháðra sem ekki hefur varamann með sér haldi.Eins og allir vita þá eru geðsjúkdómar illviðráðlegir og geðsjúkdómalækningar skammt á veg komnar þó svo geðlæknar virðast oft á tíðum halda annað.

Þannig að það er ekki hægt að treysta því að bati haldi svo lengi og sjúkdómurinn getur slegið til þegar síst skildi.

Og eins og stofnað er til nýs meirihluta í borginni núna þá er hann fallinn ef sjúkdómurinn slær til og finnst ykkur það virkilega vera boðlegt fyrir borgarbúa og landsmenn alla ?

Með fullri virðingu fyrir Ólafi og öðrum sem eru veikir.

Nonni.

Nonni (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 08:33

4 identicon

Að ætla að saka Dag B. Eggertsson og Svandísi Svavarsdóttur um að hafa staðið fyrir þessum mótmælum, er einungis leið nýstofnaðs meirihluta til að styrkja trúna á sjálfa sig - trúna á það að gjörðir þeirra sjálfra hafi ekkert haft með mótmælin að gera - og er, eftir því sem ég best veit, hrein firra.

Ekki það að þau hafi ekki haft gaman að þessu.

Snorri Hallgrímsson (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 09:34

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Nonni, það hefur margoft komið fram að Ólafur skilaði inn læknisvottorði sem staðfesti að hann væri heill heilsu.  Það var farið sérstaklega vel yfir vottorðið af fyrrum samstarfsmönnum hans í fráfarandi meirihluta en samstarfið leiddi læknirinn Dagur B. Eggertsson.

Þetta er reyndar ekki í fyrst sinn í sögu íslenskra stórnmála þar sem pólitískir andstæðingar saka áhrifamann um geðveiki en það kemur nokkuð á óvart hversu illvíg Samfylkingin og VG eru í þessu máli nú á árinu 2008. 

Sigurjón Þórðarson, 25.1.2008 kl. 09:48

6 identicon

Ég held því fram að þetta voru ekki mótmæli, heldur gjörningur.

Það er eitt að vera ósáttur við atburði síðastliðna daga, en það er annað að sleppa sér algjörlega yfir því, eins og þessir menntskælingar gerðu. Krakkarnir eru náttúrulega að leita sér að málstað, reyna að finna sig í málefnum líðandi stundar, og það er töff að taka þátt í svona "mótmælum" (eða gjörningum). En vöntun á þroska eða skilningur á því hvað var að gerast kom best fram í þeim öskrum sem að heyrðust frá svölunum.

Snorri, hvort að Dagur og hans fólk stóð fyrir þessu eða ekki skiptir kannski ekki mestu máli, en það er alveg á hreinu að hans ræða var til þess gíruð að æsa fólk upp. Þannig séð þá bar hann ábyrgð á því hvernig andrúmsloftið var. Hann var ekki málefnalegur, heldur hélt hann þessa líka reiðu og sáru ræðu sem að gerði ekkart annað en að æsa fólk upp frekar.

Linda (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 10:22

7 identicon

Mótmælin voru skipulögð af Samfylkingarfólki með dyggri aðstoð Vinstri Grænna.  Það fólk sem mestmegnis var að mótmæla voru menntaskólakrakkar, aðallega úr MH, sem Samfylkingin hafði látið smala saman niður í Ráðhús. 

Samfylkingin er svo valdagráðug, að þegar Samfylkingin dettur úr ríkisstjórn, munu ungliðahreyfingur úr Samfylkingunni koma á stað skipulögðum mótmælum á götum úti.

Heiðar Þór Gunnsteinsson (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 10:24

8 Smámynd: Kári Tryggvason

Ótrúleg lákúra að ætla að Dagur og Svandís hafi staðið fyrir mótmælum í Ráðhúsinu. Þetta eru sjálfstæð félög alveg eins og ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins. Svona umæli dæma sig sjálf og segir meira um af hverju pólitíkusar hafa orðið litla virðingu í þjóðfélaginu.

Kári Tryggvason, 25.1.2008 kl. 10:40

9 identicon

Svandís sagði það nú beint við fréttamann í sjónvarpinu að hún hefði kvatt sitt fólk til að mæta og mótmæla í Ráðhúsið. Hún var því beinn þáttakandi í að brjóta fundasköp. Fjölda VG ungliða sem hún stefndi á pallana mátti sjá er hún sendi skilaboð um að veifa í stað öskurs og frammíkalla sem dugði nú ekki lengi. Það var ömurlegt að sjá hana taka þátt í því að nauðga lýðræðinu þarna í klukkutíma!!!

Kristófer (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 11:52

10 identicon

Sigurjón, Ólafur hefði auðveldlega getað skilað inn öllum heimsins vottorðum, það breytir því samt ekki að hann er ekki kominn til fullrar heilsu. Í öllum þeim viðtölum sem hafa verið tekin við hann kemur berlega fram að hann er enn veikur.

Þó svo að á áhorfendapöllunum hafi aðaluppistaðan verið skríll, ekki skal ég mótmæla því, þá er fjöldi fólks á móti þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð við stjórnaskiptin. Það hefur líka komið fram nú þegar að Ólafur blekkti að Sjálfstæðismenn varðandi þáttöku Margrétar og svo virðist sem Sjálfstæðismenn hafi líka beitt Ólaf blekkingum með því að segja honum að aðrar stjórnarmyndunarviðræður væru í gangi. 

Briet (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 15:04

11 Smámynd: Halla Rut

Snorri og Kári. Ég ráðlegg ykkur að fylgjast með útsendingunni aftur og fylgjast með Svandísi og svo aftur þegar hrópin og köllin fara af stað.

Kosningaloforð Vinstri grænna var að fella niður leikskólagjöld. Það var þeirra loforð. Samfylkingin apaði þetta upp eftir þeim og lofaði að lækka þau verulega og jafnvel fella niður. Það fyrsta sem þeir gerðu þegar þeir tóku við var að hækka leikskólagjöld og segjast nú hafa sett um 800 milljónir í málaflokkinn en hvorki hef ég séð eða heyrt af nokkrum launahækkunum til þess fólks er starfar á leikskólum.

Fyrri stjórnarmyndun gerði heldur ekki neitt í leikskólamálum annað en að fara í flottar ferðir til útlanda undir stjórn Þorgbjargar Helgu Vigfúsdóttur sem nú er tekin við aftur svo ekki skal búast við neinu í nánustu framtíð. 

Halla Rut , 25.1.2008 kl. 16:32

12 Smámynd: B Ewing

Furðulegt að halda því fram að Dagur og Svandís hafi stjórnað mótmælunum.  Þau sátu jafn forviða og aðrir borgarfulltrúar í salnum.  Hljómar eins og þú sért haldin fyrirlitningu á þeim einstaklingum sem tjáðu skoðanir sínar milliliðalaust á áhorfendapöllum Ráðhússins í gær.  Aðferðin sem sýnt var frá í gær er kannski ekki besta aðferð í heimi til að ná fram markmiðum en hún veldur óneitanlega þeim fulltrúum sem sátu undir þessu það miklu hugarangri að þeir gæti sín og bæti fyrir sínar gjörðir.

  Hve langt á að ganga í sífelldu valdabrölti kjörinna fulltrúa áður en þeir snúa sér að því að sinna því starfi sem þeir voru kjörnir til ?
  Á Borgin vera vera eitthvert peð í skjúklegu valdatafli gírugra miðaldra karlmanna með pólitískan ofmetnað ?

B Ewing, 25.1.2008 kl. 17:09

13 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Mér finnst þú hafa sett talsvert niður Sigurjón með þessum ummælum þínum um Svandýsi og Dag.. annað sem ég vil vbenda þér á er að læknisvottorð gildir BARA þann DAG sem það er gefið út en ekki um aldur og ævi.. að ég hafi fengið læknisvottorð um það að ég sé heill geðheilsu segir ekkert til um það hvernig sú geðheilsa verður eftir nokkar vikur eða ár.  Einni vil ég benda þér á að læknir þekkir læknir sem gefur út læknisvottorð.. ekki voðalega trúverðugt plagg þannig lagað. Ég get fegnið læknisvottorð á mánudaginn ef mér þóknast svo.. og það í gegnum síma.

Þessi meirihluti mun ekki lifa fram á vorið, það eru strax komnar sögusagnir um að samfylkingin taki völdin af óla falska innan skamms.. og mun það ekki vera sjöllum á móti skapi.. ef það gerist ekki fyrir páska þá er ríkisstjórnin að öllum líkindum kominn á brauðfætur.

Taparinn í þessu spili verður Óli Falski.

Óskar Þorkelsson, 25.1.2008 kl. 17:37

14 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er vafasamt gefa það í skyn að ég fyrirllíti umrætt fólk þó svo mér geðjist alls ekki að þeim aðferðum sem það beitti í gær.

Annars finnst mér mjög jákvætt að sjá hvað fylgismenn og forsvarsmenn S og VG kappkosta í dag við að reyna að þvo hendur sínar af því sem fram fór í ráðhúsinu í Reykjavík gær.

Sigurjón Þórðarson, 25.1.2008 kl. 17:52

15 identicon

Hvort er Ólafur í frjálslynda flokknum

eða eins og hann sagði sjálfur í Silfri Egils 2 des. s.l í 'islandshreyfingunni

eða óháður eins og hann hélt fram í vikunni

Flestir vita í hvaða flokki þeir eru???? 

Sæmundur (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 20:14

16 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég er hjartanlega sammála þér Sigurjón.
Hver stóð annars bak við það að bjóða Ólaf velkomin tilbaka með því að krefja hann um heilbrigðisvottorð? Var það Margrét? Hún sýnir allavega alvarlegat virðingarleysi fyrir kjósendum sínum með því að vilja ekki aðlaga sig breyttum aðstæðum líkt og Ásta Þorleifsdóttir gerir

Grímur Kjartansson, 25.1.2008 kl. 20:36

17 identicon

Það eru glæsileg stefnumálinn hans, eyða 580 miljónum í tvö ónýt hús (lóðir) sem að Sjálfstæðisflokkurinn seldi, en svona geta menn farið með  skattfé. Þetta er og verður hámark heimskunnar í fjárfestinu. Á meðan fólk gegur úti og sveltur,  ekki er hægt að borga konum á leikskólum laun, þá er þetta hægt. Þessi kaup eru og verða heimskuleg. Maður efast stórlega um greind nýja meirihlutans. Bara því miður. Ég hafði trú á Ólafi þegar að hann gekk úr Sjálstæðisflokknum á sínum tíma, en þessi kaup setja hann neðar en botnin

Hrannar

Hrannar (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 21:14

18 identicon

Sæll Sigurjón

Þú byrjar Þorrann vel því nú er frost á Fróni og blóð fraus í æðum margra þegar hróp og öskur ómuðu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fyrir rúmlega 100 dögum fór svipaður verknaður í stjórnarskiptum fram í "híbýlum friðarins" en hörð viðbrögð hægri aflanna voru viðhöfð á réttum vetvangi. Ég tel einsýnt  að það er menn sáu í þessum skrílslátum er karakter vinstri aflanna enda hafa þau uppruna sinn í flokkum og stefnum er komust að með uppreisnum. Svörtustu dæmin eru auðvitað  kommúnisminn og National-sósíalisminn sem hefur enn meinvörp sín í hugarfari ýmissa vinstriflokka.

Frjálslyndir ættu ekki að hleypa róttækum vinstriöflum til valda með því að mynda stjórnir með þeim. Það er nóg að gert.

Við á landsbyggðinni viljum flugvöllinn áfram og ætlumst til að ný  borgarstjórn geri okkur þann greiða að hefja byggingu nyrrar samgöngumiðstöðvar sem sameinar þjónustu leigubíla, langferðabíla og innanlandsflugs við Reykjavíkurflugföll!

Amen.

snorri í betel 

snorri (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 22:30

19 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Það er illt í efni þegar menn fjargviðrast út af veikindum manna, af hvaða toga sem þau kunna að vera.  Á hvaða plani eru sumir, spyr ég.

Það er alveg sama hvaða sjúkdómur hrjáir mannkynið, þeir geta alltaf tekið sig upp aftur þó þeir séu taldir ,,læknaðir"

Að fara niður á það plan að flokka sjúkdóma manna eftir því ,,hverjir sjúkdómarnir eru" er lágkúra sem ekki ætti að eiga sér stað á 21. öldinni með upplýsta þjóð.  Er það virkilega svo að sumir sjúkdómar þyki ,,fínni" en aðrir? Ef svo er í hugum einhvers er augljóst að sá hinn sami er á afskaplega lágu plani.

Það er engin ný Ella að þurfa að skila inn starfshæfnisvottorði hjá hinu opinbera. Ég þurfti sjálf að gera það þegar ég snéri til starfa eftir 10 mán. veikindi vegna krabbameins. Vissulega þótti mér það óþarfi, greiningin var mínum yfirmönnum ljós en svona eru reglurnar hjá hinu opinbera og þær eiga að gilda fyrir alla.

Vilji Ólafur halda sínum veikindum sem einkamál þá er það alfarið hans mál. Það hefði kannski verið heppilegra fyrir hann sem opinber persóna að tjá sig um þau en það er alfarið hans val. Það er sjálfsagt að aðskilja einkalíf og pólitík ekki síst í ljósi þess hversu rætin og mannskemmandi hún virðist vera nú seinni árin. Andstæðingar hika ekki við að nota hvað sem er til að koma höggi á mótherja sinn, ef þeir finna það ekki þá spinna þeir af fingrum fram, ekki satt?

Ég hlýt að spyrja þann sem er á þessu frumstæða og rætna plani; myndir þú vera tilbúin að galopna dyrnar að þínu einkalífi og heislufari? 

Komi þessi ,,kvittur" frá Margréti eða einhverjum öðrum, segir það allt sem þarf að segja um viðkomandi. Hver vill hafa slíkan einstakling með sér í liði? 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.1.2008 kl. 22:32

20 identicon

Les hérna og það er bara samsæri af samsæri ofan...

Mér finnst þetta einfalt... Íslendingar voru ósásttir og gerðu loksins einhvað í því og mótmæltu.  Auðvitað ekki hlustað á þá frekar en fyrri daginn.

Perósnólega líst mér ekkert á þessi skipti fram og til baka og vildi helst bara fá að kjósa aftur.  Það verður ekkert framkvæmt, allur tíminn fer í að skipa í nefndir aftur og aftur.

Gyða Bjarkadóttir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 01:36

21 identicon

Já það er ekki skrítið að sjálfstæðismönnum og Ólafi blöskri. Ég man ekki betur en Ólafi hafi fundist allt í lagi að vera með frammíköll og fleira þegar það hentaði honum í sambandi við Kárahnjúkavirkjun og er svo hálf grenjandi yfir því þegar fólk mótmælir svona vinnubrögðum eins og viðhöfð voru. Og ég skil sjálfstæðismennina vel sem eru argir út af þessu. Því ef hlutirnir hugnast þeim ekki eru þeir skrílslæti og fleira í þeim dúr. Ég er ánægður með að loksins láti fólk í sér heyra en þegi ekki nema þegar það hittist á kaffistofum.

Ómar Már Þóroddsson (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 01:36

22 identicon

Það sem er alvarlegast í þessu máli er að það hafi verið kjörnir borgarfulltrúar sem stóðu að því að nýðast á lýðræðinu. Svandís VG sagði það hreint út við fréttamann að hún hefði hvatt "sitt fólk" til að mæta og mótmæla. Það sást alveg með bendingum hennar í ræðustól til ungliðanna hversu skipuleg þessi uppþot voru. Svandís sýndi í verki að hún er öfgamanneskja sem er tilbúin að nýðast á lýðræðinu ef það hentar henni. Þá var Dagur verri ef eitthvað var er hann sagði að réttast væri að boða til kosninga, þrátt fyrir betri vitund að kosningar eru einungis á 4-ára fresti skv. LÖGUM. Þarna sýndu vinstri menn að ef það hentar þeim þá eru þeir tilbúnir að afbaka lýðræðið og skrumskjæla með öfgahyggju og skipulögðum uppþotum.

Kristófer (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 10:12

23 Smámynd: Jóhann Elíasson

Auðvitað er fólki frjálst að mótmæla en ég gat ekki með nokkru móti séð neitt sameiginlegt með þessum skrílslátum í ráðhúsinu og mótmælum!

Jóhann Elíasson, 27.1.2008 kl. 14:05

24 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Jóhann, það eru of margir sauðir í þessu þjóðfélagi og það er löngu kominn tími til þess að fólk láti í sér heyra !!

Óskar Þorkelsson, 28.1.2008 kl. 14:33

25 Smámynd: Jóhann Elíasson

Óskar, eins og ég sagði, þá er öllum frjálst að mótmæla en þeir sem mótmæla verða að gera greinarmun á mótmælum og skrílslátum.

Jóhann Elíasson, 28.1.2008 kl. 17:41

26 Smámynd: haraldurhar

  Sæll Sigurjón.

    Þú missir nokkur prik hjá mér með þessu bulli um borgarstjórnina.

Mig er farið að renna í grun þú hafir hug á að hafa vistaskipti innan tíðar.

haraldurhar, 29.1.2008 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband