Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir styður mannréttindabrotin

Ein af furðum íslensks samfélags er að Vinstri grænir sem hafa skipað sjálfa sig sem boðbera mannréttinda og kvenfrelsis hafa með stuðningi Samfylkingarinnar haldið áfram að vanvirða álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Mér varð hugsað til þessa þegar mér varð litið inn á ÍNN-sjónvarpsstöðina í gær og þar var Guðfríður Lilja svo umvefjandi og góðleg og af orðum hennar mátti skilja að hún mætti ekkert aumt sjá. Hin kalda staðreynd er hins vegar sú að hún styður stefnu Steingríms J. Sigfússonar um að koma ekki til móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, heldur þvert á móti halda mannréttindabrotum áfram á sjómönnum.

Gríðarleg tækifæri felast í þjóðfélaginu við að afnema óréttmæt atvinnuhöft og koma á meira réttlæti. Með því að það sé undir hælinn lagt hvort íslensk stjórnvöld virði yfirleitt álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna mun fólk ekki sækja rétt sinn þar sem óvíst er hvort nokkuð verði gert með niðurstöðuna.


400 ný störf á Akranesi

Núna í atvinnu- og gjaldeyrisleysinu velta menn vöngum yfir því hvað sé hægt að gera sem skapi vinnu og gjaldeyri. Það virðist ekki nóg að benda á hið augljósa, heldur virðist þurfa bæði að tyggja það og jafnvel melta fyrir þá sem eiga að fjalla gagnrýnið um þjóðfélagsmál. Í dag var ég staddur á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og þá benti Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, mér á að tapast hefðu úr bænum mörg hundruð störf í fiskvinnslu og sjósókn frá því að kvótakerfið hélt innreið sína í bæinn í allri sinni dýrð.

Þetta er ekki vegna tækninýjunga eða að vinnan hafi flust eitthvað annað á landið, heldur er ástæðan einnig sú að þegar kerfið var tekið í notkun var veitt á fjórða hundrað þúsund tonn af þorski en núna er leyfilegt að veiða 160.000 tonn. Slor er ekki bara slor, heldur vinna og gjaldeyrir.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að leyfa auknar veiðar, a.m.k. algjörlega óábyrgt að fara ekki yfir þær tillögur heldur slá þær út af borðinu. Það er búið að tyggja og melta, nú þarf bara að leyfa auknar veiðar.


Fengum að láni 2.000 krónur á hvert mannsbarn í heimi

Það getur verið nokkuð snúið að átta sig á þeirri skuldasúpu sem íslenska þjóðin er lent ofan í undir stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar.  Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa sjöfaldast á síðustu fjórum árum. Upphæðin sem þjóðin hefur fengið að láni er gríðarlega há, 13 þúsund milljarðar íslenskra króna, en í heiminum eru liðlega sex milljarðar manna. Við höfum því fengið að láni upphæð sem svarar til þess að 2.000 krónur hafi runnið til okkar frá hverjum einasta einstaklingi á jörðinni. Eru þá allir taldir með. Súdanar, Færeyingar, Kínverjar, vinir okkar Bretar og allir hinir.

Það er augljóst að þessir peningar komu ekki nema að litlu leyti til Íslands enda væru annars allar götur hér úr marmara og ljósastaurar úr gulli. Ábyrgð þeirra sem veittu þessi lán er ekki minni þeirra sem tóku þau. Íslenska þjóðin getur hvorki ábyrgst þessar skuldir né verið sett fram sem veð fyrir þeim. Þegar þjóð er komin í þá stöðu sem Ísland er komið í verða menn að staldra við, fara yfir stöðuna og leggja á það kalt mat hvað getum við greitt, hvað við eigum að greiða og hvernig við eigum að gera það. Ekki er hægt að ætlast til þess að þjóðin framkvæmi hluti sem eru óframkvæmanlegir og því blasir við að við verðum að gera skuldunautum okkar það ljóst af auðmýkt.

Lunginn af íslenskum stjórnmálamönnum sem nú bjóða sig fram til að leysa úr vanda þjóðarinnar virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir þeim gríðarlega vanda sem blasir við þjóðinni við að stoppa í 150 milljarða gat sem orsakað er að mestum hluta af gríðarlegum vaxtagreiðslum og tekjusamdrætti ríkisins. Í eldhúsdagsumræðu kom fram ein tillaga frá Samylkingunni, þ.e. að ganga í Evrópusambandið, en VG og Sjálfstæðisflokkur slógu um sig með frösum á borð við  "Við leysum þetta mál" og "Við förum í gegnum þetta saman". Allur tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja er 120 milljarðar og þó að hann sé tvöfaldaður dugir það ekki til að stoppa í fjárlagagatið.

Frjálslyndi flokkurinn kom einn fram með beinar tillögur um að auka tekjur með aukningu þorskveiða um 100.000 tonn sem gæfi þjóðarbúinu tugi milljarða í beinhörðum gjaldeyri. Frjálslyndi flokkurinn leggur sömuleiðis til lækkun vaxta og afnám verðtryggingar frá og með síðustu áramótum.

Skattatillögur Samfylkingar og Vinstri grænna eru athyglisverðar, á hverja þær eiga að leggjast og hverju þær eiga að bjarga. Þrátt fyrir að skattar yrðu hækkaðir hér upp úr öllu valdi duga skattahækkanir aldrei til þess að stoppa upp í nema pínulítinn hluta gatsins. Engin leið er að ná sköttum inn í ríkissjóð sem einhverju nemi nema hann lendi á millitekjufólki. Er það ekki einmitt fókið sem átti að slá skjaldborg um? Þá vitum við hvernig það er gert - með aukinni skattheimtu. Eina leiðin til að komast út úr þessarri stöðu er að framleiða sig út úr henni. Við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni og aðhaldssemi dugar heldur ekki til að loka 150 milljarða gati. Aukin skattheimta dregur þess utan mátt úr atvinnulífinu sem það má alls ekki við. Hér þarf að hvetja til aukinnar atvinnustarfsemi og skapa henni skilyrði, m.a. með vaxtalækkunum, en í því umhverfi sem atvinnulífinu er búið í dag vex ekkert.

Það gengur ekki að hér fari hundruð manns á atvinnuleysisskrá á dag. Þessu verður ekki breytt nema með almennum aðgerðum, stöðugleika í gjaldmiðlinum og  miklu lægri vöxtum. Þetta vita allir og viðurkenna, en síðasta vaxtalækkun sýnir svo ekki verður um villst að stjórnvöld eru hvorki að hugsa um hag heimila né fyrirtækja í landinu. Nær allar aðrar þjóðir eru komnar með stýrivexti upp á 0-2% en við erum enn með 15,5% stýrivexti, væntanlega þá til þess að slá á þennslu!

Áfram Grindavík

Eftir fermingu og fermingarveislu sonarins Þórhalls var haldið vestur í bæ þar sem krökkt var af fólki sem streymdi í KR-heimilið. Við Þórhallur og Sigrún ákváðum að skella okkur í sparifötunum á körfuboltaleik. Okkur Þórhalli fannst nærtækast að styðja Ungmennafélagið Grindavík úr því að Ungmennafélagið Tindastóll spilaði ekki úrslitaleikinn að þessu sinni. Stemningin var frábær, það munaði mjóu að Grindvíkingar næðu að innbyrða sigur á lokasekúndum leiksins. Það tókst ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu.

Til hamingju, KR, með Íslandsmeistaratitilinn.

Við ákváðum að skella okkur á körfuboltaleik beint úr fermingarveislunni


mbl.is KR Íslandsmeistari eftir eins stigs sigur 84:83
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálaklúbburinn og Viðskiptagengin - Framsókn með risastyrk frá formanni Sjálfstæðisflokksins

Frjálslyndi flokkurinn hefur haft opið bókhald frá upphafi og hefur ekki haft neitt að fela líkt og hinir flokkarnir á Alþingi. Allir hinir flokkarnir þar með taldir VG hafa verið á framfæri skulduga útgerðaraðalsins og má eflaust rekja tregðu flokkanna til þess að koma á móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna til þeirrar staðreyndar.

Það kemur mér ekki á óvart að fyrrum stjórnarformaður BNT og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson hafi veitt Framsóknarflokknum risastyrk.  Erfitt er að aðgreina Stjórnmálaklúbb Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá hagsmunagengjunum sem hafa tröllriðið íslensku samfélagi.

Það er orðið löngu tímabært að það fari fram tiltekt í íslenskum stjórnmálum.


mbl.is Framsókn opnar bókhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú stig sannleikans um fjármál stjórnmálaflokkannna

 Frjálslyndi flokkurinn hefur frá upphafi barist fyrir opnun bókhalds um fjármál stjórnmálaflokkanna og reglum um fjárframlög eins og eðlilegt þykir í vestrænu samfélagi. Í fyrstu þegar frjálslyndir settu þetta fram fyrir kosningarnar 1999 var lítið gert úr hugmyndinni og jafnvel grín gert að formanninum fyrir að ætla að setja reglur um ónauðsynlega hluti. Á öðru stigi umræðunnar var ráðist harkalega á Frjálslynda flokkinn, menn á borð við Pétur Blöndal töldu að reglur um fjárframlög til stjórnmálaflokka væru lýðræðinu hættulegar vegna þess að menn færu alltaf í kringum reglurnar.

 Nú erum við komin á þriðja stigið þar sem þetta er orðinn viðtekinn sannleikur sem allir hafa verið sammála um - alltaf. Þetta á reyndar við um fleiri baráttumál Frjálslynda flokksins, s.s. kvótakerfið og verðtrygginguna.

 Svo má kannski bæta við að Sjálfstæðisflokkurinn er að mjakast upp á stig tvö hvað varðar kvótakerfið.


mbl.is Hætta á einangrun Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindabrot og kynferðisbrot

Það er ömurleg staða sem íslenskt samfélag er í þegar áhrifamestu stjórnmálaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og örugglega Framsóknarflokkur líka, hafa verið á jötu fyrirtækjanna sem settu landið á hausinn. Það er stórfurðulegt að stjórnmálamennirnir sem voru nýbúnir að setja reglur um opið bókhald til að tryggja lýðræðið hafi notað síðustu dagana fyrir gildistöku laganna til að dæla milljónum og tugmilljónum í kosningasjóði flokkanna. Það er óásættanlegt með öllu rétt eins og það er óásættanlegt að íslensk stjórnvöld hafi brotið mannréttindi á hópi fólks sem hefur þar að auki fengið álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að reglurnar séu ósanngjarnar og að þeim beri að breyta.

Frjálslyndi flokkurinn hefur frá upphafi haft opið bókhald og barist fyrir því að stjórnmálaflokkarnir opnuðu bókhald sitt, að mannréttindi væru virt og að landið væri eitt kjördæmi. Ég er viss um að t.d. mannréttindabrotin í sjávarútvegi hefðu ekki gengið svona langt ef landið væri eitt kjördæmi, þegar t.d. heilu byggðarlögin á Austfjörðum eða Vestfjörðum hafa verið svipt atvinnuréttindum sínum á það ekki eingöngu að vera verkefni eða áhyggjuefni kannski fimm þingmanna af svæðinu heldur ættu allir þingmenn í fagnefndum að setja sig inn í málin og taka afstöðu til þeirra, rétt eins og afstaða til kynferðisbrota á ekki að vera bundin við þingmenn þeirra kjördæma þar sem brotin eru framin. Og fjölmiðlar mættu herða sig.

Gríðarleg tækifæri felast í því að opna fyrir meiri veiðar og það á eftir að verða þjóðinni til björgunar í efnahagsþrengingunum. Í réttlætinu felast tækifæri.


Efnahagsstefna Samfylkingarinnar skrifuð af Icesave-fyrirsætunni

Fyrirsæta Icesave, Jón Sigurðsson, fyrrum formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, sem var helsta númerið í auglýsingabæklingi Landsbankans fyrir útibú hans í Hollandi - ekki er ár síðan hann kom út - er meðal höfunda efnahagsstefnu Samfylkingarinnar. Ritstjórinn er enginn annar en fyrrum aðstoðarmaður Icesave-ráðherrans Björgvins G. Sigurðssonar, Jón Þór Sturluson. Hann gat sér gott orð fyrir árangursríkt samstarf við Tryggva Þór Herbertsson þegar þeir skrifuðu saman varnarrit fyrir olíusamráðssvindli olíufélaganna um árið. Þeir félagarnir komust að því að svindlið hefði nánast ekkert skaðað hag þjóðarinnar.

jón

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að mörgum orðum sé raðað saman í efnahagsstefnunni er innihald hennar afar rýrt í roðinu. Það er óljós greining á ástandinu og mjög óljósar áherslur um hvernig eigi að fara út úr þröngri stöðu. Talað er um að halda áfram að lækka vexti rétt eins og sú vegferð sé hafin að einhverju marki. Þetta er eins og að koma að stórbrunnu húsi og byrja á að tala um að tímabært sé að sækja kannski vatn í brunninn. Verst þótti mér að lesa um nýtingu sjávarauðlindanna en í þeim torræða kafla má helst greina að það eigi að auka flækjustigið og torvelda aukningu veiðiheimilda.

Til samanburðar er stefna Frjálslynda flokksins í efnahagsmálum á mannamáli sú að auka framleiðsluna. Við viljum auka veiðiheimildir í þorski strax um 100.000 tonn og ná þannig í tugi milljarða í beinhörðum gjaldeyri. Sömuleiðis viljum við gefa handfæraveiðar frjálsar en það frelsi myndi búa til hundruð starfa vítt og breitt um landið og í lokin er rétt að geta þess að Frjálslyndi flokkurinn vill ekkert hálfkák í lækkun vaxta og afnámi verðtryggingar.


Bjarni treystir á þvottamaskínuna

 Ég sá glefsur úr kjördæmaþætti kvöldsins þar sem fulltrúi Frjálslynda flokksins vakti m.a. verðskuldaða athygli á því að fyrir tveimur árum vöruðum við af römmu afli við verðtryggingunni sem allir sjá núna að er voði heimilanna.

 Nýbakaður formaður Sjálfstæðisflokksins var aldeilis ekki á skotskónum þótt hann hafi reynt hvað hann gat að sannfæra áhorfendur um að kvótakerfið hefði skilað gríðarlegri hagræðingu. Maðurinn virðist ekki vita að verðmæti sjávarfangs hafi staðið í stað eða dregist saman á síðustu árum á meðan skuldir hafa margfaldast. Sömuleiðis lítur hann algjörlega framhjá þeirri staðreynd að kvótakerfið brýtur í bága við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og að stjórnvöld eru siðferðilega skuldbundin til að breyta kerfinu í átt til réttlætis. Í breytingunum felast líka tækifæri til að gera betur. Allt þetta veit Bjarni Benediktsson en hann heldur öðru blákalt fram, ekki vegna þess að hann trúi því heldur vegna þess að hann treystir því að áróðursmaskínan haldi áfram að draga upp falska mynd af ástandinu.


mbl.is Skilað til lögaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað keypti FL Group af Sjálfstæðisflokknum?

Það sér hver maður að 30 milljóna króna greiðsla er ekki styrkur. Mér kæmi ekki á óvart að þessir tugir milljóna hefðu runnið í dýra prófkjörsbaráttu þeirra frambjóðenda sem vilhallir voru FL, s.s. Illuga Gunnarssonar, núverandi oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík, en hann háði rándýran prófkjörsslag á þessum tíma og launaði vissulega fyrir sig með því að nota sparnað fólks í peningamarkaðsbréfum til að fjárfesta fyrir milljarða í Baugsbólunni, FL Group og hinu sem var allt um það bil að springa.

Skattgreiðendur eru neyddir til þess að borga brúsann, og kjósendum í Reykjavík gefst kostur á að kjósa þann sem ber höfuðsök á að hafa glutrað fénu til starfa á þjóðþingi Íslendinga - eða láta það ógert.

Nú er stóra spurningin hvort stefnan hafi brugðist eða fólkið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband