Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Vegna vankunnáttu RÚV

Ég var með öðrum frambjóðendum í kjördæmaþætti í sjónvarpinu áðan. Það var vandasamt verk hjá Þóru Arnórsdóttur að stjórna þættinum en mér fannst hún ráða býsna vel við það. Mér þótti þó vænt um að fá ítrekaða spurningu um fiskveiðistjórn þar sem spyrillinn opinberaði þá skoðun að 100.000 tonna aukning á þorskveiðiheimildum myndi þýða að við sætum uppi með gríðarlegt magn af óseljanlegri vöru. Það er með ólíkindum að því sé haldið fram að Íslendingar ráði heimsmarkaðsverði á hvítfiski og að öll aukning verði til þess að frystigeymslur landsmanna dugi ekki fyrir aflaaukningunni og við sitjum uppi með óseljanlega vöru.

Þetta er sérkennilegt viðhorf sem endurspeglar ranghugmyndir fréttamanna. Málið er að undanfarið hefur svo mikið dregið úr veiðum í meintu uppbyggingarstarfi þorsksins að þorskveiðin er rétt svipur hjá sjón miðað við það sem hún var fyrir nokkrum árum. Íslendingar hafa glatað ákveðnum mörkuðum, bara það að skera úr liðlega 200.000 tonnum í 130.000 tonn hafði alvarlegar afleiðingar fyrir markaðina. Það er ekki fæðuskortur í heiminum og ef ekki berst fiskur borða menn annað. Þess vegna þarf að vinna markaðina aftur. Það sem Íslendingar einbeittu sér að - eðlilega - voru dýrustu bitarnir á markaðnum sem verða að vonum harðast úti þegar efnahagsþrengingar ganga yfir heiminn.

Mér fyndist eðlilegt að fréttamenn RÚV beindu þeirri spurningu til sjálfstæðismanna, s.s. Ásbjörns Óttarssonar, hvernig þeir rökstyddu það að aflamarkskerfi væri betra en sóknarmarkskerfi eins og er í Færeyjum. Staðreyndin er sú að í Færeyjum koma 90% útflutningstekna af fiskveiðum - ég minni á sóknarmarkskerfi Færeyinga - og það eru einmitt Færeyingar sem geta lánað okkur beinharða milljarða - og það þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum eigin kreppu ekki alls fyrir löngu. Færeyingar hafa veitt langt umfram ráðgjöf og m.a. á umliðnum árum tugi prósenta umfram ráðgjöf en SAMT er þorskstofninn á uppleið. Að vísu er ýsustofninn á niðurleið.

Þjóð sem er á hausnum getur ekki leyft sér að ana áfram í sömu villunni þótt Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur reyni að setja undir sig hausinn og móast við.


Gleði og sorg í dag

Í Silfri Egils í dag kom það fram sem Guðjón Arnar hefur haldið fram í lengri tíma, þjóðin getur ekki staðið undir þeim fjárskuldbindingum sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylking hafa reynt að binda henni. Tveir fyrrnefndu flokkarnir eiga reyndar höfuðsök á ástandinu.

Leiðin sem við verðum að fara er að semja okkur frá skuldunum og síðan að auka framleiðsluna en það er bæði nærtækast og eðlilegast að gera með því að auka sókn í sjávarauðlindina.

Annars bar dagurinn í dag með sér bæði sorg og gleði eins og segir í fyrirsögn. Þótti mér miður að Guðni Halldórsson, sá mæti frjálslyndi liðsmaður, sá sér ekki fært að mæta á Dússabar þrátt fyrir að ég hafi fengið skilaboð um að hann væri að gera sig kláran. En koma tímar, koma ráð.

Ég fékk engu að síður gleðifréttir í Borgarnesi, ég hitti Kalla Bjarna poppstjörnu sem var hress og kátur og tjáði mér þau gleðitíðindi að von væri á plötu. Það væri fróðlegt að vita hvað Jens Guði finnst um Kalla enda er Jens helsti poppfræðingur Frjálslynda flokksins og jafnvel þjóðarinnar, að vísu sérhæfður í færeyskum söngvum og pönksöngvum.


Þegar Guðni Halldórsson mætir ekki á fund Frjálslynda flokksins mætir flokkurinn til Guðna

Á morgun, sunnudaginn 5. apríl, munum við Guðjón Arnar og Ragnheiður Ólafsdóttir bjóða Borgfirðingum í kaffi og spjall á Dússabar kl. 16-17:30.

Á fundinum munu frambjóðendur fara yfir hvers vegna það sé rétt að afnema verðtryggingu lána og lækka vexti strax. Sömuleiðis verður farið yfir rökstuðning fyrir því að gefa handfæraveiðar frjálsar og auka veiðiheimildir.

Allir eru boðnir velkomnir en sérstakar vonir eru bundnar við að Guðni Halldórsson sem gaf kost á sér til trúnaðarstarfa á vegum flokksins sjái sér fært að mæta en hann gat sem kunnugt er ekki mætt á landsþing Frjálslynda flokksins. Nú þegar hef ég fengið boð um að Guðni sé að gera sig kláran á fundinn.


Frambjóðandi Samfylkingarinnar spyr og svarar sjálfum sér

Frambjóðandi Samfylkingarinnar ber fram þá spurningu á opinberum vettvangi hvort Frjálslyndi flokkurinn sé á móti vistvænum veiðum. Í framhaldi af spurningunni vitnar viðkomandi í grein þar sem fram kemur að Frjálslyndi flokkurinn styður frjálsar handfæraveiðar, enda hefur flokkurinn borið fram tillögu þess efnis á Alþingi, ekki einu sinni heldur oft. Það sem frambjóðendur Frjálslynda flokksins gera sérgrein fyrir er að augljóst er að það er hægt að stórauka þorskveiðar á Íslandsmiðum. Það er sömuleiðis vægast sagt vafasamt að grauta saman veiðiheimildum handfærabáta og togveiðum eins og Samfylkingin virðist gera einhverra hluta vegna. Togveiðar hafa sjaldan eða aldrei verið minni en einmitt núna á miðunum í kringum Ísland.
Mig furðar nokkuð á því, en geri í sjálfu sér ekki athugasemd við það, að Þórður Már virðist skella upp úr í hvert sinn sem hann les grein eftir mig um sjávarútvegsmál, hvort sem er um ábyrgð Samfylkingarinnar á mannréttindabrotum eða þegar ég geri athugasemdir við að Samfylkingin sverti störf togarasjómanna. Hagsmunasamtök bæði íslenskra og erlendra sjómanna hafa séð ástæðu til að boða mig á fundi og biðja mig að halda erindi um stjórn fiskveiða og hvaða ástæða er fyrir því að fiskistofnar mælast minni eftir því sem minna er veitt. Skoskir og írskir sjómenn beittu sér fyrir því að ég, Jón Kristjánsson fiskifræðingur og Jørgen Niclasen, núverandi utanríkisráðherra Færeyja, héldum tölu í fiskveiðinefnd Evrópusambandsins fyrir nokkru.
Von mín er sú að frambjóðendur Samfylkingarinnar fari yfir þessi mál í alvöru, enda eru m.a. nýjar fréttir frá Færeyjum sem gefa skýrt til kynna að þorskstofninn sé á uppleið þrátt fyrir kröfu reiknisfiskifræðinga um að skera veiði niður um 50%. Það að auka veiðar núna þegar verulega kreppir að ætti að skoðast í fullri alvöru en ekki því glensi sem þjakar þennan frambjóðanda Samfylkingarinnar.
Í lokin er rétt að geta þess að ég sækist ekki eftir sæti á Alþingi vegna þess að ég sé á höttunum eftir þægilegri innivinnu, eins og frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi virðast telja. Ekki veit ég hvers vegna þeir telja að seta á löggjafarþinginu sé ávísun á eitthvert hóglífi. Þau ár sem ég sat á þingi lagði ég mig allan fram í vinnu og heiti fólki að gera það áfram ef tækifærið býðst.

Þorskurinn á uppleið í Færeyjum þrátt fyrir umframveiði í áratug

Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt fram þá ábyrgu tillögu að auka framleiðsluna í samfélaginu. Auðveldasta leiðin til þess er að veiða mun meira en við gerum nú. Núverandi stjórnvöld virðast ekki einu sinni treysta sér til að skoða það að veiða meira en Hafró hefur lagt til. Þau telja vænlegra að halda mannréttindabrotunum áfram, atvinnuhöftum og gjaldeyriskreppu. Ekki þarf að fara langt til að sjá að þótt veitt sé tugi og allt að 50% umfram það sem reiknisfiskifræðingar hafa ráðlagt virðist það alls ekki hafa haft afdrifarík áhrif á fiskistofnana.

Rétt í þessu var ég að lesa gögn frá færeysku hafrannsóknastofnuninni sem taldi eina vitið ef ekki ætti illa að fara síðasta sumar að skera fiskidagana niður um 50%. Hver ætli niðurstaðan hafi orðið úr færeyska rallinu? Þorskurinn er á uppleið, ufsinn líka en ýsan eitthvað að gefa eftir.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband