Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Grenin á höfuðborgarsvæðinu

Talsverð umræða er í Reykjavík, og jafnvel mótmæli, vegna breytingar á einhverri hestarétt. Síðan virðist sem góður slatti af borgarfulltrúum sé að fara á taugum yfir því að borgarstjórinn ætli að standa við kosningaloforð um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fari ekki úr henni og að hugsanleg færsla hans verði rædd í tengslum við öryggismál, þ.e. aðgang landsbyggðarfólks að sjúkrahúsinu.

Ég er nýbúinn að heimsækja höfuðstaðinn. Það kemur mér nokkuð á óvart að umræddir borgarfulltrúar sem leggja áherslu á þessi mál njóta mikillar samúðar í fjölmiðlum enda tel ég um miklu brýnni mál að ræða, s.s. að taka á þeim niðurníddu húsum og grenum sem er víða að finna í miðborginni.

Einnig væri mál málanna að fara að athuga hvort erlent verkafólk sé ennþá í þeim sporum að vera gert að búa í iðnaðarhúsnæði, hundruðum eða þúsundum saman. Það er mun brýnna en að vera að hugsa um færslu flugvallarins sem er að öðru leyti búið að ákveða að fari ekki næsta áratuginn.


Ágúst fann það

Fátt hefur meira verið rætt á kaffistofum landsins en hvað hafi raunverulega breyst með því að Samfylkingin tók sæti Framsóknarflokksins í ríkisstjórn. Sumir hafa bent á að ríkisútgjöld hafi blásið út af meiri krafti en áður og að ójafnvægið í efnahagslífinu sé orðið meira en það var. Sendiherrum hefur líka fjölgað. Aðrir hafa bent á að ferðagleði ráðherra er meiri en áður á meðan ráðherrar virðast vera jafn staðfastir og viljugir og áður í að brjóta mannréttindi á sjómönnum.

Það er greinilegt að þessi umræða leggst orðið þungt á varaformann Samfylkingarinnar sem er farinn að leita að málum sem hafa raunverulega breyst til hins betra. Og jú, hann státar hróðugur af því á vefsíðu sinni að hjartalæknar séu nú aftur komnir á samning við Tryggingastofnun.


Þöggunin heldur áfram í Silfri Egils

Sú er raunin að málefni alþýðufólks sem er ekki nógu sívíliserað eða intellígent, s.s. sjómanna og vörubílstjóra, eiga ekki upp á pallborðið hjá þáttastjórnandanum Agli Helgasyni. Hann hefur hvað eftir annað hlíft stjórnmálamönnum við að svara því hvernig þeir ætli að bregðast við mannréttindabrotum gagnvart íslenskum sjómönnum.

Nú í vikunni bar það til tíðinda á forsíðu Moggans að grein hefði verið birt í Nature þar sem vísindamennirnir tóku undir sjónarmið Jóns Kristjánssonar, mín og fleiri um að nýtingarstefna Hafró væri kolröng þannig að nægt tilefni hefði verið til að taka málefni sjávarútvegsins til umræðu. Einhverra hluta vegna þykir það ekki nógu fínt, ekki nógu mikið in, og meira reið á að hlýða á rök aldinna stjórnmálamanna sem deildu um mögulega Evrópusambandsaðild 2020.

Það sem helst bar til tíðinda í þættinum var að Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra sem leit óvenju vel út greindi yfirvegaður og rólegur þjóð sinni frá því að helsta verk Seðlabankans og forsætisráðherrans væri að kría út stórt erlent lán til að rétta við gengi íslensku krónunnar.

Það er stórfurðulegt í ljósi umfjöllunar Nature og málefnalegrar gagnrýni á ráðgjöf að ráðamenn fari ekki yfir það hvort skynsamlegt sé að veiða meiri þorsk.


Eru íslenskir blaðamenn samþykkir mannréttindabrotum?

Fyrr í vikunni gerði ég að umtalsefni hver ástæðan væri fyrir því að ríkisblaðamaðurinn Egill Helgason hlífði Ingibjörgu Sólrúnu við að svara fyrir mannréttindabrot ríkisins á íslenskum sjómönnum. Hann gerði að einhverju leyti grein fyrir ástæðunni í athugasemd hér á síðunni og mátti ráða af skrifum hans að af efnahagslegri ástæðu mætti ekki ræða þessi mál.

Í hádegisviðtali Stöðvar 2 bar svo við að annar fréttamaður, Heimir Már Pétursson, fyrrum varaformannsefni Samfylkingarinnar, tók viðtal við skoðanabróður sinn, Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra. Talið barst mjög að mannréttindamálum í Kína en fréttamaðurinn sá hins vegar ekki ástæðu til að spyrja einnar lítillar spurningar um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um brot ríkisstjórnarinnar á atvinnuréttindum íslenskra sjómanna.

Ef til vill er líka um tillitssemi að ræða, það að ræða mannréttindamálin er eins og að ræða snöru í hengds manns húsi.


Gott hjá Gulla

Ég verð að hæla gömlum blaðbera Þjóðviljans Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra fyrir að setjast niður með hjúkrunarfræðingum og fara yfir rök þeirra í vaktadeilunni illskiljanlegu.  Það var greinilegt að ráðherra var tilbúinn að gera fleira en gott þykir og setjast niður með þeim sem hafa haldið uppi harðri gagnrýni á störf hans.  Niðurstaðan af þessum viðræðum var sú að það náðist sátt um að leggja til hliðar umdeildar breytingar á vaktafyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga á LSH.  Guðlaugur Þór hefur væntanlega orðið þess áskynja í viðræðunum í gærkvöld að það hefur verið eitthvað verið til í þeim málflutningi að stjórnendur LSH hafi nánast látið hjá líða að hafa samráð við hjúkrunarfræðinga um boðaðar breytingar.

Það væri óskandi að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni gætu tekið Guðlaug Þór sér til fyrirmyndar. Ég á þá sérstaklega við sjávarútvegsráðherra sem hefur þverskallast við að hlusta á málefnalega gagnrýni á núverandi óstjórn fiskveiða og jafnvel þó svo að kerfið hafi verið úrskurðað ósanngjarnt af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Vísindamenn sem hafa efast um ráðgjöf Hafró og hafa bent á að veiðin virðist minnka stöðugt eftir því sem uppbyggingarstarf stofnunarinnar heldur lengur áfram fá ekki einu sinni aðgang að vísindagögnum nema reiða fram háar upphæðir.


1. maí og mannréttindabrot stjórnvalda

1. maí er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, dagurinn sem alþýða manna hefur um áratugaskeið notað til að krefjast réttlátara þjóðfélags. Það er því vel við hæfi að óska landsmönnum öllum, hvar í stétt sem þeir skipa sér, til hamingju með daginn um leið og hugað er að inntaki baráttunnar um að gera Ísland að réttlátara þjóðfélagi.

Eitt af því sem hvílir eins og mara á íslensku þjóðfélagi er óréttlátt kvótakerfi sem hefur verið úrskurðað af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem ósanngjarnt og að það brjóti stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi.

Það kemur verulega á óvart ef forystumenn íslenskrar verkalýðshreyfingar leggja ekki þunga áherslu á þessi mannréttindabrot stjórnvalda og krefjast í ávörpum dagsins breytinga til að gera íslenskt samfélag réttlátara.

Kvótakerfið byggir á vægast sagt vafasömum forsendum sem gengur í berhögg við viðtekna vistfræði en fellur einhverra hluta vegna hagfræðingum vel í geð þrátt fyrir að skila minni og minni afla á land. Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvort verkalýðshreyfingin hafi að leiðarljósi réttlæti og skynsemi í ávörpum sínum eða sé heft af hagfræðilegri bábilju sem hvílir á brauðfótum.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband