Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Fjölskyldan styður Hannes Hólmstein

Ég var í boði þar sem hinir og þessir voru að ræða mál Hannesar Hólmsteins. Flestir, ef ekki allir, vorkenna prófessornum vegna bágrar fjárhagsstöðu hans, vilja fyrirgefa honum og meta það sem hann hefur lagt til umræðunnar í íslensku samfélagi óháð því hvort þeir hafa verið sammála honum eða ekki. Það voru að vísu nokkrir sjómenn sem ala þá von í brjósti að Hannes endurskoði fleiri þætti en þá sem hann hefur verið réttilega dæmdur fyrir að hafa haft rangt við í.

Þá á ég auðvitað við það þegar hann hefur farið um heimsbyggðina og hælt íslenska kvótakerfinu í hástert. Sjómennirnir bíða spenntir eftir því að Hannes mæti í Kastljósþátt í næstu viku jafn iðrandi og biðjist afsökunar á að hafa platað heimsbyggðina með röngum fullyrðingum um að eitthvað gott væri við íslenska kvótakerfið sem hefur verið dæmt af Sameinuðu þjóðunum brotlegt gegn mannréttindum.

Það verður þó að segjast eins og er að það er ein gömul kona sem er sanntrúaður kommúnisti sem var ekki jafn jákvæð í garð Hannesar og aðrir. Hún hló við og lét flakka að Hannes yrði ekki eins skaðleg padda eftir þetta mál og fyrir.

Fyrirgefum Hannesi.


Björn Bjarnason klókur

Það hefur lengi verið vitað að Birni hefur verið meinilla við nýja varnarmálastofnun Ingibjargar Sólrúnar - sem mun kosta einn og hálfan milljarð árlega - vegna þess að hann telur að verksvið hennar myndi skarast við stofnanir dómsmálaráðuneytisins sem sinna nú þegar ýmsum þáttum sem munu ella færast undir nýja stofnun Samfylkingarinnar.

Eflaust þykir Birni einnig nóg um kostnaðinn sem skötuhjúunum Geir og Rúnu þykir sjálfsagt smáaurar enda flögra þau um á einkaþotu um hvippinn og hvappinn.

Það kemur mér ekki á óvart að Björn Bjarnason ætli sér að nota mjög umdeildar skipulagsbreytingar á Keflavíkurflugvelli, þar sem á að sundra löggæslustarfseminni, sem skiptimynt í viðræðum um að halda starfsemi hinnar nýju stofnunar Samfylkingarinnar í lágmarki.


Esikíel yrkir og Frjálslyndir í Skagafirði álykta

Ályktunin er sem hér segir:

Frjálslyndir í Skagafirði furða sig á því að sveitarstjórn Skagafjarðar skuli ekki beita sér fyrir því að ríkisstjórnin virði undanbragðalaust álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, þannig að stjórnvöld hætti að brjóta mannréttindi á skagfirskum sjómönnum. Við það myndi aukið líf færast í hafnir og atvinnulíf Skagafjarðar. Með þögninni er meirihluti sveitarstjórnar Samfylkingar og Framsóknar að leggja blessun sína yfir áframhaldandi mannréttindabrotum.

Á fundi Frjálslyndra í Skagafirði orti Esikíel þessa vísu um tilefni þotuflugs Rúnu og Geira.

Haarde sprangar hraustur, snar

hristir vanga skrínin, 

Rúnu langar eflaust að

undurganga fýrinn.


Simmi góður við Geir

Sigmar ræddi við drottninguna Geir í Kastljósinu í kvöld. Það verður að segjast eins og er að Sigmar spurði gagnrýninna spurninga án þess að vera með einhvern yfirgang.

Vandamálið var bara að Geir gat ekki svarað neinum spurningum um hvers vegna allt væri hér í efnahagslegri óvissu eftir svo góða stjórn hans á efnahagsmálum. Það eina sem Geir gat svarað með fullnægjandi hætti og útskýrt sannfærandi fyrir þjóðinni var hagkvæmni þess að leigja einkaþotu undir sig og sína til að fara til Búkarest á morgun. Hann sagði að þá tapaði hann ekki vinnudegi á því að kúldrast á hótelherbergi í London meðan hann biði eftir framhaldsflugi.

Það er vonandi að hann sofi vel heima hjá sér í nótt.


Frjálsir Vestfirðir

Hún hefur farið nokkuð hátt, sú umræða meðal Vestfirðinga og annarra þeirra sem er annt um byggðina að helsta ráðið til að snúa við byggðaþróuninni, eða réttara sagt byggðahnignuninni, sé að stofna fríríki eða sjálfstjórnarhérað. Mér er mjög annt um byggðirnar fyrir vestan og fannst á tíðum ferðum mínum sárt að koma til staða þar sem ég sá byggðunum greinilega hnigna frá ári til árs.
Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt eða árangursríkt fyrir þá sem vilja breytingu að leiða talið að einhverju sjálfstæði Vestfjarða og leiða þá talið frá meginmeinsemdinni sem er fiskveiðióstjórnin. Þá verður að segja eins og er að mikill meirihluti þeirra stjórnmálamanna sem hafa komið frá Vestfjörðum hefur stutt kvótakerfið sem hefur grafið undan byggðinni. Það hafa þeir gert þrátt fyrir loforð um annað fyrir kosningar og jafnvel eftir að hafa gengið undir borða á fjölmennum fundum þar sem á hefur verið letrað að orð skuli standa.
Eitt síðasta voðaverk stjórnmálamannanna var að setja minnstu bátana inn í alræmt kvótakerfi og það var gert þrátt fyrir viðvaranir og vissu um voveiflegar afleiðingar þess fyrir vestfirskar byggðir. Mun minna hefur heyrst frá bæjarstjórninni á Ísafirði um að verða við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en að beita sér fyrir mögulegri byggingu olíuhreinsistöðvar innan einhverra ára. Samt sem áður liggur fyrir að íslensk stjórnvöld þurfa að bregðast við áliti Sameinuðu þjóðanna eftir örfáar vikur.
Skynsamleg breyting sem opnaði leið Vestfirðinga til sjávarins á ný yrði gríðarleg lyftistöng fyrir vestfirskar byggðir. Þá ríður mikið á að þeir sem óska Vestfjörðum og hinum dreifðu byggðum bjartrar framtíðar leggist á árar um breytingar í átt að frelsi til fiskveiða á Íslandi.

Grein sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn var.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband