Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hagur fjöldans

Innflytjendamálið er stórt mál sem varðar framtíð Íslands og þróun samfélagsins. Maður hefur orðið var við það að aðrir stjórnmálaflokkar en Frjálslyndi flokkurinn hræðast þessa umræðu og hafa reynt að úthrópa hana sem vonda þótt rök Frjálslynda flokksins hafi verið fengin beint úr athugasemdum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Skoðun mín er sú að fjórflokkurinn hafi gert mikil mistök við að nýta ekki þær heimildir sem voru fyrir hendi í samningi um Evrópska efnahagssvæðið sem kvað á um að hægt yrði að fresta frjálsri för launafólks frá fátækum Evrópulöndum um nokkurra ára bil.

Það sem hefur kannski verið átakanlegast í umræðunni er að sjálfskipaðir fulltrúar upplýstrar umræðu hafa beitt óvönduðum meðulum við að koma í veg fyrir nauðsynleg skoðanaskipti, s.s. með því að ráðast persónulega að æru formanns Frjálslynda flokksins og fjölskyldu hans. Má í því sambandi nefna grein Illuga Jökulssonar í Blaðinu fyrir nokkrum mánuðum.

Í umræðum á Stöð 2 í kvöld reyndi svo fulltrúi Samfylkingarinnar að persónugera þessa umræðu í einstaka framámönnum í Frjálslynda flokknum í stað þess að ræða þessi mikilvægu mál með málefnalegum hætti. Hann var með ódýran málflutning sem fólk sér í gegnum.

Mér finnst fyllilega koma til greina að nota þau undanþáguákvæði sem við höfum til að stöðva hina frjálsu för meðan við náum áttum og ráðum í sameiningu ráðum okkar um það hvernig við ætlum að þróa okkar íslenska samfélag, hvernig við getum tekið sómasamlega á móti útlendingunum og tryggt kjör þeirra sem og íslensks verkafólks.


Sonur vinar míns berst í Írak

Ég hef alltaf verið andstæðingur Íraksstríðsins og fannst sorglegt að Íslendingar skyldu styðja Bush-stjórnina í þessu ömurlega stríði. Stundum snerta heimsviðburðirnir Íslendinga með beinum hætti og berast jafnvel inn á gafl til manns. Það gerðist í dag þegar sonur vinar míns, Kristján Sigurðsson frá Siglufirði og Florida, kom til Íraks til að taka þátt í bardögum.

Í þessum hildarleik hafa ekki einungis farist tugþúsundir eða hundruð þúsunda Íraka, heldur einnig mörg þúsund ungir Bandaríkjamenn, og fleiri hafa særst og beðið tjón á sál og líkama.

Maður óskar þess að friður komist á sem fyrst þótt vonin sé veik. Ég furða mig alltaf á því að sjálfstæðis- og framsóknarmenn þráist við að viðurkenna mistök sín og biðja bæði íslensku þjóðina og umheiminn afsökunar og koma Íslandi af þessum lista yfir viljugar og stríðsfúsar þjóðir.


Það er ekki allt sem sýnist

Það má eflaust áætla að verðgildi litla hússins míns í Skerjafirði hafi aukist um tugi prósenta en notagildi þess hefur alls ekki aukist. Eitt er þó víst að viðhaldskostnaður hefur aukist.

Það ber að fjalla um þessar hagfræðilegu staðreyndir af ákveðinni varfærni og gagnrýni. Það er ekki allt sem sýnist.

Það sem veldur mér hugarangri er að á síðustu tveimur árum hafa hreinar skuldir íslenska þjóðarbúsins tvöfaldast, þ.e. skuldir í útlöndum að frádregnum eignum.


mbl.is Segja eignir heimila hafa aukist meira en skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðahúsið er ótrúverðugt

Fulltrúar Alþjóðahússins hafa stundað það að afflytja málflutning Frjálslynda flokksins og bendla flokkinn við ýmis óhæfuverk. Fremstur í flokki þessa hefur farið framsóknarmaðurinn og framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, Einar Skúlason.

Það er erfitt að sjá að þessi málflutningur forsvarsmanna Alþjóðahússins geti í nokkru þjónað hagsmunum útlendinga á Íslandi, en mögulega telur Einar þetta þjóna hagsmunum Framsóknarflokksins.

Nýlegt rit Alþjóðahússins er mjög svo myndskreytt af kjörnum fulltrúum Framsóknarflokksins en það bólar lítið á að blaðið birti viðtal sem blaðamaður blaðsins tók við Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, um málefni útlendinga á Íslandi þar sem skynsamleg stefna flokksins kemur skýrt fram.

Ég vona að Alþjóðahúsið fari að taka málefnalegan þátt í umræðunni um málefni útlendinga. Það er það sem kemur þeim best.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband