Leita í fréttum mbl.is

Hvort er Evrópusambandið himnaríki eða alræðisríki?

Sínum augum lítur hver á silfrið.

Samfylkingin lítur á Evrópusambandið sem frelsun. Manni er stundum brugðið við að horfa upp á gamalreynda þingmenn Samfylkingarinnar, t.d. Katrínu Júlíusdóttur, kikna í hnjáliðunum af lotningu fyrir Evrópusambandinu og telja að við það eitt að ganga í það breytist tilveran í allsherjarsælu og nánast jólahald alla daga ársins.

Svo eru það hinir sem sjá allt svart ef minnst er á bandalagið, s.s. rússneski andófsmaðurinn Vladimir Búkovksíj sem sér miklar hliðstæður með Sovétríkjunum sálugu og Evrópusambandinu. Hann greinir frá fáránlegu hlutverki Evrópuþingsins, segir að það minni um margt á löggjafarþing Sovétríkjanna og segir að framkvæmdaráð Evrópusambandsins sé mjög svipað og Politburo. Eini munurinn sé að framkvæmdaráðið hafi 25 fulltrúa en í Politburo hefðu venjulega verið helmingi færri, 13-15 fulltrúar. 80.000 blaðsíðna regluverk Evrópusambandsins minnti andófsmanninn óþægilega á margra ára áætlanir kommanna sem skipulögðu atvinnulífið út í smæstu skrúfur og bolta.

Gagnrýni andófsmannsins á Evrópusambandið er að mörgu leyti þörf. Evrópusambandið þarf að bregðast við henni þótt hún sé vissulega ýkt enda var nánast eini munurinn sem hann sá á ráðunum að það vantaði gúlagið í Evrópusambandið.

Samfylkingin þarf hins vegar að hugsa sinn gang. Hún segist vilja umræðu um Evrópumálin en býður þjóðinni í raun ekki upp á upplýsta umræðu. Hún minnir um margt meira á trúboð en að taka umræðu um kosti og galla á málefnalegan hátt.

Sjálfum finnst mér rétt að skoða hlutina frá öllum hliðum. Mér hefur löngum þótt Evrópusambandið ofvaxið regluverk og skrifræði þar sem hefur skort á raunveruleikatengingu. Sambandið líður einnig fyrir lýðræðishalla eins og andófsmaðurinn bendir á. Ég vinn mikið með reglur sem eru ættaðar frá Brussel og þykist vita um hvað ég er að tala. Á hitt ber þó að líta að ýmis réttarbót í íslensku samfélagi, og framþróun, t.d. á sviði samkeppnisreglna og aðhalds í íslenskri stjórnsýslu, að ég tali ekki um nýtt álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, er komin að utan. Ráðandi öfl í íslensku samfélagi hafa oft og tíðum tekið úrbótum í fyrstu mjög illa, s.s. sjálfstæðismenn taka áliti mannréttindanefndar SÞ um að virða rétt íslenskra sjómanna. Á endanum hafa þeir þó tekið því og kyngt eins og hverju öðru hundsbiti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alræðisríki með tjáningarfrelsi, ferðafrelsi, frelsi til búsetu - og engum pólitiskum föngum eða gúlagi. Það var merkilegt atarna.

Eins og ég sé það eru þrjú megin þjóðfélagslíkön í heiminum í dag: Herskálakapítalismi Kínverja, ofurfrjálshyggja og hernaðarhyggja Bandaríkjanna og svo Evrópa með sínu velferðarkerfi og áherslu á samninga friðsamlegar lausnir í deilumálum

Þarf að spyrja hvar maður vill vera? 

Egill (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 23:22

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Góður Egill.. Miðað við framgang íslenskra stjórnmálamanna þá held ég að okkur (almenningi) sé best borgið í skrifræðinu í Brussel...

Óskar Þorkelsson, 14.4.2008 kl. 23:33

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sammála Agli í aðalatriðum. Hinsvegar er það endalaust verkefni að vinna að umbótum, þar á meðal innan ESB. Tel að reglur og lög sem við höfum þurft að taka upp hafi yfirleitt verið til bóta fyrir íslenska stjórnsýslu.

Ég held að Samfylkingin þurfi ekkert að hugsa sinn gang meira en aðrir flokkar. Ég held að það fari net í taugarnar á öðrum flokkum að Samfó er búin að leggja mikla heimavinnu í þennan málaflokk og hefur afstöðu.

Nú á eftir að fara í gegnum slíkt ferli í Frjálslynda flokknum og áhugavert að fylgjast með því hversu evrópusinninn Jón Magnússon nýtur mikils fylgis. Eða þarf hann að "fara að hugsa sinn gang" ? Mbk,  G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.4.2008 kl. 02:12

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Samfylking hefur enn ekki mótað sér skoðanir á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu en er samt með hugmyndir um inngöngu í Evrópusambandið þótt slíkt þýði fullkomið valdaafsal yfir fiskimiðunum við landið eins og skilyrði sambandsins til þess hins arna eru nú.

Slík pólítík er ódýr populismi, skoðanaleysis í helsta hagsmunamáli þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma.

Flokkurinn gekk skoðanalaus til kosninga 2003 og sama sagan endur tók sig 2007 en í millitíðinni hafði formaður flokksins gengið á fund LÍÚ með sáttplagg um óbreytt kerfi hér innanlands.

Flokkurinn situr nú í ríkisstjórn sem situr uppi með Mannréttindabrot á herðum vegna innbyrðis skipulags kvótakerfis en hefur ekkert að gert til umbreytinga enn ekkert.

Það eitt myndi væntanlega þýða það að innganga í Esb væri óframkvæmanleg.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.4.2008 kl. 02:40

5 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sammála Guðrúnu . kv .

Georg Eiður Arnarson, 15.4.2008 kl. 07:25

6 Smámynd: Snorri Hansson

Þegar við íslendingar höfum afsalað okkur yfirráð yfir auðlindum sjávar. Halda menn virkilega að það verði frekar hlustað á okkur en fólk á strandhéruðum Bretlands ? Finnst ykkur það ekki einkennilegt að sjálfur viðskiptaráðherra þjóðarinnar getur varla sagt eina einustu setningu án þess að í henni sé “ónýt króna” eða “innganga í ESB”

Snorri Hansson, 15.4.2008 kl. 07:31

7 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Samfylkingin lætur í veðri vaka að heimurinn sé tvískiptur en ég get ekki betur séð að þú teljir hann heldur flóknari þ.e. þrískiptur.

Sigurjón Þórðarson, 15.4.2008 kl. 09:38

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Kyngir maður hundsbiti?

Hjörtur J. Guðmundsson, 15.4.2008 kl. 12:28

9 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Hjörtur sem góður og gegn Skagstrendingur ætti  hvorki taka áliti Mannréttindanefndar SÞ illa né kyngja því með óbragði heldur fagnandi og fá xD til að gera slíkt hið sama. 

Sigurjón Þórðarson, 15.4.2008 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband