Leita í fréttum mbl.is

Endanleg lausn á Skagfirðingavandamálinu?

Fyrir dyrum stendur stórfelldur niðurskurður á fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Hringinn í kringum landið hafa forráðamenn og velunnarar heilbrigðisstofnana leitað eftir röksemdum fyrir vanhugsuðum niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar en sterk rök hníga til þess að þau muni leiða til kostnaðarauka annars staðar í heilbrigðiskerfinu.  

Fátt hefur verið um svör hjá stjórnvöldum en Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra Samfylkingarinnar hafði sig þó í það að skrifa Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki stórundarleg skilaboð þar sem ekki aðeins birtast rangfærslur heldur má einnig sjá glitta í hótanir í garð Skagfirðinga.    

Ráðherrann fullyrðir ranglega að á umliðnum árum hafi verið farið í flatan niðurskurð á heilbrigðiskerfinu og að ekki hafi komið fram neinar tillögur eða hugmyndir að niðurskurði frá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Staðreyndin er sú að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki mátti þola tvöfalt meiri niðurskurð á yfirstandandi ári en almennt var hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar hefur þegar gert grein fyrir sínum sparnaðartillögum. Sömuleiðis óskaði sveitarstjórn Skagafjarðar þann 4. október eftir fundi með ráðherra þar sem farið yrði yfir málefni Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Ráðherra hefur ekki enn séð sér fært að hitta sveitarstjórnina þrátt fyrir að hann kvarti þegar færi gefst yfir því að fá engar tillögur og ráð!

Í skrifum ráðherra til Hollvinasamtakanna eru orð sem verða vart skilin með öðrum hætti en sem hótanir en þar spyr Guðbjartur eftirfarandi spurninga þegar hann auglýsir eftir tillögum sem hann hefur þegar fengið:  

Á ég að líta svo á að engar nýjar tillögur séu staðfesting á að þetta megi vera eins og fjárlög gera ráð fyrir???? Er hin endanlega og varanlega lausn fundin í Skagafirði, einum staða? 

Það er rétt að taka það fram að sú „lausn“ sem Guðbjartur er að tala um fyrir Skagfirðinga er að rústa stofnuninni með 30% niðurskurði.

Mér finnst vinnubrögð og svör þingmannsins og ráðherra ekki sæmandi gagnvart umbjóðendum sínum sérstaklega í ljósi þess að í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga  gaf hann út hátíðleg loforð um að gæta sérstaklega að jafnvægis á milli Höfuðborgar og landsbyggðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi niðurskurður er til vansæmdar Guðbjarti og allri ríkisstjórn "velferðar" og "jafnaðar" VIð skulum aldrei láta þetta gerast, annað hvort þarf að bera út vanhæfa ríkisstjórn, eða þvinga hana til að fara að standa við kosningaloforð sín.  Það er komið nóg af þessu djöf.... pakki. Svei mér þá. Manni svellur móður bara við tilhugsunina.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.11.2010 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband