Leita í fréttum mbl.is

Er Helgi Magnús Gunnarsson ekki innvígður og innmúraður?

Það er stórundarlegt að fylgjast með þessu fáti í kringum rannsókn á venjulegum auðgunarbrotum sem að öllum líkindum fóru fram í bönkunum. Hvers vegna fara málin ekki eðlilega leið til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar þar sem Helgi Magnús Gunnarsson ræður ríkjum? Ég veit ekki betur en að hann sé harður og fylginn sér. Er vandamálið kannski að hann er ekki innvígður og innmúraður og væri vís með að taka á brotamönnunum með vinnuhönskunum en ekki silkihönskunum?

Í stað þess að láta málið fara sína eðlilegu leið í kerfinu virðist sem Björn Bjarnason og samstarfsmaður hans Björgvin G. Sigurðsson hafi sammælst um að láta málið fara einhverjar furðulegar krókaleiðir í gegnum skyldmenni þeirra sem liggja undir grun.

Ég held að Bogi verði að fá hrósið fyrir að sjá að sér.


mbl.is Bogi Nilsson hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

4.11.2008 | 21:52

Sá Bogi glæp í hverju horni?

Hafandi lesið þessa frétt er eitt atriði kýrskýrt í mínum huga. Bogi hefur séð eitt og annað verulega aðfinnsluvert þann stutta tíma sem hann aflaði gagna. Blindur maður getur auðveldlega lesið það á milli lína í hans tilkynningu. Kæmi mér ekki á óvart að stærstu efnahagsglæpir íslenskrar sögu eigi eftir að verða dregnir fram í dagsljósið - ef til verksins fást flinkir erlendir aðilar, fullkomlega óháðir.

Björn Birgisson, 4.11.2008 kl. 22:47

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Frá hvaða samfélagsástandi segir þetta? Fyrrum ríkissaksóknari segir af sér starfi við opinbera rannsókn sem beinist að meintum? efnahagsbrotum þar sem sonur hans gæti haft aðkomu.

Og hálf þjóðin klappar og hrópar Heyr, Heyr!

Fáir tjá sig um það sem mestu máli skiptir þó. Dómsmálaráðherra ætlaðist til þess að einu sinni enn léti fólk það afskiptalaust að hann skipaði málum í rannsókn hjá embættismönnum sem öllum er ljóst að hljóta að vera vanhæfir vegna náinna tengsla.

Engin mótmælaganga hefur svo mér sé kunnugt krafist þess að öll ríkisstjórnin segi af sér og forseti skipi utanþingsstjórn. Sem er eina von þjóðarinnar um að alþjóðasamfélagið taki minnsta mark á okkur. Öll ríkisstjórnin er sek um að hafa komið þjóðinni í stöðu sem er einsdæmi í sögu vestrænna þjóða gegn um langa sögu.  

Árni Gunnarsson, 4.11.2008 kl. 22:52

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er góð umræða sem á sér stað hér. Ég get í raun tekið undir með öllu því hefur verið dregið fram hérna. Ég tek þó sérstaklega undir það með Árna að ríkisstjórnin á að segja af sér og Bon sem bendir á líkindin milli Björns og Halldórs.

Ég er þegar búin að taka undir orð Bjarnar á hans síðu. Þó Bogi hafi einungis gert það sem hverjum manni með heilbrigða siðferðiskennd þykir eðlilegt þá finnst mér hann samt eiga skilið hrós fyrir. Ekki síst í því ljósi hvernig hinir sem koma að þessu öllu saman haga sér. Tek þess vegna undir með Sigurjóni.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 04:33

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Það er svo merkilegt með Björn að honum virðast mislagðar hendur við hverja einustu skipun. Hann hefur ekki enn getað ráðið mann í vinnu án þess að það lykti af skítalykt.

Víðir Benediktsson, 5.11.2008 kl. 06:50

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er eflaust rétt hjá Árna Gunnarssyni að a.m.k. hálf þjóðin og þar með talinn er orðin meðvirk í afkáralegu ástandi. 

Við stöndum mögulega fyrir alvarlegustu efnahagslegu brotum sem munu bitna á komandi kynslóðum og ráðamenn virðast gera flest til þess að halda lögreglunni frá rannsókn málsins.  

Sigurjón Þórðarson, 5.11.2008 kl. 09:30

6 identicon

Méð óháðum aðilum sem þekkja hvorki Björn Bj né hina þá fer að koma í ljós mestu glæpir mannkynssögunnar í sambandi við fjármál. Og að það skuli líðast að Landsbankinn sé að lána einum af þessum mönnum, það er mér óskiljanlegt

Guðrún (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 10:31

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mér finnast þetta  satt best að segja vera furðulega ásakanir. Hvernig getur það talist stórundarleg, þegar mál sem þetta er tekið föstum tökum af Ríkissaksóknara og hann skipar afskaplega hæfa menn til að rannsaka málið. Mér finnst þið komin langt fram úr ykkur núna.

Ég er hins vegar ekki sammála Birni Bjarnasyni að Íslendingar eigi  yfirleitt að rannsaka þetta mál. Auðvitað ætti að fá erlenda sérfræðinga og hafa síðan íslenska saksóknara til aðstoðar. Hér eru allir meira og minna tengdir fjölskyldutengslum, þekkjast náið eða að bein hagsmunatengsl gera rannsóknina tortryggilega. Það verður aldrei friður um þessi mál, nema að einhverjir, sem eru gjörsamlega utanaðkomandi komi að málinu og þeir verða að koma erlendis frá.

Ég kannast bara ekki við að Björn Bjarnason sé þekktur fyrir að hylma yfir með einhverjum auðmönnum. Til þessa hefur hann nú meira verið gagnrýndur fyrir hið gagnstæða, þ.e.a.s. að ofsækja auðmenn!

Þið vinstra fólk verðið nú að ákveða ykkur fyrir hvað þið viljið gera hann tortryggilegan!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 5.11.2008 kl. 19:28

9 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Guðbjörn, það er í verkahring Helga Magnúsar að rannsaka auðgunarbrot og þess vegna ættu málin að fara til lögreglunnar.  Í stað þess þá ákveður Björn Bjarnason að skipa sérstaka menn sem svo óheppilega vill til að eru nátengdir þeim aðilum sem liggja undir grun.

Með fullri virðingu fyrir Birni Bjarnasyni, þá eru þetta ekki traustvekjandi æfingar.

Sigurjón Þórðarson, 5.11.2008 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband