Leita í fréttum mbl.is

Í hverju er Samfylkingin lent? Icesave í Hollandi var stofnað í vor

Samfylkingin var stofnuð með það að markmiði að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.

Nú eru breyttir tímar og Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin eiga í nánu samstarfi með hræðilegum afleiðingum fyrir Íslendinga. Samfylkingin veitti í stjórnarandstöðu stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins á köflum eitthvert aðhald. Samfylkingin gat beitt sér hart í málum sem snertu fjölmiðla en minna fór fyrir andstöðu við einkavinavæðingu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hvað þá mannréttindabrotum stjórnvalda á sjómönnum. Mögulega hefur leiðtogi Samfylkingarinnar talið það betur fallið til vinsælda að hafa fjölmiðla með sér og svo er hitt, það að taka á spillingunni í kringum ráðstöfun bankanna gat verið of viðkvæmt fyrir mögulega samstarfsaðila á komandi kjörtímabilum.

Nú er flokkurinn kominn í þá ömurlegu stöðu að verja vítaverða stjórnahætti liðinna ára og bæta jafnvel gráu ofan á svart í þeim efnum. Það hefur Samfylkingin gert með því að taka þátt í aðgerðarleysi, flytja þjóðinni hálfsannleik og jafnvel skrök um stöðu mála.

Hver hefur ekki heyrt hvern ráðherra Samfylkingarinnar á fætur öðrum enduróma bergmálið úr Valhöll - það ber enginn einn ábyrgð á stöðu mála - stöndum saman - kreppan kom að utan??

Bæði forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa haldið því fram á síðustu dögum að hægt hefði verið að stofna útibú Icesave á grundvelli einfaldrar tilkynningar og þá hafa þeir vísað til EES-samningsins. Þetta er ekki rétt þar sem Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús á EES enda gerir tilskipun EES ráð fyrir því að hægt sé að stofna til útibús á EES-svæðinu. Það er tekið sérstaklega fram í 36. gr. laga nr. 161/2002:

Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust.

Það er ömurlegt fyrir skattgreiðendur og sömuleiðis Íslendinga framtíðarinnar að vita til þess að útibú Landsbankans var stofnað í vor þegar nokkuð ljóst var orðið að á brattann væri að sækja fyrir íslensku bankana. Frétt um stofnun hollenska útibúsins birtist á bls. 7 í afkomutilkynningu Landsbankans frá 29. júlí 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvernig líst þér á þessa frétt, sem var skammlíf á forsíðu mbl. Hún segir að Breska stjórnin hafi ákveðið að greiða að fullu innlánsreikninga Icesave innan 10 daga.  Hvað þýðir þetta?

Jú það þýðir að Geir hefur gengið eða er um það bil að ganga að kúgunarskilyrðum IMF, sem gengur erinda Breta hér en ekki okkar. Bretar eru ekki að kúvenda í afstöðu sinni og ákveða að borga brúsann sí svona, case closed.

Þir virðast hafa einhverja kokhreysti og vitneskju til að ákveða slíkt. Ef þetta er tilfellið, þá e eins gott fyrir okkur að fara að pakka niður í töskur og leita eftir pólitísku hæli á mannvænlegri slóðum.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.10.2008 kl. 19:08

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Sigurjón

Eitt er víst að Frjálslyndi flokkurinn ber ekki ábyrgð, örflokkur sem er þó margklofinn í flestum málum!!! Seðlabanki og fjármálaeftirlit eiga að tryggja að vegferðin sé á skikkanlegum nótum.

Stjórnmálamenn ganga ekki fram fyrir skjöldu og vara upp á eigin spítur við rekstri einstaka fjármálastofnana. Viðskiptaráðherra hafði þó margítrekað ósk um að breyta IceSave í dótturfélag.

Nei, fátt bendir til annars en Samfylkingin sé langflottust, einmitt núna. Eini flokkurinn sem á samhljóm með þjóðarsálinni í mörgum málum.

Ekki kommúnismi og ekki kapitalismi, ekki einangrunarstefna eða áhersla á úrelta kvótastefnu til lands og sjávar, ekki alið á fordómum gegn fólki af erlendu þjóðerni.

Þar ríkir einstaklingshyggja undir merkjum heildarsýnar. Mikilvægasta verkefnið nú er að fá Evrópu til Íslands áður en Íslendingar flytja til Evrópu.

                       Með kærri kveðju,   G

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.10.2008 kl. 01:42

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Jón það væri eftir öðru ef ríkisstjórnin kvittaði upp á mörg hundruð milljarða reikning um leið og síðustu Sterlingspundin í Seðlabankanum yrðu notuð til að greiða 100 milljóna reikning vegna "loftrýmiseftirlits" Breta´.

Gunnlaugur það er gott að sjá hve glaður þú ert í sinni yfri öllum stjórnarathöfnum ríkisstjórnarinnar og meiri segja hvernig þínir menn hafa haldið á Icesaves málinu. Ekki er ég nú samt sem áður jafn viss um að allur þorri almennings verði jafn hrifinn þegar kemur að skuldadögum.

Sigurjón Þórðarson, 26.10.2008 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband