Leita í fréttum mbl.is

Fangelsi fyrir gamalt fólk

Fangelsi hafa verið nokkuð í umræðunni, bæði hér og úti í hinum stóra heimi. Ég var rétt í þessu að horfa á merkilega frétt á Al Jazeera um sérhannað fangelsi fyrir gamalmenni í Japan. Meðalaldur fanga var um sjötugt og þeir stríddu við hina ýmsu fylgifiska ellinnar, s.s. stirðleika, sjóndepru, heyrnarleysi og önnur elliglöp. Japanir tóku upp á því að sérhanna heilt fangelsi með göngugrindum og verklagsreglum sem eru hugsaðar sérstaklega fyrir gamlingjana.

Í vikunni bárust síðan fréttir af því að vel á þriðju milljón Bandaríkjamanna væri í fangelsum um þessar mundir. Eru ýmsir þar með farnir að setja spurningarmerki við þá þróun mála.

Hér á Íslandi bárust átakanlegar fréttir af dauðsföllum fanga og er greinilegt að almenningi er nokkuð brugðið. Samt berast misvísandi skilaboð frá almenningi þar sem í aðra röndina er krafist harðari refsinga, sérstaklega fyrir eiturlyfjainnflutning og svo kynferðisafbrot, sérstaklega gagnvart börnum.

Sjaldnast er vistin mjög mannbætandi. Það sem skiptir í mínum huga miklu máli er að þeim sem vilja í raun snúa við blaðinu og vera m.a. edrú í fangavistinni sé gert það kleift og það sé ákveðin gulrót að gera sér far um það.

Fleira skiptir máli, s.s. að fangar hafi eitthvað fyrir stafni og að tengslin við aðstandendur rofni ekki meðan á fangavistinni stendur. Einnig er rétt að huga að stuðningskerfi fyrir þá sem eru að koma út úr fangelsi. Þá væri athugandi að nýta krafta fyrrverandi fanga sem hafa snúið við blaðinu til að aðstoða þá sem eru að losna úr prísundinni. 

Íslendingum hættir til að halda að lausn mála felist í nýjum byggingum, sbr. núna að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiðinni. Ég hef efasemdir um að lausnin felist í nýjum byggingum ef ekki er bætt úr starfinu sjálfu.

Eitt er ljóst, það verður aldrei nein endanleg lausn í málinu, þetta verður viðvarandi vandi meðan þjóð byggir land. Þó er til mikils að vinna að aðstoða þá sem vilja snúa af rangri braut og breyta rétt. Og hvað varðar síkynferðisbrotaglæpamenn finnst mér alveg koma til greina að vana þá, ekki síður þeirra sjálfra vegna. Mestu máli skiptir að líta til þess sem snýr að betrun og fyrir utan að nokkrum fórnarlömbum yrði þar með forðað gætu kynferðisbrotamenn sjálfir kunnað að meta bótina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

TIL LUKKU MEÐ KJÖR ÞITT Á FÖSTUDAGINN SEM FORMAÐUR UMSS.

kv.

Ingi Björn

Ingi Björn Árnason (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 12:27

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Mjög góður pistill! Einkavæðing fangelsa í USA hefur fætt af sér "men Hunters" fyrirtæki sem oft er stjórnað af einkareknum fangelsum sem þurfa að vera full. Á síðunni www.leap.cc segja lögreglumenn, saksóknarar og dómarar frá því samviskubiti sem þeir hafa fengið eftir 20 ára vinnu í stríðinu gegn fíkniefnaafbrotum. Segja þeir heiðarlega frá þeirri spillingu sem hafa hrjáð þá sem manneskjur. Kynferðisafbrotamenn og þá sér í lagi barnaníðingar fá enga hjálp, þar sem vitað er að sjúkdómur sá sem þeir eru haldnir er meira en 99% ólæknandi. Kanadamenn hafa gjörbreytt öllu sínu fangelsiskerfi og eru með bestu úrræði sem til eru í heimi í dag. Enda hafa þeir skilað áraangri sem engin önnur þjóð getur státað af. Fangelsi í dag er fjöldaframleiðsla á afbrotum. Leyfi ég mér að segja þetta eftir 20 ára vinnu með afbrota- og glæpamenn í öðrum Norðurlöndum. Á Litla-Hrauni vann ég í 1 ár við að minnka ofbeldi, afbrot inni á staðnum og að fyrirbyggja fíkniefnaneyslu. Langir fangelsisdómar eru gagnslausir og eru það mjög fámennur hópur í þjóðfélaginu sem er þjóðfélagslega hættulegir. Barnaníðingar eru númer eitt sem virkilega hættulegir, og ættu að fá að velja um geldingu eða ævilangt fangelsi. Kemískar geldingar virka ekki eins vel sem vonast var eftir, en smá skurðaðgerð gerir þessa menn algjörlega hættulausa. Stórsmyglarar á fíkniefnum á ekki að setja inn um aðra fanga. Þeir halda áfram iðju sinni inn í fangelsum og hagnast vel.  Áfengi er aðalorsök flestra ofbeldisglæpa og er það skömm að hafa ekki mörg lítil fangelsi í stað þess að hrúga öllum afbrotamönnum á sama stað. Íslendingar eru með fæstu innilokanir á Norðurlöndum, en mesta úrræðaleysið. Að hrópa eftir lengra fangelsi er vankunnátta þeirra sem ekki sjá heildarvandamálið. Takk fyrir gott innlegg.

Óskar Arnórsson, 2.3.2008 kl. 12:28

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mikið er þetta góður pistill hjá þér og góðar hugmyndir sem vert væri að leggja púður í að koma í framkvæmd. Þú þekkir fólkið sem situr í nefndum... um að gera að láta þessar hugmyndir þeim í tjé:)

Al Jazeera er alveg ótrúlega áhugaverð sjónvarpsstöð.

Birgitta Jónsdóttir, 2.3.2008 kl. 13:10

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sæll félagi Ingi Björn og með kærri þökk fyrir góðar óskir og nú er bara að standa sig í nýju embættti . 

Íslandi allt.

Óskar mér sýnist sem þú hafir mjög mikið til málanna að leggja.  Ég er samt ekki viss um að einkavæðingin megin rót þess fens Bandaríkjamenn eru lentir í en ég gæti trúað að það sé einnig að þar eru menn nokkuð ginkeyptir fyrir einföldum lausnum. E

Sæl Birgitta og þakka þér fyrir þessar línur og enn frekar fyrir að benda mér á tónlist mömmu þinnar.

Sigurjón Þórðarson, 2.3.2008 kl. 18:41

5 identicon

ég hef frétt af fangelsismálum í lítt þróuðu fjarlægu landi sem heitir Nepal. Þar er málum þannig háttað að ekki er boðið upp á mat í fangelsinu sem leysir ýmis vandamál. Tengsl við aðstandendur rofna ekki þar sem aðstandendur verða að sjá fanganum fyrir næringu á meðan á vistinni stendur, og nú ef viðkomandi fanga er óviðbjargandi að mati ættingja hans, þá geta þeir bara sleppt því að koma og þá þarf ekki að spyrja að leiks lokum.

annars er þetta nú útúrdúr, efast um að nokkur Íslendingur myndi vilja hafa þetta svona. 

Harpa (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 22:13

6 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég vil vinna í hverjum fanga fyrir sig, í það minnsta þegar hann fær sinn fyrsta fangelsisdóm og koma honum aftur út í lífið s.s. alla leið út í lífið.

Á Litla Hrauni ætti að byggja til framtíðar, gleymum ekki að Áborg er að verða í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, þar ætti þá um leið að byggja þannig að hægt sé að vinna í föngunum og ekki síst þeim yngri og þá auðvitað aðskyldar deildir fyrir konur, unga afbrotamenn, minni afbrot og alvarleg afbrot.

Gamalt fólk og fangelsi, er gammla fólkið okkar ekki flest í einhverskonar fangelsi og orðið tímabært að fylgja því eftir að hætti Japana.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.3.2008 kl. 23:32

7 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góð hugleiðing Sigurjón.

Það skortir að mörgu leyti á mun meiri þjóðfélagsumræðu um til dæmis lengd dóma og eðli brota sem og núverandi fangelsisúrræði og aðstæður.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.3.2008 kl. 01:10

8 Smámynd: Ómar Pétursson

Góður pistill.

Kveðja

Ómar Pétursson, 4.3.2008 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband