Leita í fréttum mbl.is

Þöggun er ekki lausnin

Það hefur borið á því að einhverjir sjálfskipaðir verðir leyfilegrar umræðu vilji reyna að banna þá umræðu sem snertir samskipti landans og þeirra útlendinga sem hér búa. Að mati varðanna má t.d. ekki nefna þjóðerni útlendinganna ef þeir hafa gert eitthvað misjafnt og síðan hafa verið dæmi um að allri sök á neikvæðum fylgifiskum innstreymis erlends vinnuafls sé sjálfkrafa varpað á Íslendinga.

Dæmi eru um að Litháar hafi kvartað undan neikvæðum viðhorfum í sinn garð. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi verið mjög jákvæðir í garð Litháa þegar þeir fluttust fyrst til landsins vegna þess að einhverra hluta vegna telja sumir Íslendingar að við eigum einhvern þátt í því að Litháum tókst að brjótast undan krumlu Sovétríkjanna. Það er því miður staðreynd að misjafnir einstaklingar leynast meðal þess sómafólks sem komið hefur frá Litháen og þeir hafa gert löndum sínum sem hafa ekkert til saka unnið lífið erfiðara. Flestir sem koma til landsins eru hið vænsta fólk. Þessu til vitnis má nefna að í mörgum sjávarbyggðum eru margir tugir ungs fólks komnir tímabundið til starfa, rólegheitafólk, og mér er til efs að íslenskir farandverkamenn fyrri ára stæðust samanburð við þetta farandverkafólk.

Það er rétt að ítreka að við verðum að ræða þetta mál opið og hreinskilnislega í stað þess að fara þá leið sem sumir vilja, þ.e. að þagga umræðuna niður.

Því miður hafa síðustu mánuðina nokkrum sinnum komið upp mál þar sem útlendingar hafa í hópum nauðgað kvenfólki með hrottalegum hætti.

Það er óneitanlega öfugsnúið að margir þeirra sem dreifa markvisst áróðri fyrir verslunarmannahelgar til íslenskra karla um að nei þýði nei telji það hina mestu goðgá að ræða nauðganir útlendinga. Fyrir umræddan hóp væri miklu nær að reyna nú í kjölfar umræðu um nauðganir og óþolandi kynferðislega áreitni að hafa uppi áróður á erlendum tungum, í stað þess að þagga umræðuna niður.

Hvað er að því að upplýsa útlendinga um að nei þýði nei og að litið sé á nauðganir í íslensku samfélagi sem mjög alvarlega glæpi sem ekki eru liðnir og að kynferðisleg áreitni sé atferli sem alls ekki er liðið?

Þeir sem fylgjast með bloggsíðum ungs fólks sjá að þar kraumar sums staðar undir ólga um samskipti kynjanna. Það er rétt að koma henni í einhvern farveg með það fyrir augum að finna lausnir á augljósum vandamálum.

Það er áreiðanlega mikilvægt núna að löggæsla og forvarnir verði efldar og að ráðið verði til starfa fólk úr hópi innflytjenda sem hafi góð tengsl og sé fljótt að átta sig á samhengi hlutanna.

Grein sem birtist í DV í gær


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Mjög gott !

Jónína Dúadóttir, 28.11.2007 kl. 12:48

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Nú ertu á erfiðu umræðusvæði - - án þess að ég mæli með einhverri þöggun.   Það er ekki viðunandi að mæla bót einhverjum hræðslu- eða hatursáróðri eða útilokunarhyggju í bland.  Alhæfingar um hópa og staðalmynda-tuggan gengur ekki.  Þú sleppur ekki sjálfur við þá gildruna..........´i pistlinum.

Sú tölfræði sem okkur hefur verið birt nýlega staðfestir ekki - - að aukning hafi orðið á ofbeldosglæpum af hálfu erlendra ríkisborgara á Íslandi - og ekki heldur nauðgunum.     Við mættum að mínu mati hafa í huga að klámvæðingin og ofbeldi eða vafasöm meðferð á konum frá Austur-Evrópu og fjarlægari löndum - í tengslum við þann "kynlífsiðnað" - sem stingur sér niður upp á síðkastið - - er líklegt til að gefa misvísandi skilaboð um þann siðferðis- og samskiptastandard sem við viljum standa fyrir.    Held að við ættum að leggja saman í púkk til að kveða niður fordómana - í okkur sjálfum - og vísa kynlífsiðnaðinum og því tvöfalda siðferði sem hann þrífst við - út fyrir okkar landhelgi.

Benedikt Sigurðarson, 28.11.2007 kl. 20:47

3 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Góð grein Sigurjón
Umræðan í dag minnir mig svolítið á foreldra sem að fá fréttir af að barn þeirra hafi orðið sekt um strákapör og grípa til allra ráða til að afsaka hegðunina oftar en ekki með því að benda á strákana í næsta húsi þeir séu ekkert betri. Nærtækasta dæmið er ummæli forstöðumanns alþjóðahús í blöðunum i dag varðandi ölvunarakstur útlendinga þar var reynt að réttlæta þetta mál. Það á að taka á þeim málum sem að upp koma hvort sem að um útlendinga eða Íslendinga er að ræða og hvert sem brotið er það á ekki að festast í tölum um prósentur og uppruna og als ekki að vera hrædd við að taka á málum hver sem á í hlut  það virðist vera gegnumgangandi núna að sé bent á eitthvað sem betur má fara í þeim málum þá er það af illum hvötum og oftar en ekki kentt við rasisma ef að sá brotlegi er ef erlendum uppruna

Jón Aðalsteinn Jónsson, 28.11.2007 kl. 21:16

4 Smámynd: Atli Hermannsson.

Vissulega er gott að ræða hvað má betur fara, en þegar það má ekki lengur geta um þjóðerni til að halla nú ekki á neinn er fokið í flest. Það er ekki svo langt síðan að þegar fréttir bárust t.d. af því að slagsmál hafi brotist út í Grindavík, að því var gjarnan skeytt aftan við að um sjómenn hafi verið að ræða. En nú ná helst ekki minnast á þjóðerni lengur... og svo verður kynið brátt aukaatriði eins og mál eru að þróast.

Ef heldur áfram sem horfir verða ekki sagðar fréttir, eins og t.d. af því að 10 svartir karlmenn og tvær konur, önnur þeirra hvít, hafi látist í rútuslysi í Suður Afríku. Það mun verða ótækt að tilgreina með þessum hætti. Og hvers eiga þá rútuframleiðendur að gjalda, að vera dregnir inn í þessa hörmungar frétt, þegar það var brúarhandriðið sem gaf sig. Og ef tilgreint hefði verið í fréttinni að það hefði verið hvítur maður sem ók... þá er verið að veitast að hvíta minnihlutanum.

Því veriður fréttin að vera svona; 10 einstaklingar létust í slysi í gær, ... mjög sunnarlega á hnettinum... 

Atli Hermannsson., 28.11.2007 kl. 21:20

5 identicon

Þessir verðir sem þú talar um, hvað eru þeir að verja?

Ert þú þá í sókn?

BL (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 21:32

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég þakka fyrir góðar undirtektir. Þetta er vissulega viðkvæm umræða sem er rétt að fara í gegnum af hreinskilni og fordómaleysi og gæta að því að sýna fólki fulla virðingu.

Sigurjón Þórðarson, 28.11.2007 kl. 22:02

7 identicon

Ég vil taka undir með Jóni  og Kristni

BL (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 22:48

8 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Jón Kristófer

Hér er frétt af vefnum sem þú ert væntanlega mjög ósáttur við þar sem greint er frá þjóðerni þeirra sem eru sterklega grunaðir afbrot.  Það væri fróðlegt að fá að vita hvernig þér þætti rétt að segja frá þessum atburðum.

Þrír Litháar í gæsluvarðhaldi

Lithái var handtekin á Keflavíkurflugvelli fyrir um hálfum mánuði síðan og úrskurðaður í gæsluvarðhald, en hann tengist amfetamínframleiðslu hér á landi. Tveir landar hans sitja einnig í gæsluvarðhaldi.

Mikil leynd ríkti um handtöku mannsins sem var fyrir tveimur vikum síðan vegna rannsóknarhagsmuna,  því talið er að maðurinn tengist tveimur öðrum Litháum sem nú sitja í gæsluvarðhaldi. Maðurinn kom til landsins með mikið magn af efnum til amfetamíngerðar sem voru í fljótandi formi í nokkrum flöskum. Landi mannsins var  handtekinn á Keflavíkurflugvelli í byrjun febrúar, en hann hafði í fórum sínum, amfetamín á lokastigi framleiðslu og var félagi hans sem er búsettur hér á landi einnig handtekinn.
Rannsókn þessa máls er mjög umfangsmikil og vill fíkniefnalögreglan ekkert tjá sig um málið að svo stöddu. Talið er að hægt hefði verið að framleiða um 10-12  kíló af amfetamíni úr þeim efnum sem mennirnir reyndu að smygla inn til landsins.

Sigurjón Þórðarson, 28.11.2007 kl. 22:53

9 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er stundum sagt að sumir þeir sem hatist út í homma séu haldnir hommafóbíu sem markist að einhverju leyti af því að þeir séu ekki öruggir á sinni kynhneigð .

Ég er farinn að halda að sama eigi við um Jón Kristófer en andúð hans er svo mikil í garð Frjálslynda flokksins að ég er ekki frá því að það geti verið að hann finni í hjarta sér að málstaður Frjálslynda flokksins eigi jafnvel betur við hann en stefna VG og þá sérstaklega sjávarútvegsmálum. 

Það er engu líkara en að Jón Kristófer reyni að hrinda þessu af sér með útúrsnúningum og nánast hatursskrifum í garð Frjálslynda flokksins. 

Sigurjón Þórðarson, 29.11.2007 kl. 21:30

10 identicon

Viðar:  "Þorskurinn er að deyja úr hungri en ekki ofveiði"

Þetta fær ekki staðist. 

FF hlustar of mikið á Jón Kristjánsson þegar kemur að stjórnun fiskveiða. Eina vandamálið við hans ráðgjöf er sú ap niðurstaða hans er alltaf sú sama, þ.e. að það þurfi að grisja (eins og að náttúrulegir ferlar fari úr böndunum ef þeim sé ekki stjórnað af mönnum). Jón þarf í raun ekki á neinum gögnum að halda til að komast að þessari niðurstöðu og hefur lítið til síns máls.

En það glymur hátt í tómri tunnu!! 

BL (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 16:52

11 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

BL hvað er að ef fiskur vex ekki eins og áður - líklegasta skýringin er sú að hann skorti fæðu og þá er um tvennt að gera að fóðra eða fækka fiskum.  Það er mjög erfitt að fóðra fisk í Atlantshafinu en það má mögulega veiða meira.

Sigurjón Þórðarson, 1.12.2007 kl. 11:53

12 identicon

Vöxtur fiska er flókið fyrirbæri, flóknara en þú gefur þér hér. Vöxtur ræðst af samspili umhverfisþátta og lífsferla fiskanna. T.d. getur offramboð á fæðu flýtt kynþroska og hægt á vexti. Þetta er vel þekkt í fiskeldi. Hlýnun sjávar hefur breytt lífsskilyrðum og mögulegt að þær breytingar hafi áhrif á vöxt.

Þannig að ég mæli ekkert sérstaklega með því að fara að fóðra í Atlantshafið, enda óvíst að það skilaði nokkrum árangri. Þú getur sparað þér það.

BL (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 18:01

13 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Vöxtur ræðst af samspili umhverfisþátta og lífsferla fiskanna. T.d. getur offramboð á fæðu flýtt kynþroska og hægt á vexti

Ég ekki skilja - það er þekktara að skyndileg breyting til hins verra komi kynþroska af stað.  Hvað hefur þér fyrir þér í þessari fullyrðingu hér að ofan.

Sigurjón Þórðarson, 1.12.2007 kl. 18:28

14 identicon

Mig skilja að þú ekki skilja.

Það má í raun benda á að kynþroskaaldur manna hefur færst niður með betri aðbúnaði. Þetta hafa menn sett í orsakasamband og það sama getur átt við um fiska.

Eins og ég sagði er þetta vel þekkt úr fiskeldi. Þegar fiskur er tekinn úr sínu náttúrulega umhverfi og komið fyrir í fiskeldiskeri gerist tvennt í meginatriðum, fiskurinn þarf lítið að hreyfa sig eftir fæðu og það er nóg af henni. Þetta veldur því að fiskur verður kynþroska mun yngri og minni en gerist í náttúrunni. Þetta hægir mjög á vexti auk þess sem fiskurinn er að "fjárfest" í kynkirtlum en ekki í líkamsvexti. 

Hvaða dæmi getur þú nefnt mér um að versnandi ástand flýti kynþroska? 

BL (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 11:52

15 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

 BL í nokkuð góðri skýrslu Áfanganefndar um líffræðilega fiskveiðistjórnunar frá því á árinu 2004 segir:

 

 Kynþroskastærð

Kynþroskastærð er skilgreind sem sú lengd þar sem helmingur fiska í stofni hefur náð kynþroska, og getur verið misjöfn fyrir hænga og hrygnur. Því stærri sem fiskur er, því meiri orka fer í viðhald og eðlilega líkamsstarfsemi.  Þegar viðhaldsþörfinni er fullnægt, þá nýtist sú orka sem umfram er til vaxtar og loks til tímgunar. Þetta samspil vaxtar og kynþroska lýsir sér í því að kynþroski á sér stað á ákveðnum stað í vaxtarferlinu, þegar takmörkun á frekari vexti í því umhverfi sem fiskurinn er í hefur náð ákveðnu marki. Þannig verður kynþroski þegar ákveðnu hlutfalli af þeirri hámarkslengd sem vöxtur hans stefnir í er náð.

Og nokkru síðar segir í sömu skýrslu:

Kynþroskastærð sem hlutfall af hámarkslengd er breytileg eftir tegundum og er yfirleitt á bilinu 0,6-0,8, frekar í lægri mörkunum fyrir þorskfiska[1] en hærri fyrir t.d. marga ferskvatnsfiska.[2] Kynþroskastærð er þannig líffræðileg kennitala sem segir til um vaxtarferil fiska. Breytingar í kynþroskastærð eru oft einfaldasti og fljótlegasti mælikvarðinn á breyttar vaxtarforsendur fiska og burðargetu umhverfisins.

 ----------------------------------------

Það er því miður svo BL að ráðherra hafði ekki vit á því að halda áfram með þessa vinnu.

 Ef þú vilt frekari uppl. þá mun ég veita þér þær fúslega en einnig geturðu skrifað mér póst á netfangið sigurjon@sigurjon.is

Sigurjón Þórðarson, 3.12.2007 kl. 01:07

16 identicon

Þannig verður kynþroski þegar ákveðnu hlutfalli af þeirri hámarkslengd sem vöxtur hans stefnir í er náð.

Það verður að taka með í reikninginn að hámarkslengd getur breyst með breyttum skilyrðum. 

Breyting á kynþroska stærð/aldri gefur vissulega til kynna breytt vaxtarmynstur eins og ég hef bent á. Það þarf þó ekki að vera að minni fæða þýði aukning á kynþroska. Hið öndverða er sennilega frekar regla fyrir fiska sem hrygna oftar en einu sinni. Ef illa árar þá "hafa þeir ekki efni á því" að eyða orku sinni í þroskun kynkirtla og atferli sem tengist mökun. Einnig getur fæðuskortur verið vísbending um það að hörgull á fæðu sé yfirvofandi fyrir afkvæmi og því "ekki ráðlegt" að eyða orku og tíma í hrygningu (vegna útlits fyrir háa dánartíðni afkvæma). Auðvitað eru fiskar ekki í slíkri ákvarðanatöku, en það er mögulegt að aðlögun þeirra að umhverfisskilyrðum kalli fram slíka svörun

(nú er ég ekki að segja að þetta sé málið, en að velta þessu upp sem möguleika, og ítreka það að vöxtur er flókið fyrirbæri og alls ekki hægt að fullyrða um vöxt eins og þú hefur gert hér).

BL (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 12:39

17 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

BL: Jón Kristjánsson er afar fær líffræðingur sem skynsamlegt er að hlusta á rétt eins og rétt er að hlýða á rök annarra sem eitthvað hafa til mála að leggja.

Jón Kristjánsson hefur einfaldlega bent á að sú tilraun sem unnið hefur verið með á síðustu áratugum, að veiða sífellt minna hefur ekki skilað meiri afla síðar eins og lofað hefur verið.

Þú talar um breytt skilyrði hafi áhrif á stærð fiska - ertu þá ekki fyrst og fremst að tala um fæðuframboð? Ef svo er þá hefur fjöldi einstaklinga eða réttara sagt stofnstærðin, áhrif á hvað er til skiptana fyrir hvern og einn.  

Það er rétt að velta fyrir sér líffræðilegri hæfni þ.e. hæfileika við að koma sínum genum til næstu kynslóða og setja hana í samhengi við kynþroskann.

Það er líklegt að það hafi farið fram markvisst val úr milljónum  kynslóða þar sem valið hefur verið fyrir því að stækka sem mest til þess að auka hrognafjöldann og skila fleiri einstaklingum áfram. Síðan þegar vaxtaferillinn fer að beygja af eins og segir í greininni hér að ofan um líffræðilega fiskveiðstjórnun, þá hrygnir fiskurinn.


Enginn vandi er að fá fisk til að hrygna- hætta að fóðra hann. Í
fiskeldinu eru það þrengslin sem kalla þetta fram, honum finnst hann
vera að deyja, þá þarf að auka kyn sitt.

Sigurjón Þórðarson, 4.12.2007 kl. 00:29

18 identicon

Ég er sammála því að gott er að halda á lofti gagnrýni á fiskveiðistjórnun.

Það er bara spurning hvaða rök vega þyngra, þau sem koma frá hópi velmenntaðra vísindamanna, sem byggja mat sitt á alþjóðlegum aðferðum, eða rök sem koma frá sjálfskipuðum "besservisserum" (sem hafa afar tómlegan vísindalegan bakgrunn). 

Meti hver fyrir sig. 

BL (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 09:42

19 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það verður að viðurkennast að þessar aðferðir sem sá stóri hópur sem þú vitnar til hafa hvergi gengið upp. Þess vegna er rétt að fara í gagngera endurskoðun á þeim aðferðum, annað er ekki vísindi sem eiga að byggja á gagnrýninni hugsun.

Jón Kristjánsson er afar fær vísindamaður. Hann hefur ítrekað verið forspár um þróun stofna, bæði við Færeyjar og hér við Íslands strendur.

Sigurjón Þórðarson, 5.12.2007 kl. 15:41

20 identicon

Það er gott að þú og Jón og aðrir halda uppi gagnrýni á fiskveiðistjórnun og veitið aðhald. Það er hinsvegar hvimleitt þegar þú kemur fram með fullyrðingu eins  og hér að ofan sem er alltof mikil einföldun á flóknu fyrirbæri, þannig að ekki verður mark á takandi.

BL (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 08:24

21 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Hvaða fullyrðingu ertu að tala um BL.

Sigurjón Þórðarson, 6.12.2007 kl. 12:28

22 identicon

Fullyrðing er kannski of sterkt til orða tekið en þú sagðir: 

"BL hvað er að ef fiskur vex ekki eins og áður - líklegasta skýringin er sú að hann skorti fæðu og þá er um tvennt að gera að fóðra eða fækka fiskum.  Það er mjög erfitt að fóðra fisk í Atlantshafinu en það má mögulega veiða meira."

Viðar gekk aðeins lengra og sagði : "Þorskurinn er að deyja úr hungri en ekki ofveiði og það vita flestir."

Þetta snýst ekki aðeins um fóðrun eða fækkun, málið er flóknara en svo. Það var aðeins það sem ég vildi benda á.

BL (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband