Leita í fréttum mbl.is

Össur með fiskeldisglampa í augum

Össur Skarphéðinsson, ráðherra byggða- og iðnaðarmála, hefur farið mikinn síðustu klukkustundirnar í fjölmiðlum landsins.  Ekki hefur það verið vegna boðaðrar uppbyggingar hér innanlands heldur þúsunda milljarðafjárfestinga í fjarlægum löndum. Það eru engar smáupphæðir sem ráðherra sagði að Íslendingar ætluðu að festa í virkjunum í fjarlægum löndum en hann taldi að um gæti verið að ræða upphæð árlega sem svaraði til kostnaðar byggingar tveggja Kárahnjúkavirkjana. Fjárfestingarnar eiga síðan að skila landsmönnum og þá sérstaklega Reykvíkingum milljörðunum þúsund margföldum til baka. 

Ég man ekki eftir að hafa séð Össur í jafnmiklum ham og frá því á níunda áratug síðustu aldar þegar hann boðaði stórsókn fiskeldisins og séríslenskar aðferðir sem ættu eftir að fara sigurför um heiminn. Þær fólust m.a. í: sérstaku hraðeldi, frameiðslu á geldfiski og gönguseiðum sem væru þeirrar náttúru að þau gætu synt til hafs á hvaða árstíma sem væri. 

Þessir draumar breyttust því miður í martraðir en á meðan hverri fiskeldisstöðinni á fætur annarri var lokað hélt Össur í vonina um að fiskeldið risi úr öskustónni rétt eins og fuglinn Fönix og að öldin sem við lifum á yrði hvorki meira né minna en öld fiskeldisins.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra tók þátt i fiskeldisævintýrinu með Össuri Skarphéðinssyni og ef ég man rétt áttu þeir saman í fyrirtækinu Faxalax sem lagði upp laupana um líkt leyti og þeir félagarnir tóku sæti á Alþingi.

Nú er aldrei að vita nema Árni og Össur geti látið nýja afríska drauma og austurlensk orkuævintýri rætast sem eru ólík skemmtilegri en gamlar gælur við laxaslor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú ekki það eina sem Össur hefur í farteskinu einnig ætlar hann að styðja frumvarp sem mun gera byggingarmönnum erfitt fyrir

og sem mun hækka fasteignaverð um 3-5 prosent. Þar birtist gamli

ritstjóri Þjóðviljans enn og aftur

Björgvin Víglundsson (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 23:06

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Hvaða frumvarp er það  Björgvin?

Sigurjón Þórðarson, 4.11.2007 kl. 23:23

3 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Vandamálið við þetta er að Össur er pólítískur geðklofi

og mun þess vegna ekki líta á svo á að hann hafi verið

fylgjandi fiskeldi. Var hann stuðningsmaður þess að Decode fengi ríkisstyrki.

Hvað sagði hann þá?

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 4.11.2007 kl. 23:33

4 identicon

Þetta var lagt fram af Jóninu á síðasta þingi en dagaði uppi. Kemur bráðlega fram í óbreyttri mynd úr Umhverfisráðuneyti. Sem sagt frá Framsókn til Samfylkingar. Óþarfi að geta þess að þar er á ferðinni mesta vitleysa sem ég hef séð. 

Björgvin Víglundsson (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 23:41

5 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Það vantar ekki helv.... flottræfilsháttinn í Össur. Þetta er geggjuð lýsing á honum Þorsteinn pólitískur geðklofi, þessu er ég algjörlega sammála.

Hallgrímur Guðmundsson, 4.11.2007 kl. 23:50

6 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Nefndu það bara Sigurjón ! , einmitt " austurlensk orkuævintýri " he he... það er það nýjasta sem menn sveiflast í hringi í kringum.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.11.2007 kl. 23:58

7 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Sæll félagi, ég á í hillu minni klassíkerinn "Laxaveislan mikla" eftir Halldór Halldórsson. Það er merk bók um fiskeldisævintýrið og gott ef ekki þeir félagar iðnaðar- og nýlendumálaráðherrann, sem og fjármálaráðherrann eiga ekki nokkra spretti þar?

Magnús Þór Hafsteinsson, 5.11.2007 kl. 00:07

8 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það væri örugglega fróðlegt að renna í gegnum "Laxaveisluna miklu". 

Margar af þessum séríslensku aðferðum voru eftir á að hyggja nett brjálæðislegar s.s. að framleiða smolt allt árið sem voru reiðubúin til sjógöngu alla mánuði ársins.  Það er enginn tilviljun að laxinn hafi stillt sig inn á að halda til hafs á vorin frekar en að fuglar verpa á vorin. 

Sigurjón Þórðarson, 5.11.2007 kl. 09:30

9 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Össur fer oftar en ekki langt fram úr sjálfum sér. Talar um útrás til
20-30 landa um virkun jarðvarma. Virðist ekki einu sinni gera sér
grein fyrir að sá fjöldi íslenzkra vísindamanna sem að þessum málum
koma í dag eru nánast fullnýttir hér innanlands eins og menn úr
orkugeranum hafa bent á. Bara það gerir skýjaborgir Össurar að
engu..

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 5.11.2007 kl. 11:20

10 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Já Össur er allur á lofti en hann hefur greinilega gert góða ferð í austurveg.  Nú er að vona að hann nái mjúkri lendingu.

Sigurjón Þórðarson, 5.11.2007 kl. 12:57

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Fiskeldi vex stöðugt í heiminum, er það ekki. Forstjóri Hafró var mjög bjartsýnn á þorskeldi í léttu spjalli á landsfundi LS, ef hann hefur ekki verið að grýnast. Geta ekki firðirnir fyrir vestan orðið nothæfir fyrir þorskeldi með vaxandi sjávarhita. 

Sigurgeir Jónsson, 7.11.2007 kl. 23:00

12 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sigurgeir er ekki einfaldlega réttara að nota firðina fyrir auknar veiðar.

Sigurjón Þórðarson, 7.11.2007 kl. 23:53

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ertu á móti fiskeldi Sigurjón?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 8.11.2007 kl. 20:25

14 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég veit ekki hvernig þú færð það út Högni að ég sé á móti fiskeldi?

Sigurjón Þórðarson, 9.11.2007 kl. 11:28

15 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég hélt því ekki fram, ég spurði.

Mér finnst eins og þessi pistill þinn sé í formi háðs á áhuga Össurar á fiskeldi og mér finnst ég lesa út úr pistlinum að þér finnist að fiskeldi sé það sem skildi skoðað síðast.

Ertu á móti fiskeldi Sigurjón?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 9.11.2007 kl. 12:12

16 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Heill og sæll Högni þetta er mikill misskilningur að ég hafi eitthvað á móti fiskeldi en ég var bara rétt í þessu að sjá athugasemd sem þú settir inn á bloggið mitt í hádeginu og gat því miður ekki brugðist fyrr við henni fyrr.

Ég vann á sínum tíma við fiskeldisrannsóknir í HÍ, mældi m.a hormón í fiskum og setti þrýsting á hrogn skömmu eftir frjóvgun í því augnamiði að gera þau þrílitna.  Ég hef einnig haldið af og til erindi fyrir nema fiskeldi við  Hólaskóla.

Það er engu að síður mín skoðun að það gullgrafaraviðhorf sem réði ferðinni á níunda áratug síðustu aldar hafi orðið til þess að það hafi orðið ákveðin brotlending atvinnugreinarinni og hún hafi ekki náð að nýta þá möguleika sem gefast til fiskeldis. Þetta varð til þess að fjárfestar forðuðust fiskeldið rétt eins og brennt barn forðarst eldinn.

Það var farið strax af stað með ýmsar hugmyndir strax í framleiðsluskala í stað þess að vanda undirbúning og rannsóknir.  Fyrir Það sama má einnig gagnrýna sókn útgerðarfyrirtækjanna í fiskeldi en þau fóru af stað í kapphlaup og nánast spretthlaup i við að merkja sér firði til að hefja eldi í.  Síðan virðast öll fyrirtækin ætla nánast að hætta á sama tíma þegar á móti blæs í sjávarútveginum. 

Þetta minnir eilítið á þegar ein beljan pissar þá pissa allar. 

 Mér þykir þessi uppgjöf sár sérstaklega á Djúpavogi þar sem fátt blasir við í atvinnulífinu sem leysir eldið af hólmi. Að mínu viti má gjarnan leggja þó nokkuð í sölurnar til þess að sú þekking og reynsla sem hefur orðið til glatist ekki heldur varðveitist og helst að það verði greint nákvæmlega á verju steitti.

Það er sem betur fer sprotar og fyrirtæki í fiskeldinu sem lofa mjög góðu s.s. bleikjueldið en það eru þó nokkrir sem ætla að veðja á eldi á bleikjunni þó svo að mér skiljist að markaðir fyrir bleikju sé ekki enn sem komið er mjög stórir.

Sigurjón Þórðarson, 10.11.2007 kl. 00:03

17 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

 

Takk fyrir þetta Sigurjón og fyrirgefðu mér bræði mína, ég er greinilega svona hörundsár gagnvart umræðu um fiskeldið.

Ég er sammála þér þarna og jú Bleikjumarkaðir eru óplægðir ennþá þ.e. við getum ílla sagt að þeir séu litlir en heldur ekki stórir því að það eru engir nema við að reyna fyrir sér með Bleikju, en Samherji er að gera góða hluti í Bleikjunni núna og tekst vonandi að byggja markað, Jónatan í Silungi var búinn að vera að berjast við að koma henni á markað en framleiðslan hrundi alltaf hjá honum vegna þess aðallega að Stofnfiskur gat ekki sinnt honum almennilega en þar eru aðrar og betri aðstæður núna og bæði Stofnfiskur og Hólaskóli hafa aukið framleiðslu sína á Bleikjuhrognum en eftir stendur að Stofnfiskur hafði ekki, einhverra hluta vegna, burði til að standa undir laxaframleiðslunni sem er hið versta mál horfandi á verðin fara upp.

Þetta með firðina og þorskinn er svo allt önnur Ella, þar eru menn heldur betur að vaða villu að mínu mati.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 10.11.2007 kl. 18:31

18 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

 

Enn þá veistu líka Sigurjón að í dag framleiðum við laxaseiði á mun styttri tíma en áður svo kölluð o+, sem var eins og þú nefnir ein af hugmyndum Össurar að mundi gerast og þá veistu líka að við eru farnir að geta látið laxinn smolta oftar enn einu sinni á ári með ljósastýringu þ.e. við getum fengið hrogn á mismunandi tíma árs og þannig haft sinnhvorn hópinn á sinnhvorum tímanum, sem var líka samkvæmt þínum upptalningum og ástæða til að hæðast að, ein af hugmyndum Össurar að mundi gerast.

Ég get sagt þér á hverju steitti, það steitti á Stofnfiski þeir gátu ekki afgreitt laxahrogn og eða seiði eins og bæði Samherji og Salar höfðu gert áætlanir um að þurfa í sína framleiðslu. Til eru menn sem reyna að kenna um nýrnaveiki í seiðastöðvum landsins og skilja þar enga útundan, en það er kjaftæði. Nýrnaveikin kom upp jú enn hún varð ekki áhrifavaldurinn og hún einskoraðist við Stofnfisk en ekki aðrar seiðastöðvar, en áður og það löngu áður voru Samherji og Salar farnir að þurfa að draga saman vegna þess að Stofnfiskur varð líklega fyrir því og er þetta mín tilgáta, að missa að minnsta kosti tvo árganga klakfisks vegna kæruleysis.

Það er líka annað og er það bara alvarlegt mál en skiljanlegt en það er umræðan hún er yfirleitt neikvæð og yfirleitt eru menn að vaða elginn sem ekkert vit hafa á sem dæmi man ég eftir grein í blöðunum fyrir um 5 árum kanski 6 um að nú væri á leiðinni til landsins brunnbátur sem skyldi notaður til seiðaflutninga til landsins og jú annara flutninga á milli stöðva hér, enn þarna kom ein vitleysan og hefur sá er það reit ekki haft í sér þann manndóm að koma aftur fram á ritvöllinn og segja okkur hvar og hvenær báturinn landaði seiðum erlendis frá eða segja okkur að hann hafi verið að hræra í eigin heimsku.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 10.11.2007 kl. 18:36

19 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég þakka þér kærlega fyrir þessar fróðlegu upplýsingar og ég verð víst að viðurkenna að ég hefði átt að vanda mig meira við skrifin þannig að ekki mætti skilja þau sem almenna neikvæðni í garð fiskeldis.

Sigurjón Þórðarson, 11.11.2007 kl. 00:02

20 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þakka þér Sigurjón fyrir þessi samskipti okkar.

Mér er fiskeldið mjög kært og hugleikið, ég er mjög hörundsár gagnvart neikvæðri umræðu um fiskeldi og veit það.

Það sem er kannski verst er að við fiskeldimenn stöndum okkur ekki í að svara þegar neikvæð umræða er í gangi, sem oftast byggist á misskilningi, en er kannski skiljanlega neikvæð - en samt, þá hefur okkur farið verulega fram í eldinu og peningar í eldið hafa ekki streymt úr opinberum sjóðum eins og á árum áður sem þó lagði grunninn að fiskeldi framtíðarinnar, svo við hljótum að fara að fá uppreisn æru og jákvæðari umfjöllun.

Ég er á þeirri skoðun eins og ég hef komið að hér að ég er alls ekki viss um að þorskurinn sé tegundin sem verður í eldi og eða að við verðum með fiskeldi í sjó yfirleitt - enn jú það er önnur ella.

Enn þú mátt mín vegna djöflast á Össuri hann hefur bak og orðaforða til að verja sig sjálfur.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.11.2007 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband