Leita í fréttum mbl.is

Hamskipti SKK og ISG á LÍÚ-fundum

Enn og aftur gerist það að ræðumenn á LÍÚ-fundum hafa hamskipti og tala upp í eyrun á fundarmönnum. Hver man ekki eftir formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem breyttist í einlægan stuðningsmann kvótakerfisins á fundi LÍÚ fyrir sléttum tveimur árum? Nú bárust fréttir af hinum unga og efnilega þingmanni þjóðarinnar, Sigurði Kára Kristjánssyni, sem var ræðumaður á þinginu og talaði eins og beint upp úr leiðara Þorsteins Pálssonar sem tók einmitt þátt í að koma kerfinu á.

Það skýtur skökku við að Sigurður sem er gagnrýninn á flest óbreytanleg kerfi, s.s. vínsölu ríkisins, skuli skrifa upp á kvótakerfi sem er sannanlegt skrýmsli. Það kemur í veg fyrir nýliðun ungs fólks í greininni og þorskveiði er nú, eftir uppbyggingarstarf kvótakerfisins, innan við þriðjungur þess afla sem veiddur var áður en kerfið var sett á laggirnar.

Það má vera að kerfið gangi upp séð með gleraugum lögfræðinnar og stjórnsýslufræða en fyrir þá sem þurfa að vinna eftir því og fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar gengur það ekki upp. 

Er ekki sanngjarnt að ætlast til þess af ungu fólki sem er á þingi, hvort sem það heitir Sigurður Kári eða Birkir Jón eða Katrín Júlíusdóttir eða Katrín Jakobsdóttir, að það taki ofan hin þröngu kerfisgleraugu og efli með sér kjark til að fara í gegnum ágalla kerfisins, hörmungasögu þess og leita lausna sem virka í stað þess að draga upp fegraða mynd af kerfinu? Þau voru ekki á dögum þegar kerfinu var komið á og ættu þess vegna ekki að upplifa sig í þeim sporum að þurfa að verja gjörðir flokksfeðranna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ungliðar alþingis virðast uppteknari af eigin persónu en þeim sem komu þeim á þing (nema kannski nánustu samstarfsmönum).  Þó mun reyna á afstöðu þeirra með nýju auðlindafrumvarpi sem er í smíðum og væntanlegt innan skamms.  Þá kemur í ljós til hvers dansinn er stiginn.

Lýður Árnason (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 00:08

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ég er þeirrar skoðunar, að ungliðarnir sem þú nefnir, Sigurjón, skorti tilfinnanalega hæfileikann að setja sig í raunveruleg tengs við önnur sjónarmið og annan reynsluheim en þann þrönga og dauðhreinsaða sem þau hafa upplifað fram að þessu. Grasrót þjóðfélagsins er þeim fjarri og sú menning sem þar er til staðar. Ég lenti einu sinni í að þjarka við eina af þingkonum VG um sjávarútvegsmál og varð satt að segja fyrir mikilum vonbrigðum. Þessi ágæta kona virtist svo órafjarri raunveruleikanum á þessu sviði, að óhætt er að segja að hún hafi bæði verið ósamræðuhæf og jarðsambandslaus. Ég veit ekki til að þessi kona hafi vitkast síðan samtal okkar fór fram.    

Jóhannes Ragnarsson, 29.10.2007 kl. 20:53

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég hef þá trú að það fari að líða að því að fólk komist ekki hjá því að setja sig inn í sjávarútvegsmálin. 

Ég er nú ekki viss um að það verði í digra sjóði að sækja í hjá LÍÚ þar sem mörg fyrirtækjanna eru mjög skuldsett og þjökuð af "besta kerfi í heimi."

Sigurjón Þórðarson, 29.10.2007 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband