Leita í fréttum mbl.is

Aðstoð óskast - ég skil ekki fræðimann LÍÚ

Ég var að fletta Mogganum í gær og sá þar grein Helga Áss Grétarssonar sem, eins og alþjóð veit, er kostaður af LÍÚ í sérstaka rannsóknarstöðu við HÍ. Greinin var að einhverju leyti viðbragð við grein minni á sama stað í síðustu viku þar sem ég fór yfir á hversu veikum grunni málflutningur sérfræðingsins í blaði allra landsmanna á síðustu vikum byggir.

Það verður að segjast eins og er að greinin í Mogganum í gær, laugardag, var ekki liður í því að færa einhver haldbær rök fyrir nauðsyn þess að færa fiskveiðiauðlindina úr eigu almennings í einkaeign fárra. Við lestur greinar sérfræðingsins vöknuðu alvarlegar spurningar um hvort Helgi vissi sjálfur hvað hann væri að fara. Ég átta mig ekki á vegferð hans.

Það væri ágætt ef lesendur gætu aðstoðað mig við að skilja þetta. Meðfylgjandi er grein mín frá fyrri viku.

Það má skipta deilum um stjórn fiskveiða annars vegar í deilur um eignarhald á auðlindinni og hins vegar deilur um hvernig stýra eigi veiðum, þ.e. hve mikið eigi að veiða úr fiskistofnum og hvort það eigi frekar að beita sóknarstýringu eða kvótakerfi.

Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur sem gegnir rannsóknarstöðu kostaðri af LÍÚ hefur á umliðnum vikum mikið látið fara fyrir sér á síðum Morgunblaðsins í umræðum um sjávarútvegsmál. Helgi Áss slær ekki á höndina sem gefur og í umræddum greinum grautar lögfræðingurinn saman deilum um eignarhald á auðlindinni og tæknilegum úrlausnarefnum er varða veiðistjórnun með það að markmiði að reyna að réttlæta að fiskurinn í sjónum sé færður einstökum aðilum á silfurfati - endurgjaldslaust. 

Megininntak réttlætingar sérfræðings LÍÚ fyrir gjafakvótafyrirkomulagi eru tæknilegs eðlis, þ.e. að það hafi þurft að bregðast við stækkandi fiskiskipaflota sem átti að vera ógn við fiskistofna og í framhaldinu gerir Helgi grein fyrir helstu rannsóknarniðurstöðum sínum um þróun íslenska fiskiskipaflotans, þ.e. að tveir skuttogarar hafi verið í flotanum árið 1970, 103 skuttogarar árið 1983 og 115 árið 1990. 

Þetta er allt rétt svo langt sem það nær en þá er algerlega hlaupið yfir þá staðreynd að þó svo að ekki hafi verið fleiri skuttogarar í byrjun 8. áratugarins voru engu að síður fjöldamargir öflugir síðutogarar endurnýjaðir á 8. áratugnum með nýjum skuttogurum sem skýrir þessa gríðarlegu fjölgun. Í verkefni Eyþórs Björnssonar við auðlindadeild Háskólans á Akureyri er vel gerð grein fyrir þróun fiskiskipaflotans. Í skýrslu hans segir að skipum hafi fjölgað lítillega á fyrstu árum 8. áratugarins en þeim fækkað síðan fram til ársins 1987, en jafnframt er gerð grein fyrir stækkun skipa. Það er því af og frá að sókn togskipa hafi fimmtugfaldast á Íslandsmiðum eins og ráða má af grein Helga Áss sem þar að auki sleppir að nefna að árið 1971 veiddu útlendingar 200 þúsund tonn af þorski við Íslandsstrendur á meðan afli Íslendinga var 250 þúsund tonn.  Þess ber einnig að geta að árið 1983 sátu Íslendingar nær einir að fiskimiðunum og þorskafli Íslendinga árið áður var 382 þúsund tonn. Það er því ekki óeðlilegt að fiskiskipaflotinn hafi vaxið með brotthvarfi útlendinga af miðunum til að ná auknum afla. 

Eftir 1984 þegar kvótakerfinu er komið á er ákveðið hversu margir fiskar eru teknir úr sjónum og það skiptir ekki máli upp á sóknina hvort það er gert með 10, 20 eða þúsund skipum. Líffræðilegar forsendur eiga ekki að breytast með fjölda skipa.

Öllum ber saman um að þau markmið sem lagt var upp með þegar kvótakerfinu var hleypt af stokkunum hafa ekki náðst, þ.e. að það yrði 400-500 þúsund tonna jafnstöðuþorskafli. Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum er rétt að gera þess að kvóti næsta fiskveiðiárs gerir ráð 130 þúsund tonna þorskafla. Það er helmingi minni afli en kom í hlut Íslendinga áður en útlendinum var ýtt út úr landhelginni. Fiskveiðiráðgjöfin gengur alls ekki upp en samt sem áður virðist sem Guðmundur Kristjánsson í Brimi sem hefur yfir að ráða öflugu og stórglæsilegu skipi sætti sig vel við niðurskurð sem byggður er á fáránlegum forsendum, t.d. að veiða ekki fisk sem er vanhaldinn. Í stað þess að stuðla að því að ráðgjöfin sem augljóslega er röng verði tekin til gagnrýninnar endurskoðunar verja samtök útgerðarmanna stórfé í einhverja rannsóknarstöðu innan HÍ þar sem verkefnið virðist vera að hagræða sannleikanum til þess að festa kerfi og ráðgjöf í sessi sem hefur leitt til minni og minni þorskveiða. Ekki nóg með það heldur hefur verið boðaður niðurskurður á næstu árum ...

Það er engu líkara en að íslenskir útgerðarmenn séu dauðhræddir við að rugga bátnum þar sem það gæti raskað yfirráðum yfir kvótum sem eru víða hressilega veðsettir. Í stað þess að skoða forsendur ráðgjafarinnar til að stórauka veiðar velja útgerðarmenn fremur að sjávarútvegurinn haldi áfram að fjara út og halda dauðahaldi í kvótann sem verður minni og minni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þú segir Sigurjón að Morgunblaðið sé blað allra landsmanna.Er þetta ekki fullmikið sagt, jafnvel þótt nafnlaus skrif í Morgunblaðinu séu þér hjartfólgin þessa dagana.Í mínum huga eru nafnlaus skrif í Morgunblaðinu ekkert annað en Moggalýgi, skrif hugleysingja sem þorir ekki, eða skammast sín fyrir að birta nafn sitt.

Sigurgeir Jónsson, 9.9.2007 kl. 22:01

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurjón.

Ég lenti nú í því sama og þú að vita ekki hvert maðurinn væri að fara, prófaði að lesa aftur frá upphafi en það breytti engu.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 9.9.2007 kl. 23:44

3 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Er ekki bara málið að bankarnir ráða, þeir eiga útistandandi fé í þessu kerfi en hafa ekki hundsvit á útgerð.

Georg Eiður Arnarson, 9.9.2007 kl. 23:53

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sæll Erlingur það væri áhugavert að fá að lesa ritgerðina þína um gæðamál.

Það hefur ýmislegt verið fullyrt um hversu takmörkuð fiskveiðiauðlindin er af hinum og þessum en að mati Hafró verður hún einhverra hluta vegna minni og minni með hverju árinu sem líður. 

Núverandi stjórn fiskveiða út frá fiskatalningu er komin í algjört óefni og þess vegna er ágætt að hugsa þessi hluti frá grunni. 

Hafið er ekki takmörkuð auðlind sbr. olía heldur miklu frekar endurnýjanleg auðlind sem nytjafiskar hafsins beita.  Afraksturinn fer eftir því hvernig fiskveiðum er stjórnað.  Það er talsverð óvissa um mögulegan afrakstur auðlindar hafsins enda ber mönnum ekkert saman um hvernig eigi að meta hana. 

Eitt er víst að einn fiskur sem er veiddur er ekki frá öðrum tekinn eins og núverandi kvótakerfi gerir ráð fyrir. 

Við veiðar á Þorski ætti æti þorsks sem eftir er í hafinu að aukast þar sem samkeppni minnkar og í kjölfarið ætti vaxtarhraði að aukast og sömuleiðis minnka afföll vegna sjáfsráns.

Þetta er sem sagt ekki eitt einfalt mengi með fyrirfram ákveðnum fjölda einstaklinga sem vaxa með jöfnum hraða heldur hafa veiðar áhrif á lífsmöguleika þeirra sem eftir eru. 

Það er flest sem bendir til þess að það sé skynsamlegt að veiða mun meiri þorsk en við gerum nú s.s. að vaxtarhraði er við sögulegt lágmark.

Sigurjón Þórðarson, 10.9.2007 kl. 17:02

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hin stórbætta meðferð á afla um borð í fiskiskipum hefur ekkert með stjórnkerfi fiskveiða að gera. Þar eru uppboðmarkaðarnir í lykilhlutverki og það ætti öllum að vera skiljanlegt.

Árni Gunnarsson, 11.9.2007 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband