Leita í fréttum mbl.is

Hin máttuga Byggðastofnun mun bæta bölið

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur eru í stökustu vandræðum með að útskýra hvernig mótvægisaðgerðir muni bæta fólki í sjávarbyggðunum það tjón sem þær verða fyrir vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um umtalsverða minnkun á þorskafla. Í raun er ekkert handfast í tillögunum nema að það eigi að afleggja veiðigjald á þorskveiðar.  Annað er ekki að finna í tillögunum nema gamla froðusnakkið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt á liðnum árum. 

Eini munurinn er að nú tekur Samfylkingin heilshugar undir sömu tillögur og hún gagnrýndi áður en hún settist í ríkisstjórn.

Til að bæta úr þessu hafa stjórnarliðar boðað að Byggðastofnun muni bæta það böl sem aflasamdrátturinn mun augljóslega valda. Í umræðum um þátt Byggðastofnunar hef ég ekki orðið var við að nokkur hafi enn sem komið er velt því fyrir sér hvort Byggðastofnun sé þess umkomin. Ég get ómögulega séð að svo sé þar sem rekstur stofnunarinnar er mjög viðkvæmur. Á árinu 2006 var rekstur Byggðastofnunar í járnum en hafði engu að síður batnað mjög frá fyrri árum. Batinn hefur verið skýrður m.a. með því að útlánatöp voru minni á síðasta ári en áður.

Talsverðar líkur eru til þess að boðaður samdráttur í aflaheimildum auki á greiðsluvanda fyrirtækja og komi að lokum niður á fjárhagslegri afkomu og bolmagni Byggðastofnunar. Við núverandi aðstæður er því beinlínis fáránlegt að ætla að Byggastofnun verði mjög stór liður í því að bregðast við vanda sem upp kemur vegna niðurskurðarins þar sem hann mun einnig koma niður á stofnuninni.   

Ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um niðurskurð á aflaheimildum er algerlega óábyrg þar sem líffræðilegar forsendur hennar eru vægst sagt mjög hæpnar. Ráðamenn, forstjóri Hafró og sérfræðingar innan stofnunarinnar sem komu að ráðgjöfinni hafa reynt að skjóta sér undan því að svara málefnalega rökstuddri gagnrýni.   

Það væri vert að fjölmiðlar veltu því upp hvað það voru margir sérfræðingar innan Hafró sem komu beint að ráðgjöfinni um 130 þús. tonna þorskkvóta og hvort algjör samstaða hafi verið um hana.

Ég vil minna á að öll þessi fórn er gerð til þess að fá mögulega meiri afla árið 2018! Er ekki orðið tímabært að setja spurningarmerki við þessa spá um framtíðina þar sem sömu fræðingar ofmeta hvað eftir annað að eigin sögn fiskistofna fortíðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Hvað á Byggðarstofnun eiginlega að gera?Ég teldi hættu á að  fé yrði undir þessum þrýstingi,eytt í allslags miður arðbærar hugmyndir sem hefði slæm áhrif á yfirskuldsettan almenning sem leiddi svo aftur til að stórar fjárhæðir töpuðust.                                                                                                     

Ólafur Ragnarsson, 9.7.2007 kl. 20:15

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eins og þú sagðir í þessari grein, var rekstur Byggðastofnunar í járnum árið 2006.  Ef menn ætla að fá lán hjá Byggðastofnun verða þeir að sýna fram á ákveðna arðsemi.  Ætli það standi til að Byggðastofnun lækki eitthvað arðsemiskröfu sína?  Kannski á að reka Byggðastofnun sem eitthvað ölmusufyrirtæki?  Mér er það bara til efs að fólk í sjávarbyggðum landsins vilji að það sé litið á það sem einhverja þurfalinga?  Þá er spurningin: Hvaðan á fjármagnið til Byggðastofnunar að komaÞetta er allt saman blekkingaleikur með þessar mótvægisaðgerðir, þær verða engar.

Jóhann Elíasson, 9.7.2007 kl. 21:14

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Já auðvitað er þetta blekkingarleikur en það skiptir afar miklu máli að halda uppi þrýstingi sérstaklega að stjórnvöld rökstyðji forsendur niðurskurðarins.  Hér eru um mjög harkalegar aðgerðir og þá ætti það auðvitað að vera siðferðileg skylda stjórnvalda að fara rækilega í gegnum forsendur og svo auðvitað líkur þess að allt erfiðið skili árangri.

Sigurjón Þórðarson, 9.7.2007 kl. 21:58

4 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Ég legg til að opnuð verði heimasíða þar sem menn gætu skráð sig á og þar sem menn eins eins of t.d.þú, Magnús Þór,Kristinn P og t.d hinir ýmsu skipstjórnarmenn gætu viðrað skoðanir sínar og hugmyndir og við þessir sem minna höfum til málana að legga gætum látið ljós okkar skína,til að þrýsta eins og hægt er á alþingismenn og ráðherra.Heimasíðu sem væri opinn öllum áhugamönnum um sjávarútvegsmál.Og þar sem kvótavinir og fjandmenn gætu skiftst á skoðunum.Mér finnst eins og umræðan sé ekki svo almenn eins og hún þyrfti.Hún snýst kannske nú í kring um nokkra "bloggvini"

Ólafur Ragnarsson, 10.7.2007 kl. 20:33

5 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

átti að standa:"hún snýst kannske nú meir í kring" o.sv.fr

Ólafur Ragnarsson, 10.7.2007 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband