Leita í fréttum mbl.is

Það er ekki hægt að úrelda sjávarútveginn!

Fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, opinberar enn og aftur hversu illa hann er að sér um málefni sjávarútvegsins. Í fyrsta umræðuþætti nú fyrir kosningarnar taldi hann að umræðan um sjávarútvegsmál væri úrelt og væri hluti af einhverju gömlu hagkerfi og af sama meiði og landbúnaður og ríkisrekstur!

Í umræðum á Rás 2 í dag virðist sem Kristján Þór hafi sem betur fer áttað sig á því að orðið hafi einhverjar tækniframfarir í sjávarútvegi. Hann virtist samt sem áður koma af fjöllum þegar talið barst að gríðarlegri skuldaaukningu sjávarútvegsins. Mig minnir að í skýrslu formanns Samtaka fiskvinnslustöðva hafi verið tíundað að skuldir sjávarútvegsins hefðu farið úr um 90 milljörðum í 265 milljarða á rétt rúmum áratug.

Það sem er sláandi við þessa skuldaaukningu er að verðmæti útflutts sjávarfangs hefur á síðustu árum staðið í stað eða sveiflast með breytingum á gengi íslensku krónunnar. Þetta gerist þrátt fyrir að verð á sjávarafurðum hafi hækkað og heimsmarkaðsverð á sjávarafurðum hafi sjaldan verið hærra.

Í umræðunum á Rás 2 var að heyra að Kristján Þór teldi að skuldirnar hefðu ekkert hækkað. Staðreyndirnar tala sínu máli, milljarðarnir hafa streymt út úr greininni og varlega áætlað má ætla að það sé vel andvirði tveggja Kárahnjúkastíflna sem hefur farið út úr greininni á síðasta áratug.

Oddviti sjálfstæðismanna í kjördæminu hafnaði því að breyta kerfinu með þeim rökum að það væri ólíðandi að atvinnugreinin væri á einhverju uppboði. Það má segja að það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur varið hefur stuðlað að því að sjávarbyggðir landsins eru nánast allar komnar á uppboð. Því miður er ekki boðið hátt verð í húseignir sjávarþorpanna sem fyrir örfáum árum voru blómlegar og vaxandi byggðir.

Það blasa við tækifæri til að breyta þessu kerfi, kerfi sem er óskynsamlegt og hefur ekki skilað neinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég ætla rétt að vona að þessi maður Kristján Þór Júlíusson verði aldrei sá örlaga valdur á Íslandi að hann verði sjávarútvegsráðherra.  Þá fyrst mega menn fara að vara sig.  Enda er maðurinn náinn vinur og náfrændi þeirra Samherjamanna, sem hann vann það sér til frægðar að ná til þeirra Guggunni frá Ísafirði, verknaður sem Ísfirðingar munu seint fyrirgefa honum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.4.2007 kl. 19:51

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Látum nú frændsemi Kristjáns liggja á milli hluta við Samherjamenn, því að í bæjarstjóratíð hans fluttu þeir nú alla landvinnslu til Dalvíkur, & þar stjórna nú ekki flokksbræður hans.

Höfum rétt það sem rétt er, en rángt á milli hluta.

S:

Steingrímur Helgason, 28.4.2007 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband