Leita í fréttum mbl.is

Dýr loforð sem bitnuðu á ungu fólki - í upphafi skyldi endinn skoða

Fyrir síðustu alþingiskosningar fór Framsóknarflokkurinn mikinn í að lofa ungu fólki 90% láni til þess að auðvelda því kaup á sinni fyrstu íbúð.

Af málflutningi framsóknarmanna og auglýsingaglysi mátti helst ráða að mesta gæfa sem hent gæti ungt fólk væri að taka 90% lán til húsnæðislána.

Vel má efast um að skilaboðin sem haldið var að ungu fólki hafi verið uppbyggileg, þ.e. að lausnin væri að taka hærra og „hagstæðara“ lán í stað þess að ástunda ráðdeild og sparnað.

Í Morgunblaðinu birtist þann 15. mars sl. mjög góð fréttaskýring eftir Grétar Júníus Guðmundsson þar sem hann gerði grein fyrir því að greiðslubyrði lána þeirra sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn hafi aukist um allt að 57% frá vormánuðum 2004. Það hefur gerst vegna þess að fasteignaverð hefur rokið upp í verði.

Það er því óhætt að fullyrða að það er orðið miklum mun erfiðara fyrir ungt fólk að eignast sína fyrstu íbúð en var áður en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur fóru í meiriháttar breytingar á húsnæðislánakerfinu sem fólu það í sér að hækka lánshlutfall lána af fasteignaverði í 90% og hækka lánsfjárhæð.

Ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenndu á borði að þessi hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs hefðu verið mistök þegar lánsfjárhlutfallið var lækkað í júní sl. – en síðan var það hækkað á ný nú í aðdraganda kosninga.

Það er ekki hægt að skella allri skuldinni af þessum verri kjörum unga fólksins á hækkað lánsfjárhlutfall heldur kemur fleira til, þensla, fólksflutningar af landsbyggðinni og óheft aðstreymi útlendinga til landsins sem hefur kallað á meiri eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Þessir þættir hafa allir áhrif til þess að auka eftirspurnina og hækka verð á húsnæði.

Við eigum að læra af þessari reynslu og forðast aðgerðir sem valda ójafnvægi og þenslu eins og ríkisstjórnin valdi og leiddu til 60% hækkunar á húsnæðisverði á þriggja ára tímabili. Það er ekki hægt að kalla þetta neinu öðru nafni en kollsteypu.

Það er rétt að móta heildarstefnu til framtíðar sem hefur í för með sér aukið framboð á lóðum til byggingar íbúðarhúsnæðis og eflingar leigumarkaðar samhliða því að bjóða ungu fólki hagstæðari lán.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband